„Í hrjáðum heimi nútímans er vonin ekki nóg. Vonin krefst ákveðinna aðgerða og fjölþjóða lausna í þágu friðar.“
eru eftirfarandi skilaboð António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, á Degi Sameinuðu þjóðanna 24. október.
„Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar af heiminum fyrir heiminn. Frá árinu 1945, hafa Sameinuðu þjóðirnar verið vettvangur þar sem þjóðir sameinast á bak við hnattrænar lausnir á hnattrænum vandamálum.
Lausnir sem draga úr spennu, byggja brýr og stuðla að friði. Lausnir til að útrýma fátækt, hvetja til sjálfbærrar þróunar og standa með þeim sem eru verst settir. Lausnir sem veita lífsbjargandi aðstoð til fólks sem búa við átök, ofbeldi, efnahagslega erfiðleika og loftslagshamfarir.
Lausnir sem stuðla að réttlæti og jafnrétti kvenna og stúlkna. Lausnir sem takast á við vandamál sem voru óhugsandi árið 1945 – loftslagsbreytingar, stafræna tækni, gervigreind og málefni geimsins.
Í september samþykkti allsherjarþingið Sáttmála framtíðarinnar og viðauka hans um Stafræna heiminn og Yfirlýsingu um framtíðar kynslóðir. Þessir tímamótasamningar greiða fyrir því að Sameinuðu þjóða-kerfið geti aðlagast, endurbæst og endurnýjast til þess að vera í stakk búið að mæta breytingum og áskorunum í kringum okkur og skilað árangri í allra þágu.
En starf okkar mun ætíð standa föstum rótum í tímalausum gildum og meginreglum stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalaga, og í reisn og mannréttindum hverrar manneskju.
Í hrjáðum heimi nútímans er vonin ekki nóg. Vonin krefst ákveðinna aðgerða og fjölþjóða lausna í þágu friðar, sameiginlegrar velmegunar og blómstrandi plánetu. Vonin þarf á því að halda þess að allar þjóðir vinni saman. Vonin þarf á Sameinuðu þjóðunum að halda.
Á Degi Sameinuðu þjóðanna hvet ég allar þjóðir að láta þetta vera sér að leiðarljósi og láta hugsjónum þess að skína skært.“
Ísland hlaut kjör til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag í kosningum sem fóru fram í allsherjarþinginu í New York, en Stjórnarráðið greindi frá því fyrir skömmu.
Þar hlaut Ísland 174 af 183 greiddum atkvæðum í kosningunum en auk Íslands voru Spánn og Sviss í framboði um þrjú sæti hóps vestrænna ríkja.
Þetta er í annað sinn sem Ísland er kosið til setu í mannréttindaráðinu en Ísland tók síðast sæti með skömmum fyrirvara í um átján mánaða skeið árið 2018 þegar Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu.
Ísland tekur sæti í upphafi árs 2025 og situr til 2027.
Loftslagsréttlæti snýst um að tryggja að allt fólk, óháð búsetu eða auðlindum þeirra, eigi rétt á heilbrigðu umhverfi og getu til að vernda sig gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Þar er lögð áhersla á að þeir sem minnst hafa lagt í loftslagsvandann, oft viðkvæmustu samfélögin og ungt fólk, beri ekki þyngstu byrðarnar.
Ungmenni frá Félögum Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi ásamt eistnesku æskulýðssamtökunum Sillamäe Lastekaitse Ühing hafa saman búið til ungmenna stefnurit sem stendur fyrir:Að viðurkenna ójöfn áhrif loftslagsbreytinga, hætta notkun jarðefnaeldsneytis og tryggja mannréttindi og þýðingarmikla þátttöku hópa sem verða fyrir áhrifum.Þau krefjast þess að ábyrgir stjórnmálamenn fyrir ákvarðanatökum og fyrirtæki axli ábyrgð á þeirri krísu sem ungt fólk stendur frammi fyrir, hlusti á og taki til mikilvægu sjónarhorni ungs fólks.
Með því að skrifa undir stefnuskrá ungs fólks stendur þú á bak við boðskap ungmennanna og krefst breytinga. Sérhver undirskrift er skrefi nær heimi þar sem loftslagsstefna er ekki aðeins mótuð af þeim sem eru við völd hverju sinni, heldur einnig af þeim sem munum búa við afleiðingarnar.
