Rafræn vinnustofa fyrir ungt fólk verður haldin mánudaginn 2. september kl. 17:00-18:00.
Á vinnustofunni mun ungt fólk ræða hugmyndir og ráðleggingar hvernig hægt sé að beita hagsmunagæslu til þess að stuðla að heildrænni umbreytingu í þágu sjálfbærrar þróunar. Stuðst verður við gögn sem ungt fólk og borgarasamfélagið á Íslandi lagði fram í landrýniskýrslu Íslands til Sameinuðu þjóðanna árið 2023.
Vinnustofan er hluti af Norden 0-30 samstarfsverkefni Félaga Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð ásamt Sillamae samtökunum í Eistlandi með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni,
Vinnum saman!
Skráning á vinnustofuna fer fram hér . Eftir skráningu fá þátttakendur sendan Teams link.
Hátt í 30 kennarar tóku þátt í námskeiði sem haldið var á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þann 14. ágúst sl. sem bar heitið ‘Að vekja ungt fólk til hnattænnar borgaravitundar‘. Þetta er í fjórða sinn sem námskeið er haldið af hálfu félagsins, en því er ætlað fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi.
Metþátttaka var að vanda og komust færri að en vildu. Í ár var snið og áherslur námskeiðsins aðeins breytt og tekið var betur utan um mikilvægi þess að fjalla um störf og gildi Sameinuðu þjóðanna í námi og kennslu barna og ungmenna. Kennarar á námskeiðinu voru Eva Harðardóttir, lektor við deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og formaður félagsins, og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins.
,,Námskeiðið heppnaðist einstaklega vel. Kennarahópurinn sem sótti námskeiðið í ár samansafn af kraftmiklu, áhugasömu og skapandi fólki sem öll eru að vinna ötullega að verkefnum í anda sjálfbærni og heimsmarkmiða í skólum um allt land. ” segir Eva.
Þorvarður Atli Þórsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins og stjórnarmeðlimur félagsins tók einnig að sér að halda utan um örútgáfu af hermilíkani, sem byggist á hermilíkani Sameinuðu þjóðanna (e. Model United Nations). MUN er vettvangur þar sem nemendur koma saman og setja á svið starfsemi helstu stofnanna Sameinuðu þjóðanna á sem raunverulegastan hátt og takast á við aðkallandi vandamál í alþjóðasamfélaginu. Þátttakendum námskeiðsins var þannig deilt niður á sex lönd og voru kennararnir sendifulltrúar þeirra ríkja og þurftu að koma sér saman um ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu flóttafólks í heiminum í dag. Þessi æfing kom af stað frábærum umræðum um fjölbreyttar leiðir til að ræða og vinna með hnattrænar áskoranir og málefni sem snerta okkur öll á ólíkan hátt í heiminum í dag.
Námskeiðið og hermilíkanið gekk vonum framar en félagið stefnir að því á komandi misserum að endurvekja Iceland MUN sem legið hefur í dvala um nokkurt skeið. Er það hluti af stefnu sem stjórn setti sér í fyrra að auka umsvif verkefna með ungu fólks, og efla og auka áhuga þeirra á starfsemi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu.
Starfsfólk og stjórn félagsins þakkar kennurunum sérstaklega fyrir jákvæðni, hugrekki og gleði sem einkenndi vinnuna og námskeiðið í heild. Við hlökkum til að sjá meira af þeim og þeirri vinnu sem þau eru að sinna í skólum landsins.
Mynd / FSÞ Hluti kennara sem sóttu námskeiðið.Mynd / FSÞ – Þorvaður útskýrir hermilíkanið fyrir kennurunum. Þorvarður var í hlutverki forseta mannréttindaráðsins og stýrði umræðum ríkjanna.
Pétur Hjörvar Þorkelsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri kynningar- og fræðslu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Alls sóttu 123 um starfið sem auglýst var á Alfreð í byrjun maí.
Um ræðir nýja stöðu innan félagsins sem felur í sér að auka þekkingu og skilning almennings á málefnum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu með kynningu og miðlun efnis. Einnig tekur Pétur við ábyrgð og umsjón með íslenska UNESCO-skóla staðarnetinu af Kristrúnu Maríu Heiðberg, sem leitt hefur verkefnið síðustu ár. Pétur mun hefja störf þann 1. Október næstkomandi.
