Ákall Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs

Í ljósi sífellt versnandi aðstæðna á Gaza svæðinu, kallar Félag SÞ á Íslandi eftir því að íslensk stjórnvöld hefji greiðslur að nýju til UNRWA ásamt því að þau beiti sér fyrir tafarlausu og langvarandi vopnahléi svo mannúðaraðstoð berist fólki í neyð með öruggum hætti.

Frá hryðjuverkaárás Hamas þann 7. október 2023 hafa yfir 30.000 Palestínumanna verið drepnir, þar af eru börn og konur í meirihluta. Rúmlega 1.9 milljón manna eru á flótta innanlands og hafast nú við á afmörkuðu svæði þar sem heilbrigðisaðstoð, hreint drykkjarvatn og matur er af lífshættulega skornum skammti. UNRWA er hryggjarstykkið í öllu mannúðarstarfi á Gaza og því mikilvægt að styðja við störf stofnunarinnar með beinum hætti líkt og Evrópusambandið hefur nú ályktað um með auknu fjárframlagi.

Við hvetjum meðlimi Félags SÞ og almenning í landinu til að sameinast í ákalli okkar til stjórnvalda um að styðja við starfsemi UNRWA og kalla eftir tafarlausu og langvarandi vopnahléi á svæðinu svo hægt sé veita fólki lífsbjargandi mannúðaraðstoð.

Nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda kosinn á Sambandsþingi LUF

Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, 24 ára Akureyringur sem stundar bachelornám í mannréttindafræði við Háskólann í Malmö var um síðustu helgi kosinn nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda.  Kosningin fór fram á Sambandsþingi Landssambands Ungmennafélaga (LUF) en þar sem hún var í framboði fyrir hönd Samband íslenskra nemenda erlendis (SÍNE), sem er eitt 42 aðildafélaga LUF.

Mynd: SSJ. Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir var kosin nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda á Sambandsþingi LUF þann 24. Febrúar sl.

Stefanía Sigurdís er um þessar mundir að vinna að lokaritgerðinni sinni við háskólann í Malmö þar sem hún hlaut nýlega skólastyrk til að ferðast til Malasíu og framkvæma eigin rannsókn en hún hyggst flytja aftur heim til Íslands í sumar. Hún hefur að eigin sögn verið afar virk í kvenréttinda- og femínista umræðu á Íslandi áður en hún hóf námið úti. Einnig hefur hún skrifað greinar fyrir Jafnréttisstofu og aðra miðla um jafnrétti á Íslandi, þar á meðal var hún annar stjórnanda sjónvarps- og podcast þáttanna ‘VAKNAÐU‘ sem framleiddir voru af sjónvarpstöðinni norðlensku, N4, þar rætt var við ýmsa gesti um margs konar hliðar jafnréttis á Íslandi. Þá hlaut Stefanía Sigurdís jafnréttisviðurkenningu Akureyrarbæjar árið 2019.

Hún kveðst spennt fyrir að taka við þeim mikilvægu verkefnum sem fylgja því að vera ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda og segist vilja leggja sig alla fram við að koma skoðunum og athugasemdum ungmenna á framfæri í tengslum við málaflokkinn.

Kynningarfundur um ungliðastöður á vegum SÞ haldinn þann 27. Febrúar

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi ásamt utanríkisráðuneytinu bjóða til kynningarfundar um ungliðastöður á vegum Sameinuðu þjóðanna á morgun, 27. febrúar. Linkur á fundinn er aðgengilegur á Facebook viðburði fundarins.

Fundurinn verður rafrænn og hefst hann kl. 12:00.

Dagskrá fundarins er svohljóðandi:

12:00 – 12:10 Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, er fundarstjóri og opnar fundinn.
12:10 – 12:20 Lisa Fialla Andresen, sérfræðingur hjá þjónustumiðstöð ungliðaverkefnis Sameinuðu þjóðanna (e. JPO Service Centre)
12:20 – 12:30 Urður Ásta Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá World Food Programme (WFP) í Síerra Leóne. Urður gegnir stöðu ungliða hjá landsskrifstofu WFP í Síerra Leóne. Hún hefur verið ungliði frá því haustið 2023 og mun segja stuttlega frá sinni reynslu fram til þessa.
12:30 – 12:40 Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður, sendiskrifstofa Íslands í Freetown í Síerra Leóne. Ásdís er fyrsti forstöðumaðurinn í nýrri sendiskrifstofu Íslands í Síerra Leóne og mun hún segja frá helstu verkefnunum og lífinu í Freetown.
12:40-13:15 Spurningar og svör

Að fundinum loknum mun upptaka verða aðgengileg á Youtube rás Félagsins. 

