Aðalfundur félags Sameinuðu þjóðanna

Aðalfundur félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi verður haldinn miðvikudaginn 31. maí 2023, kl. 17:00 í nýjum heimkynnum þess að Sigtúni 42.

Dagskrá fundarins er:

 • Kosning fundarstjóra og ritara.
 • Framkvæmdastjóri fjallar um verkefni, viðburði og rekstur félagsins þess á síðustu tveimur starfsárum.
 • Rekstrar- og efnahagsreikningar fyrir starfsárin 2021 og 2022 verða kynntir af framkvæmdastjóra.
 • Lausn stjórnar og annarra ábyrgða.
 • Kynning á frambjóðendum til stjórnar.
 • Kjör nýrrar stjórnar, formanns og varaformanns.
 • Kjör á endurskoðanda.
 • Ákvörðun um breytingar á lögum félagsins.
 • Ávarp nýkjörins formanns.
 • Önnur mál: umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni og tillögur sem löglega eru upp bornar.

Félagar í félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem hafa verið skráð sem félagar í mánuð eða lengur hafa atkvæðarétt.

Minnt er á að framboð til stjórnar þarf að berast að minnsta kosti þremur virkum dögum fyrir aðalfund (í síðasta lagi 25. maí 2023) á vala@un.is.

Hvetjum öll til að mæta.

f.h. stjórnar Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

UNFF18 fer fram í New York dagana 8.-12. maí

Dagana 8. til 12. maí fer UNFF18 (UN Forum on Forest) fram í New York í átjánda skipti. UNFF er stefnumarkandi fundur háttsettra fulltrúa samstarfsríkja og er tilgangurinn að innleiða samninga er tengjast skógum, efla sameiginlegan skilning á sjálfbærri nýtingu skóga, hafa eftirlit með pólitískum skuldbindingum og fylgja þeim eftir.

Á fundinum verður sérstaklega farið yfir framkvæmd áætlunar Sameinuðu þjóðanna um skóga 2017-2030, en aðaláherslan verður á að vekja athygli á hvernig verndum skóga er mannfólki til hagsbóta, stækkun svæða verndaðra skóga, hvernig virkja megi auðlindir og efla vísindasamstarf.

 

Kogi frumbyggjar eiga heimkynni sín í regnskóginum í Sierra Nevada de Santa Marta fjöllunum í norðurhluta Kólumbíu. Mynd: Joerg Steber

 

Skógar þekja 31% alls lands á jörðinni og gleypa í sig um tvo milljarða tonna af CO2 á hverju ári.

Um 76 milljónir tonna af fæðu úr skógum, 95% þeirrar fæðu er úr plöntum.

Mörg lyf sem við treystum á koma einnig úr skógum.

25% lyfja sem notuð eru í þróuðum löndum eru gerð úr plöntum

     og allt að 80% lyfja sem notuð eru í þróunarlöndum.

Lífsviðurværi 80% tegunda lífvera sem búa á landi eru háð skógum á einhvern hátt.

 

Hægt er að fylgjast með fundinum í beinu streymi hér.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimild: UN

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fagnar 75 árum í dag, 8. maí 2023

 

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fagnar 75 árum í dag!

 

Í 75 ár hefur félagið vakið athygli á starfsemi Sameinuðu þjóðanna um allan heim. Ótal manns gefið vinnuframlag sitt með sjálfboðavinnu en einnig hafa ótal starfsnemar og starfsfólk í gegnum tíðina unnið heilshugar í þágu málefna Sameinuðu þjóðanna.

Verkefnin hafa verið margskonar og fer þeim sífellt fjölgandi. Öll hafa þau það að markmiði að auka þekkingu á starfsemi Sameinuðu þjóðanna, mikilvægi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og að efla fræðslu og samtal um málefni þeim tengdum.

Í tilefni dagsins deilir félagið ýmsum fréttaumfjöllunum í gegnum árin!

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi þakkar kærlega fyrir samfylgdina í þau 75 ár sem félagið hefur verið starfandi og minnir á að félagsaðild er opin hverjum sem er.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þriðjungur allra barnahjónabanda í heiminum á sér stað á Indlandi

Samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er áætlað er að um 640 milljónir stúlkna og kvenna sem eru á lífi í dag hafi gifst barnungar. Næstum því helmingur allra barnahjónabanda, eða um 45 prósent, á sér stað í Suður-Asíu, 20 prósent í Afríku sunnan Sahara, 15 prósent í Austur-Asíu og Kyrrahafssvæðinu, en þar á eftir eru Suður-Ameríka og Karabíahafið með 9 prósent.

