Ársskýrsla félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er nú komin út.
Ársskýrslan verður kynnt ásamt ársreikningi á morgun, á aðalfundi félagsins kl. 17:00 í Sigtúni 42.
Ársskýrsla félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er nú komin út.
Ársskýrslan verður kynnt ásamt ársreikningi á morgun, á aðalfundi félagsins kl. 17:00 í Sigtúni 42.
„Við heyrðum skothvelli og flúðum. Á þeim tíma var ég komin sjö mánuði á leið“ sagði Tantine, 30 ára fimm barna móðir frá Rusayo, í Norður-Kivu héraði, Lýðveldinu Kongó.
Þegar hópar vopnaðra manna réðust á þorpið hennar lagði hún á flótta með fjölskyldu sinni og leitaði skjóls í búðum fyrir fólk sem er á flótta vegna átakanna í Lýðveldinu Kongó. Tantine og fjölskylda hennar bjuggu í bráðabirgðatjöldum með um 113.000 öðrum sem voru einnig á flótta. Þetta er þó aðeins brot af þeim sem hafa flúið vegna óöruggs ástands og ofbeldis sem hefur geisað í héraðinu síðan í mars 2022, en um 800.000 hafa lagt á flótta frá héraðinu.
Tantine var ein af u.þ.b. 4.500 þunguðum konum í Rusayo-búðunum sem allar bjuggu nú í óviðunandi og óþriflegum aðstæðum, með nánast engan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Fljótlega eftir komuna í búðirnar ferðaðist hún rúma fjóra kílómetra á mótorhjóli til að komast á næstu heilsugæslustöð í skoðun.
Þrátt fyrir að hafa beðið í marga klukkutíma var hún send til baka án þess að vera skoðuð. Heilsugæslustöðin gat ekki lengur veitt barnshafandi konum fullnægjandi umönnun vegna þess að það var allt fullt.
Sem betur fer frétti Tantine stuttu seinna af hreyfanlegri heilsugæslustöð UNFPA sem var staðsett í búðunum. „Þegar ég frétti af læknastöð UNFPA fór ég þangað í staðinn og gat farið í fæðingarráðgjöf þar fyrir fæðingu.”
Þegar Tantine byrjaði að fá samdrætti gat hún leitað aðstoðar á heilsugæslustöðinni.
„Ég var með verki og fór á heilsugæslustöðina. Tvær konur tóku á móti mér og komust fljótt að því hver staðan væri.“
„Þegar hún kom var hún með miklar blæðingar og hjartsláttur barnsins var ekki greinilegur. Hættumerkin voru augljós. Við þurftum að flytja hana eins fljótt og hægt var á læknastöð í Rusayo sem er betur útbúin.“
-Biyombe Marie Mupali, ljósmóðir sem var á vakt
Læknateymið gaf Tantine dreypi og innan hálftíma var hún á leið til Rusayo í sjúkrabíl sem Caritas samstarfsaðili UNFPA útvegaði, og í fylgd með henni var ljósmóðir frá hreyfanlegu heilsugæslustöð UNFPA.
Í Rusayo var strax tekið á móti henni og barn hennar fæddist seinna þann sama dag. Fæðingin var mjög erfið, en Tantine gat fengið viðeigandi sérfræðiaðstoð þökk sé skjótum viðbrögðum ljósmæðra heilsugæslunnar í Rusayo. Sú læknastöð er einnig styrkt af UNFPA og má þar finna viðeigandi læknisbúnað auk þess sem heilbrigðisstarfsfólki er boðið upp á starfsþjálfun.
Tantine þurfti að vera einn dag í viðbót í Rusayo áður en hún sneri aftur í flóttamannabúðirnar þar sem eiginmaður hennar og börn biðu hennar.
“Hreyfanlega heilsugæslustöðin er mikilvæg og nauðsynleg fyrir okkur. Þar geta barnshafandi konur á flótta fengið dýrmæta aðstoð. Ég nýtti mér aðstoðina sem er í boði á heilsugæslustöðinni áður en ég var flutt til Rusayo.“
Hreyfanlega heilsugæslustöðin var sett á laggirnar í mars 2023 til að mæta þörfum kvenna og stúlkna þegar kemur að kyn- og frjósemisheilbrigði. Þar starfa 5 einstaklingar – þar af þrjár menntaðar ljósmæður – sem hafa síðan þá meðhöndlað að meðaltali þrjár barnshafandi konur á hverjum degi.
