Takmörkuðum árangri náð ef ungmenni eru ekki höfð með í samtalinu um þeirra framtíð, segir ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda

Unnur Lárusdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda á Sambandsþingi Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 25. febrúar 2023 sl.

Hefð er fyrir því að ungmennafulltrúi á sviði mannréttinda sé hluti af sendinefnd Íslands sem fer á ráðherravikuna í upphafi nýs allsherjarþings í september eða þegar nefndarvinnan hefst. Unnur fór til New York nú í september í ráðherravikunni við upphaf 78. allsherjarþingsins (e. UNGA78), þar sem leiðtogar ríkja flyktust að, en um er að ræða eina stærstu diplómatísku viku ársins. Talsvert mikið var um stærri fundi sem Unnur hafði tækifæri til að sækja, en allir sneru að mikilvægum málefnum sem alþjóðasamfélagið þarf að takast á við í sameiningu, líkt og efling fjáröflunar til þróunarmála, útrýming berkla, sjálfbær þróun samfélaga o.fl.

Þegar Unnur var spurð hvað stóð upp úr í ferð sinni á UNGA78 þótti henni erfitt að nefna eittvað eitt sem stæði upp úr en sagði að fundur UN Women hafi snert sig djúpt.

 Fundurinn varðaði ‘kynja aðskilnaðarstefnu’ (e. Gender Apartheid) í Afghanistan þar sem rætt var um mannréttindi kvenna í landinu og hvernig konur og stúlkur þar upplifa daglega mannréttindabrot. Það snerti mig djúpt bæði að hitta konur sem sögðu frá sinni eigin reynslu af mannréttindabrotum, og að sjá hvernig alþjóðasamfélagið kom saman og ræddi málefnið. Mér þótti mikilvægt að sjá það með berum augum, fólk að koma saman allstaðar að úr heiminum og sýna samstöðu.

Þá sagðist Unnur hafa verið upplifun út af fyrir sig að fá að sitja opnun almennrar umræðu (e. General Debate) og yfir höfuð að vera stödd í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna umkringd fólki sem deilir sömu ástríðu og hún sjálf. Unnur brennur fyrir málefnum mannréttinda og jafnréttis og hefur lengi gert en hún hefur meðal annars verið í stjórn ungmennaráðs UN Women á Íslandi og starfað fyrir UNICEF á Íslandi.

Mynd: Unnur Lárusdóttir/ Unnur Lárusdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda á UNGA78 í september 2023.

Vera Unnar í New York stóð yfir í rúma viku en fyrir utan stranga fundarsetu í ólíkum sölum og herbergjum Sameinuðu þjóðanna fékk hún tækifæri til þess að hitta norræna kollega sem einnig gegna stöðu ungmennafulltrúa hjá SÞ. Samstarf þeirra á milli telur hún vera bæði mikilvægt og nauðsynlegt svo hægt sé að bera saman bækur sínar, ræða upplifun og ólík tækifæri, þá sérstaklega til framtíðar svo hægt sé að tryggja raunverulega inngildandi þátttöku ungs fólks og að Norðurlönd hafi sterka rödd saman. Þegar Unnur var spurð um þátttöku ungs fólks á viðburðum líkt og UNGA telur hún mikilvægt að stjórnvöld hugi vel að aðkomu sem slíkri og tryggi ungmennafulltrúum raunverulegt sæti við borðið.

Almennt er aðkoma ungs fólks að málefnum sem þau varða mikilvæg og ætti þátttaka ungs fólks að vera enn betur tryggð hér á landi. Hvað UNGA varðar og þá sérstaklega ráðherravikuna að þá átta ég mig á því að það það sé mjög erfitt að tryggja almenna þátttöku ungmennafulltrúa á þeim tímapunkti og á það ekki endilega alltaf við en hvað UNGA almennt varðar er nauðsynlegt að rödd ungs fólks heyrist þegar ólík málefni eru rædd, þá sérstaklega jafnréttismál, mannréttindi og sjálfbærni og mark sé tekið á þeirri rödd.

