Íslensk stjórnvöld þurfa að tryggja raunverulega inngildingu ungmenna, segir ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði loftslagsmála

Unnur Þórdís Kristinnsdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála á leiðtogaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 26. apríl sl.

Unnur Þórdís starfar í sjálfbærnimálum hjá Controlant og hefur tekið þátt í ungmennastarfi CISV (Children International Summer Village) sem hefur það markmið að sameina þjóðir í átt að betri heimi. Síðustu ár hefur hún einnig tekið virkan þátt í starfi UAK (Ungra athafnakvenna) en hún var einmitt kjörin í stöðu ungmennafulltrúans fyrir hönd þeirra.

Unnur Þórdís er þriðji ungmennafulltrúinn sem hlotið hefur kjör á sviði loftslagsmála. Hún flaug til Dúbæ í lok nóvember sl. sem hluti af íslenskri sendinefnd til þess að sækja 28. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28 (e. Conference of the Parties) sem haldin er árlega, eða allt frá árinu 1995.

Unnur Þórdís, ungmennafulltrúi á sviði loftslagsmála á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Dúbæ dagana 30. nóvember-13. desember 2023.

Þegar Unnur Þórdís var spurð hvað standi upp úr í öllu ferlinu eftir kosningu nefnir hún viðburðina tvo sem hún hefur sótt fyrir hönd íslenskra ungmenna á árinu. Á fundi sem hún sótti í haust í UN City í Kaupmannahöfn þar sem fjöldi ungmennafulltrúa kom saman fékk hún frekari innsýn í megináherslur ungmenna í loftslagsmálum en þar var sérstök áhersla lögð á kynjajafnrétti í tengslum við loftslagvána. Þá mynduðu ungmennafulltrúarnir á sviði loftslagsmála í kjölfarið sér sameiginlega stefnu til þess að senda sterkari og skýrari skilaboð á loftslagsráðstefnunni í Dúbæ. Mikil samheldni um sterkari loftslagaðgerðir á meðal ungmenna einkenndi andann á ráðstefnunni að hennar mati, en fleiri þúsundir sóttu ráðstefnuna nú í desember, þar á meðal um 90 íslenskir fulltrúar líkt og kom fram í frétt Upplýsingaskrifstofu SÞ fyrir V-Evrópu nú í desember.

Aðkoma ungmenna á COP28 er gríðarlega mikilvæg þar sem framtíð þessa hóps er í húfi, það þarf að brúa bilið á milli aldurshópa til að mæta öllum skoðunum.

Að sögn Unnar er þátttaka ungs fólks mikilvæg á viðburðum líkt og COP, þá einkum í ljósi þess að í húfi er framtíð þeirra. Svo hægt sé að mæta öllum skoðunum sé einnig nauðsynlegt að brúa enn frekar bilið á milli aldurshópa, svo hægt verði að tryggja ólíkar þarfir þeirra til lengri tíma.

Á viðburðunum hitti ég ungmenni frá öllum hornum heimsins. Allt frá smáeyjalöndum í Kyrrahafi til landa í Asíu og Afríku. Einnig höfðu ungmennafulltrúar Evrópulandanna fundað reglulega í streymi yfir árið og hisst í persónu í Kaupmannahöfn til stefnumótunnar fyrir COP28.

Spurð út í það hvað stjórnvöld á Íslandi geti gert til þess að tryggja aðkomu ungmenna í ákvarðanatöku og stefnumótun, nefnir Unnur að það sé afar mikilvægt að Ísland dragi ekki úr núverandi fyrirkomulagi heldur tryggi og auki frekari aðkomu og þátttöku ungmenna, bæði hérlendis og í alþjóðastarfi. Ótal tækifæri séu fólgin í því og það muni aðeins efla og bæta ásýnd Íslands. Unnur telur þekkingu sína hafa aukist enn frekar síðastliðið ár en þó væru enn ákveðnir vankantar á hlutverki ungmennafulltrúa sem mættu betur fara til þess að tryggja raunverulega inngildingu ungmenna. Ekki sé einungis nóg að tryggja aðkomu ungs fólks, heldur þurfi að bæta raunverulega þátttöku og tækifæri þeirra til þess að hafa áhrif. Til dæmis nefnir hún að styrkja mætti ungmennafulltrúa verkefnið á þá vegu að hægt væri að þjálfa ungt fólk í samningaviðræðum með svokölluðu ‘Youth Negotiator Program’, þá geti sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum spreytt sig enn frekar, nýtt sína sérfræðikunnáttu og þannig nýst betur íslenskum sendinefndum.

