“Eins og regnhlíf fyrir allt okkar starf”

” Menntaskólinn á Tröllaskaga varð UNESCO skóli vorið 2022. Að vera orðinn UNESCO skóli auðveldar okkur að tengjast öðrum skólum erlendis sem vinna markvisst með heimsmarkmiðin og eða hafa þau að leiðarljósi í skólastarfinu, segir Ida Semey, kennari og umsjónarmaður erlendra verkefna við Menntaskólann á Tröllaskaga.”

Ida segir að áherslur samræmist vel við nýju menntaáætlunar Erasmus+ og Nordplus, eins og t.d. um heimsmarkmiðin. Að vera UNESCO skóli og að vinna markvisst og meðvitað með heimsmarkmiðin auðveldar umsóknarferlið og verkefnavinnuna þar sem áherslurnar í umsóknum í bæði Nordplus og Erasmus + verða skýrari og auðskiljanlegir. Auk þess ýtir það undir nauðsyn þess að skólarnir móti sér ýmsar stefnur svo sem umhverfis- og loftlagsstefnu og jafnréttisáætlun.

“Fyrir Menntaskólinn á Tröllaskaga er það að vera UNESCO skóli eins og regnhlíf yfir það starf sem fram fer hjá okkur þar sem við erum með Erasmus+ vottun, erum Grænfána skóli og erum búin að ljúka öllum fimm áföngunum í verkefninu Græn Skref fyrir stofnanir í ríkisrekstri.‘‘

― Ida Semey – kennari og umsjónarkona erlendra verkefna

“Vinnum markvissar með gildin sem UNESCO stendur fyrir “

,,Það að vera hluti af UNESCO skóla kerfinu hefur haft þá þýðingu fyrir Kvennaskólann í Reykjavík að við höfum unnið markvissar með þau gildi sem UNESCO stendur fyrir,‘‘

segir Þórður Kristinsson kennari og jafnréttisfulltrúi við Kvennaskólann í Reykjavík. Skólinn hefur verið UNESCO skóli frá árinu 2019.

,,Þegar okkur bauðst í byrjun að taka þátt þá sáum við að áherslurnar sem hafa verið til staðar í kennslunni og námsumhverfi okkar pössuðu vel við þær áherslur sem UNESCO skólanetið hefur hampað. Með því að vera UNESCO skóli heldur það okkur á tánum að sinna þessari fræðslu. Þá hefur aðgengi að því efni sem fylgir skólanetinu ratað inn í kennslu hjá okkur og haft áhrif á hvernig við kennum um ákveðin málefni.‘‘

― Þórður Kristinsson – kennari og jafnréttisfulltrúi við Kvennaskólann í Reykjavík

“Mikil viðurkenning að vera UNESCO skóli”

„Frá opnun leikskólans árið 2008 höfum við haft umhverfismennt að leiðarljósi. Í kjölfarið unnum við að grænfána Landverndar, sem vatt uppá sig ýmis konar samfélagslegri og alþjóðlegri vinnu sem við tengdum svo við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna,“ segir Anney Ágústsdóttir, leikskólastjóri á Akraseli, en leikskólinn varð UNESCO skóli árið 2021.”

„Nýjasta verkefnið okkar er vinna með barnasáttmálann, en við höfum verið að kynna barnasáttmálann fyrir elstu nemendum leikskólans.

Það var fyrir tilstuðlan foreldris í Akraseli sem við sóttum um að verða UNESCO skóli. Við vorum og erum að vinna að þeim þáttum sem tilheyra markmiðum þeirra. Það er góð tilfinning þegar starfið sem unnið er fellur að einhverju stórkostlegu eins og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum UNESCO skóla, það er alvöru viðurkenning.“

― Anney Ágústsdóttir – leikskólastjóri á Akraseli

“Fjölbreytt og vönduð verkefni”

,,Það er mikilvægt fyrir grunnskóla að horfa út fyrir veggi skólans og sinna verkefnum sem hafa samfélagslega skírskotun. Þátttaka Salaskóla í UNESCO samstarfinu hefur opnað augu okkar fyrir því,‘‘ segir Hafsteinn Karlsson, fyrrverandi skólastjóri Salaskóla en skólinn gerðist UNESCO skóli árið 2019

,,Verkefnin eru af öllum gerðum, stór og smá. Sum eru þess eðlis að skólinn einfaldlega vekur athygli nemenda og foreldra á einhverjum málum, önnur þannig að þau eru tekin fyrir sem hluti af þverfaglegum verkefnum í skólastofunni og enn önnur þannig að skólinn allur leggur kennslustund eða kennslustundir til að sinna þeim. Oft er unnið út frá alþjóðadögum Sameinuðu þjóðanna en stundum farið í dýpri og meiri vinnu. Skólinn nýtur góðs af verkefnabanka UNESCO skólanna en þar er að finna fjölbreytt og vönduð verkefni með góðum kennsluleiðbeiningum. Þessi vinna er í sjálfu sér ekki mikil fyrirferðar, en hún vekur samfélag skólans til umhugsunar um þau stóru mál sem við jarðarbúar glímum við. Það er stór og mikill ávinningur og sem skiptir miklu máli.‘‘

― Hafsteinn Karlsson- fyrrverandi skólastjóri Salaskóla