Hvað varðar aðkomu ungs fólks í ákvarðanatöku, hvort sem á við um á Íslandi og/eða á alþjóðavísu sagði Unnur að nauðsynlegt væri að auka skilning í samfélaginu um það hvers vegna þátttaka ungs fólks sé nauðsynleg og að brjóta þurfi niður þá hugmynd að börn og ungt fólk hafi ekki nóg fram að færa og búi ekki yfir nægilegri reynslu svo hægt sé að taka mark á hugmyndum og ráðleggingum þeirra.

Yfir heildina litið er bara mikilvægt að líta til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðanna og átta sig á því að það er verulega takmarkað hvaða árangri hægt er að ná ef unga fólkið sem mun þurfa að takast á við áskoranir framtíðarinnar, eru ekki höfð með í samtalinu um þeirra framtíð.

Undir lokin nefnir Unnur það að allar breytingar taki tíma og eigi réttilega að gera það svo þær séu gerðar af réttum ástæðum og skili raunverulegum árangri. Hins vegar sé mikilvægt að skoða ekki alltaf bara hversu langt við erum komin í okkar vegferð, heldur hversu langt við viljum fara og að þar geti Ísland verið leiðandi, sem fyrirmynd fyrir önnur ríki. Halda þurfi áfram að tryggja að ekki aðeins rödd ungs fólks heyrist og sé tekið mark á henni, heldur einnig allra minnihlutahópa, jaðarsettra og þeirra sem búa ekki við þau forréttindi að geta ýtt á eftir breytingum eða tjáð sig opinberlega um málefni sem þau varða.

 

*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.

Félagið leiddi samtal UN félaganna og ungmenna við Aminu J. Mohammed, vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Þann 9. október stýrði Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi samtali UN félaganna á Íslandi (UN Women, UNICEF og Félag SÞ) við vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Aminu J. Mohammed.

UN Photo/Pier Paolo Cito – Vala Karen, framkvæmdastjóri Félagsins tekur hér á móti Aminu J. Mohammed, vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Mannréttindahúsinu þann 9. október 2023.

Fundurinn var haldinn í Mannréttindahúsinu, þar sem skrifstofur Félagsins og UN Women eru. Ungmennaráð UN Women, ungmennafulltrúi í stjórn UNICEF og ungmennafulltrúar Íslands hjá SÞ voru sérstakir gestir fundarins, en hann snerist að miklu leyti um merkingarbæra þátttöku ungs fólks, hvort sem um ræðir á vettvangi innanlands eða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að ákvarðanatöku og áhrif ungs fólks í tengslum við slík ferli. Í samtalinu mátti greina mikinn samhug og vilja til þess að taka hugrökk skref í átt til innleiðingar á heimsmarkmiðum SÞ. 

UN Photo/Pier Paolo Cito – Mikil ánægja ríkti hjá hópnum eftir uppbyggilegt og áhrifamikið samtal ungs fólks til áhrifa.

 

UN Photo/Pier Paolo Cito – Fulltrúar Félagsins, UN Women og UNICEF og ungmennafulltrúar ásamt Aminu J. Mohammed.

Umræðan snerti á fjölmörgum málefnum sem ungt fólk í dag telur mikilvægt að huga að, líkt og merkingarbæra þátttöku ungmenna og aðkomu þeirra að ákvarðanatökum en Amina benti á mikilvægi þess að ungt fólk fengi einnig mikilvægan sess í innleiðingu og útfærslu þeirra markmiða sem nú þegar hefur verið samið um að hrinda í framkvæmd. Þá lagði hún áherslu á að huga að því með hvaða hætti við gætum skapað öruggt og friðsælt nærsamfélag þar sem fólk ætti þess kost að ræða saman um þær áskoranir sem það mætir í sínu daglega lífi. Umræðan um loftslagsmál var áberandi en Amina benti á mikilvægi þess að Íslendingar sem og aðrar smáþjóðir sem hafa mikilvæga rödd í alþjóðasamfélaginu haldi áfram að vekja athygli á þeim málum sem snerta slíkar þjóðir og ekki hvað síst á þeim árangri sem náðst hefur í baráttu við loftslagsvandann.  