Við og ungt fólk í dag, ásamt komandi kynslóðum, stöndum frammi fyrir hörðustu áhrifum krísu sem við ollum ekki. Ákvarðanir fyrri og núverandi leiðtoga hafa sett framtíð okkar í hættu. Það er því mikilvægt að raddir okkar heyrist því við og komandi kynslóðir munum búa við afleiðingar þeirra ákvarðana sem teknar eru núna. Við krefjumst þess vegna þess að leiðtogar og ákvarðanatökur nútímans axli ábyrgð og hlusti á hvað ungar raddir nútímans hafa að segja.
Fjögur íslensk ungmenni tóku þátt í þessu verkefni á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, þær Sara Júlía Baldvinsdóttir sem jafnframt er ungmennafulltrúi Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar, Lára Portal, Íris Sævarsdóttir og Þórhildur Söebech. Verkefnið var unnið með ungmennum frá fyrrnefndum félagasamtökum á Norðurlöndum og Eistlandi og var stutt af Norrænu ráðherranefndinni.
Mynd / FSÞ á Íslandi. Ungmennahópurinn sem hittist á lokaráðstefnu verkefnisins í Stokkhólmi í september 2024.Mynd / FSÞ á Íslandi. Íslenskra sendinefndin. Frá vinstri: Sara Júlía Baldvinsdóttir, Íris Sævarsdóttir, Lára Portal og Þórhildur Söebech.
Saman munum við flagga fánum um allt land þann 25. september 2024.
Fánadagurinn var fyrst haldinn á heimsvísu árið 2020 og hafa vinsældir framtaksins farið ört vaxandi. Hundruð fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga þátt í fánadeginum um allan heim undir heitinu Saman fyrir heimsmarkmiðin #TogetherForTheSDGs.
UN Global Compact á Íslandi, í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, stendur fyrir fánadegi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í annað sinn í dag 25. september 2024.
Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök, skólar og sveitarfélög um allan heim, sýni skuldbindingu sína við heimsmarkmiðin og aðgerðirnar sem þau krefjast.
UN Photo/Loey Felipe. Frá aðgerðardögum á Leiðtogafundi um framtíðina.
Leiðtogar heimsins samþykktu í gær Sáttmála framtíðarinnar sem felur einnig í sér tvö fylgiskjöl um Alþjóðlegan stafrænan sáttmála og Yfirlýsingu um komandi kynslóðir. Sáttmálinn nær yfir breitt svið þemu, þar á meðal frið og öryggi, sjálfbæra þróun, loftslagsbreytingar, stafræna samvinnu, mannréttindi, kyn, ungt fólk og komandi kynslóðir og umbreytingu á alþjóðlegri stjórnun.
Leiðtogar heimsins eru í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York fyrir Leiðtogafund um framtíðina en svo hefjast almennar umræður í vikunni á þessari stærstu diplómatísku viku ársins. Aðeins lítill hópur sjö ríkja hélt út eftir að hafa ekki samþykkt breytingartillögu á síðustu stundu. Þungamiðja Leiðtogafundarins um framtíðina er einstakt tækifæri til að endurhugsa fjölþjóðlega kerfið og stýra mannkyninu á nýja braut til að mæta núverandi skuldbindingum og leysa langtímaviðfangsefni sem heimurinn stendur frammi fyrir.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ávarpaði fundinn fyrir hönd Íslands í gær en hann átti sömuleiðis fund með aðalframvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres.
UN Photo/Eskinder Debebe / Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og António Guterres í New York í gær 22/9.
Skólar á Reykjanesi sýna mikinn vilja til að bætast í hóp UNESCO skóla á Íslandi
Þann 4. september 2024 var haldinn kynningarfundur í Hljómahöll um innleiðingu UNESCO-skóla í alla skóla á Reykjanesi. Fulltrúum frá öllum skólum á svæðinu var boðið á fundinn ásamt aðilum tengdum Suðurnesjvettvangi.
