Dagana 12.-16. júní fór fram Háskóli unga fólksins í Háskóla Íslands en um er að ræða árlegan viðburð fyrir krakka 12-14 ára. Þessa viku fá krakkarnir sem sækja skólann að velja út fjölda glæsilegra námskeiða sem eru í boði og er skóladagurinn á milli 9:00-12:00 og hver kennslustund um 90 mínútur.
Háskólinn lét taka saman myndskeið yfir vikuna og má afraksturinn sjá hér:
Í ár tók Félag Sameinuðu þjóðanna þátt og hélt námskeiðið ‘Heimsmarkmiðin og ég’, þar sem krakkarnir fengu stutta kynningu á heimsmarkmiðum Sþ um sjálfbæra þróun, sáu nokkur myndbönd og tóku þátt í umræðum um vanda og lausnir í tengslum við þau. Þá var sérstaklega tekið fyrir það hvernig ungt fólk getur haft áhrif og einblínt var á krakkana sjálfa, hvað þau geta gert og hvað þau vilja gera. Þá voru unnin hópaverkefni þar sem nemendur völdu sér markmið og ræddu sín á milli lausnir og ráð til þess að tryggja að því tiltekna markmiði verði náð og hvað þeim þykir skipta máli í tengslum við það.
Námskeiðin sem haldin voru um markmiðin voru átta talsins þessa vikuna og voru troðfull af áhugasömum nemendum sem höfðu sterkar skoðanir og áttu sér stað afar skemmtilegar umræður. Brot af þeim verkefnum sem unnin voru af nemendunum má sjá hér að neðan.
Stjórnvöld hafa sent landrýniskýrslu Íslands (e. Voluntary National Review) til Sameinuðu þjóðanna.
Fjögur ár eru síðan Ísland kynnti fyrstu landrýniskýrslu um stöðu innleiðingu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og er þetta því í annað skipti sem stjórnvöld senda slíka skýrslu til Sþ. Að þessu sinni leiddi félag Sameinuðu þjóðanna stóran hluta í skýrslunni þar sem svo kallað stöðumat borgarasamtaka (e. Civil Society Assessment) var unnið með 55 frjálsum félagasamtökum samhliða stöðumati stjórnvalda á öllum sautján heimsmarkmiðnum.
Víðtækt samráð var við gerð skýrslunnar en auk stöðumats borgarasamtaka er í henni að finna kafla skrifaða af ungmennaráði heimsmarkmiðanna, ungmennafulltrúa Íslands hjá Sþ á sviði sjálfbærrar þróunar, Sambandi Íslenskra sveitarfélaga,og einnig umfjöllun um smitáhrif Íslands sem unnin var af Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands.
Samstarfið við samtökin sem tóku þátt gekk vonum framar en ferlið hófst í janúar og voru lokadrög tilbúin í mars. Samtökin völdu sér markmið sem þau höfðu sérfræðiþekkingu á og skráðu sig í 9 vinnuhópa þar sem fyrirfram ákveðin markmið voru unnin saman.
Stjórnvöld fengu gula spjaldið frá borgarsamtökum í stöðumati sínu og það rauða í fjórum markmiðum. Augljóst er í skýrslunni að mikill munur er á stöðumati stjórnvalda og svo hins vegar borgarasamtaka. Margt hefur þó áunnist frá fyrstu landrýniskýrslunni en borgarasamtök telja að stjórnvöld eigi enn talsvert í land í mörgum markmiðum. Þá var hávær rödd þeirra um að ávallt verði að tryggja aðkomu og samráð við borgasamtök í stefnumótun stjórnvalda en þar þykir vera mikill skortur á.
Sem stendur er skýrslan aðeins aðgengileg á ensku en með haustinu er áætlað að hún fari í íslenska þýðingu. Lesa má skýrsluna hér.