Utanríkisráðuneytið opnar fyrir umsóknir í þrjár stöður ungliða hjá Sameinuðu þjóðunum

Á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) er starfrækt ungliðaverkefni (e. Junior Professional Officer Programme) þar sem ungu fólki er gefið tækifæri á að starfa á vegum stofnanna SÞ.

Í ár fjármagnar utanríkisráðuneytið þrjár slíka ungliðastöður, þar af eina stöðu sérfræðings í alþjóðlegum hafmálum hjá Þróunaráætlun SÞ í Namibíu, stöðu sérfræðings í málefnum kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda hjá Mannfjöldasjóði SÞ í Tansaníu og stöðu sérfræðings í félagsmálum hjá Barnahjálp SÞ í Síerra Leóne.

Beina linka á stöðu ungliða í alþjóðlegum hafmálum hjá UNDP: https://island.is/starfatorg/c-53RnEa2cTXbZ2MyxJQi3tv

á ungliðastöðu í málefnum kyn- og frjósemisheilbrigðis- og réttinda hjá UNFPA: https://island.is/starfatorg/c-7toX9iaY69gdXIQ4TRxjjb

á ungliðastöðu í félagsmálum hjá UNICEF: https://island.is/starfatorg/c-7wBH2JQ8L4DJs1xUntxBHG

Ungliðastöður hjá Sameinuðu þjóðunum eru opnar fyrir íslenska ríkisborgara 32 ára og yngri (fæðingarár 1991 og síðar). Ráðið er til eins árs, með möguleika á framlengingu um eitt ár til viðbótar. Sérfræðingurinn verður starfsmaður viðeigandi stofnana Sþ og launa- og starfskjör eru samkvæmt reglum þeirra.

Umsóknarfrestur er til og með 15. mars 2023. Allir einstaklingar, sem uppfylla hæfnis- og aldurskröfur, óháð kyni eru hvött til að sækja um starfið. Hér má sjá ítarlegri starfslýsingu á ensku.

Kynningarfundur
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í samvinnu við utanríkisráðuneytið stendur fyrir kynningarfundi um ungliðaverkefni Sameinuðu þjóðanna í lok febrúar, en hægt verður að nálgast frekari upplýsingar um fundinn og verkefnið á vef stjórnarráðsins: www.utn.is/jpo.

Félagasamtök hvetja stjórnvöld til þess að taka á móti fólki frá Gaza

Félagasamtök hvetja stjórnvöld til þess að taka á móti fólki frá Gaza

Undirrituð félagasamtök fagna því að um 100 einstaklingum á Gaza hafi verið veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli laga um útlendinga og sameiningu fjölskyldna. Vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem nú ríkja á Gaza, hvetja samtökin íslensk stjórnvöld til þess að leggja allt kapp á að tryggja tafarlausa brottför þessa hóps frá Gaza til Íslands. Hópurinn samanstendur aðallega af konum og börnum í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá hvetja undirrituð félagasamtök stjórnvöld til þess að taka til efnismeðferðar allar þær umsóknir palestínsks fólks sem nú liggja fyrir.

Alþjóðleg hjálpar- og mannúðarsamtök hafa lýst ástandinu á Gaza sem fordæmalausu og fer staða fólks á svæðinu versnandi dag frá degi. Samkvæmt upplýsingum frá OCHA (Samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum) hafa minnst 26.637 einstaklingar verið drepnir á Gaza og 65.387 manns særst frá upphafi átakanna þann 7. október. Meirihluti þeirra er konur og börn. Af þeim 36 sjúkrahúsum sem starfandi voru á Gaza fyrir 7. október eru nú aðeins 14 talin að hluta til starfhæf. Um 1,7 milljónir einstaklinga hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín sökum átakanna, það er um 75% íbúa Gaza. Samtökin Læknar án landamæra fullyrða að á Gaza sé nú engan öruggan stað að finna og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) telur Gaza hættulegasta stað í heimi til að vera barn. Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við að fæðuóöryggi á Gaza sé komið yfir í 5. fasa (e. catastrophic threshold) og segja líkur á hungursneyð aukast dag frá degi. Samkvæmt upplýsingum frá Barnahjálpinni eru öll börn á Gaza undir fimm ára aldri vannærð, en hægt er að koma í veg fyrir dauða þeirra fái hjálpargögn að berast óhindrað inn á svæðið.