„Sjálfbærni er sameiginlegt viðfangsefni allra sem íbúar á þessari jörð og mun verða um fyrirsjáanlega framtíð. Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna setja skýran ramma utan um þau mikilvægu verkefni og áskoranir sem við stöndum frami fyrir til þess að komandi kynslóðir njóti velsældar og sjálfbærni sé tryggð. Jafnrétti, réttlæti, friður og virðing fyrir umhverfinu er á ábyrgð okkar alla og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að ná árangri á þessum sviðum.“
Þannig hefst viljayfirlýsing um að hefja UNESCO-skóla umsóknarferlið á næstu tveimur árum, sem 16 skólar af Reykjanesi hafa nú þegar skrifað undir.
Hugmyndin að þessu metnaðarfulla verkefni kemur frá Suðurnesjavettvangi sem er samstarfsvettvangur um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Suðurnesjum. Að Suðurnesjavettvangi standa Samband sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Kadeco og Isavia ásamt öllum sveitarfélögunum fjórum á Suðurnesjum. Þá er Reykjanes jarðvangur einnig samstarfsaðili verkefnisins og leggur til verkefnastjóra sem mun styðja skólana á svæðinu með hlutlausum vettvangi fyrir samvinnu og tengslamyndun þvert á skóla, skólastig og sveitarfélög.
Til þess að varða leiðina að sjálfbæru samfélagi er skólasamfélagið á Reykjanesi nú að taka stórt skref með því að sýna samstöðu og vilja til samstarfs um innleiðingu heimsmarkmiðanna. Sú sameiginlega vegferð hófst á fundinum þar sem margir skólar skrifuðu undir yfirlýsingu þess efnis að gerast UNESCO-skóli innan tveggja ára og allir aðilar tengdir Suðurnesjavettvangi skrifuðu undir yfirlýsingu um að styðja þessa innleiðingu eftir bestu getu.
UNESCO-skólar starfa bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi með þrjú skýr forgangsverkefni eða megin þemu, þau eru: menntun í þágu sjálfbærrar þróunar með því að fræða um heimsmarkmiðin, menntun sem eflir hnattræna borgaravitund og menningu friðar, og svo að efla þvermenningarlega þekkingu og mikilvægi arfleiðar. UNESCO-skólar vinna þannig sérstaklega með heimsmarkmið 4.7 að leiðarljósi með því að efla skóla til að knýja fram nýsköpun fyrir hnattræna borgaravitund, þvermenningarlegan skilning og sjálfbærni, efla alþjóðlega samvinnu og samstarf, auka þekkingarmiðlun og samstarf milli landa og skóla og byggja upp getu til að auka fjölbreytni í kennsluaðferðum, td. með þátttökunámi, sem hluti af heildrænni nálgun í skólum.
Þverfagleg verkefni UNESCO-skóla nýtast í ýmsum kennslustundum og passa vel inni í grunnþætti aðalnámsskrár leik- grunn- og framhaldsskóla. Flestir skólar vinna í dag fjölmörg verkefni tengd heimsmarkmiðunum á hverju starfsári, svo það að gerast UNESCO-skóli er að miklu leyti staðfesting á því góða starfi og yfirlýsing um að vilja bæta í sambærileg verkefni á komandi árum.
Mynd / Daníel Einarsson – Reykjanes Geopark
Sigrún Svafa Ólafsdóttir er verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi og GeoCamp Iceland segir að fundurinn í Hljómahöll hafi farið fram úr björtustu vonum.