Þá benti hún einnig á mikilvægi þess að huga að jöfnuði á öllum sviðum og spyrja gagnrýninna spurninga á borð við hvernig lítur friður út í augum ungs fólks, hvernig lítur jöfnuður á milli norðurs og suðurs út í augum ungs fólks – hvernig heimur er betri heimur? Amina talaði um samábyrgð og mikilvægi þess að hugsa ekki um dreifingu gæða eingöngu í formi aðstoðar eða ölmusa við lönd í suðri heldur fyrst og fremst á grunni jöfnuðar og samábyrgðar.   

Unga fólkið á fundinum spurði Aminu einnig út í hvaða leiðir þeim væru færar í að koma hugmyndum sínum á framfæri og hvernig Ísland gæti haldið áfram að styðja við og styrkja alþjóðasamstarf. Amina benti á ýmsa möguleika í tengslum við menntun og nærumhverfi ungs fólks. M.a. benti hún hópnum á Youtube myndbönd Lilly Singh sem talar á mannamáli um heimsmarkmiðin við annað ungt fólk. 

Lilly Singh – YouTube

 

 

Skýrsla Mannfjöldasjóðs SÞ kynnt í Kvennaskólanum í Reykjavík

Mánudaginn 9. október var skýrsla Mannfjöldasjóðs SÞ kynnt í Kvennaskólanum í Reykjavík. Skýrslan kom út fyrr á árinu og ber heitið ‘8 billion lives, inifinite possibilities’, en er þetta í fyrsta skiptið sem skýrslan er formlega kynnt á Íslandi. Félag Sameinuðu þjóðanna sá um undirbúning kynningarinnar í samstarfi við Mannfjöldasjóð á Norðurlöndunum með stuðningi utanríkisráðuneytisins.

Kynningin var í formi samtals en Elín Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu og Klaus Simoni Pedersen frá aðalskrifstofu Mannfjöldasjóðs í New York sátu fyrir svörum í tengslum við skýrsluna, stöðu mannfjöldaþróunar í heiminum og framlag Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Fundinum var stýrt af framkvæmdastjóra Félagsins, Völu Karen Viðarsdóttir.

Þá lögðu ungir sérfræðingar hjá Mannfjöldasjóði í Malaví og Síerra Leone málinu lið, en þær Vera Jónsdóttir og Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir tóku þátt með að senda nemendum Kvennaskólans skilaboð í formi myndbandsupptöku. Þar fjölluðu þær um verkefnin sem þær vinna við í tengslum við fræðslu um kyn- og frjósemisheilsu og réttindi og helstu áskoranir sem ungt fólk í Malaví og Síerra Leone stendur frammi fyrir.

Að lokum fengu nemendur tækifæri til þess að spyrja viðmælendur spjörunum úr. Viðburðurinn heppnaðist einkar vel en þess má geta að Kvennaskólinn í Reykjavík er einn af fyrstu UNESCO-skólunum á landinu en hann hefur verið með í verkefninu frá upphafi, eða allt frá árinu 2015.

UNFPA Nordic&Baltic Nemendur Kvennaskólans halda hér á stuttri útgáfu skýrslunnar

Hvatning til UNESCO-skóla á Íslandi að halda upp á alþjóðadag lista þann 15. apríl 2024

Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) auglýsir eftir þátttöku listgreinakennara í grunn- og framhaldsskólum vegna verkefnisins ‘alþjóðadagur lista 2024’ (e. World Art Day) sem er samstarf SÍM, Bandalags íslenskra myndlistarmanna (BÍL), International Association of Art (IAA/IAIP) og UNESCO-skóla á Íslandi.

Verkefnið hefst haustið 2023 og lýkur með kynningu nemenda á Alþjóðlegum degi myndlistar 15. apríl 2024. Alþjóðadagur lista, sem UNESCO og hið alþjóðlega samband myndlistarmanna (IAA/AIAP) standa fyrir ár hvert, er haldinn til þess að vekja athygli á skapandi greinum um allan heim. Dagurinn er fæðingardagur Leonardo da Vinci en hann er táknmynd heimsfriðar, tjáningarfrelsis, sköpunar og þeirra áhrifa sem myndlist hefur á önnur svið lífsins.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem fer fyrir UNESCO-skólum á Íslandi kallar því hér með eftir þátttöku UNESCO-skóla á alþjóðlegum degi lista. Við hvetjum skólana okkar til þess að taka þátt, hvort sem um ræðir á daginn sjálfan, eða í verkefninu sem lýkur á alþjóðadegi lista.