Hingað til hefur teymið tekið á móti meira en 20 börnum á staðnum og flutt tæplega 100 konur á Rusayo heilsugæsluna. Meira en 200 konur hafa fengið fæðingarráðgjöf og 55 þolendur kynbundins ofbeldis hafa leitað til heilsugæslustöðvarinnar.
Almennir borgarar verða verst úti í átökunum, sérstaklega konur og börn sem hafa orðið fyrir áföllum og sofa nú örmagna undir berum himni, og eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi. UNFPA hefur komið upp hreyfanlegum heilsugæslustöðvum á fleiri stöðum, t.d. í Bulengo og Bujari, og hefur aðstoðað við að endurreisa tvö fæðingarheimili í héraðinu.
Frá upphafi ástandsins hefur verið komið í veg fyrir meira en 1.200 tilfelli mæðradauða og hefur heilbrigðisstarfsfólk aðstoðað við um 3.800 fæðingar. Um 4.000 einstaklingar hafa óskað eftir getnaðarvarnarráðgjöf víðs vegar í Norður-Kivu hérað og hefur um 20 tonnum af birgðum er varða frjósemisheilbrigði verið dreift um svæðið. Auk þess hefur um 5.000 sæmdarsettum (e. dignity kits) verið dreift, og yfir 2.200 þolendur kynbundins ofbeldis hafa leitað til og fengið læknisaðstoð frá UNFPA heilsugæslustöðvum á svæðinu.
Öll þessi inngrip voru möguleg þökk sé samstarfi UNFPA og stjórnvalda, staðbundinna félagasamtaka og fjármögnun frá Japan.
UNFPA mun halda áfram að aðstoða fólk víðsvegar um Lýðveldið Kongó og er að auka starfsemi sína á svæðinu svo hægt sé að til að tryggja konum og stúlkum í neyð áframhaldandi aðgang að ókeypis heilbrigðisþjónustu á næstu mánuðum.
Heimild: UNFPA
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stendur fyrir námskeiðinu “Heimsmarkmiðin og ég” í Háskóla unga fólksins í sumar og hvetjum við öll hugvitssöm og snjöll ungmenni til að skrá sig. Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Kristrún María Heiðberg, kennari og verkefnastjóri UNESCO-skóla munu leiða námskeiðið.
Skólinn stendur yfir dagana 12.-16. júní og er opinn öllum ungmennum á aldrinum 12-14 ára. Árgangar 2009, 2010 og 2011 geta skráð sig, þ.e. nemendur í 6. – 8. bekk.
Opnað verður fyrir skráningu í Háskóla unga fólksins í dag kl. 𝟏𝟓:𝟎𝟎. Háskóli unga fólksins hefur fyllst fljótt eftir að opnað hefur verið fyrir skráningar og væri því best að skrá sig sem allra fyrst!
Skráning fer fram hér.
Aðalfundur félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi verður haldinn miðvikudaginn 31. maí 2023, kl. 17:00 í nýjum heimkynnum þess að Sigtúni 42.
Dagskrá fundarins er:
Félagar í félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem hafa verið skráð sem félagar í mánuð eða lengur hafa atkvæðarétt.
Minnt er á að framboð til stjórnar þarf að berast að minnsta kosti þremur virkum dögum fyrir aðalfund (í síðasta lagi 25. maí 2023) á vala@un.is.
Hvetjum öll til að mæta.
f.h. stjórnar Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
Dagana 8. til 12. maí fer UNFF18 (UN Forum on Forest) fram í New York í átjánda skipti. UNFF er stefnumarkandi fundur háttsettra fulltrúa samstarfsríkja og er tilgangurinn að innleiða samninga er tengjast skógum, efla sameiginlegan skilning á sjálfbærri nýtingu skóga, hafa eftirlit með pólitískum skuldbindingum og fylgja þeim eftir.
Á fundinum verður sérstaklega farið yfir framkvæmd áætlunar Sameinuðu þjóðanna um skóga 2017-2030, en aðaláherslan verður á að vekja athygli á hvernig verndum skóga er mannfólki til hagsbóta, stækkun svæða verndaðra skóga, hvernig virkja megi auðlindir og efla vísindasamstarf.
→ Skógar þekja 31% alls lands á jörðinni og gleypa í sig um tvo milljarða tonna af CO2 á hverju ári.
→ Um 76 milljónir tonna af fæðu úr skógum, 95% þeirrar fæðu er úr plöntum.
→ Mörg lyf sem við treystum á koma einnig úr skógum.
→ 25% lyfja sem notuð eru í þróuðum löndum eru gerð úr plöntum
og allt að 80% lyfja sem notuð eru í þróunarlöndum.