Niðurstöður skýrslunnar verða kynntar á ráðherrafundi (e. High Level Political Forum) í Sþ í New York þann 18.júlí næstkomandi. Vala Karen, framkvæmdastjóri félagsins verður hluti af íslenskri sendinefnd og mun flytja ávarp fyrir hönd borgarasamtaka. Þá munu íslensk stjórnvöld einnig standa að svokölluðum hliðarviðburði í tengslum við ráðherrafundinn um smitáhrif sem auglýstur verður von bráðar.
Grunnskóli Bolungarvíkur er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 18 talsins, einn leikskóli, sjö grunnskólar og tíu framhaldsskólar.
Í Grunnskóli Bolungarvíkur eru um 130 nemendur af þremur þjóðernum. Skólinn hefur verið að vinna að ýmsum málefnum sem falla vel undir UNESCO-skóla, eins og að halda nemendaþing, fara í heimsóknir á Alþingi og vera með jafnréttisáætlun. Þá hefur skólinn látið sig umhverfismál varða. Nemendur á unglingastigi skólans lentu í 2. sæti í samkeppninni Umhverfisfréttafólk sem Landvernd stóð fyrir í maí síðastliðnum. Verkefnið, Electronic Waste, fjallar um lélega nýtingu á raftækjum og hve lítill hluti þeirra er endurunninn. Auk þess komst annað verkefni nemenda skólans í undanúrslit í keppninni en það fjallaði um matarsóun í skólanum.
UNESCO-skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12 þúsund talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim. UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stendur fyrir námskeiði fyrir kennara um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þann 10. ágúst næstkomandi.
Þetta er í þriðja sinn sem námskeiðið er haldið. Það hefur fengið góðar umsagnir kennara og færri komist að en vildu.
Endilega skráið ykkur á þetta spennandi og áhugaverða námskeið!
Aðalfundur félagsins fór fram í gær 31.maí þar sem Eva Harðardóttir var kosinn nýr formaður.
Kosið var í nýja stjórn félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (United Nations Association of Iceland) á aðalfundi þann 31. maí, og kom ársskýrsla út sama dag. Aðalfundurinn var haldinn í nýja húsnæði félagsins að Sigtúni 42, en kosið er til stjórnar á tveggja ára fresti.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur og alþingismaður lét af störfum sem stjórnarformaður eftir tveggja ára setu og fjögur ár í stjórn,en auk hennar létu Svava Jónsdóttir, Sveinn H. Guðmarsson, Böðvar Ragnarsson, Sigurður Ingi Sigurpálsson og Sólveig Þorvaldsdóttir einnig af stjórnarsetu.
Eva Harðardóttir var kosin nýr stjórnarformaður, en Eva hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2022. Eva starfar sem aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og lýkur doktorsnámi þaðan í haust með áherslu á hnattræna borgaravitund. Eva hefur einnig starfað fyrir UNICEF í Malaví við stefnumótun og innleiðingu verkefna á sviði félags-, mannréttinda og menntamála og hefur víðtæka þekkingu og reynslu af því að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
“Það er mikill heiður og ábyrgð fólgin í því að taka við sem formaður félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á 75 ára afmælisári félagsins. Ekki bara vegna þess að félagið á sér langa og merkilega sögu heldur einnig vegna þess að þau markmið sem sett voru við stofnun félagsins, árið 1948, eiga fullt erindi við okkur í dag: Að stuðla að alþjóðafriði, öryggi, samvinnu og samstarfi í anda hugsjóna Sameinuðu þjóðanna” segir Eva nýkjörinn stjórnarformaður.
Auk Evu skipa nýja stjórn félagsins þau Þórður Kristinsson sem gegnir stöðu varaformanns, Páll Ásgeir Davíðsson, Susan Christianen, Védís Sigrúnar Ólafsdóttir, Viktoría Valdimarsdóttir, Þorvarður Atli Þórsson og Unnur Lárusdóttir.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi þakkar fráfarandi stjórnarmeðlimum kærlega fyrir vel unnin störf síðastliðin ár í þágu félagsins.
„Við heyrðum skothvelli og flúðum. Á þeim tíma var ég komin sjö mánuði á leið“ sagði Tantine, 30 ára fimm barna móðir frá Rusayo, í Norður-Kivu héraði, Lýðveldinu Kongó.