Hafi skólinn þinn áhuga á að fá frekari upplýsingar, má hafa samband við Kristrúnu Maríu Heiðberg sem er verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi: kristrun@un.is 

UNGA78: „Aðgerðir er það sem heimurinn þarfnast“

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, gaf leiðtogum heimsins skýr skilaboð á dögunum, en í næstu viku munu þeir streyma til New York þegar ráðherravika allsherjarþingsins hefst:

„Þetta er ekki tíminn til að setja sig í stellingar. Aðgerðir er það sem heimurinn þarfnast.“

78. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kemur nú saman til að meta stöðu heimsmála og starfa í þágu almannaheilla. Á blaðamannafundi lagði Guterres áherslu á mikilvægi málamiðlanna fyrir betri framtíð og sagði jafnframt að „pólítík, diplómatísk samskipti og árangursrík forysta væri allt tegundir málamiðlana“. Benti hann þá sérstaklega á harðnandi neyðarástand í loftslagsmálum, ný átök sem geisa, hækkandi framfærslukostnað og vaxandi ójöfnuð.

“Fjölpóla heimur er í mótun. Það getur verið jafnvægisþáttur, en fjölpóla heimur getur einnig leitt til vaxandi spennu, sundrungar og enn verra ástands.”

UN Photo

Til að festa í sessi þessa nýju og flóknu heimsmynd þurfa að vera sterkar og endurbættar stofnanir sem byggja á sáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalögum. Þá lagði Guterres áherslu á að í komandi ráðherraviku væru leiðtogafundir sem fjalla meðal annars um svið loftlagsmála, heilsu og fjárfestinga í þróunarmálum en einnig verður leiðtogafundur heimsmarkmiðanna (e. SDG Summit). Nú eru átta ár frá því að markmiðin voru samþykkt og er þessi viðburður hálfleikur og snýr að því hvernig hægt sé að tryggja framgang og björgun þeirra.

„Fólk leitar til leiðtoga sinna að leiðinni út úr allri þessari óreiðu. Andspænis þessu og fleiru er landfræðileg stjórnmálaskipting að grafa undan getu okkar til að bregðast við,“ sagði Guterres. Í lokaorðum sínum sagði hann að ef framtíð friðar og velsældar sem byggist á jöfnuði og samstöðu eigi nokkurntímann að vera möguleg, að þá beri leiðtogar heimsins sérstaka ábyrgð á að ná málamiðlunum við að hanna sameiginlega framtíð okkar og að næsta vika í New York sé rétti staðurinn til að byrja.

 

Samantekt unnin úr frétt SÞ

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi gefa út íslenskt námsefni um flóttafólk

Reykjavík 12. september 2023

Hvers vegna flýr flóttafólk heimaland sitt? Hvers vegna endar flóttafólk fjarri heimalandi sínu þegar það leitar öryggis? Og hvað er það mikilvægasta sem þú myndir taka með þér, ef þú neyddist til að flýja heimili þitt vegna stríðs, ofbeldis eða ofsókna?

Í dag þurfa komandi kynslóðir að skilja og umfaðma heiminn með öllum sínum margbreytileika og áskorunum. Til þess að koma málefnum flóttafólks inn í skólastofuna á yfirvegaðan hátt – án aðgreiningar, hafa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hleypt af stokkunum yfirgripsmiklu kennsluefni á íslensku um þvingaða fólksflutninga á heimsvísu.

Markmiðið er að veita skólum og kennurum á Íslandi verkfæri, leiðbeiningar og innblástur til að fræða börn og ungmenni á Íslandi um fólk sem neyðist til að flýja heimili sín. Námsefnið mun gefa þeim sterkan grunn til þess að skilja og takast á við mikilvægar spurningar sem sumar hverjar eru í brennidepli í pólitískri og opinberri umræðu og geta jafnvel átt það til að stuðla að sundrung og fordómum gagnvart innflytjendum og flóttafólki.