„Það er alveg frábært að sjá hve margir ætla að vera með og voru tilbúin að skrifa undir viljayfirlýsingu strax. Ég fékk þetta skemmtilega verkefni upp í hendurnar sem mitt fyrsta verk sem verkefnastjóri fræðslumála hjá jarðvanginum. UNESCO-skóla verkefnið er frábært verkfæri til að mynda góð tengsl við alla skólana, á öllum skólastigum í öllum sveitarfélögunum á Reykjanesinu. Ég hef verið að vinna mikið með kennurum úr öllum skólum á svæðinu í ýmsum Evrópuverkefnum sem GeoCamp Iceland hefur haldið utan um, í samstarfi við til dæmis Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Reykjanes Jarðvang. Í þeirri vinnu hefur komið mjög skýrt í ljós að þörf fyrir aukna samvinnu milli skóla er mikil og hvað öflugt tengslanet kennara getur skilað miklu inn í skólastarfið. Ég er mjög spennt fyrir næstu skrefum, skólar hér á svæðinu eru allir að gera svo frábæra og spennandi hluti. Það að taka þátt í UNESCO-skóla uppbyggingunni verður vonandi eingöngu til þess að gera alla flottu vinnuna þeirra enn sýnilegri í samfélaginu. Margir skólar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að fara af stað með þetta verkefni á næstu 2 árum og ég veit að hinir skólarnir eru að ígrunda þetta, það er alltaf hægt að bætast við og enginn er að missa af tækifærinu. Það stendur misvel á hjá skólum og mikilvægt að starfsfólk skólanna taki sameiginlega ákvörðun með hjartanu að fara af stað í þetta verkefni. Okkar von er sú að allir skólar á svæðinu sláist í hópinn á næstu 2 árum. Umfang verkefnisins er mikið, á Íslandi eru í dag samtals 21 UNESCO skólar en ef allir skólar á Reykjanesi taka þátt, bætast 28 skólar við þá tölu. Til að þetta gangi vel er mikilvægt að samfélagið allt standi með okkur í þessu og því dýrmætt að nú þegar hafa margir stórir aðilar á svæðinu lýst því yfir að þau eru tilbúin til að styðja við þetta verkefni eftir bestu getu. Við í undirbúningsteyminu gætum bara ekki verið ánægðari með viðbrögðin við þessari metnaðarfullu hugmynd!“
Eva Harðardóttir, formaður Félags Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi var þátttakandi á fundinum. Hún var himinlifandi yfir viðbrögðunum og talaði um að þessi samvinna um heimsmarkmiðin væri einstök.
„Þetta verkefni er til fyrirmyndar fyrir annað svæðisbundið samstarf og samfélög á landinu sem vilja vinna að sjálfbærri þróun með því að efla staðbundna þekkingu og hnattræna vitund barna og ungmenna, en efling hnattrænnar borgaravitundar er einmitt eitt af meginmarkmiðum UNESCO-skólanetsins“.
Sara Júlía Baldvinsdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar á Farsældarþingi ungs fólks, sem var hluti af 2. leiðtogaráðsfundi LUF 2023 þann 24. nóvember síðastliðinn. Sara Júlía, sem starfar á sviði sjálfbærni hjá KPMG, fer nú fyrir ungmennum Íslands í þessu mikilvæga hlutverki.
Sara tók nýlega þátt í ráðherrafundi um sjálfbæra þróun, sem fram fór í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Fundurinn, sem er haldinn árlega, er hluti af starfi efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). Að þessu sinni var þema fundarins „Að styrkja Áætlun 2030 (heimsmarkmiðin) og útrýma fátækt á tímum fjölþátta ógna: skilvirk framvinda sjálfbærra, þrautseigra og nýstárlegra lausna.“ Sérstök áhersla var lögð á heimsmarkmið 1, 2, 13, 16 og 17 á fundinum sem fram fór dagana 8-17. júlí.
„Það var ógleymanleg upplifun að vera stödd í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna,“
segir Sara Júlía um ferðina. „Svæðið er miklu stærra en ég bjóst við og þarna var fjölmargt fólk frá öllum heimshornum. Þetta var mín fyrsta heimsókn til Sameinuðu þjóðanna, og það stóð klárlega upp úr að fá að upplifa svæðið í heild sinni.“
Sara Júlía tók þátt í mörgum viðburðum og vinnustofum á fundinum, og segir hún að samtölin sem hún átti hafi verið stórgott veganesti í reynslubankann. Hún lýsir því einnig hvernig ungmenni sem sóttu fundinn urðu vel samrýnd og gátu nýtt sér hvert annað til stuðnings og lærdóms.
Mynd / SJB Sara í panel ásamt öðrum norrænum ungmennafulltrúum sem skrifuðu kafla í VSR (Voluntary Subnational Review) skýrslu norrænna sveitarfélaga gagnvart heimsmarkmiðum SÞ.