Þegar hópar vopnaðra manna réðust á þorpið hennar lagði hún á flótta með fjölskyldu sinni og leitaði skjóls í búðum fyrir fólk sem er á flótta vegna átakanna í Lýðveldinu Kongó. Tantine og fjölskylda hennar bjuggu í bráðabirgðatjöldum með um 113.000 öðrum sem voru einnig á flótta. Þetta er þó aðeins brot af þeim sem hafa flúið vegna óöruggs ástands og ofbeldis sem hefur geisað í héraðinu síðan í mars 2022, en um 800.000 hafa lagt á flótta frá héraðinu.
Tantine var ein af u.þ.b. 4.500 þunguðum konum í Rusayo-búðunum sem allar bjuggu nú í óviðunandi og óþriflegum aðstæðum, með nánast engan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Fljótlega eftir komuna í búðirnar ferðaðist hún rúma fjóra kílómetra á mótorhjóli til að komast á næstu heilsugæslustöð í skoðun.
Þrátt fyrir að hafa beðið í marga klukkutíma var hún send til baka án þess að vera skoðuð. Heilsugæslustöðin gat ekki lengur veitt barnshafandi konum fullnægjandi umönnun vegna þess að það var allt fullt.
Sem betur fer frétti Tantine stuttu seinna af hreyfanlegri heilsugæslustöð UNFPA sem var staðsett í búðunum. „Þegar ég frétti af læknastöð UNFPA fór ég þangað í staðinn og gat farið í fæðingarráðgjöf þar fyrir fæðingu.”
Lífshættuleg fæðing
Þegar Tantine byrjaði að fá samdrætti gat hún leitað aðstoðar á heilsugæslustöðinni.
„Ég var með verki og fór á heilsugæslustöðina. Tvær konur tóku á móti mér og komust fljótt að því hver staðan væri.“
„Þegar hún kom var hún með miklar blæðingar og hjartsláttur barnsins var ekki greinilegur. Hættumerkin voru augljós. Við þurftum að flytja hana eins fljótt og hægt var á læknastöð í Rusayo sem er betur útbúin.“
-Biyombe Marie Mupali, ljósmóðir sem var á vakt
Læknateymið gaf Tantine dreypi og innan hálftíma var hún á leið til Rusayo í sjúkrabíl sem Caritas samstarfsaðili UNFPA útvegaði, og í fylgd með henni var ljósmóðir frá hreyfanlegu heilsugæslustöð UNFPA.
Í Rusayo var strax tekið á móti henni og barn hennar fæddist seinna þann sama dag. Fæðingin var mjög erfið, en Tantine gat fengið viðeigandi sérfræðiaðstoð þökk sé skjótum viðbrögðum ljósmæðra heilsugæslunnar í Rusayo. Sú læknastöð er einnig styrkt af UNFPA og má þar finna viðeigandi læknisbúnað auk þess sem heilbrigðisstarfsfólki er boðið upp á starfsþjálfun.
Tantine þurfti að vera einn dag í viðbót í Rusayo áður en hún sneri aftur í flóttamannabúðirnar þar sem eiginmaður hennar og börn biðu hennar.
“Hreyfanlega heilsugæslustöðin er mikilvæg og nauðsynleg fyrir okkur. Þar geta barnshafandi konur á flótta fengið dýrmæta aðstoð. Ég nýtti mér aðstoðina sem er í boði á heilsugæslustöðinni áður en ég var flutt til Rusayo.“
Starfsemi UNFPA
Hreyfanlega heilsugæslustöðin var sett á laggirnar í mars 2023 til að mæta þörfum kvenna og stúlkna þegar kemur að kyn- og frjósemisheilbrigði. Þar starfa 5 einstaklingar – þar af þrjár menntaðar ljósmæður – sem hafa síðan þá meðhöndlað að meðaltali þrjár barnshafandi konur á hverjum degi.
Hingað til hefur teymið tekið á móti meira en 20 börnum á staðnum og flutt tæplega 100 konur á Rusayo heilsugæsluna. Meira en 200 konur hafa fengið fæðingarráðgjöf og 55 þolendur kynbundins ofbeldis hafa leitað til heilsugæslustöðvarinnar.