Að lokum nefnir Unnur að ‘junior-senior kerfi’ ungmennafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum þyrfti að virkja enn frekar með því að tryggja fjármögnun til að senda báða fulltrúa á viðburði tengda málefnasviðum þeirra. ‘Junior-senior’ prógramið er nýtt kerfi sem LUF tók upp í fyrra til þess að tryggja betri handleiðslu nýkosinna fulltrúa, svo meðal annars sé hægt að tryggja samfellu verkefnisins og að þekking og reynsla fyrri fulltrúa nýtist þeim sem taka við keflinu.

Unnur ásamt hluta íslensku sendinefndarinnar, meðal annars forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur.

 

****Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.  
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.****

Öryggisráðið reiðubúið til að greiða atkvæði um ályktun um Gaza þar sem kallað er eftir brýnu, öruggu og óhindruðu flæði hjálpargagna

Eftir miklar samningaviðræður alla vikuna bak við luktar dyr í öryggisráðinu þar sem fimmtán ríki hafa sæti, héldu sendiherrar áfram viðræðum fram á fimmtudagskvöld um nýjustu útgáfu af drögum að ályktun sem Sameinuðu arabísku furstadæmin skrifuðu þar sem kallað er eftir brýnum aðgerðum til að leyfa örugga og óhindraða afhendingu hjálpargagna til óbreyttra borgara á Gazasvæðinu. Bandaríkin sögðust myndu styðja nýjustu drögin ef textinn héldist óbreyttur, en búist er við atkvæðagreiðslu í dag, föstudag. Upphaflega var búist við niðurstöðu sl. miðvikudag.

Önnur ríki sem hafa sæti í öryggisráðinu hafa ítrekað reynt að fá Bandaríkin til að styðja við enn frekari endurskoðun ályktunarinnar sem vonast er til að hraði bæði flæði og afhendingu hjálpargagna. Miklar takmarkanir hafa verið á neyðaraðstoð og dreifing hjálpargagna hefur verið sífelld áskorun en stigvaxandi hungur er á svæðinu. Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, hefur ítrekað hversu nauðsynlegt það er að koma á tafarlausu og langvarandi vopnahléi til þess að binda enda á dráp á börnum og fjölskyldum á Gaza.

Bandaríkin beittu neitunarvaldi á síðustu útgáfu ályktunarinnar sem kom til atkvæðagreiðslu þann 8. desember sl., sem var þess valdandi að allsherjarþingið hélt umræður og atkvæðagreiðslu þar sem yfirngnæfandi hluti aðildarríkja kusu með vopnahlé þann 12. desember.

Þau tíu ríki sem nú hafa sæti í öryggisráðinu fyrir utan þau fimm ríki (Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Rússland og Kína) sem hafa varanlegt sæti og afneitunarvald (e. veto power) eru: Albanía, Brasilía, Ekvador, Gabon, Gana, Japan, Malta, Mósambík, Sviss, Sameinuðu arabísku furstadæmin)

UN Photo/Loey Felipe – Frá fundi öryggisráðsins þann 8. desember 2023

Mér þótti gott að fá áminningu um að víkka sjóndeildarhringinn, hlusta og skilja sjónarmið og raunveruleika annars fólks og þannig styðja hvort annað af einlægni, segir ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ á sviði mennta, vísinda og menningar

Isabel Alejandra Diaz var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar á fundi leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 24. janúar sl.

Isabel býr yfir mikilli reynslu af réttindabaráttu ungs fólks en hún hefur setið fyrir hönd Röskvu í háskólaráði Háskóla Íslands auk þess að sinna hlutverki forseta Stúdentaráðs HÍ 2020-2022. Þá hefur hún starfað sem verkefnastjóri Tungumálatöfra, námskeiðs fyrir börn með ólíkan menningarbakgrunn til að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu ásamt því að hafa setið í hinum ýmsum hópum á sviði mennta, menningar- og félagsmála.