Pétur Hjörvar Þorkelsson.
Starfað fyrir UNICEF frá 2018
Pétur mun í nýju hlutverki samþætta kynningu- og fræðslu Félags Sameinuðu þjóðanna með sérstaka áherslu í skóla og ungmennaverkefnum, en umsvif slíkra verkefna hefur stóraukist innan starfsemi félagsins síðustu misseri. Pétur hefur komið að fræðslu og skóla- og ungmennastarfi í yfir áratug og kemur því með mikla þekkingu til félagsins. Hann er menntaður mannfræðingur frá Háskóla Íslands og með M.Ed. gráðu í Menntunarfræðum og margbreytileika, með veigamikla þekkingu á Sameinuðu þjóðunum og fræðslu- þróunar- og skólastarfi. Hann hefur meðal annars starfað sem götukynnir hjá Landsnefnd UN Women, unnið á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum og verið aðstoðarrannsakandi- og kennari við Háskóla Íslands.
Síðustu sex árin hefur hann starfað fyrir UNICEF, fyrst hjá íslensku landsnefndinni í fjögur ár sem sérfræðingur í réttindum og þátttöku barna þar sem hann leiddi starf réttindaskóla og þróun og rekstur ungmennaráðs UNICEF. Frá því í september 2022 hefur Pétur starfað á landsskrifstofu UNICEF í Naíróbí, Kenía, þar sem hann hefur unnið á sviði félags- og hegðunarbreytinga (e. Social and Behavioral Change) í tengslum við loftslagsmál og vatns- og hreinlætismál. Helstu verkefni sem hann vann á þeim sviðum sneru að þátttöku ungmenna í aðlögun að áhrifum hamfarahlýnunar, hagnýtum rannsóknum á mannlegri hegðun og hönnun verkefnis í kóleruforvörnum.
Ráðherrafundur um sjálfbæra þróun (e. The High-level Political Forum on Sustainable Development, HLPF) hófst í gær 8. júlí og stendur yfir til 17. júlí 2024 í höfuðstöðvum Sþ í New York. Fundurinn, sem ávallt fellur undir hatt Efnahags- og félagsmálaráðsins (ECOSOC) felur einnig í sér þriggja daga ráðherrahluta fundarins sem verður dagana 15.-17. júlí.
Þema fundarins í ár er ‘Að styrkja Dagskrá 2030 (Agenda 2030 – heimsmarkmiðin) og útrýma fátækt á tímum fjölþættra krísa: skilvirk afhending sjálfbærra, seiglu og nýstárlegra lausna’. (A/DEC/77/553)
Ráðherrafundurinn, þrátt fyrir samþætt, órjúfanlegt og samtengt eðli heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun, hefur yfirleitt nokkur ákveðin markmið að leiðarljósi sem rýnt er sérstaklega í. Í ár verða það markmið eitt um enga fátækt, númer tvö um ekkert hungur, númer þrettán um aðgerðir í loftslagsmálum, númer sextán um frið og réttlæti og markmið sautján, samvinna um markmiðin.
Lítil sendinefnd fer frá Íslandi fer að þessu sinni. Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ á sviði sjálfbærrar þróunar, Sara Júlía Baldvinsdóttir er mætt til New York og hægt verður að fylgjast með ferð hennar á instragram reikning ungmennafulltrúanna: instagram/unyouthiceland. Einnig fer fulltrúi frá Sambandi sveitarfélaga og sömuleiðis forsætisráðuneytinu.
Félag Sameinuðu þjóðanna mun deila áfram hvað er að gerast á fundinum á sínum miðlum og mælum við með að áhugasöm fylgist með.
Fánadagur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er haldinn í annað sinn á Íslandi þann 25. september nk. UN Global Compact og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa að deginum hér á landi.
Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að fyrirtæki, stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök, skólar og sveitarfélög um allan heim, sýni skuldbindingu sína við heimsmarkmiðin og aðgerðirnar sem þau krefjast.
Hverjir geta tekið þátt?
Fyrirtæki, stofnanir, skólar, samtök og sveitarfélög sem eru aðilar að UN Global Compact og/eða hafa hafið innleiðingu á heimsmarkmiðum í rekstur sinn geta tekið þátt í framtakinu. Vinsamlega skráðu þátttöku hér.
