Emma Ósk Ragnarsdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði barna- og ungmenna á 2. fundi leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 24. nóvember 2023. Emma Ósk starfar sjálf sem grunnskólakennari og brennur fyrir málaflokkinum, bæði í leik og starfi.
Ólíkt öðrum hlutverkum ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ að þá ferðaðist Emma Ósk ein til New York nú í apríl þar sem hún sótti ungmennaþing efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (e. The Economic and Social Council (ECOSOC) sem haldinn er árlega. Vanalega eru ungmennafullrúar hluti af sendinefnd þar sem viðburðir annarra ungmennahlutverka eru oftast tengdir stærri viðburðum innan SÞ, þar sendifulltrúar ráðuneyta taka þátt, fastanefnd Íslands og jafnvel stundum viðeigandi ráðherrar.
Á ungmennavettvanginum nú í apríl áttu sér samræður stað meðal fulltrúa aðildarríkja um mismunandi aðstæður ungs fólks og tillögur að lausnum við þeim fjölmörgu áskorunum sem hafa áhrif á velferð þeirra. Í því skyni voru leiðir til þess að flýta fyrir innleiðingu heimsmarkmiðanna mikið rædd og var sérstök áhersla lögð á þau heimsmarkmið sem verða í brennidepli nú í júlí á Ráðherrafundi SÞ um heimsmarkmiðin (e. High Level Political Forum), en það eru markmið 1 um enga fátækt, markmið 2 um ekkert hungur, markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum, markmið 16 um frið og réttlæti og markmið 17 um samvinnu um heimsmarkmiðin. Þar að auki var tíðrætt um Leiðtogafund um framtíðina (e. Summit of the Future) sem haldinn verður dagana 22.-23. september í haust, en þar verður Sáttmáli framtíðarinnar (e. Pact for the Future) undirritaður.
Það var dýrmætt að heyra um reynslu og verkefni sem einstaklingar hafa sett á laggirnar í þágu aukinnar mannréttindafræðslu.
Það sem stóð upp úr að mati Emmu var þátttaka hennar á hliðarviðburði sem bar nafnið ‘Towards peaceful and inclusive societies: human rights education for, with and by youth’, sem miðaði að því auka inngildingu og þátttöku ungs fólks í tengslum við mannréttindafræðslu í átt að friðsælari samfélögum. Efling lýðræðislegrar borgaravitundar hefur lengi verið Emmu hugleikin en innan starfsviðs hennar í menntakerfinu hefur hún lagt sitt af mörkum til þess að auka vitund barna um mikilvægi slíkrar fræðslu. Það var því sannur heiður að sögn Emmu, og ekki síst lærdómsríkt að hafa fengið tækifæri að ávarpa fundinn. Þar ræddi hún meðal annars um valdeflingu ungs fólks, lýðræðislega borgaravitund þeirra og aðferðir sem gætu nýst til þess að innleiða mannréttindafræðslu í frekara mæli í íslensku menntakerfi. Þá sagði Emma aðra þátttakendur hafa verið áhugasama um að heyra sjónarmið frá Íslandi og að í kjölfar fundarins hafi hún fengið frekara tækifæri til þess að ræða um þennan málaflokk við ungmennafulltrúa í öðrum ríkjum.
Ungt fólk verður að fá tækifæri til þess að sækja viðburði sem þessa til þess að komast í kynni við alþjóðlegar stofnanir og skuldbindingar, fá upplýsingar um áætlanir stjórnvalda og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Í eðli sínu safnar viðburður þessi saman ungu fólki frá öllum heimshornum, og því fékk Emma ótal tækifæri til þess að hitta og ræða við önnur ungmenni um stöðu málefnasviðs ungs fólks. Þá nefnir Emma að hún hafi talsvert unnið áður með ungu fólki, sérstaklega frá Norðurlöndunum og innan Evrópu, en að á þessum viðburði hafi hún fengið tækifæri til þess að kynnast ungu fólki frá öllum heimsálfum og heyrt sjónarmið sem höfðu áður verið henni fjarlæg. Það er afar dýrmætt að mati Emmu þar sem hún telur slíka reynslu vera bæði þroskandi og mikilvæga, og að komast í kynni við mismunandi reynsluheima geri manni kleift að öðlast betri skilning og þekkingu á þeim.
Ungmennaþingið hefur verið haldið allt frá árinu 2012 en fram að því hafi lítil sem engin aðkoma ungs fólks verið í málaflokk þessum. Síðustu ár hefur þó umfang viðburðarins aukist og ungum þátttakendum aðildarríkjana farið ört fjölgandi.
Aðkoma ungs fólks að viðburðum sem þessum er í raun algjörlega nauðsynleg segir Emma og nefnir að það sé fráleitt að ætla sér að tala um framtíðina og þær áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir án þess að ræða við þær kynslóðir sem munu taka við keflinu. Ungt fólk verði að fá tækifæri til þess að sækja viðburði sem þessa til þess að komast í kynni við alþjóðlegar stofnanir og skuldbindingar, fá upplýsingar um áætlanir stjórnvalda og koma sinum sjónarmiðum á framfæri. Þær áskoranir sem heimurinn standi frammi fyrir séu margslungnar og ómögulegt verði að takast á við þær án aðkomu þeirra sem munu bera þungann af þeim ákvörðunum sem eru teknar í dag.
Gerið ungu fólki kleift að vera hluti af samræðunni. Veitið þeim mörg og fjölbreytt rými til þess að taka þátt og koma mismunandi sjónarmiðum á framfæri.
Að lokum nefnir hún að íslensk stjórnvöld verði að tryggja að aðkoma ungmenna í stefnumótun og ákvarðanatöku sé öllum aðgengileg. Til þess að tryggja slíkt verði að valdefla ungt fólk, hlúa að lýðræðislegri borgaravitund þeirra og stuðla þannig að aukinni vitundarvakningu á þeim tækifærum sem standa þeim til boða. Þá biðlar Emma til stjórnvalda að ungu fólki verði gert kleift að vera hluti af samræðunni. Ungu fólki verði sömuleiðis að veita mörg og fjölbreytt rými til þess að taka þátt og eiga möguleika á því að koma mismunandi sjónarmiðum sínum á framfæri. Þátttöku ungs fólks beri að taka alvarlega og tryggja þurfi að hún sé skilvirk og þýðingarmikil. Raddir ungs fólks séu dýrmætar og nauðsynlegar fyrir árangursrík stefnumótunar- og ákvarðanatökuferli, og að stjórnvöld sem taki mark á slíkri innsýn séu betur stödd fyrir vikið segir Emma Ósk.