Almennir borgarar verða verst úti í átökunum, sérstaklega konur og börn sem hafa orðið fyrir áföllum og sofa nú örmagna undir berum himni, og eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi.UNFPA hefur komið upp hreyfanlegum heilsugæslustöðvum á fleiri stöðum, t.d. í Bulengo og Bujari, og hefur aðstoðað við að endurreisa tvö fæðingarheimili í héraðinu.
Frá upphafi ástandsins hefur verið komið í veg fyrir meira en 1.200 tilfelli mæðradauða og hefur heilbrigðisstarfsfólk aðstoðað við um 3.800 fæðingar. Um 4.000 einstaklingar hafa óskað eftir getnaðarvarnarráðgjöf víðs vegar í Norður-Kivu hérað og hefur um 20 tonnum af birgðum er varða frjósemisheilbrigði verið dreift um svæðið. Auk þess hefur um 5.000 sæmdarsettum (e. dignity kits) verið dreift, og yfir 2.200 þolendur kynbundins ofbeldis hafa leitað til og fengið læknisaðstoð frá UNFPA heilsugæslustöðvum á svæðinu.
Öll þessi inngrip voru möguleg þökk sé samstarfi UNFPA og stjórnvalda, staðbundinna félagasamtaka og fjármögnun frá Japan.
UNFPA mun halda áfram að aðstoða fólk víðsvegar um Lýðveldið Kongó og er að auka starfsemi sína á svæðinu svo hægt sé að til að tryggja konum og stúlkum í neyð áframhaldandi aðgang að ókeypis heilbrigðisþjónustu á næstu mánuðum.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stendur fyrir námskeiðinu “Heimsmarkmiðin og ég” í Háskóla unga fólksins í sumar og hvetjum við öll hugvitssöm og snjöll ungmenni til að skrá sig. Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Kristrún María Heiðberg, kennari og verkefnastjóri UNESCO-skóla munu leiða námskeiðið.
Skólinn stendur yfir dagana 12.-16. júní og er opinn öllum ungmennum á aldrinum 12-14 ára. Árgangar 2009, 2010 og 2011 geta skráð sig, þ.e. nemendur í 6. – 8. bekk.
Opnað verður fyrir skráningu í Háskóla unga fólksins í dag kl. 𝟏𝟓:𝟎𝟎. Háskóli unga fólksins hefur fyllst fljótt eftir að opnað hefur verið fyrir skráningar og væri því best að skrá sig sem allra fyrst!
Dagana 8. til 12. maí fer UNFF18 (UN Forum on Forest) fram í New York í átjánda skipti. UNFF er stefnumarkandi fundur háttsettra fulltrúa samstarfsríkja og er tilgangurinn að innleiða samninga er tengjast skógum, efla sameiginlegan skilning á sjálfbærri nýtingu skóga, hafa eftirlit með pólitískum skuldbindingum og fylgja þeim eftir.
Á fundinum verður sérstaklega farið yfir framkvæmd áætlunar Sameinuðu þjóðanna um skóga 2017-2030, en aðaláherslan verður á að vekja athygli á hvernig verndum skóga er mannfólki til hagsbóta, stækkun svæða verndaðra skóga, hvernig virkja megi auðlindir og efla vísindasamstarf.
→Skógar þekja 31% alls lands á jörðinni og gleypa í sig um tvo milljarða tonna af CO2 á hverju ári.
→ Um 76 milljónir tonna af fæðu úr skógum, 95% þeirrar fæðu er úr plöntum.
→Mörg lyf sem við treystum á koma einnig úr skógum.
→25% lyfja sem notuð eru í þróuðum löndum eru gerð úr plöntum
og allt að 80% lyfja sem notuð eru í þróunarlöndum.
→ Lífsviðurværi 80% tegunda lífvera sem búa á landi eru háð skógum á einhvern hátt.
Hægt er að fylgjast með fundinum í beinu streymi hér.