Panta fána
Til að lágmarka kolefnisfótspor eru fánarnir prentaðir á Íslandi. Fáninn kostar 22.500 kr. stk. og er sendingarkostnaður innifalinn í verðinu.
Stærð fána er 150x100cm og passar á 6m fánastöng með krækju að ofan og neðan. Texti er á íslensku.
ATH. Skólar fá afslátt á fánunum, endilega hafið samband við felag@un.is til þess að panta fána.
Mynd/ ISAVIA – Frá fyrsta fánadeginum, 2023.
Deildu þátttökunni
Þann 25. september n.k. eru þátttakendur hvattir til að deila þátttöku sinni í fánadegi heimsmarkmiðanna á eigin miðlum. Leiðbeiningar (e. toolkit) með tillögum að texta, #merkingum, myndefni o.fl. verða sendar þegar þátttaka hefur verið staðfest.
Nú þegar aðeins sex ár eru eftir af heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun (e. Sustainable Development Goals/SDGs) eru framfarir á heimsvísu ófullnægjandi, með aðeins 17 prósent þeirra markmiða sem nú eru á réttri leið, samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem gefin var út 28. júní.
Í skýrslunni um heimsmarkmiðin 2024 er lögð áhersla á að næstum helmingur af 17 markmiðunum sýnir lágmarks eða miðlungs framfarir, en yfir þriðjungur er staðnaður eða dregið hefur úr árangri. Heimsmarkmiðin voru samþykkt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna árið 2015 til að koma á friði og velmegun fyrir fólk og jörðina.
„Þessi skýrsla sem betur er þekkt sem hin árlega stöðuskýrsla heimsmarkmiðanna, sýnir að heimurinn er að fá falleinkunn,“ sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á blaðamannafundi þar sem niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á dögunum. „Niðurstaða skýrslunnar er einföld – mistök okkar að tryggja frið, takast á við loftslagsbreytingar og efla alþjóðlega fjármögnun er að grafa undan þróun. Við verðum að flýta aðgerðum til að ná heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun og við megum engan tíma missa,“ sagði hann.
Margþættar hindranir
Í skýrslunni var bent á langvarandi áhrif COVID-19 heimsfaraldursins, stigvaxandi átök, geópólitíska spennu og versnandi óreiðu í loftslagsmálum sem helstu hindranir í vegi framfara.
Í skýrslunni er enn fremur bent á að 23 milljónum til viðbótar var ýtt út í sárafátækt og yfir 100 milljónir til viðbótar þjáðust af hungri árið 2022 í samanburði við árið 2019, og fjöldi látinna óbreyttra borgara í vopnuðum átökum rauk upp úr öllu valdi á síðasta ári.
Árið 2023 var einnig það hlýjasta sem mælst hefur, þar sem hlýnun jarðar nálgast 1,5°C þröskuldinn.
Brýn forgangsröðun
Guterres lagði brýna áherslu á að efla alþjóðlega samvinnu og sagði „við megum ekki gefast upp á 2030 loforðum okkar um að binda enda á fátækt, vernda jörðina og skilja engan eftir.“
Þá var í skýrslunni einnig gert grein fyrir helstu áherslum til að bregðast við hallanum.
Þar var fyrst og fremst bent á þörfina fyrir fjármögnun til þróunar. Fjárfestingarbil heimsmarkmiðanna í þróunarríkjum eru um 4 billjónir dollara á ári. Það er mikilvægt að auka hraða fjármögnun og rými í ríkisfjármálum, sem og umbætur á alþjóðlega fjármálakerfinu til þess hægt sé að opna fjármögnunina.
Það er ekki síður mikilvægt að leysa deilur með samræðum og milliríkjaviðræðum. Með rúmlega 120 milljónir manna sem neyðst hafa til þess að flýja samkvæmt nýjustu tölum nú í maí 2024 og 72 prósenta aukningu á mannfalli óbreyttra borgara á milli 2022 og 2023, hefur þörfin fyrir friði aldrei verið brýnni en nokkru sinni fyrr.
Samhliða þessu öllu er bráðnauðsynlegt að auka innleiðingu. Stórauknar fjárfestingar og árangursríkt samstarf er nauðsynlegt til að knýja fram umbreytingar á lykilsviðum líkt og matvælaiðnaði, orkuiðnaði, félagslegri vernd og stafrænni tengingu.
