Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. World Health Organization, WHO) var stofnuð árið 1948 og er sérhæfð stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem samræmir aðgerðir á sviði alþjóðlegra heilbrigðismála og vinnur að betri lýðheilsu í heiminum. WHO starfar með öllum 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna til að stuðla að bættu heilbrigði og þróun innan aðildarríkjanna. WHO starfar einnig með ríkisstjórnum aðildarríkjanna og öðrum aðilum í að framfylgja heilbrigðisstefnum þessara ríkja. Markmið WHO er að heilsufar alls fólks allstaðar sé sem allra best.

Frá stofnun hefur WHO tekið forystu í baráttunni gegn erfiðum faröldrum eins og HIV / alnæmi, malaríu, berklum, zika veirunni og ebólu. Jafnframt kemur WHO að almennari lýðheilsumálum, eins og kyn- og æxlunarheilbrigði og fæðuöryggi. Innan stofnunarinnar fer fram mikið af rannsóknum, þar sem gögnum er safnað og gefnar eru út skýrslur um heilsufar á alþjóðavettvangi.

Alþjóðaheilbrigðisþingið (e. World Health Assembly) er ákvörðunaraðili WHO. Þar koma saman sendinefndir frá öllum aðildarríkjum WHO. Meginhlutverk þess er að ákvarða stefnu WHO, skipa framkvæmdastjóra, hafa eftirlit með fjármálastefnu og endurskoða og samþykkja fyrirhugaða fjárhagsáætlun. Alþjóðaheilbrigðisþingið er haldið árlega í Genf í Sviss. Í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðisþingsins sitja 34 einstaklingar sem hafa sérþekkingu í heilbrigðismálefnum. Þeir eru tilnefndir af aðildarríkjum WHO og eru kosnir til þriggja ára í senn. Þeir ákvarða dagskrá Alþjóðaheilbrigðisþingsins og þær ályktanir sem verða til meðferðar. Árlegur stjórnarfundur er haldinn í janúar ár hvert, en annar styttri fundur fer fram í maí, í framhaldi af Alþjóðaheilbrigðisþinginu. Meginhlutverk stjórnarinnar eru að ráðleggja og hrinda í framkvæmd ákvörðunum og stefnu heilbrigðisþingsins.

Framkvæmdarstjóri WHO er Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus og var hann kosinn til 5 ára árið 2017 af aðildaríkjum WHO. Hann er frá Eþíópíu og er menntaður í líffræði og ónæmis- og faraldsfræði með sérhæfingu á malaríu. Dr Tedros hefur greint frá því í viðtölum að það að verða vitni að þeirri miklu þjáningu sem malarían olli í Eþíópíu hafi valdið því að hann fetaði þessa starfsbraut, en bróðir hans lést ungur úr malaríu. Áður starfaði hann sem heilbrigðisráðherra Eþíópíu frá 2005-2012 og sem utanríkisráðherra Eþíópíu frá 2012-2016. Strax eftir að hann hóf störf hjá WHO gerði Dr Tedros grein fyrir fimm lykiláherslum fyrir samtökin; heilbrigðisþjónusta fyrir alla, heilsutengd neyðartilvik, heilsu kvenna, barna og unglinga, heilsufarsleg áhrif loftslags- og umhverfisbreytinga og endurskipulagning WHO. Þrátt fyrir að WHO hafi verið í framlínu í Ebólufaraldrinum 2014, var stofnunin gagnrýnd fyrir svifaseinar aðgerðir. Gagnrýnendur sögðu að aðgerðaleysi stofnunarinnar hefði kostað mannslíf og að stofnunin hefði verið lömuð vegna niðurskurðar. Miklar breytingar urðu í kjölfarið og kom þáverandi framkvæmdarstjóri WHO, Dr Margaret Chan, upp nýrri áætlun fyrir heilsutengd neyðartilvik. Með henni var stofnuninni gert kleift að bregðast við neyðarástandi með skjótari og skilvirkari hætti.