„Á HLPF er mikil dagskrá í öllum herbergjum, svo við leituðum oft á sömu viðburði. Það gaf okkur tækifæri til að vera saman og kynnast öðrum ungmennum. Það er líka hefð fyrir því að ungmenni dvelji á sama hóteli, sem gerir það auðveldara að spjalla saman á morgnana og kvöldin.“
Sara Júlía segir frá því hvernig António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur kallað eftir aukinni aðkomu ungs fólks á viðburðum sem þessum. Hún vonar að enn fleiri ungmenni fái tækifæri til að taka þátt á Leiðtogafundi um framtíðina, sem haldinn verður í september. „Á þeim fundi munu lokaviðræður um Sáttmála framtíðarinnar eiga sér stað og hann undirritaður af öllum aðildarríkjum SÞ. Í sáttmálanum er sérstök áhersla lögð á ungmenni og komandi kynslóðir. Það gefur því augaleið að þátttaka ungs fólks á þessum viðburðum er mjög mikilvæg.“
Mynd / SJB Sara ásamt ungmennafulltrúum í Fastanefnd Finnlands sem stóð fyrir viðburðinum ‘Visions for Sustainable and Youth-Led Peace Ahead of the Peacebuilding Architecture Review 2025’.
Að lokum talar Sara Júlía um mikilvægi samstarfsverkefnis LUF og Félags SÞ um ungmennafulltrúana og leggur áherslu á áframhaldandi fjármögnun verkefnisins en einnig að tryggja verði fulla innleiðingu og þátttöku junior-senior kerfis sendinefndarinnar, en með því kerfi eru ávallt tveir fulltrúar sem sinni hverju sviði hverju sinni. Slíkt tryggi að þekking og reynsla sem safnast glatist ekki á milli fulltrúa. Þá sé enn ýmislegt ábótavant þegar kemur að ungu fólki á Íslandi. Þar á meðal er heildstæð stefna í málefnum ungmenna en LUF hefur talað fyrir því í lengri tíma.
„Framundan er ýmislegt spennandi,“ bætir Sara við. „Ég er að fara til Stokkhólms með Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í september að taka þátt í lokaráðstefnu Norden 0-30 verkefnis í tengslum við sjálfbæra þróun og hagsmunagæslu ungs fólks og svo fer ég aftur í október með Nordic Youth Expert Group. Þar ætlum við að funda og taka þátt á Sustainable Living Summit sem haldið er af Nordregio. Þá verður líka Leiðtogaráðsfundur LUF í nóvember, þar sem kosið verður um junior ungmennafulltrúa á sviði sjálfbærrar þróunar.“
Sara Júlía hvetur að lokum alla sem hafa áhuga á málefninu að kynna sér ungmennafulltrúahlutverkið og íhuga framboð í nóvember.
Mynd / SJB Sara á einum af mörgum göngum höfuðstöðva SÞ í New York þar sem finna má fána aðildarríkjanna.
*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.
Rafræn vinnustofa fyrir ungt fólk verður haldin mánudaginn 2. september kl. 17:00-18:00.
Á vinnustofunni mun ungt fólk ræða hugmyndir og ráðleggingar hvernig hægt sé að beita hagsmunagæslu til þess að stuðla að heildrænni umbreytingu í þágu sjálfbærrar þróunar. Stuðst verður við gögn sem ungt fólk og borgarasamfélagið á Íslandi lagði fram í landrýniskýrslu Íslands til Sameinuðu þjóðanna árið 2023.
Vinnustofan er hluti af Norden 0-30 samstarfsverkefni Félaga Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð ásamt Sillamae samtökunum í Eistlandi með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni,
Vinnum saman!
Skráning á vinnustofuna fer fram hér . Eftir skráningu fá þátttakendur sendan Teams link.
Hátt í 30 kennarar tóku þátt í námskeiði sem haldið var á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þann 14. ágúst sl. sem bar heitið ‘Að vekja ungt fólk til hnattænnar borgaravitundar‘. Þetta er í fjórða sinn sem námskeið er haldið af hálfu félagsins, en því er ætlað fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi.
Metþátttaka var að vanda og komust færri að en vildu. Í ár var snið og áherslur námskeiðsins aðeins breytt og tekið var betur utan um mikilvægi þess að fjalla um störf og gildi Sameinuðu þjóðanna í námi og kennslu barna og ungmenna. Kennarar á námskeiðinu voru Eva Harðardóttir, lektor við deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og formaður félagsins, og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins.
,,Námskeiðið heppnaðist einstaklega vel. Kennarahópurinn sem sótti námskeiðið í ár samansafn af kraftmiklu, áhugasömu og skapandi fólki sem öll eru að vinna ötullega að verkefnum í anda sjálfbærni og heimsmarkmiða í skólum um allt land. ” segir Eva.