Isabel er fyrsti íslenski ungmennafulltrúinn á sviði mennta, vísinda og menninga, en samhliða hlutverki sínu sem ungmennafulltrúi situr hún einnig í íslensku UNESCO nefndinni. Isabel flaug til Parísar nú í nóvember sem hluti af íslenskri sendinefnd til þess að sækja 42. aðalráðstefnu UNESCO en hún er öllu jafna haldin annað hvert ár. Í sömu ferð, sótti hún einnig ungmennaþing UNESCO (e. UNESCO Youth Forum) þar sem þema þingsins í ár var umhverfis- og loftslagsmál; samfélagsleg áhrif loftslagsvárinnar og nauðsyn þess að tryggja réttlátt umskipti tækifæra og byrða loftslagsbreytinga.

Þegar Isabel var spurð hvað stóð upp úr í ferð sinni til Parísar nefndi hún opnunarhátíð ungmennaþingsins. Þar hafi nokkrir aktívistar verið fengnir til að ávarpa þingið, þ.á.m. Alice Pataxó frá Brasilíu sem fjallaði um loftslagsmál frumbyggja í heimalandinu og Jan Kariel frá Filippseyjum sem lifði af ofurfellibylinn Yolanda árið 2013.

Það var í raun ótrúlegt að hlýða á frásagnir þessara aktívista sem hafa sjálf mætt áskorunum vegna loftslagstengdra hamfara og upplifað afleiðingarnar á eigin skinni. Það var mikill drifkraftur í þeim og framsögur þeirra einskonar vitnisburður um það mikilvæga hlutverk sem ungt fólk fer með í baráttunni gegn loftslagsvánni; til að knýja fram sanngjörn umskipti og standa vörð um sameiginlega framtíð okkar

Ótal mörg ungmenni voru viðstödd þingið en samtals voru í kringum 166 ungmennafulltrúar frá yfir 147 löndum að sögn Isabel. Ungmennaþing UNESCO hefur það að markmiði að veita ungu fólki með ólíkan bakgrunn vettvang til þess að ræða málefni sem eru í brennidepli, deila reynslu sinni og hugmyndum og jafnframt skapa öruggt rými til rökræðna. Ennfremur nefndi hún að mörg þeirra ungmenna sem saman voru komin þarna hefðu verið sammála um að vettvangurinn veitti einstakt tækifæri til þess að stuðla að samstöðu í loftslagsbaráttunni.

Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði menntunar, vísinda og menningar á aðalráðstefnu UNESCO í nóvember 2023, með sendinefnd Íslands.

Þegar Isabel var spurð um þátttöku ungs fólks á viðburðum líkt og þessum sagði hún aðkomu þeirra nauðsynlega og lykilatriði í því að fá heildstæðari sýn á það hvernig ungt fólk getur beitt sér, sýnt frumkvæði og háttað samstarfi milli landa, stofnana eða samtaka

Mér þótti gott að fá áminningu um að víkka sjóndeildarhringinn, hlusta og skilja sjónarmið og raunveruleika annars fólks og þannig styðja hvort annað af einlægni.

Að lokum segir Isabel mikla vigt fylgja aðild Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum:

Það skiptir sköpum að Ísland eigi sína fulltrúa, og þar eru fulltrúar í málefnum ungs fólks engin undantekning. Það er okkur til hagsbóta að miðla þekkingu áfram þar sem við
getum eða höfum tök á, en einnig að sækja okkur hana frá öðrum og nýta til góðra verka. Hvernig það gengur fyrir sig eða ber árangur fer svo náttúrulega alfarið eftir því hversu móttækileg stjórnvöld í hverju landi fyrir sig eru. Það breytir því ekki að hlutverk okkar ungmennafulltrúa er að vera rödd gagnvart þar til bærum stjórnvöldum enda verðum við að krefjast úrbóta fyrir réttlátara samfélag.

*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.