 

Þriðjungur barnahjónabanda á sér stað á Indlandi.

Hlutfall barnahjónabanda sem eiga sér stað á Indlandi einu og sér, jafnast á við fjölda barnahjónabanda sem eiga sér stað í 10 öðrum löndum sem mynda næsta þriðjung. Síðasti þriðjungurinn dreifist yfir 192 lönd um allan heim.

Fækkun á barnahjónaböndum er ekki að gerast nógu hratt svo hægt sé að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem snýr að úrýmingu barnahjónabanda fyrir árið 2030. Þrátt fyrir framfarir á heimsvísu þyrftu framfarirnar að vera 20 sinnum meiri svo að möguleiki væri á að ná markmiðinu um að binda endi á barnahjónabönd fyrir árið 2030.

 

Ef fram heldur sem horfir mun hefðinni um barnahjónabönd ekki verða útrýmt fyrr en eftir 300 ár.

 

 

Heimildir: UNICEF og Utanríkisráðuneytið

Skelfileg átök í Súdan valda miklum fólksflótta innan- og utanlands

Átökin í Súdan eru á milli súdanska hersins og RSF-uppreisnarhersins og snúast átökin í grófum dráttum um að ná mikilvægum innviðum á sitt vald. RFS-herinn samanstendur af vígasveitum sem mynduðust í stríði sem braust út í Darfur árið 2003, og hefur herinn oft gerst uppvís um ýmis mannréttindabrot.

Síðastliðinn laugardag vöknuðu íbúar Khartoum við sprengjur og byssuskot. Á upphafsdegi átakanna létu þrír starfsmenn World Food Programme (Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna) lífið, og eru tveir aðrir starfsmenn særðir. Sömuleiðis urðu miklar skemmdir á flugvél UNHAS (UN Humanitarian Air Service) á alþjóðaflugvellinum í Khartoum sem skerti getu WFP til að flytja mannúðarstarfsfólk á milli og aðstoða innan landsins.

©AP Marwan Ali

 

Áður en átökin brutust út reiddi þriðjungur súdönsku þjóðarinnar (u.þ.b. 16 milljónir) sig á matvæla og mannúðaraðsstoð, en vegna erfiðleika við að tryggja öryggi mannúðarstarfsfólks liggur allt hjálparstarf nú niðri. Dánartölur og tölur særðra hækka með verjum degi sem líður og hafa tugir þúsunda flúið land. Í Khartoum er skortur á mat, lyfjum, eldsneyti og ýmsum öðrum vörum, en auk þess eru miklar truflanir á rafmagns- og netsambandi. Þá hafa margar heilbrigðisstofnanir hætt starfsemi vegna sprengjuárása.

Nokkrir fróðleiksmolar um Súdan:

 • Í Súdan búa 47 milljónir íbúa, 91% þeirra eru Íslamstrúar.
 • Súdan er stærsta land Afríku að flatarmáli þar til árið 2011 þegar Suður-Súdan öðlaðist sjálfstæði.
 • Súdan var nýlenda Breta til ársins 1956.
 • Omar al-Bashir var forseti Súdan í nærri þrjátíu ár, til ársins 2019.
 • Þá tók við herstjórn sem Abdel Fattah al-Burhan og Mohamed Hamadan Daglo veltu úr sessi með valdaráni.
 • Átök milli herja Abdel Fattah al-Burhan og Mohamed Hamadan Daglo blossuðu upp þann 15. apríl 2023.

 

Heimildir: UN, Utanríkisráðuneytið, RÚV

Rammasamningur við Utanríkisráðuneytið undirritaður þann 13. apríl.

Nýr rammasamningur utanríkisráðuneytisins við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var undirritaður þann 13. apríl síðastliðinn af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og Völu Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóra félagsins. Um er að ræða samning sem gerður er til þriggja ára, á tímabilinu 2023-2025.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra ásamt Völu Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna við undirritun samningsins.