Mynd / SDG Global Goals Report 2024. Aðeins 17 markmiðanna eru á réttri leið.
Grípum augnablikið
Skýrslan kemur út árlega stuttu fyrir árlegan Ráðherrafund um heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun (e. HLPF, High Level Political Forum), en í ár fer hann fram í höfuðstöðvum SÞ í New York dagana 8. til 17. júlí.
Á vegum efnahags- og félagsmálaráðsins (e. ECOSOC) mun á fundinum vera farið yfir alþjóðlegar framfarir í átt að markmiði 1 um að útrýma fátækt, markmiði 2 um ekkert hungur, markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum, markmið 16 um frið og réttlæti og markmið 17 um leiðir til framkvæmda undir samvinnu um heimsmarkmiðin.
Að auki mun komandi Leiðtogafundur um framtíðina nú í september vera lykilatriði til að endurstilla viðleitni til að ná markmiðunum. Leiðtogafundurinn miðar að því að takast á við skuldakreppuna sem hefur áhrif á mörg þróunarríki og brýna þörf á að endurmóta alþjóðlega fjármálakerfið sem er að mörgu leyti óbreytt frá því um og eftir síðari heimstyrjöldina.
Fleiri lykilniðurstöður
Í skýrslunni um heimsmarkmiðin er lögð áhersla á alvarlegar efnahagslegar áskoranir, þar sem vöxtur á vergri landsframleiðslu (VLF/GDP) í helmingi viðkvæmustu ríkja heims er hægari en í þróuðum hagkerfum.
Næstum 60 prósent ríkja stóðu frammi fyrir óeðlilega háu matarverði árið 2022, sem enn frekar eykur hungur og fæðuóöryggi.
Í skýrslunni var einnig lögð áhersla á kynjamisrétti, en þar er bent á að í 55 prósent af þeim 120 ríkjum sem könnunin náði til, skorti lög sem banna mismunun gegn konum.
Það nefndi einnig menntun sem verulegt áhyggjuefni, þar sem aðeins 58 prósent nemenda á heimsvísu hafa náð lágmarkskunnáttu í lestri undir lok grunnskóla.
Á sama tíma, þrátt fyrir að alþjóðlegt atvinnuleysi hafi náð sögulegu lágmarki árið 2023 (5%), eru enn viðvarandi hindranir til mannsæmandi vinnu í öllum samfélögum.
Hins vegar er jákvæð þróun á nokkrum sviðum, meðal annars á sviði endurnýjanlegrar orku, en það hefur vaxið um 8,1 prósent árlega undanfarin fimm ár.
Verulegar tækniframfarir hafa einnig orðið, þar sem aðgengi fyrir farsíma (3G eða hærra) náði til 95 prósent jarðarbúa, úr 78 prósentum árið 2015.
Emma Ósk Ragnarsdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði barna- og ungmenna á 2. fundi leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 24. nóvember 2023. Emma Ósk starfar sjálf sem grunnskólakennari og brennur fyrir málaflokkinum, bæði í leik og starfi.
Ólíkt öðrum hlutverkum ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ að þá ferðaðist Emma Ósk ein til New York nú í apríl þar sem hún sótti ungmennaþing efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (e. The Economic and Social Council (ECOSOC) sem haldinn er árlega. Vanalega eru ungmennafullrúar hluti af sendinefnd þar sem viðburðir annarra ungmennahlutverka eru oftast tengdir stærri viðburðum innan SÞ, þar sendifulltrúar ráðuneyta taka þátt, fastanefnd Íslands og jafnvel stundum viðeigandi ráðherrar.
Á ungmennavettvanginum nú í apríl áttu sér samræður stað meðal fulltrúa aðildarríkja um mismunandi aðstæður ungs fólks og tillögur að lausnum við þeim fjölmörgu áskorunum sem hafa áhrif á velferð þeirra. Í því skyni voru leiðir til þess að flýta fyrir innleiðingu heimsmarkmiðanna mikið rædd og var sérstök áhersla lögð á þau heimsmarkmið sem verða í brennidepli nú í júlí á Ráðherrafundi SÞ um heimsmarkmiðin (e. High Level Political Forum), en það eru markmið 1 um enga fátækt, markmið 2 um ekkert hungur, markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum, markmið 16 um frið og réttlæti og markmið 17 um samvinnu um heimsmarkmiðin. Þar að auki var tíðrætt um Leiðtogafund um framtíðina (e. Summit of the Future) sem haldinn verður dagana 22.-23. september í haust, en þar verður Sáttmáli framtíðarinnar (e. Pact for the Future) undirritaður.