Félag Sameinuðu þjóðanna efnir til samkeppni fyrir ungt fólk

Félag Sameinuðu þjóðanna fagnar 75 ára afmæli á árinu og efnir af því tilefni til samkeppni á meðal ungs fólks í 8. – 10. bekk í grunnskólum og í framhaldsskólum um mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í tengslum við mannréttindi og frið í heiminum. Um ræðir endurvakningu á yfir 50 ára gamalli samkeppni sem síðast var haldin árið 1970!

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi ásamt Icelandair leitar eftir hugmyndum ungs fólks um það með hvaða hætti heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna stuðla að mannréttindum og friði í heiminum.

Tillögur á öllum tungumálum eru velkomnar. Hugmyndum má skila í mynd- og/eða ritmáli. Texti má vera vélritaður eða handskrifaður, lágmarks orðafjöldi er 200 orð. Verkið getur þannig t.d. verið skoðanagrein, pistill, örsaga, prósaljóð, myndaritgerð, myndskýrsla eða myndasaga.

Litið verður sérstaklega til þess að verkefnin endurspegli persónulega sýn þátttakenda.

Innsendingarform: PDF, JPEG eða PNG.

Öllum tillögum skal skila inn rafrænt á netfangið felag@un.is ásamt upplýsingum um nafn, skóla, aldur, netfang og símanúmer. Skilafrestur er til og með 31. desember 2023.

*Tilkynnt verður um sigurvegara um miðjan janúar 2024.

 

Fyrstu verðlaun

Tveir verðlaunahafar vinna flug og gistingu með Icelandair í New York ásamt forráðamanni, kynnast starfsemi fastanefndar Íslands og heimsækja höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

Fleiri verðlaun

Veglegar bókagjafir frá Angústúru, Bose flex hátalari frá Origo, leikhúsmiðar í Borgarleikhúsið, áskriftir hjá Storytel.

Dómnefnd skipa:

  • Eliza Reid, forsetafrú, verndari Félags Sþ og formaður dómnefndar
  • Eva Harðardóttir, formaður Félags Sþ
  • Rán Flygenring, mynd- og rithöfundur
  • Ómar Azfar Valgerðarson Chattha, fulltrúi barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sþ
  • Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er 19. UNESCO-skólinn á Íslandi!

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er nýjasti UNESCO-skólinn á Íslandi

Alls eru UNESCO-skólar hér á landi því orðnir 19 talsins. Einn leikskóli, sjö grunnskólar og 11 framhaldsskólar.
Sérstök þemavika um heimsmarkmiðin var haldin í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í byrjun sept. Þemavikan hófst á því að Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla, kom í heimsókn og hélt fyrirlestur um heimsmarkmiðin fyrir nemendur og starfsfólk skólans.
UNESCO-skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12 þúsund talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim.
UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi, auk þess að styðja við grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá.
Mikill kraftur hefur verið í starfi UNESCO-skóla undanfarin ár og aukinn áhugi skóla hér á landi að taka þátt.
Á myndinni má sjá Hrafnhildi Hallvarðsdóttur, skólastjóra FSN, ásamt hópi nemenda skólans með UNESCO-skírteinið.
Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á: https://un.is/unesco-skolar/

Velkominn í hópinn Fjölbrautaskóli Snæfellinga!

Opið fyrir umsóknir í barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra fer með skipun ráðsins en óskað er eftir börnum sem eru tilbúin að sitja í ráðinu í tvö ár, frá og með janúar 2024.
Í ungmennaráðinu sitja tólf börn og skulu þau vera 13-18 ára á meðan á skipunartímabilinu stendur. Öll börnin í ráðinu skulu því vera fædd á árunum 2008-2011.
Frábært tækifæri fyrir öll sem vilja koma sjónarmiðum barna á framfæri og vinna með málefni tengd heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun!

Hægt er að sækja um  hér, til og með 13. nóvember.

Frekari upplýsingar:

 

Takmörkuðum árangri náð ef ungmenni eru ekki höfð með í samtalinu um þeirra framtíð, segir ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda

Unnur Lárusdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda á Sambandsþingi Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 25. febrúar 2023 sl.