Staðan er grafalvarleg og þó að alþjóðasamfélagið og mannúðarsamtök hafi ítrekað kallað eftir tafarlausu vopnahléi og því að neyðargögn á borð við mat, vatn og lyf fái að berast óhindrað til Gaza, hafa ísraelsk stjórnvöld enn ekki orðið við þeim kröfum. Á meðan halda árásirnar áfram og staða fólks á Gaza versnar.

Íslensk stjórnvöld brugðust hratt og örugglega við ákalli Sameinuðu þjóðanna í október um aukin framlög til neyðaraðstoðar á Gaza með 70 milljóna króna framlagi til UNRWA (Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna). Félagasamtökin telja ekki forsvaranlegt að frysta fjármagn til stofnunarinnar að svo stöddu og minna á mikilvægi lífsbjargandi mannúðaraðstoðar til almennra borgara sem enga aðild eiga að átökunum.

Sem fyrr segir hafa stjórnvöld þegar samþykkt að veita 100 einstaklingum skjól á Íslandi, á grundvelli fjölskyldusameiningar. Stór hluti þeirra fengu umsókn sína samþykkta eftir að átökin hófust. Ísland hefur um langt skeið sýnt palestínsku þjóðinni samstöðu. Því ætti að fylgja eftir með áframhaldandi stuðningi við fólk sem býr við fordæmalaust ástand, rétt eins og íslensk stjórnvöld gerðu fyrir íbúa Afganistan þar sem vel var að verki staðið.

Við biðlum nú til íslenskra stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja greiða leið þessa hóps frá Gaza til fjölskyldna sinna á Íslandi. Hver dagur sem líður á Gaza ógnar lífi þessara einstaklinga og því brýnt að hafa hraðar hendur. Það að Íslandi beri ekki lagaleg skylda til að aðstoða þennan hóp leysir Ísland ekki undan siðferðilegri skyldu til að aðstoða fólk í svo bráðri hættu. Hollensk yfirvöld hafa aðstoðað fjölda einstaklinga við að yfirgefa Gaza á grundvelli fjölskyldusameiningar[1] og Kanada er að vinna að því sama fyrir allt að eitt þúsund einstaklinga.[2]

Ísland er lítið land með fáar sendiskrifstofur á erlendum vettvangi, en er ekki of lítið til að hafa áhrif. Valdhafar hafa fyrir hönd landsmanna, gert Ísland að málsvara mannréttinda og jafnréttis á alþjóðavettvangi. Samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu undirstrika íslensk stjórnvöld virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Í sömu stefnu miðar Ísland einnig að því „að bjarga mannslífum og standa vörð um mannlega reisn.“ Nú er einstakt tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld að sýna í verki að alvara liggur að baki þessum orðum.

Sú staða sem upp er komin á Gaza er fordæmalaus og krefst fordæmalausra aðgerða. Undirrituð hvetja íslensk stjórnvöld til að bjarga einstaklingum úr bráðum háska sem sannarlega hafa fengið viðurkenndan rétt sinn, frá íslenskum stjórnvöldum, til að sameinast fjölskyldum sínum á Íslandi.

Með von um skjót viðbrögð.

Íslandsdeild Amnesty International

Barnaheill

Biskup Íslands

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

FTA

Geðhjálp

GETA-hjálparsamtök

Hjálparstarf kirkjunnar

Hjálpræðisherinn á Íslandi

Kvenréttindafélag Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Prestar innflytjenda

Rauði krossinn á Íslandi

Réttur barna á flótta

Samtökin 78

Samtök um kvennaathvarf

Siðmennt

Solaris hjálparsamtök

Stígamót

UNICEF á Íslandi

UN Women á Íslandi

W.O.M.E.N Samtök kvenna af erlendum uppruna

Þroskahjálp

ÖBÍ

 

 

[1] Conflict in Israel and the Palestinian territories: updates from the Ministry of Foreign Affairs | Weblogs | Government.nl

[2] Temporary resident pathway opens for Palestinian extended family in Gaza – Canada.ca

Þröstur Flóki Klemensson og Eybjört Ísól Torfadóttir báru sigur úr býtum í samkeppni ungs fólks

Í gær, þann 29. janúar var verðlaunaafhending í samkeppni ungs fólks um mikilvægi heimsmarkmiðanna fyrir mannréttindi og frið haldin í Mannréttindahúsinu að Sigtúni 42.

