Alþjóðabankinn (World Bank Group)

Í stuttu máli: Veitir lán og tæknilega aðstoð til þróunarríkja með það að markmiði að draga úr fátækt og efla sjálfbæran hagvöxt.

Alþjóðabankinn (stofnaður 1947) er meðal stærstu og áhrifamestu alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu í heiminum. Með 189 aðildarríki, starfsfólki frá yfir 170 löndum á skrifstofum í yfir 130 staðsetningum, þjónar bankinn einstöku alþjóðlegu samstarfi við fimm stofnanir sem skuldbinda sig við tvíþætt meginmarkmið stofnunarinnar; að útrýma sárafátækt og að stuðla að aukinn hagsæld og velmegun fyrir þá fátækustu. Alþjóðabankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim stuðning í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Hann leiðbeinir þjóðum varðandi ákvarðanir og aðgerðir sem þau taka til að framkvæma verkefnin sín. Allar stofnanir alþjóðabankans styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Meginstarfsemi bankans er á sviðum mannauðsþróunar (t.d. varðandi menntun og heilsu), þróun í landbúnaði, umhverfisvernd og grunnvirki (vegir, rafvirkjun o.s.frv.) auk stjórnkerfisþróunar. Allt frá því árið 1947 hefur Alþjóðabankinn fjármagnað yfir 12.000 þróunarverkefni með hefðbundnum lánum og styrkjum.

 

Fimm stofnanir sem Alþjóðabankinn samanstendur af:

  1. Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development – IBRD) Veitir lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum til þróunarríkja sem ekki eru á meðal hinna fátækustu, vásamt því að veita aðstoð við fjármálaþróun og stefnumótun.
  2. Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association – IDA) aðstoðar fátækustu þróunarríkin með styrkjum, hagstæðum lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna, auk ráðgjafar.
  3. Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation – IFC) er stærsta alþjóðlega þróunarstofnunin sem einbeitir sér eingöngu að einkageiranum í þróunarríkjum. Stofnunin hjálpar þróunaríkjum að ná sjálfbærum vexti með því að fjármagna fjárfestingar, virkja fjármagn á alþjóðlegu fjármálamarkaði og veita fyrirtækjum og stjórnvöldum ráðgjafarþjónustu.
  4. Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency – MIGA) veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga einkaaðila í þróunarríkjum gegn áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis.
  5. Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes – ICSID) veitir alþjóðlega aðstoð til sáttagerða og gerðdóma í lausnum fjárfestingardeilna og stuðlar að gangkvæmu trausti milli ríkja og erlendra fjárfesta.

IBRD og IDA mynda saman Alþjóðabankann, sem veitir ríkisstjórnum þróunarríkja fjármögnun, stefnumótun og tæknilega aðstoð. IDA einbeitir sér að fátækustu ríkjum heims, á meðan IBRD aðstoðar meðaltekjuríki og lánshæf fátæk lönd. IFC, MIGA og ICSID leggja áherslu á að styrkja einkageirann í þróunarríkjum. Í gegnum þessar stofnanir veitir svo Alþjóðabankinn fjármögnun, tækniaðstoð, pólitíska áhættutryggingu og lausn deilumála til einkafyrirtækja, þar með talið fjármálastofnana.

 

Heimildir:

https://www.worldbank.org/en/what-we-do

https://www.worldbank.org/en/who-we-are

https://www.worldbank.org/en/about

https://www.worldbank.org/en/who-we-are/ibrd

https://ida.worldbank.org/en/what-is-ida

https://www.ifc.org/en/about

https://www.miga.org/about-us

https://icsid.worldbank.org/about