Þorvarður Atli Þórsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins og stjórnarmeðlimur félagsins tók einnig að sér að halda utan um örútgáfu af hermilíkani, sem byggist á hermilíkani Sameinuðu þjóðanna (e. Model United Nations). MUN er vettvangur þar sem nemendur koma saman og setja á svið starfsemi helstu stofnanna Sameinuðu þjóðanna á sem raunverulegastan hátt og takast á við aðkallandi vandamál í alþjóðasamfélaginu. Þátttakendum námskeiðsins var þannig deilt niður á sex lönd og voru kennararnir sendifulltrúar þeirra ríkja og þurftu að koma sér saman um ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu flóttafólks í heiminum í dag. Þessi æfing kom af stað frábærum umræðum um fjölbreyttar leiðir til að ræða og vinna með hnattrænar áskoranir og málefni sem snerta okkur öll á ólíkan hátt í heiminum í dag.
Námskeiðið og hermilíkanið gekk vonum framar en félagið stefnir að því á komandi misserum að endurvekja Iceland MUN sem legið hefur í dvala um nokkurt skeið. Er það hluti af stefnu sem stjórn setti sér í fyrra að auka umsvif verkefna með ungu fólks, og efla og auka áhuga þeirra á starfsemi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu.
Starfsfólk og stjórn félagsins þakkar kennurunum sérstaklega fyrir jákvæðni, hugrekki og gleði sem einkenndi vinnuna og námskeiðið í heild. Við hlökkum til að sjá meira af þeim og þeirri vinnu sem þau eru að sinna í skólum landsins.
Mynd / FSÞ Hluti kennara sem sóttu námskeiðið.Mynd / FSÞ – Þorvaður útskýrir hermilíkanið fyrir kennurunum. Þorvarður var í hlutverki forseta mannréttindaráðsins og stýrði umræðum ríkjanna.
Pétur Hjörvar Þorkelsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri kynningar- og fræðslu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Alls sóttu 123 um starfið sem auglýst var á Alfreð í byrjun maí.
Um ræðir nýja stöðu innan félagsins sem felur í sér að auka þekkingu og skilning almennings á málefnum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu með kynningu og miðlun efnis. Einnig tekur Pétur við ábyrgð og umsjón með íslenska UNESCO-skóla staðarnetinu af Kristrúnu Maríu Heiðberg, sem leitt hefur verkefnið síðustu ár. Pétur mun hefja störf þann 1. Október næstkomandi.
Pétur Hjörvar Þorkelsson.
Starfað fyrir UNICEF frá 2018
Pétur mun í nýju hlutverki samþætta kynningu- og fræðslu Félags Sameinuðu þjóðanna með sérstaka áherslu í skóla og ungmennaverkefnum, en umsvif slíkra verkefna hefur stóraukist innan starfsemi félagsins síðustu misseri. Pétur hefur komið að fræðslu og skóla- og ungmennastarfi í yfir áratug og kemur því með mikla þekkingu til félagsins. Hann er menntaður mannfræðingur frá Háskóla Íslands og með M.Ed. gráðu í Menntunarfræðum og margbreytileika, með veigamikla þekkingu á Sameinuðu þjóðunum og fræðslu- þróunar- og skólastarfi. Hann hefur meðal annars starfað sem götukynnir hjá Landsnefnd UN Women, unnið á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum og verið aðstoðarrannsakandi- og kennari við Háskóla Íslands.
Síðustu sex árin hefur hann starfað fyrir UNICEF, fyrst hjá íslensku landsnefndinni í fjögur ár sem sérfræðingur í réttindum og þátttöku barna þar sem hann leiddi starf réttindaskóla og þróun og rekstur ungmennaráðs UNICEF. Frá því í september 2022 hefur Pétur starfað á landsskrifstofu UNICEF í Naíróbí, Kenía, þar sem hann hefur unnið á sviði félags- og hegðunarbreytinga (e. Social and Behavioral Change) í tengslum við loftslagsmál og vatns- og hreinlætismál. Helstu verkefni sem hann vann á þeim sviðum sneru að þátttöku ungmenna í aðlögun að áhrifum hamfarahlýnunar, hagnýtum rannsóknum á mannlegri hegðun og hönnun verkefnis í kóleruforvörnum.