Efnið býður ekki aðeins upp á lykilstaðreyndir og útskýringar á þvinguðum fólksflutningum heldur varpar það einnig ljósi á persónulegar sögur fólks, örlög þeirra og afleiðingar flóttans. Slíkt stuðlar að skilningi á þeim vanda sem steðjar að þeim hópi fólks sem neyðist til að flýja heimili sín. Þessi hópur fer því miður ört vaxandi ár frá ári en í dag eru um 110 milljónir manna á flótta um heim allan.

„Málefni flóttafólks eru til stöðugrar umræðu, í fréttum, á samfélagsmiðlum og við matarborðið. Því miður eru þessi mál umlukin mörgum ranghugmyndum og misskilningi. Börnin okkar erfa flókinn heim og því skuldum við þeim að tryggja að þau hafi réttar staðreyndir, tölur og þekkingu til að hjálpa þeim að skilja ástand og stöðu flóttamála í heiminum. Við erum afar ánægð með að geta komið þessu efni á framfæri nú í íslensku samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi“ segir Annika Sandlund, fulltrúi Flóttamannastofnunar SÞ á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.

„Við höfum heyrt frá kennurum á Íslandi að það sé veruleg vöntun á námsefni sem þessu og við erum mjög ánægð með að geta hjálpað. Vaxandi fjöldi fólks á flótta á heimsvísu er eitthvað sem við sjáum bersýnilega í íslensku samfélagi, svo að slíkt efni hefði ekki getað komið á mikilvægari tíma. Það hefur verið frábært að starfa með Flóttamannastofnun SÞ í þessu ferli og við erum ánægð að geta gefið það loksins út núna þegar skólar hefjast að nýju“, segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Íslenska efnið er aðgengilegt á netinu og er ókeypis. Það tekur mið af mismunandi aldurshópum og býður upp á teiknimyndir, stutt myndbönd og tillögur að umræðu í kennslustofunni, hópavinnu og verkefni, en felur einnig í sér markvissa handbók fyrir kennara ásamt kennsluáætlunum. Námsefnið hefur verið þróað af Flóttamannastofnun SÞ og hefur þegar verið þýtt á nokkur önnur tungumál. Íslenska útgáfan hefur verið þýdd og sniðin af Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Efnið má nálgast hér: Fræðsla um flóttafólk – UNHCR Ísland og á https://un.is/kennsluefni/kennsluefni-um-flottafolk-flottamannastofnun-sth/

Frekari upplýsingar:

Frá Flóttamannastofnun SÞ: Anders Aalbu, talsmaður fyrir Ísland, Danmörku, Eistland, Lettland og Noreg, aalbu@unhcr.org, sími: +46 707 57 6285

Frá Félagi SÞ á Íslandi: Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri, vala@un.is, sími: +354 552 6700

UN Global Compact á Íslandi í samstarfi við Félag SÞ, heldur upp á fánadag heimsmarkmiðanna þann 25. september nk.

UN Global Compact á Íslandi í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, með stuðningi forsætis- og utanríkisráðuneytisins, hvetja fyrirtæki og stofnanir sem eru aðilar að UN Global Compact til að taka þátt í fyrsta fánadegi heimsmarkmiðanna á Íslandi, mánudaginn 25. september nk. og sýna þannig stuðning sinn í verki.

United Nations Global Compact hefur frá árinu 2019 staðið fyrir því framtaki að fyrirtæki, stofnanir, samtök, sveitarfélög og skólar flaggi fána heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til að minna á mikilvægi markmiðanna.

Vinsældir þessa framtaks hafa farið ört vaxandi um allan heim og sífellt fleiri flagga fánanum árlega. Við erum meira en hálfnuð á vegferð okkar til að ná heimsmarkmiðunum og ljóst að aukinn slagkraft þarf í aðgerðir þjóða þvert á landamæri.

Hvernig á að taka þátt?
Fyrirtæki, stofnanir, skólar, samtök og sveitarfélög sem eru aðilar að UN Global Compact og/eða hafa hafið innleiðingu á heimsmarkmiðum í rekstur sinn geta tekið þátt í framtakinu. Vinsamlega hafið samband á infoiceland@unglobalcompact.is eða felag@un.is til að staðfesta þátttöku.