Á sama tíma og Félag SÞ skrifaði undir sinn samning voru rammasamningar undirritaðir við UNICEF og UN Women á Íslandi. Rammasamningar af þessu tagi skipta sköpum fyrir samtökin sem öll sinna veigamiklu kynningarstarfi á Íslandi um málefni SÞ, kynningu og fræðslu á heimsmarkmiðum SÞ og alþjóðalega þróunarsamvinnu.

„Það er afar ánægjulegt að sjá það traust sem stjórnvöld bera til félagsins, en þess má geta að á árinu fagnar það 75 ára afmæli sínu. Rammasamningurinn eykur því fyrirsjáanleika og tryggir grundvöll fyrir rekstur félagsins til áframhaldandi verkefna sem eru sífellt að færast í aukana,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

 

Utanríkisráðherra ásamt framkvæmdastjórum og stýrum samtakanna þriggja, UN Women, Félags SÞ og UNICEF. Á myndinni eru einnig fulltrúar frá samtökunum og starfsmenn ráðuneytisins.

 

Sjá frétt frá Utanríkisráðuneytinu um samninginn.

Könnun fyrir ungmenni um innleiðingu heimsmarkmiða SÞ á Íslandi

Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar mun sækja ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF) New York í júlí 2023 fyrir hönd ungmenna á Íslandi.

Um ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna (HLPF)

Fundurinn fer fram árlega, en á nokkurra ára fresti kynna aðildarríki Sameinuðu þjóðanna svokallaðar landrýnisskýrslur (e. Voluntary National Review), þar sem farið er yfir stöðuna á innleiðingu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun í hverju landi fyrir sig. Þessar skýrslur eru hluti af alþjóðlegri eftirfylgni með framgangi heimsmarkmiðanna og er mælst til þess að ríki skili að minnsta kosti þrisvar sinnum inn slíkum skýrslum á gildistíma heimsmarkmiðanna. Ísland skilaði seinast inn landrýnisskýrslu árið 2019 og mun gera það aftur nú í júní.

Landrýniskýrsla Íslands

Vinna við gerð skýrslunnar hefur staðið yfir hjá stjórnvöldum undanfarna mánuði þar sem ýmsir aðilar, atvinnulíf, borgarasamfélag og ungmenni munu meðal annars koma til með að segja frá sínum sjónarmiðum en það eykur gegnsæi og ákveðið aðhald við stjórnvöld til þess að gera vel þegar kemur að innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Ein opna í skýrslunni verður tileinkuð börnum og ungmennum. Ungmennaráð heimsmarkmiðanna mun skrifa eina blaðsíðu í skýrslunni þar sem áherslur barna koma fram og svo á sömu opnu verður blaðsíða fyrir áherslur ungmenna á Íslandi.

Ungmennafulltrúa Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar var falið að taka saman þennan texta fyrir hönd ungs fólks á Íslandi ásamt því að hún mun ávarpa þingið þegar Ísland kynnir skýrsluna til að koma rödd og áherslum ungmenna enn frekar á framfæri.

Öllu ungu fólki á Íslandi boðið að taka þátt

Til þess að tryggja að þessi samantekt endurspegli raunverulega áherslur ungs fólks á Íslandi hefur Rebekka útbúið könnun þar sem öllum á aldrinum 15 – 35 ára gefst kostur á að koma sínum áherslum á framfæri. Svörin verða notuð í samantektina og nýtast þau þannig til þess að þrýsta á íslensk stjórnvöld til að gera betur í málefnum ungs fólks á Íslandi í tengslum við innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Það tekur örfáar mínútur að svara könnuninni og verður hún opin til 21. apríl nk. LUF hvetur öll til þess að taka þátt og tryggja þannig sterka aðkomu ungs fólks að vinnu landrýnisskýrslunnar og innleiðingu stjórnvalda á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem rödd ungs fólks skiptir samfélagi okkar gríðarlega miklu máli.

 

ATH! Fréttin er að mestu fengin frá  fréttatilkynningu Landsambands ungmennafélaga.