Hefð er fyrir því að ungmennafulltrúi á sviði mannréttinda sé hluti af sendinefnd Íslands sem fer á ráðherravikuna í upphafi nýs allsherjarþings í september eða þegar nefndarvinnan hefst. Unnur fór til New York nú í september í ráðherravikunni við upphaf 78. allsherjarþingsins (e. UNGA78), þar sem leiðtogar ríkja flyktust að, en um er að ræða eina stærstu diplómatísku viku ársins. Talsvert mikið var um stærri fundi sem Unnur hafði tækifæri til að sækja, en allir sneru að mikilvægum málefnum sem alþjóðasamfélagið þarf að takast á við í sameiningu, líkt og efling fjáröflunar til þróunarmála, útrýming berkla, sjálfbær þróun samfélaga o.fl.

Þegar Unnur var spurð hvað stóð upp úr í ferð sinni á UNGA78 þótti henni erfitt að nefna eittvað eitt sem stæði upp úr en sagði að fundur UN Women hafi snert sig djúpt.

 Fundurinn varðaði ‘kynja aðskilnaðarstefnu’ (e. Gender Apartheid) í Afghanistan þar sem rætt var um mannréttindi kvenna í landinu og hvernig konur og stúlkur þar upplifa daglega mannréttindabrot. Það snerti mig djúpt bæði að hitta konur sem sögðu frá sinni eigin reynslu af mannréttindabrotum, og að sjá hvernig alþjóðasamfélagið kom saman og ræddi málefnið. Mér þótti mikilvægt að sjá það með berum augum, fólk að koma saman allstaðar að úr heiminum og sýna samstöðu.

Þá sagðist Unnur hafa verið upplifun út af fyrir sig að fá að sitja opnun almennrar umræðu (e. General Debate) og yfir höfuð að vera stödd í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna umkringd fólki sem deilir sömu ástríðu og hún sjálf. Unnur brennur fyrir málefnum mannréttinda og jafnréttis og hefur lengi gert en hún hefur meðal annars verið í stjórn ungmennaráðs UN Women á Íslandi og starfað fyrir UNICEF á Íslandi.

Mynd: Unnur Lárusdóttir/ Unnur Lárusdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda á UNGA78 í september 2023.

Vera Unnar í New York stóð yfir í rúma viku en fyrir utan stranga fundarsetu í ólíkum sölum og herbergjum Sameinuðu þjóðanna fékk hún tækifæri til þess að hitta norræna kollega sem einnig gegna stöðu ungmennafulltrúa hjá SÞ. Samstarf þeirra á milli telur hún vera bæði mikilvægt og nauðsynlegt svo hægt sé að bera saman bækur sínar, ræða upplifun og ólík tækifæri, þá sérstaklega til framtíðar svo hægt sé að tryggja raunverulega inngildandi þátttöku ungs fólks og að Norðurlönd hafi sterka rödd saman. Þegar Unnur var spurð um þátttöku ungs fólks á viðburðum líkt og UNGA telur hún mikilvægt að stjórnvöld hugi vel að aðkomu sem slíkri og tryggi ungmennafulltrúum raunverulegt sæti við borðið.

Almennt er aðkoma ungs fólks að málefnum sem þau varða mikilvæg og ætti þátttaka ungs fólks að vera enn betur tryggð hér á landi. Hvað UNGA varðar og þá sérstaklega ráðherravikuna að þá átta ég mig á því að það það sé mjög erfitt að tryggja almenna þátttöku ungmennafulltrúa á þeim tímapunkti og á það ekki endilega alltaf við en hvað UNGA almennt varðar er nauðsynlegt að rödd ungs fólks heyrist þegar ólík málefni eru rædd, þá sérstaklega jafnréttismál, mannréttindi og sjálfbærni og mark sé tekið á þeirri rödd.

Hvað varðar aðkomu ungs fólks í ákvarðanatöku, hvort sem á við um á Íslandi og/eða á alþjóðavísu sagði Unnur að nauðsynlegt væri að auka skilning í samfélaginu um það hvers vegna þátttaka ungs fólks sé nauðsynleg og að brjóta þurfi niður þá hugmynd að börn og ungt fólk hafi ekki nóg fram að færa og búi ekki yfir nægilegri reynslu svo hægt sé að taka mark á hugmyndum og ráðleggingum þeirra.