 

Panta fána – fyrirtæki/stofnun/sveitarfélag
Til að lágmarka kolefnisfótspor er fáninn prentaður á Íslandi. Fáninn kostar 22.500 kr. stk. og er sendingarkostnaður innifalinn í verðinu.
Hægt er að panta fána með því að senda póst á gudmundsdottir@unglobalcompact.org. Vinsamlega tilgreinið í póstinum heiti fyrirtækis/stofnunar/sveitarfélags, fjölda fána og tengilið.
Stærð fána er 150x100cm og passar á 6m fánastöng með krækju að ofan og neðan.

Panta fána – skólar og frjáls félagasamtök
Til að lágmarka kolefnisfótspor er fáninn prentaður á Íslandi.  Skólar og félagasamtök fá afslátt á fánanum með því að hafa samband við Félag Sþ á Íslandi.
Hægt er að panta/fá verð á fána með því að senda póst á felag@un.is. Vinsamlega tilgreinið í póstinum heiti skóla/félagasamtaka, fjölda fána og tengilið.
Stærð fána er 150x100cm og passar á 6m fánastöng með krækju að ofan og neðan.

Deildu þátttökunni
Þann 25. september eru þátttakendur hvattir til að deila fánadegi heimsmarkmiðanna á eigin miðlum. Leiðbeiningar (e. toolkit) með tillögum að texta, #merkingar, myndum o.fl. verða sendar eftir að þátttaka hefur verið staðfest.

Með von um góða þátttöku og stuðning við heimsmarkmiðin!

Námskeið um heimsmarkmiðin fyrir kennara haldið í þriðja sinn

Hátt í 30 kennarar tóku þátt í námskeiði um heimsmarkmiðin sem haldið var á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna í Salaskóla þann 10. ágúst sl.

Mikill áhugi var á námskeiðinu og færri sem komust að en vildu. Þetta er í þriðja sinn sem námskeiðið er haldið en kennarar á námskeiðinu voru Eva Harðardóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður félagsins, og Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi.

,,Þetta var frábær og metnaðarfullur hópur kennara sem gerir sér grein fyrir mikilvægi heimsmarkmiðanna. Það er gott að sjá hversu vel skólarnir eru að taka við sér varðandi heimsmarkmiðin,” segir Kristrún.

Á námskeiðinu, sem ætlað er fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, var farið í merkingu og markmið heimsmarkmiðanna og hvernig þau eru hugsuð út frá kennslu. Þá fengu þátttakendur í hendurnar tæki og tól til að nýta með markvissum hætti í kennslu.

Mikil ánægja var með námskeiðið, en nokkrar þeirra athugasemda sem félagið fékk sendar má lesa hér að neðan.

Þátttakendur á námskeiðinu komu allstaðar frá af landinu en mikil ánægja var meðal kennara með námskeiðið að sögn Kristrúnar, verkefnastjóra UNESCO-skóla.

,,Mér fannst námskeiðið mjög vel uppsett og vel skipulagt. Það var upplýsandi og mun hvetja mig áfram til góðra verka. Takk!”

,,Mér fannst námskeiðið mjög áhugavert, skemmtilegt og fræðandi. Ég hef lengi verið á leiðinni að kynna mér betur heimsmarkiðin og þetta námskeið var einmitt það sem mig vantaði.”

,,Takk kærlega fyrir áhugvert og vel skipulagt námskeið sem kveikti margar hugmyndir.”

Ráðherrafundur Sþ (e. HLPF) í New York 10-19. júlí

39 lönd og Evrópusambandið munu kynna landrýniskýrslur sínar að þessu sinni (e.  Voluntary National Review, VNR) og aðgerðirnar sem þau grípa til til að koma markmiðunum á framfæri á árlegum Ráðherrafundi Sþ um sjálfbæra þróun (e. High Level Political Forum) sem haldinn er í New York frá 10. til 19. júlí.

Ísland hefur sent út sína aðra landrýni (fyrsta var send árið 2019) en vanalega senda aðildaríki slíka skýrslu til Sþ á fjögurra ára fresti, eða um þrisvar sinnum á tíma heimsmarkmiðanna sem gilda frá 2016-2030.