Eliza Reid, forsetafrú og formaður dómnefndar veitti verðlaun í gær, 29. janúar fyrir þær framúrskarandi tillögur sem bárust í keppnina. Þess má einnig geta að Eliza hefur um nokkurra ára skeið verið verndari Félags Sameinuðu þjóðanna. Samkeppnin var haldin í tilefni af 75 ára afmælis FSÞ í fyrra en um ræðir endurvakningu á samkeppni sem Félagið stóð fyrir um árabil í blaði Æskunnar.

Alls bárust tæplega 40 frábærar tillögur í keppnina af öllu landinu frá nemendum á grunn- og framhaldsskólastigi. Dómnefndin kaus að lokum með tveimur sigur tillögum og veitti þar að auki sex auka verðlaun.

Það voru þau Þröstur Flóki Klemensson, nemandi við Háteigsskóla með söguna sína um Anahi og Berglindi og Eybjört Ísól Torfadóttir, nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík með smásögur sínar um heimsmarkmiðin sem báru sigur úr býtum í samkeppninni sem fjallaði um heimsmarkmiðin og mikilvægi þeirra fyrir mannréttindi og frið og í heiminum.

Þröstur Flóki og Eybjört Ísól unnu bæði flug og gistingu ásamt forráðamönnum sínum til New York með Icelandair að heimsækja fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna undir handleiðslu framkvæmdastjóra Félagsins, ásamt bókagjöf frá Angústúru.

Mynd/FSÞ. Eybjört Ísól Torfadóttir og Þröstur Flóki Klemensson sigurvegarar ásamt Elizu Reid, forsetafrú og formanni dómnefnar, og Evu Harðardóttur, formanni FSÞ.

 

Ída Kolbrá Heiðarsdóttir, nemandi við Giljaskóla á Akureyri hlaut sérstök aukaverðlaun dómnefndar fyrir frábæra tillögu, Hvað ef allt hverfur?  Í vinning hlaut hún 50.000 vildarpunkta frá Icelandair, Bose hátalara frá Origo, leikhúsmiða fyrir tvo frá Borgarleikhúsinu og bókagjöf frá Angústúru.

Fimm önnur ungmenni hlutu auka verðlaun fyrir frábærar tillögur en það voru þau Aldís Ögmundsdóttir, nemandi við Hagaskóla fyrir texta sinn um ‘Mikilvægi heimsmarkmiðanna’, París Anna Bergmann, nemandi við Menntaskólann á Akureyri með söguna sína ‘Það er alltaf hægt að breytast’, Ágúst Páll Óskarsson, nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík, með hugleiðinguna sína ‘Vongóðar vangaveltur’, Þórey María E. Kolbeinsdóttir, nemandi við Álftanesskóla með ‘Hugleiðing um heimsmarkmiðin’ og Lilja Sól Helgadóttir, nemandi Menntaskólans í tónlist með prósaljóðið sitt, ‘Kvíði’. Öll fengu að launum bókagjöf frá Angústúru og aðgang að Storytel.

Dómnefnd skipuðu þau Eliza Reid, forsetafrú, formaður dómnefndar og verndari FSÞ, Eva Harðadóttir, formaður FSÞ, Guðni Sigurðsson, fulltrúi Icelandair, Rán Flygenring, mynd- og rithöfundur og Ómar Azfar Valgerðarsson Chattha, fulltrú barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sþ.

Mynd/Sigurður Bogi Sævarsson MBL. Dómnefnd ásamt öllum verðlaunahöfum, frá vinstri: Eva Harðardóttir, Eliza Reid, Eybjört Ísól Torfadóttir, Þröstur Flóki Klemensson, Ída Kolbrá Heiðarsdóttir, Aldís Ögmundsdóttir, Þórey María E. Kolbeinsdóttir, Lilja Sól Helgadóttir, Rán Flygenring, Guðni Sigurðsson og Ómar Azfar Valgerðarson Chattha. Á myndina vantar Ágúst Pál Óskarsson og París Önnu Bergmann.

