Barnahjálp SÞ, UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, starfar á erfiðustu svæðum heimsins og veitir börnum og ungmennum nauðsynlega aðstoð ásamt því að tryggja að réttindi þeirra séu virt, alls staðar. Starfsemin nær til rúmlega 190 ríkja og landa, en UNICEF gerir allt sem til þarf til að aðstoða lífsafkomu barna, uppeldi þeirra og leið þeirra til betra lífs, allt frá frumbernsku til unglingsaldurs.  Allt starf UNICEF byggist á Barnasáttmálanum sem var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 20. Nóvember 1989 en hann er útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims.

UNICEF, sem er líka einn stærsti birgir fyrir bóluefni í heiminum, styður heilsu og næringu barna, öruggt neysluvatn og hreinlæti, góða menntun, baráttu gegn eyðni og heilbrigði mæðra og barna, og verndun barna og ungmenna vegna hættu á ofbeldi og misnotkun. Gríðarlega miklum árangri hefur verið náð til dæmis við að tryggja aðgengi barna og ungmenna að menntun síðastliðna áratugi. Einnig hefur tíðni ungbarnadauða hríðlækkað.

UNICEF er ávallt til staðar þar sem þörfin er mest, sinnir langtímauppbyggingu, þar sem neyðarástand brýst út og eins eftir að því lýkur. Þannig vinnur UNICEF ötullega á vettvangi neyðarinnar við að bjarga mannslífum og gera börnum og fjölskyldum þeirra kleift að halda í vonina. Stofnunin er ópólitísk og hlutlaus en víkur sér ekki undan því að verja réttindi barna og þess að tryggja líf þeirra og framtíð.

Undanfarin 75 ár hefur UNICEF unnið að því að betrumbæta líf barna og fjölskyldna þeirra. Þrátt fyrir miklar áskoranir um heim allan berjast starfsmenn stofnunarinnar fyrir rétti barna til að hafa öruggt skjól, næringu, vernd gegn áföllum og átökum, og fyrir jafnrétti.

UNICEF á í góðu samstarfi við önnur samtök innan Sameinuðu þjóðanna en það gerir þeim kleift að tryggja að málefni barna séu ekki virt að vettugi. Stofnunin beitir tvíþættri nálgun, sem felur meðal annars í sér að sinna rannsóknum og að finna hagnýtar úrlausnir fyrir börn.

Samtökin hafa umboð frá Allsherjarþingi SÞ til að berjast fyrir réttindum barna, hjálpa til við að ná að uppfylla frumþarfir og auka við tækifæri þeirra til að lifa mannsæmandi lífi.  Þrátt fyrir að vinna á vegum Sameinuðu þjóðanna hljóta þau enga fjárhagsaðstoð þaðan og byggist starfið eingöngu á frjálsum framlög frá einstaklingum, fyrirtækjum og sjóðum. Stefna UNICEF er sú, að líf, heilsa, öryggi og jákvætt uppeldi barna séu nauðsynleg í því starfi að tryggja betri heim fyrir alla.

UNICEF reynir eftir bestu getu að tryggja sérstaka vernd til handa þeim börnum sem verst verða úti – fórnarlömb stríðs, hamfara, fátæktar og örbirgðar, öllum tegundum ofbeldis og misnotkunar, og þeim sem eiga við fötlun að stríða.

UNICEF tekur ekki afstöðu með öðrum málsaðila fram yfir hinn og samstarf við stofnunina á sér stað án áhættu á því að einhverjum sé mismunað. Í öllu starfi stofnunarinnar eru þau börn sem verða harðast úti sem fá að njóta vafans og þau ríki sem búa við mesta þörf eru sett í forgang.

Í gegnum landsverkefni sín leitast UNICEF við að koma á framfæri jafnrétti til handa konum og stúlkum og að styðja fulla þátttöku þeirra í pólitískri, félagslegri og efnahagslegri þróun viðkomandi samfélaga.

Þá vinna samtökin ásamt samstarfsaðilum sínum við að ná fram sjálfbærri þróun samfélaga í samræmi við samþykktir alþjóðasamfélagsins og þess að það takist að koma á friði og félagslegum framförum. Þannig er í hvívetna leitast við vinna í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

UNICEF á Íslandi

Starfsemi landsnefndar UNICEF á Íslandi er gríðarlega mikilvæg en hún sinnir almennri réttindagæslu fyrir börn, safnar fjár til verkefna samtakanna á heimsvísu ásamt því að halda úti sterku innanlandsstarfi og kynningarmálum.

Innanlandsdeild samtakanna vinna að því að auka vitund fullorðinna og barna um réttindi þeirra. Þar að auki aðstoða þau sveitarfélög og skóla við það að innleiða Barnasáttmálann inn í allt starf sitt með Barnvænum Sveitarfélögum, Réttindaskólum og Réttindafrístund. Fjáröflunardeild heldur meðal annars utan um Heimsforeldra UNICEF en þeir eru hjartað í samtökunum þar sem meirihluti framlaga á Íslandi kemur frá almenningi. Heimsforeldrar gefa mánaðarlegt framlag sem gerir UNICEF kleift að geta brugðist við neyðarástandi, hvenær og hvar sem er. Kynningardeild sér svo um að fjalla um verkefnin, vekja athygli á þeirri neyð sem ríkir hverju sinni og kemur upplýsingum á framfæri.

Hægt er að kynna sér betur það starf sem UNICEF sinnir inn á Íslandi á heimasíðu þeirra.