Sendinefnd Íslands fer út til New York undir lok þessarar viku og mun kynna landrýnina þann 18. júlí næstkomandi klukkan 19:05 á íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með í beinu streymi í link sem settur verður inn á viðburðinn hér: https://www.facebook.com/events/857528628698545 en einnig er hægt að fylgjast með inn á UN Web TV: https://media.un.org/en/webtv

Mælendur í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna þann 18. júlí verða:

  •  Eggert Benedikt Guðmundsson, leiðtogi sjálfbærrar þróunar hjá forsætisráðuneytinu
  •  Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar
  •  Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem fulltrúi borgarasamfélagsins (e. civil society)

Í skýrslunni er fjallað um innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi. Þar er einnig umfjöllun um smitáhrif (e. spillover effects) Íslands, sem unnin var af Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands. Þar er átt við þau áhrif sem aðgerðir innanlands geta haft á getu annarra landa til þess að ná heimsmarkmiðunum. Stjórnvöld munu standa fyrir sérstökum hliðarviðburði um smitáhrif í tengslum við ráðherrafundinn í New York í júlí.

Í skýrslunni er að finna stöðumat stjórnvalda sem nálgast má á mælaborði á vefsíðu heimsmarkmiðanna á Íslandi hér: https://www.heimsmarkmidin.is/forsida/maelabord/

Til samanburðar er í skýrslunni einnig stöðumat frjálsra félagasamtaka, sem er nýjung frá því að fyrsta skýrslan var birt árið 2019 og var sú vinna einmitt leidd áfram af Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Skýrslan er afrakstur víðtæks samráðs og samstarfs ýmissa hagaðila og var skrifuð af samráðsvettvanginum Sjálfbæru Íslandi. Í henni er einnig að finna kafla sem skrifaðir voru af Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Skýrsluna má nálgast í gagnvirku formi hér: https://www.heimsmarkmidin.is/vnr2023 ATH! Aðeins er hægt að nálgast enska útgáfu eins og er.

Herferð í tengslum við heimsmarkmiðin hefur verið hleypt af stokkunum og munu þau fá mikið vægi í allri kynningarstarfsemi Félagsins, sem og Sameinuðu þjóðunum út júlí mánuð. Lesa má meira um málið á vefsíðu Upplýsingaskrifstofu Sþ fyrir V-Evrópu: https://unric.org/is/sameinudu-thjodirnar-hvetja-til-brynna-adgerda-i-thagu-heimsmarkmidanna/

Þar sem árið 2023 markar miðpunkt innleiðingar heimsmarkmiðanna mun þessi vettvangur Ráðherrafundarins í ár gegna lykilframlagi undirbúnings fyrir svokallaða heimsmarkmiðaráðstefnu (e. SDG Summit) sem haldin verður 18.-19. september á þessu ári. Þemað verður “Að flýta fyrir bata eftir heimsfaraldurinn (COVID-19) og framkvæmd Agenda 2030 um sjálfbæra þróun á öllum stigum”. Markmiðin í brennidepli verða:

  • markmið 6 um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu,
  • markmið 7 um hreina orku á viðráðanlegu verði,
  • markmið 9 um iðnað, nýsköpun og innviði,
  • markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög og
  • markmið 17 um samstarf um heimsmarkmiðin

Heimsmarkmiðin í Háskóla unga fólksins

Dagana 12.-16. júní fór fram Háskóli unga fólksins í Háskóla Íslands en um er að ræða árlegan viðburð fyrir krakka 12-14 ára. Þessa viku fá krakkarnir sem sækja skólann að velja út fjölda glæsilegra námskeiða sem eru í boði og er skóladagurinn á milli 9:00-12:00 og hver kennslustund um 90 mínútur.

©Kristinn Ingvarsson – Kristrún María, verkefnastjóri UNESCO-skóla var annar kennara á námskeiðinu og ræðir hér um markmið 6 við nemendur.
©Kristinn Ingvarsson – Vala Karen, framkvæmdastjóri félagsins var annar tveggja kennara á námskeiðinu.