Yfir heildina litið er bara mikilvægt að líta til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðanna og átta sig á því að það er verulega takmarkað hvaða árangri hægt er að ná ef unga fólkið sem mun þurfa að takast á við áskoranir framtíðarinnar, eru ekki höfð með í samtalinu um þeirra framtíð.

Undir lokin nefnir Unnur það að allar breytingar taki tíma og eigi réttilega að gera það svo þær séu gerðar af réttum ástæðum og skili raunverulegum árangri. Hins vegar sé mikilvægt að skoða ekki alltaf bara hversu langt við erum komin í okkar vegferð, heldur hversu langt við viljum fara og að þar geti Ísland verið leiðandi, sem fyrirmynd fyrir önnur ríki. Halda þurfi áfram að tryggja að ekki aðeins rödd ungs fólks heyrist og sé tekið mark á henni, heldur einnig allra minnihlutahópa, jaðarsettra og þeirra sem búa ekki við þau forréttindi að geta ýtt á eftir breytingum eða tjáð sig opinberlega um málefni sem þau varða.

 

*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.

Félagið leiddi samtal UN félaganna og ungmenna við Aminu J. Mohammed, vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Þann 9. október stýrði Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi samtali UN félaganna á Íslandi (UN Women, UNICEF og Félag SÞ) við vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Aminu J. Mohammed.

UN Photo/Pier Paolo Cito – Vala Karen, framkvæmdastjóri Félagsins tekur hér á móti Aminu J. Mohammed, vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Mannréttindahúsinu þann 9. október 2023.

Fundurinn var haldinn í Mannréttindahúsinu, þar sem skrifstofur Félagsins og UN Women eru. Ungmennaráð UN Women, ungmennafulltrúi í stjórn UNICEF og ungmennafulltrúar Íslands hjá SÞ voru sérstakir gestir fundarins, en hann snerist að miklu leyti um merkingarbæra þátttöku ungs fólks, hvort sem um ræðir á vettvangi innanlands eða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að ákvarðanatöku og áhrif ungs fólks í tengslum við slík ferli. Í samtalinu mátti greina mikinn samhug og vilja til þess að taka hugrökk skref í átt til innleiðingar á heimsmarkmiðum SÞ. 

UN Photo/Pier Paolo Cito – Mikil ánægja ríkti hjá hópnum eftir uppbyggilegt og áhrifamikið samtal ungs fólks til áhrifa.

 

UN Photo/Pier Paolo Cito – Fulltrúar Félagsins, UN Women og UNICEF og ungmennafulltrúar ásamt Aminu J. Mohammed.

Umræðan snerti á fjölmörgum málefnum sem ungt fólk í dag telur mikilvægt að huga að, líkt og merkingarbæra þátttöku ungmenna og aðkomu þeirra að ákvarðanatökum en Amina benti á mikilvægi þess að ungt fólk fengi einnig mikilvægan sess í innleiðingu og útfærslu þeirra markmiða sem nú þegar hefur verið samið um að hrinda í framkvæmd. Þá lagði hún áherslu á að huga að því með hvaða hætti við gætum skapað öruggt og friðsælt nærsamfélag þar sem fólk ætti þess kost að ræða saman um þær áskoranir sem það mætir í sínu daglega lífi. Umræðan um loftslagsmál var áberandi en Amina benti á mikilvægi þess að Íslendingar sem og aðrar smáþjóðir sem hafa mikilvæga rödd í alþjóðasamfélaginu haldi áfram að vekja athygli á þeim málum sem snerta slíkar þjóðir og ekki hvað síst á þeim árangri sem náðst hefur í baráttu við loftslagsvandann.  

Þá benti hún einnig á mikilvægi þess að huga að jöfnuði á öllum sviðum og spyrja gagnrýninna spurninga á borð við hvernig lítur friður út í augum ungs fólks, hvernig lítur jöfnuður á milli norðurs og suðurs út í augum ungs fólks – hvernig heimur er betri heimur? Amina talaði um samábyrgð og mikilvægi þess að hugsa ekki um dreifingu gæða eingöngu í formi aðstoðar eða ölmusa við lönd í suðri heldur fyrst og fremst á grunni jöfnuðar og samábyrgðar.   