Heimild: Hvað finnst þér um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðum SÞ? – Landssamband ungmennafélaga (luf.is)

Ísland tvöfaldar framlag sitt til friðaruppbyggingar og sáttamiðlunar á vegum Sameinuðu þjóðanna

Íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir fjögurra ára samstarfssamning við skrifstofu alþjóðastjórnmála og friðauppbyggingar hjá Sameinuðu þjóðunum (DPPA). Með samninnum sem gildir næstu fjögur árin, frá 2023-2026 leggur Ísland sitt af mörkum til að styðja við Sameinuðu þjóðirnar í forystuhlutverki sínu í friðaruppbyggingu og sáttamiðlun. Framlag Íslands verður tvöfalt hærra en fyrri samningur kveður á um, og nemur framlagið 20 milljónum króna á ári.

Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Rosemary A. DiCarlo undirrituðu samninginn.

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, undirritaði samstarfssamninginn fyrir hönd Íslands ásamt varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Rosemary A. DiCarlo. - mynd
Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Rosemary A. DiCarlo skrifa undir samstarfssamninginn.

 

„Nýr fjögurra ára samningur við DPPA með tvöfalt hærri framlögum undirstrikar áframhaldandi áherslu Íslands á forystuhlutverki Sameinuðu þjóðanna í friðaruppbyggingu og sáttamiðlun. Við sjáum fjölgun átaka í heiminum og aukna spenna í alþjóðamálum. Það er áhersluatriði af hálfu Íslands að úrlausn þeirra byggist á friðarferlum sem taka mið af alþjóðalögum og framkvæmd eru með virkri þátttöku kvenna,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra um samstarfið.

Ísland hefur stutt við DPPA frá árinu 2018 en stuðningurinn skiptir miklu máli þegar kemur að verkefnum sem ekki er gert ráð fyrir í kjarnaframlögum og verkefnum þar sem kallað er eftir aðstoð með stuttum fyrirvara. DPPA styður við friðaruppbyggingu og sáttamiðlun um heim allan og starfar jafnan með öðrum undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna. DPPA stuðlar sérstaklega að virkri þátttöku kvenna í slíkum umleitunum auk þess sem það tryggir samræmi milli öryggismála, þróunarsamvinnu og mannréttindamála. Þær áherslur eru hornsteinn þjóðaröryggisstefnu Íslands og er samstarfið því mikilvægur þáttur í þróunarsamvinnustefnu Íslands um fyrirbyggjandi störf í þágu friðar með áherslu á þátttöku kvenna.

 

Stuðningur Íslands við DPPA stuðlar beint að framfylgd heimsmarkmiðanna um frið og réttlæti (16), jafnrétti kynjanna (5) og samvinnu um heimsmarkmiðin (17).

 

 

 

 

 

Heimild: Stjórnarráð Íslands

 

„Tímamóta” aðgerðaáætlun samþykkt á Vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2023

Vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lauk síðastliðinn föstudag, en hún stóð yfir dagana 22.-24.mars. Meira en 2.000 fulltrúar stjórnvalda, vísindamenn, fræðimenn, samfélagshópar, frumbyggjar, meðlimir einkageirans og fulltrúar ungmenna sóttu ráðstefnuna sem haldin var í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.

Á Vatnsráðstefnunni var samþykkt vatnsaðgerðaáætlun, „tímamóta“ aðgerðaáætlun sem felur í sér nærri því 700 skuldbindandi markmið sem miða að því að vernda dýrmætustu auðlind mannkyns.

Aðgerðaáætlunin inniheldur aðgerðamiðaðar skuldbindingar sem munu hafa mikil áhrif, allt frá því að taka skynsamari ákvarðanir í fæðuvali, til endurmats á vatni sem öflugur efnahagslegur drifkraftur og hluti af menningararfleifð jarðar.

 

Sex ára stúlka fær sér vatn að drekka úr handpumpu vatnsbrunni í Pakistan. © UNICEF

 

Li Junhua aðstoðarframkvæmdastjóri efnahags- og félagsmála sagði að á Vatnsráðstefnunni 2023 hafi alþjóðsamfélagið komið saman til að hrinda af stað breytingum, ekki einungis fyrir framtíð vatns, heldur fyrir framtíð heimsins.

Li Junhua, nefndi að skuldbindingar aðgerðaáætlunarinnar feli í sér margs konar aðgerðir, allt frá uppbyggingu gagna- og eftirlitskerfa til, til bætts viðnámsþols innviða.