Það var dýrmætt að heyra um reynslu og verkefni sem einstaklingar hafa sett á laggirnar í þágu aukinnar mannréttindafræðslu.
Það sem stóð upp úr að mati Emmu var þátttaka hennar á hliðarviðburði sem bar nafnið ‘Towards peaceful and inclusive societies: human rights education for, with and by youth’, sem miðaði að því auka inngildingu og þátttöku ungs fólks í tengslum við mannréttindafræðslu í átt að friðsælari samfélögum. Efling lýðræðislegrar borgaravitundar hefur lengi verið Emmu hugleikin en innan starfsviðs hennar í menntakerfinu hefur hún lagt sitt af mörkum til þess að auka vitund barna um mikilvægi slíkrar fræðslu. Það var því sannur heiður að sögn Emmu, og ekki síst lærdómsríkt að hafa fengið tækifæri að ávarpa fundinn. Þar ræddi hún meðal annars um valdeflingu ungs fólks, lýðræðislega borgaravitund þeirra og aðferðir sem gætu nýst til þess að innleiða mannréttindafræðslu í frekara mæli í íslensku menntakerfi. Þá sagði Emma aðra þátttakendur hafa verið áhugasama um að heyra sjónarmið frá Íslandi og að í kjölfar fundarins hafi hún fengið frekara tækifæri til þess að ræða um þennan málaflokk við ungmennafulltrúa í öðrum ríkjum.
Mynd / Emma Ósk. Emma Ósk situr hér í sæti Íslands í sal gæsluverndarráðssins (e. Trusteeship Council Chamber).
Ungt fólk verður að fá tækifæri til þess að sækja viðburði sem þessa til þess að komast í kynni við alþjóðlegar stofnanir og skuldbindingar, fá upplýsingar um áætlanir stjórnvalda og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Í eðli sínu safnar viðburður þessi saman ungu fólki frá öllum heimshornum, og því fékk Emma ótal tækifæri til þess að hitta og ræða við önnur ungmenni um stöðu málefnasviðs ungs fólks. Þá nefnir Emma að hún hafi talsvert unnið áður með ungu fólki, sérstaklega frá Norðurlöndunum og innan Evrópu, en að á þessum viðburði hafi hún fengið tækifæri til þess að kynnast ungu fólki frá öllum heimsálfum og heyrt sjónarmið sem höfðu áður verið henni fjarlæg. Það er afar dýrmætt að mati Emmu þar sem hún telur slíka reynslu vera bæði þroskandi og mikilvæga, og að komast í kynni við mismunandi reynsluheima geri manni kleift að öðlast betri skilning og þekkingu á þeim.
Mynd / Emma Ósk. Emmu Ósk bauðst tækifæri til þess að ávarpa fund ungmenna í SÞ á meðan dvöl hennar í New York stóð.
Ungmennaþingið hefur verið haldið allt frá árinu 2012 en fram að því hafi lítil sem engin aðkoma ungs fólks verið í málaflokk þessum. Síðustu ár hefur þó umfang viðburðarins aukist og ungum þátttakendum aðildarríkjana farið ört fjölgandi.
Aðkoma ungs fólks að viðburðum sem þessum er í raun algjörlega nauðsynleg segir Emma og nefnir að það sé fráleitt að ætla sér að tala um framtíðina og þær áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir án þess að ræða við þær kynslóðir sem munu taka við keflinu. Ungt fólk verði að fá tækifæri til þess að sækja viðburði sem þessa til þess að komast í kynni við alþjóðlegar stofnanir og skuldbindingar, fá upplýsingar um áætlanir stjórnvalda og koma sinum sjónarmiðum á framfæri. Þær áskoranir sem heimurinn standi frammi fyrir séu margslungnar og ómögulegt verði að takast á við þær án aðkomu þeirra sem munu bera þungann af þeim ákvörðunum sem eru teknar í dag.