 

Félag Sameinuðu þjóðanna þakkar öllum þeim sem sendu inn tillögur fyrir þátttöku í samkeppninni ásamt hamingjuóskir til allra verðlaunahafa. Þá fær dómnefnd sérstakir þakkir fyrir frábærlega vel unnin störf. Að lokum viljum við þakka því ómetanlega framlagi sem Icelandair gaf til samkeppninnar ásamt bókaforlaginu Angústúru. Origo, Borgarleikhúsið og Storytel fá einnig sérstakir þakkir.

 

Opið er fyrir umsóknir ungs fólks til þátttöku í alþjóðlegu verkefni tengt sjálfbærri þróun

 

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ungt fólk og heimsmarkmiðin í Heimsins stærstu kennslustund í Salaskóla 2023.

Taktu þátt með okkur og lærðu meira um sjálfbæra þróun og hagsmunagæslu í alþjóðlegu umhverfi – Sæktu um fyrir 7. febrúar!

Framvinda og árangur heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030 er metinn með valfrjálsri landrýniskýrslu aðildarríkja til Sameinuðu þjóðanna (e. Voluntary National Review or VNR). Virk þátttaka ungs fólks gegnir mikilvægu hlutverki við að tryggja græn umskipti fyrir öll sem skilja engan eftir.

Við leitum nú að þrem (3) áhugasömum ungmennum til að taka þátt í að fræðast um sjálfbæra þróun, mannréttindi og hagsmunagæslu með virku ungu fólki frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.

Um verkefnið

Árið 2024 vinnur Félag SÞ á Íslandi í samvinnu með Félagi SÞ í Finnlandi og Svíþjóð að innleiðingu á Norden 0-30 verkefni, þar sem saman koma ungmennafulltrúar og sendiherrar, fulltrúar í Ungmennaráði Sama og ungmenni frá Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð og Eistlandi.

Í verkefninu munu þátttakendur:

  1. Kynnast hvernig fylgst er með og greint frá innleiðingu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og mannréttindamiðaðrar nálgunar í valfrjálsri úttekt aðildarríkja (VNR) á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum.
  2. Skilja hvernig á að taka þátt í matsvinnu og hafa áhrif á hana í eigin landi.
  3. Afla sér ítarlegrar þekkingar á samspili heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og kynna sér hvernig norrænu ríkin bregðast við alþjóðlegum smitáhrifum og til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að bæta núverandi stöðu.

Auk þess munu þátttakendur fræðast um réttindi og áskoranir frumbyggja, sérstaklega áhrif grænna umskipta á land og náttúruauðlindir Sama. Þátttakendur munu einnig öðlast færni í að nota ný stafræn verkfæri til að greina framkvæmd heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og bera þau saman við tillögur frá stofnununum og út frá mannréttindasáttmálum. Verkefnið gerir unga einstaklinga í stakk búna til að framleiða eigið efni fyrir hagsmunagæslu  og styrkir tengslanet þeirra á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.

Hver geta sótt um?

Umsóknartímabilið er frá 22. janúar til 7. febrúar 2024. Til að sækja um skaltu fylla út umsóknareyðublaðið vandlega. Þátttakendur þurfa að vera á aldrinum 16 til 30 ára, með gott hald á talaðri og skrifaðri ensku og skuldbundinn til að sækja alla viðburði, þjálfun og hagsmunagæslu sem íslenski vinnuhópurinn skipuleggur. Verkefnið tekur til ferða- og dvalarkostnaðar en engar aðrar viðbótargreiðslur eiga við. Þrír þátttakendur verða valdir í verkefnið og verður vali miðlað persónulega til umsækjenda með tölvupósti.