Unga fólkið á fundinum spurði Aminu einnig út í hvaða leiðir þeim væru færar í að koma hugmyndum sínum á framfæri og hvernig Ísland gæti haldið áfram að styðja við og styrkja alþjóðasamstarf. Amina benti á ýmsa möguleika í tengslum við menntun og nærumhverfi ungs fólks. M.a. benti hún hópnum á Youtube myndbönd Lilly Singh sem talar á mannamáli um heimsmarkmiðin við annað ungt fólk. 

Lilly Singh – YouTube

 

 

Skýrsla Mannfjöldasjóðs SÞ kynnt í Kvennaskólanum í Reykjavík

Mánudaginn 9. október var skýrsla Mannfjöldasjóðs SÞ kynnt í Kvennaskólanum í Reykjavík. Skýrslan kom út fyrr á árinu og ber heitið ‘8 billion lives, inifinite possibilities’, en er þetta í fyrsta skiptið sem skýrslan er formlega kynnt á Íslandi. Félag Sameinuðu þjóðanna sá um undirbúning kynningarinnar í samstarfi við Mannfjöldasjóð á Norðurlöndunum með stuðningi utanríkisráðuneytisins.

Kynningin var í formi samtals en Elín Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu og Klaus Simoni Pedersen frá aðalskrifstofu Mannfjöldasjóðs í New York sátu fyrir svörum í tengslum við skýrsluna, stöðu mannfjöldaþróunar í heiminum og framlag Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Fundinum var stýrt af framkvæmdastjóra Félagsins, Völu Karen Viðarsdóttir.

Þá lögðu ungir sérfræðingar hjá Mannfjöldasjóði í Malaví og Síerra Leone málinu lið, en þær Vera Jónsdóttir og Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir tóku þátt með að senda nemendum Kvennaskólans skilaboð í formi myndbandsupptöku. Þar fjölluðu þær um verkefnin sem þær vinna við í tengslum við fræðslu um kyn- og frjósemisheilsu og réttindi og helstu áskoranir sem ungt fólk í Malaví og Síerra Leone stendur frammi fyrir.

Að lokum fengu nemendur tækifæri til þess að spyrja viðmælendur spjörunum úr. Viðburðurinn heppnaðist einkar vel en þess má geta að Kvennaskólinn í Reykjavík er einn af fyrstu UNESCO-skólunum á landinu en hann hefur verið með í verkefninu frá upphafi, eða allt frá árinu 2015.

UNFPA Nordic&Baltic Nemendur Kvennaskólans halda hér á stuttri útgáfu skýrslunnar

Hvatning til UNESCO-skóla á Íslandi að halda upp á alþjóðadag lista þann 15. apríl 2024

Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) auglýsir eftir þátttöku listgreinakennara í grunn- og framhaldsskólum vegna verkefnisins ‘alþjóðadagur lista 2024’ (e. World Art Day) sem er samstarf SÍM, Bandalags íslenskra myndlistarmanna (BÍL), International Association of Art (IAA/IAIP) og UNESCO-skóla á Íslandi.

Verkefnið hefst haustið 2023 og lýkur með kynningu nemenda á Alþjóðlegum degi myndlistar 15. apríl 2024. Alþjóðadagur lista, sem UNESCO og hið alþjóðlega samband myndlistarmanna (IAA/AIAP) standa fyrir ár hvert, er haldinn til þess að vekja athygli á skapandi greinum um allan heim. Dagurinn er fæðingardagur Leonardo da Vinci en hann er táknmynd heimsfriðar, tjáningarfrelsis, sköpunar og þeirra áhrifa sem myndlist hefur á önnur svið lífsins.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem fer fyrir UNESCO-skólum á Íslandi kallar því hér með eftir þátttöku UNESCO-skóla á alþjóðlegum degi lista. Við hvetjum skólana okkar til þess að taka þátt, hvort sem um ræðir á daginn sjálfan, eða í verkefninu sem lýkur á alþjóðadegi lista.

Hafi skólinn þinn áhuga á að fá frekari upplýsingar, má hafa samband við Kristrúnu Maríu Heiðberg sem er verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi: kristrun@un.is