Gerið ungu fólki kleift að vera hluti af samræðunni. Veitið þeim mörg og fjölbreytt rými til þess að taka þátt og koma mismunandi sjónarmiðum á framfæri.
Að lokum nefnir hún að íslensk stjórnvöld verði að tryggja að aðkoma ungmenna í stefnumótun og ákvarðanatöku sé öllum aðgengileg. Til þess að tryggja slíkt verði að valdefla ungt fólk, hlúa að lýðræðislegri borgaravitund þeirra og stuðla þannig að aukinni vitundarvakningu á þeim tækifærum sem standa þeim til boða. Þá biðlar Emma til stjórnvalda að ungu fólki verði gert kleift að vera hluti af samræðunni. Ungu fólki verði sömuleiðis að veita mörg og fjölbreytt rými til þess að taka þátt og eiga möguleika á því að koma mismunandi sjónarmiðum sínum á framfæri. Þátttöku ungs fólks beri að taka alvarlega og tryggja þurfi að hún sé skilvirk og þýðingarmikil. Raddir ungs fólks séu dýrmætar og nauðsynlegar fyrir árangursrík stefnumótunar- og ákvarðanatökuferli, og að stjórnvöld sem taki mark á slíkri innsýn séu betur stödd fyrir vikið segir Emma Ósk.
Mynd / Emma Ósk. Emma Ósk ásamt öðrum ungmennum og ungmennafulltrúum sem sóttu ungmennaþingið í höfuðstöðvum SÞ í apríl.
*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.
Að vekja ungt fólk til hnattrænnar vitundar: heimsmarkmiðin og Sameinuðu þjóðirnar er námskeið fyrir kennara á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem fer fram miðvikudaginn 14. ágúst, á milli klukkan 13 og 16, í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ í Stakkahlíð.
Á námskeiðinu, sem ætlað er fyrir kennara og stjórnendur á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, verður unnið með námsefni og fjölbreyttar kennsluaðferðir sem miða að því að styðja við þekkingu nemenda á starfsemi SÞ á sviði mannréttinda, friðar og sjálfbærrar þróunar.
Kennarar á námskeiðinu eru Eva Harðardóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (FSÞ) og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri FSÞ á Íslandi.
Námskeiðsgjald er kr. 7.500. Skráning sendist á vala@un.is. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og heimsmarkmiðanælu.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í samstarfi við utanríkisráðuneytið, forsætisráðuneytið, Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ, Landssamband ungmennafélaga og Höfða friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands boðar til samtals um Sáttmála framtíðarinnar fimmtudaginn 6. júní frá klukkan 17:00-19:00 í Mannréttindahúsinu. Sjá viðburð hér.
Dagana 22.-23. september verður Leiðtogafundur um framtíðina (e. Summit of the Future) haldinn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem leiðtogar heimsins koma saman til að samþykkja nýtt alþjóðlegt samkomulag um hvernig viðbætum samtíð okkar og tryggjum gæfuríkari framtíð. Hið nýja samkomulag, Sáttmáli framtíðarinnar (e. Pact for the Future) er einstakt tækifæri til að endurheimta það traust sem hefur glatast og sýna fram á að með alþjóðlegri samvinnu sé hægt að takast á við þær sameiginlegu áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir.
Á þessum opna fundi verða drög sáttmálans kynnt og þemu hans rædd í umræðuhópum. Viðburðinum er þannig ætlað að auka þekkingu á málefnum Leiðtogafundarins og um Sáttmála framtíðarinnar, stuðla að áhugaverðum umræðum sem virkja þátttöku ungs fólks og borgarasamfélagsins og valdefla þessa hópa í málefnum sem þau varðar.
Dagskrá
17:00-17:10 Opnunarorð Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Sara Júlía Baldvinsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar
17:10- 17:30 Leiðtogafundur framtíðarinnar: Fjölþjóðalausnir í þágu betri framtíðar, Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum
17: 30- 17:50 Örkynningar tengdar þemum Sáttmála framtíðarinnar.
Svanhildur Þorvaldsdóttir, lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Fannar Logi Waldorf, fulltrúi úr Barna- og ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ, Sylvía Martinsdóttir, forseti LUF, og Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum og ritstjóri Vísbendingar