Dagskráin

Verkefnið samanstendur af fjórum (4) þáttum, en framkvæmd þess er frá mars til september:

  1. Alþjóðleg ráðstefna í Helsinki, 11.-13. mars
  2. Þjálfun í mannréttindum og sjálfbærri þróun / Rafræn þáttaka, 25. apríl
  3. Vinnustofa  um málsvararhlutverk í tengslum við heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun / Rafræn þátttaka / byrjun júní (nákvæmar dagsetningar TBC)
  4. Alþjóðleg ráðstefna í Tallinn, seint í september (nákvæmar dagsetningar TBC)

Fyrir spurningar og frekari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við 
Völu Kareni Viðarsdóttur, framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna vala@un.is

Í samvinnu með:

UNA Finland

UNA Sweden

Sillamae Society for Child Welfare

 

 

 

Verkefnið hlýtur stuðnings úr verkefnasjóði Norrænu ráðherranefndarinnar Norden 0–30 (2024).

Íslensk stjórnvöld þurfa að tryggja raunverulega inngildingu ungmenna, segir ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði loftslagsmála

Unnur Þórdís Kristinnsdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála á leiðtogaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 26. apríl sl.

Unnur Þórdís starfar í sjálfbærnimálum hjá Controlant og hefur tekið þátt í ungmennastarfi CISV (Children International Summer Village) sem hefur það markmið að sameina þjóðir í átt að betri heimi. Síðustu ár hefur hún einnig tekið virkan þátt í starfi UAK (Ungra athafnakvenna) en hún var einmitt kjörin í stöðu ungmennafulltrúans fyrir hönd þeirra.

Unnur Þórdís er þriðji ungmennafulltrúinn sem hlotið hefur kjör á sviði loftslagsmála. Hún flaug til Dúbæ í lok nóvember sl. sem hluti af íslenskri sendinefnd til þess að sækja 28. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28 (e. Conference of the Parties) sem haldin er árlega, eða allt frá árinu 1995.

Unnur Þórdís, ungmennafulltrúi á sviði loftslagsmála á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Dúbæ dagana 30. nóvember-13. desember 2023.

Þegar Unnur Þórdís var spurð hvað standi upp úr í öllu ferlinu eftir kosningu nefnir hún viðburðina tvo sem hún hefur sótt fyrir hönd íslenskra ungmenna á árinu. Á fundi sem hún sótti í haust í UN City í Kaupmannahöfn þar sem fjöldi ungmennafulltrúa kom saman fékk hún frekari innsýn í megináherslur ungmenna í loftslagsmálum en þar var sérstök áhersla lögð á kynjajafnrétti í tengslum við loftslagvána. Þá mynduðu ungmennafulltrúarnir á sviði loftslagsmála í kjölfarið sér sameiginlega stefnu til þess að senda sterkari og skýrari skilaboð á loftslagsráðstefnunni í Dúbæ. Mikil samheldni um sterkari loftslagaðgerðir á meðal ungmenna einkenndi andann á ráðstefnunni að hennar mati, en fleiri þúsundir sóttu ráðstefnuna nú í desember, þar á meðal um 90 íslenskir fulltrúar líkt og kom fram í frétt Upplýsingaskrifstofu SÞ fyrir V-Evrópu nú í desember.

Aðkoma ungmenna á COP28 er gríðarlega mikilvæg þar sem framtíð þessa hóps er í húfi, það þarf að brúa bilið á milli aldurshópa til að mæta öllum skoðunum.

Að sögn Unnar er þátttaka ungs fólks mikilvæg á viðburðum líkt og COP, þá einkum í ljósi þess að í húfi er framtíð þeirra. Svo hægt sé að mæta öllum skoðunum sé einnig nauðsynlegt að brúa enn frekar bilið á milli aldurshópa, svo hægt verði að tryggja ólíkar þarfir þeirra til lengri tíma.

Á viðburðunum hitti ég ungmenni frá öllum hornum heimsins. Allt frá smáeyjalöndum í Kyrrahafi til landa í Asíu og Afríku. Einnig höfðu ungmennafulltrúar Evrópulandanna fundað reglulega í streymi yfir árið og hisst í persónu í Kaupmannahöfn til stefnumótunnar fyrir COP28.