Háskólinn lét taka saman myndskeið yfir vikuna og má afraksturinn sjá hér:

 

Í ár tók Félag Sameinuðu þjóðanna þátt og hélt námskeiðið ‘Heimsmarkmiðin og ég’, þar sem krakkarnir fengu stutta kynningu á heimsmarkmiðum Sþ um sjálfbæra þróun, sáu nokkur myndbönd og tóku þátt í umræðum um vanda og lausnir í tengslum við þau. Þá var sérstaklega tekið fyrir það hvernig ungt fólk getur haft áhrif og einblínt var á krakkana sjálfa, hvað þau geta gert og hvað þau vilja gera. Þá voru unnin hópaverkefni þar sem nemendur völdu sér markmið og ræddu sín á milli lausnir og ráð til þess að tryggja að því tiltekna markmiði verði náð og hvað þeim þykir skipta máli í tengslum við það.

Námskeiðin sem haldin voru um markmiðin voru átta talsins þessa vikuna og voru troðfull af áhugasömum nemendum sem höfðu sterkar skoðanir og áttu sér stað afar skemmtilegar umræður. Brot af þeim verkefnum sem unnin voru af nemendunum má sjá hér að neðan.

 

Heimsmarkmið 4. 1. Hvetja fleira fólk að gerast kennarar. 2. Fleiri skólar. 3. Bæta aðstöðu nemenda í skólum. 4. Menntun á að vera frí fyrir öll. 5. Hækka laun kennara.
Heimmsarkmið 2. 1. Setja minna á diskinn og fá sér frekar aftur. 2. Rækta matvæli sjálfur. 3. Gefa með sér mat. 4. Engin matarsóun. 5. Velja íslenska framleiðslu á matvælum.
Markmið 13. 1. Minnka flug undir 30 mínútur. 2. Borða meira grænmeti og minna kjöt. 3. Nota umhverfisvænni ferðamáta. 4. Fjölga grænum svæðum.
Markmið 1. 1. Frítt í tómstundir á skólatíma/lækka verð á tómstundum. 2. Bjóða upp á morgunmat í skólum. 3. Ókeypis nauðsynjavörur, t.d. lækka verð á tíðarvörum. 4. Ókeypis skólagögn og skólamatur fylgir öllum nemendum í skólum. 5. Standa með fátæku fólki og berjast fyrir réttindum þeirra.
Markmið 16. 1. Ekkert stríð, 2. Engin stríðni, 3. Allir eru jafningjar, 4. Sýnum öllum lífverum virðingu, 5. Ofbeldi er aldrei svarið. Markmið 6. 1. Notum vatnið rétt, 2. Öll hafi aðgengi að hreinu vatni, 3. Mengum minna, 4. Hvetja stærri tæknifyrirtæki til þess að fjárfesta í vatnshreinsikerfum í löndum þar sem aðgengi er aðeins að skítugu vatni til þess að tryggja örugga neyslu vatns. 5. Ekki henda eins miklu og alls ekki í hafið. 6. Fræða almenning um mikilvægi verndun og hreinsun vatns, 6. Taka frumkvæði til þess að fræðast meira og krefja okkur til betri umhugsun í málaflokknum.
Markmið 11. 1. Auka notkun rafbíla og auka aðgengi hleðslustöðva. 2. Flytja vörur og fólk með skipum knúnum af raf- og hreyfiorku. 3. Bæta almenningssamgöngur. 4. Fleiri hjóla- og göngustíga, 5. Bæta við römpum um allan bæ. 6. Fleiri græn svæði, 7. Nýta þök fyrir garða í þéttbýli. 8. Lokuð vistæn svæði um borgina. 9. Nota náttúrulega orku, líkt og sólarsellur og vindmyllur. Leggjað lokum fram frumvarp á Alþingi og kynna málið fyrir ríkisstjórn.
Markmið 12. 1. Ekki sóa mat, 2. Flokka rusl, 3. Endurnýja föt, 4. Kaupa ekki óþarfa, 5. Kaupa frekar sjálfbærari vörur, 6. Ekki henda rusl/plasti í náttúrunni, 7. Auka fræðslu, 8. Styðja fyrirtæki í heimabyggð. Markmið 5. 1. Öll kyn fá jafnt borgað fyrir sömu vinnu, 2. Öll fá að ganga í skóla og fá menntun, 3. Öll mega klæða sig eins og þau vilja, 4. Öll geta fengið bílpróf. Markmið 10. 1. Öll gefa ákveðinn hluta af launum sínum til fátækra, 2. Öll fá að mennta sig.