 

Vatn er undirstaða sjálfbærrar þróunar og aðgangur að öruggu og hreinu vatni eru grundvallarmannréttindi. Vatn er nauðsynlegt fyrir velferð mannsins, orku- og matvælaframleiðslu, heilbrigt vistkerfi, jafnrétti kynjanna, minnkun fátæktar og fleira. En við stöndum nú frammi fyrir alþjóðlegri vatnskreppu. Milljarðar manna um allan heim skortir enn aðgang að vatni. Talið er að meira en 800.000 manns deyi á hverju ári af völdum sjúkdóma sem rekja má til óöruggs vatns og ófullnægjandi hreinlætisaðstöðu.

Um fjórir milljarðar manna upplifa mikinn vatnsskort að minnsta kosti einn mánuð ársins. Þar sem vatn er svo mikilvægt fyrir marga þætti lífsins er mikilvægt að tryggja vernd þess svo hægt sé að tryggja að allir hafi jafnan aðgang að þessari nauðsynlegu auðlind fyrir árið 2030.

 

Without water, there can be no sustainable development. As we leave this historic conference, let’s re-commit to our common future. Let’s take the next steps in our journey to a water-secure future for all.”

-António Guterres

 

Ung stúlka nær í vatn úr nýlegum brunni í Gwembe, Zambíu. © UNICEF/Karin Schermbrucker

 

Vissir þú að:

? Það þarf um 10.000 lítra af vatni til að framleiða gallabuxur, en það er sama magn og meðalmanneskja drekkur á einum áratug.

 

Heimild: UN

„Mannkynið skautar á þunnum ís, og ísinn er að bráðna ansi hratt”

Samkvæmt nýjustu skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) sem kom út 20.mars eru fjölmargar skilvirkar og framkvæmanlegar lausnir til, sem geta dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og hjálpað okkur að aðlagast loftslagsbreytingum.

„Mannkynið skautar á þunnum ís, og ísinn er að bráðna ansi hratt. Líkt og skýrslan (Loftslagsnefndar SÞ (IPCC)) greinir frá, er mannkynið ábyrgt fyrir nánast allri hnattrænni hlýnun á síðastliðnum 200 árum”, sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna um útgáfu skýrslunnar.

Skaðleg áhrif loftslagsbreytinga bitna hvað mest á viðkvæmustu og fátækustu þjóðum heims. Hitastig jarðar hefur þegar hækkað um 1,1 gráðu á Celsíus frá því sem var fyrir iðnbyltingu. Hækkun hitastigs jarðar er afleiðing ójafnrar og ósjálfbærrar orkunýtingar og landnotkunar, og brennslu jarðefnaeldsneytis í meira en eina öld. Öfgakennt veðurfar og náttúruhamfarir eru nú tíðari og verri, og hafa stofnað bæði náttúru og fólki á öllum svæðum heimsins í hættu.

Til að vinna gegn þessari skaðlegu þróun leggur IPCC til „loftslagsþolgóða þróun” (e. „climate resilient development”). Tillaga IPCC felur í sér samhæfðar aðgerðir til að takast á við og aðlagast loftslasgsbreytingum, sem og aðgerðir til að draga úr eða komast hjá losun gróðurhúsalofftegunda.

Sem dæmi; aðgangur að hreinni orku; kolefnissnauð rafvæðing, að stuðla að kolefnislausum eða kolefnissnauðum samgöngum; að bæta andrúmsloftið. Efnahagslegur ávinningur af bættri heilsu fólks vegna betra andrúmslofts myndi bæta upp kostnaðinn við að draga úr eða sneiða hjá losun.

Um skýrsluna sagði Hoesung Lee formaður IPCC: „þessi samantektar-skýrsla undirstrikar hversu bráðnauðsynlegt það er að grípa til metnaðarfyllri aðgerða og sýnir fram á að ef hafist er handa nú þegar, er hægt að tryggja öllum jarðarbúum lífvænlega og sjálfbæra framtíð”

The Muara Laboh Geothermal Power Project is helping advance Indonesia towards its renewable energy and climate change mitigation goals.
Muara Laboh jarðhitavirkjunin er skref nær markmiðum Indónesíu um endurnýjanlega orku og að draga úr loftslagsbreytingum. ADB/Gerhard Joren

Heimild: UN News og UNRIC