Spurð út í það hvað stjórnvöld á Íslandi geti gert til þess að tryggja aðkomu ungmenna í ákvarðanatöku og stefnumótun, nefnir Unnur að það sé afar mikilvægt að Ísland dragi ekki úr núverandi fyrirkomulagi heldur tryggi og auki frekari aðkomu og þátttöku ungmenna, bæði hérlendis og í alþjóðastarfi. Ótal tækifæri séu fólgin í því og það muni aðeins efla og bæta ásýnd Íslands. Unnur telur þekkingu sína hafa aukist enn frekar síðastliðið ár en þó væru enn ákveðnir vankantar á hlutverki ungmennafulltrúa sem mættu betur fara til þess að tryggja raunverulega inngildingu ungmenna. Ekki sé einungis nóg að tryggja aðkomu ungs fólks, heldur þurfi að bæta raunverulega þátttöku og tækifæri þeirra til þess að hafa áhrif. Til dæmis nefnir hún að styrkja mætti ungmennafulltrúa verkefnið á þá vegu að hægt væri að þjálfa ungt fólk í samningaviðræðum með svokölluðu ‘Youth Negotiator Program’, þá geti sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum spreytt sig enn frekar, nýtt sína sérfræðikunnáttu og þannig nýst betur íslenskum sendinefndum.

Að lokum nefnir Unnur að ‘junior-senior kerfi’ ungmennafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum þyrfti að virkja enn frekar með því að tryggja fjármögnun til að senda báða fulltrúa á viðburði tengda málefnasviðum þeirra. ‘Junior-senior’ prógramið er nýtt kerfi sem LUF tók upp í fyrra til þess að tryggja betri handleiðslu nýkosinna fulltrúa, svo meðal annars sé hægt að tryggja samfellu verkefnisins og að þekking og reynsla fyrri fulltrúa nýtist þeim sem taka við keflinu.

Unnur ásamt hluta íslensku sendinefndarinnar, meðal annars forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur.

 

****Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.  
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.****

Öryggisráðið reiðubúið til að greiða atkvæði um ályktun um Gaza þar sem kallað er eftir brýnu, öruggu og óhindruðu flæði hjálpargagna

Eftir miklar samningaviðræður alla vikuna bak við luktar dyr í öryggisráðinu þar sem fimmtán ríki hafa sæti, héldu sendiherrar áfram viðræðum fram á fimmtudagskvöld um nýjustu útgáfu af drögum að ályktun sem Sameinuðu arabísku furstadæmin skrifuðu þar sem kallað er eftir brýnum aðgerðum til að leyfa örugga og óhindraða afhendingu hjálpargagna til óbreyttra borgara á Gazasvæðinu. Bandaríkin sögðust myndu styðja nýjustu drögin ef textinn héldist óbreyttur, en búist er við atkvæðagreiðslu í dag, föstudag. Upphaflega var búist við niðurstöðu sl. miðvikudag.

Önnur ríki sem hafa sæti í öryggisráðinu hafa ítrekað reynt að fá Bandaríkin til að styðja við enn frekari endurskoðun ályktunarinnar sem vonast er til að hraði bæði flæði og afhendingu hjálpargagna. Miklar takmarkanir hafa verið á neyðaraðstoð og dreifing hjálpargagna hefur verið sífelld áskorun en stigvaxandi hungur er á svæðinu. Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, hefur ítrekað hversu nauðsynlegt það er að koma á tafarlausu og langvarandi vopnahléi til þess að binda enda á dráp á börnum og fjölskyldum á Gaza.

Bandaríkin beittu neitunarvaldi á síðustu útgáfu ályktunarinnar sem kom til atkvæðagreiðslu þann 8. desember sl., sem var þess valdandi að allsherjarþingið hélt umræður og atkvæðagreiðslu þar sem yfirngnæfandi hluti aðildarríkja kusu með vopnahlé þann 12. desember.

Þau tíu ríki sem nú hafa sæti í öryggisráðinu fyrir utan þau fimm ríki (Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Rússland og Kína) sem hafa varanlegt sæti og afneitunarvald (e. veto power) eru: Albanía, Brasilía, Ekvador, Gabon, Gana, Japan, Malta, Mósambík, Sviss, Sameinuðu arabísku furstadæmin)

UN Photo/Loey Felipe – Frá fundi öryggisráðsins þann 8. desember 2023

Mér þótti gott að fá áminningu um að víkka sjóndeildarhringinn, hlusta og skilja sjónarmið og raunveruleika annars fólks og þannig styðja hvort annað af einlægni, segir ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ á sviði mennta, vísinda og menningar

Isabel Alejandra Diaz var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar á fundi leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 24. janúar sl.