Hlutverk WHO þegar heimsfaraldur geisar er að fylgjast stöðugt með þróun heimsfaraldursins og þróa leiðbeiningar um viðeigandi ráðstafanir fyrir aðildarríkin. Með auknu og virku eftirliti eru einkenni sjúkdómsins metin og tilmæli veitt um læknisfræðileg og önnur inngrip. Þegar atburður hefur verið staðfestur metur WHO áhættustigið og kemur af stað aðgerðarplani til þess að vernda og draga úr afleiðingum faraldra, hamfara, átaka eða annarra hættu. Innan 48 klukkustunda frá yfirlýstu neyðarástandi grípur WHO til viðeigandi aðgerða, til dæmis með því að virkja viðeigandi viðbragðsaðila, með því að miðla áhættunni til viðeigandi svæðis og nágrannalanda og með því að senda sérfræðinga og teymi með viðeigandi útbúnað og birgðir, eins og til dæmis hlífðarfatnað, lyf og bóluefni. WHO er með viðbragðssjóð sem veitir stofnuninni úrræði til að bregðast strax við faröldrum og öðrum atburðum sem hafa heilsufarslegar afleiðingar. Getan til að bregðast skjótt við áður en önnur fjármögnun er virkjuð getur hindrað að neyðarástand fari úr böndunum, bjargað mannslífum og .

Opinberlega er það WHO sem ákvarðar hvenær farsótt telst vera heimsfaraldur. Faraldur (e. epidemic) er skilgreindur sem tilvist sjúkdóms, ákveðins heilsutengds atferlis eða annarra atburða sem varða heilsu fólks innan ákveðins samfélags eða landsvæðis, í tíðni sem er umfram það sem vænta má undir eðlilegum kringumstæðum. Með heimsfaraldri (e. pandemic) er átt við útbreiðslu nýs sjúkdóms um heim allan. Heimsfaraldrar með nýjum stofni inflúensuveira eru gott dæmi um heimsfaraldur, en þeir breiðast jafnan hraðar út en hin hefðbundin árstíðabundna inflúensa því að verndandi mótefni (ónæmi) er ekki til staðar meðal fólks. Árstíðabundin inflúensa telst því ekki heimsfaraldur þótt hún geti valdið umtalsverðum og útbreiddum veikindum, enda er ekki um alveg nýja veiru að ræða á hverju ári heldur afbrigði af fyrri veirustofnum sem margir eru með ónæmi gegn.

Frá aldamótum hafa komið upp fjöldi allur af nýjum faröldrum víðsvegar um heim og eldri sjúkdómar eins og gulusótt, kólera og svarti dauði hafa tekið sig upp aftur í gegnum tíðina. Til að mynda eru 40 tilvik útbreiðslu kóleru tilkynnt til WHO á ári hverju. Árið 2003 kom upp nýr faraldur sem orsakaðist af nýjum stofni af kórónaveiru og bar heitið Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL), á ensku Severe Acute Respiratory Syndrome (SARS). Faraldurinn hafði áhrif á meira en 8.000 manns, dró um einn af hverjum tíu af þeim til dauða, skapaði ótta um heim allan og var valdur af gífurlegu efnahagslegu tjóni, sérstaklega í Asíu.

MERS-CoV (Middle East respiratory syndrome coronavirus) var einnig áður óþekkt kórónaveira sem var fyrst greind í Mið-Austurlöndum árið 2012, en hefur einnig greinst í Afríku og Suður-Asíu. Smit berst frá dýrum í menn, þá er aðalega vitað til þess að smitið komi frá sýktum úlföldum. Um það bil 35% sjúklinga með MERS hafa látist, en þetta getur verið ofmat á raunverulegri dánartíðni, þar sem væg tilfelli af MERS eru oft ekki tilkynnt þar sem sumir fá engin einkenni. Ekkert bóluefni eða sérstök meðferð er tiltæk, en unnið er að þróun bóluefna. WHO vinnur með ýmsum aðilum til að safna saman og deila vísindalegum gögnum til að skilja betur veiruna og sjúkdóminn sem hún veldur.

Skæður ebólu faraldur kom upp í Vestur-Afríku á árunum 2014-2016 en veiran greindist fyrst árið 1976. Áður hafði ebóla valdið staðbundinni útbreiðslu, en á þessum árum hafði ebóla alvarlegar afleiðingar í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne og dreifðist til sex annarra landa í þremur heimsálfum. Á tímabilinu náðist góður árangur og setti WHO upp aðgerðarplan og verkferla sem gerði þeim kleift að bregðast hratt við á áhrifaríkan hátt. Fjöldi sjálfboðaliða, vísindamanna, rannsakenda og framleiðenda tóku saman höndum og árið 2015 voru hafnar tilraunir með bóluefni sem hefur borið góðan árangur. Í enda árs 2015 voru komnar upp 24 tilraunastofur og tæki sem gátu greint ebólu veiruna hratt, klínískar rannsóknir með bóluefnið voru komnar langt á veg, vettvangur með þúsundum heilbrigðisstarfsmönnum sem tilbúnir voru að fara á helstu smitsvæði var komið á laggirnar og þúsundir sérfræðinga voru þjálfaðir. WHO miðar að því að koma í veg fyrir útbreiðslu ebólu með því að viðhalda eftirliti og styðja lönd í áhættuhópi við að þróa viðbúnaðaráætlanir. Þegar útbreiðsla ebólu greinist bregst WHO meðal annars með því að styðja þátttöku í samfélaginu, greina sjúkdóminn, rekja snertingu, bólusetja, veita rannsóknarstofuþjónustu, beita smitstjórnun, veita þjálfun og aðstoð við örugga og virðulegu greftrunaraðferðir.

Árið 2015 varð einnig vart við mikla útbreiðslu Zikaveiru í Brasilíu og tæplega 70 lönd upplifðu sinn eigin Zika faraldur. Fólk smitaðist aðalega vegna bita frá sýktum moskítóflugum af tegundinni Aedes aegypti. Vanalega eru einkenni sjúkdómsins mild og vara í 2-7 daga. Hinsvegar getur Zikaveiran valdið alvarlegri skaða hjá þunguðum konum þar sem sjúkdómurinn getur valdið vanþroska á heila nýfæddra barna og dverghöfuð. Engin meðferð er tiltæk við Zikaveirunni eða tengdum sjúkdómum, en vörn gegn flugna bitum er lykilaðgerð til að koma í veg fyrir smit. WHO stuðlar meðal annars að rannsóknum á forvörnum, eftirliti og stjórnun á Zikaveirunni og fylgikvillum hennar. Einnig hefur stofnunin þróað, styrkt og innleitt samþætt eftirlitskerfi fyrir Zikaveiruna og eflt getu rannsóknarstofa um heim allan til að gera prófanir á Zikaveirunni. Stofnunin hefur einnig eflt stuðning og umönnun við börn og fjölskyldur sem verða fyrir áhrifum af fylgikvillum Zikaveirunnar.

Það var síðan þann 11. mars 2020 sem WHO lýsti því yfir að Kóróna-veiran (COVID-19) væri orðin að heimsfaraldri og er það í fyrsta sinn sem að kórónuveira veldur heimsfaraldri. Þá voru komin upp 118.000 tilfelli í 114 löndum og 4.291 látnir. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hins vegar bent á að aldrei áður hefur faraldur geisað sem hægt er að stjórna. WHO hefur verið í fullri viðbragðsstöðu síðan fyrst var tilkynnt um veikindi af völdum veirunnar. Stofnunin safnar saman upplýsingum og vinnur með vísindamönnum og stjórnvöldum til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. Meðal markmiða WHO er að hraða rannsóknarstarfseminni með alþjóðlegu samstarfi og að fjármagn sé tiltækt fyrir svæðin sem eru líklegust til að skila hagnýtum árangri. Stofnunin greinir ástandið daglega, forgangsraðar og upplýsir almenning og stjórnvöld. Mikilvægt að tryggja gagnsæi og ganga úr skugga um að samskipti við fjölmiðla séu nákvæm og samræmd til að viðhalda trausti á rannsóknarstarfseminni.

Heimildir og gagnlegar upplýsingar:

Brynja Þrastardóttir tók saman