Isabel býr yfir mikilli reynslu af réttindabaráttu ungs fólks en hún hefur setið fyrir hönd Röskvu í háskólaráði Háskóla Íslands auk þess að sinna hlutverki forseta Stúdentaráðs HÍ 2020-2022. Þá hefur hún starfað sem verkefnastjóri Tungumálatöfra, námskeiðs fyrir börn með ólíkan menningarbakgrunn til að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu ásamt því að hafa setið í hinum ýmsum hópum á sviði mennta, menningar- og félagsmála.

Isabel er fyrsti íslenski ungmennafulltrúinn á sviði mennta, vísinda og menninga, en samhliða hlutverki sínu sem ungmennafulltrúi situr hún einnig í íslensku UNESCO nefndinni. Isabel flaug til Parísar nú í nóvember sem hluti af íslenskri sendinefnd til þess að sækja 42. aðalráðstefnu UNESCO en hún er öllu jafna haldin annað hvert ár. Í sömu ferð, sótti hún einnig ungmennaþing UNESCO (e. UNESCO Youth Forum) þar sem þema þingsins í ár var umhverfis- og loftslagsmál; samfélagsleg áhrif loftslagsvárinnar og nauðsyn þess að tryggja réttlátt umskipti tækifæra og byrða loftslagsbreytinga.

Þegar Isabel var spurð hvað stóð upp úr í ferð sinni til Parísar nefndi hún opnunarhátíð ungmennaþingsins. Þar hafi nokkrir aktívistar verið fengnir til að ávarpa þingið, þ.á.m. Alice Pataxó frá Brasilíu sem fjallaði um loftslagsmál frumbyggja í heimalandinu og Jan Kariel frá Filippseyjum sem lifði af ofurfellibylinn Yolanda árið 2013.

Það var í raun ótrúlegt að hlýða á frásagnir þessara aktívista sem hafa sjálf mætt áskorunum vegna loftslagstengdra hamfara og upplifað afleiðingarnar á eigin skinni. Það var mikill drifkraftur í þeim og framsögur þeirra einskonar vitnisburður um það mikilvæga hlutverk sem ungt fólk fer með í baráttunni gegn loftslagsvánni; til að knýja fram sanngjörn umskipti og standa vörð um sameiginlega framtíð okkar

Ótal mörg ungmenni voru viðstödd þingið en samtals voru í kringum 166 ungmennafulltrúar frá yfir 147 löndum að sögn Isabel. Ungmennaþing UNESCO hefur það að markmiði að veita ungu fólki með ólíkan bakgrunn vettvang til þess að ræða málefni sem eru í brennidepli, deila reynslu sinni og hugmyndum og jafnframt skapa öruggt rými til rökræðna. Ennfremur nefndi hún að mörg þeirra ungmenna sem saman voru komin þarna hefðu verið sammála um að vettvangurinn veitti einstakt tækifæri til þess að stuðla að samstöðu í loftslagsbaráttunni.

Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði menntunar, vísinda og menningar á aðalráðstefnu UNESCO í nóvember 2023, með sendinefnd Íslands.

Þegar Isabel var spurð um þátttöku ungs fólks á viðburðum líkt og þessum sagði hún aðkomu þeirra nauðsynlega og lykilatriði í því að fá heildstæðari sýn á það hvernig ungt fólk getur beitt sér, sýnt frumkvæði og háttað samstarfi milli landa, stofnana eða samtaka

Mér þótti gott að fá áminningu um að víkka sjóndeildarhringinn, hlusta og skilja sjónarmið og raunveruleika annars fólks og þannig styðja hvort annað af einlægni.

Að lokum segir Isabel mikla vigt fylgja aðild Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum:

Það skiptir sköpum að Ísland eigi sína fulltrúa, og þar eru fulltrúar í málefnum ungs fólks engin undantekning. Það er okkur til hagsbóta að miðla þekkingu áfram þar sem við
getum eða höfum tök á, en einnig að sækja okkur hana frá öðrum og nýta til góðra verka. Hvernig það gengur fyrir sig eða ber árangur fer svo náttúrulega alfarið eftir því hversu móttækileg stjórnvöld í hverju landi fyrir sig eru. Það breytir því ekki að hlutverk okkar ungmennafulltrúa er að vera rödd gagnvart þar til bærum stjórnvöldum enda verðum við að krefjast úrbóta fyrir réttlátara samfélag.

*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.