→ Lífsviðurværi 80% tegunda lífvera sem búa á landi eru háð skógum á einhvern hátt.
Hægt er að fylgjast með fundinum í beinu streymi hér.
Heimild: UN
Í 75 ár hefur félagið vakið athygli á starfsemi Sameinuðu þjóðanna um allan heim. Ótal manns gefið vinnuframlag sitt með sjálfboðavinnu en einnig hafa ótal starfsnemar og starfsfólk í gegnum tíðina unnið heilshugar í þágu málefna Sameinuðu þjóðanna.
Verkefnin hafa verið margskonar og fer þeim sífellt fjölgandi. Öll hafa þau það að markmiði að auka þekkingu á starfsemi Sameinuðu þjóðanna, mikilvægi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og að efla fræðslu og samtal um málefni þeim tengdum.
Í tilefni dagsins deilir félagið ýmsum fréttaumfjöllunum í gegnum árin!
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi þakkar kærlega fyrir samfylgdina í þau 75 ár sem félagið hefur verið starfandi og minnir á að félagsaðild er opin hverjum sem er.
Samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er áætlað er að um 640 milljónir stúlkna og kvenna sem eru á lífi í dag hafi gifst barnungar. Næstum því helmingur allra barnahjónabanda, eða um 45 prósent, á sér stað í Suður-Asíu, 20 prósent í Afríku sunnan Sahara, 15 prósent í Austur-Asíu og Kyrrahafssvæðinu, en þar á eftir eru Suður-Ameríka og Karabíahafið með 9 prósent.
Þriðjungur barnahjónabanda á sér stað á Indlandi.
Hlutfall barnahjónabanda sem eiga sér stað á Indlandi einu og sér, jafnast á við fjölda barnahjónabanda sem eiga sér stað í 10 öðrum löndum sem mynda næsta þriðjung. Síðasti þriðjungurinn dreifist yfir 192 lönd um allan heim.
Fækkun á barnahjónaböndum er ekki að gerast nógu hratt svo hægt sé að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem snýr að úrýmingu barnahjónabanda fyrir árið 2030. Þrátt fyrir framfarir á heimsvísu þyrftu framfarirnar að vera 20 sinnum meiri svo að möguleiki væri á að ná markmiðinu um að binda endi á barnahjónabönd fyrir árið 2030.
Ef fram heldur sem horfir mun hefðinni um barnahjónabönd ekki verða útrýmt fyrr en eftir 300 ár.
Heimildir: UNICEF og Utanríkisráðuneytið
Átökin í Súdan eru á milli súdanska hersins og RSF-uppreisnarhersins og snúast átökin í grófum dráttum um að ná mikilvægum innviðum á sitt vald. RFS-herinn samanstendur af vígasveitum sem mynduðust í stríði sem braust út í Darfur árið 2003, og hefur herinn oft gerst uppvís um ýmis mannréttindabrot.
Síðastliðinn laugardag vöknuðu íbúar Khartoum við sprengjur og byssuskot. Á upphafsdegi átakanna létu þrír starfsmenn World Food Programme (Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna) lífið, og eru tveir aðrir starfsmenn særðir. Sömuleiðis urðu miklar skemmdir á flugvél UNHAS (UN Humanitarian Air Service) á alþjóðaflugvellinum í Khartoum sem skerti getu WFP til að flytja mannúðarstarfsfólk á milli og aðstoða innan landsins.
Áður en átökin brutust út reiddi þriðjungur súdönsku þjóðarinnar (u.þ.b. 16 milljónir) sig á matvæla og mannúðaraðsstoð, en vegna erfiðleika við að tryggja öryggi mannúðarstarfsfólks liggur allt hjálparstarf nú niðri. Dánartölur og tölur særðra hækka með verjum degi sem líður og hafa tugir þúsunda flúið land. Í Khartoum er skortur á mat, lyfjum, eldsneyti og ýmsum öðrum vörum, en auk þess eru miklar truflanir á rafmagns- og netsambandi. Þá hafa margar heilbrigðisstofnanir hætt starfsemi vegna sprengjuárása.
Nokkrir fróðleiksmolar um Súdan:
Heimildir: UN, Utanríkisráðuneytið, RÚV
Nýr rammasamningur utanríkisráðuneytisins við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var undirritaður þann 13. apríl síðastliðinn af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og Völu Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóra félagsins. Um er að ræða samning sem gerður er til þriggja ára, á tímabilinu 2023-2025.
Á sama tíma og Félag SÞ skrifaði undir sinn samning voru rammasamningar undirritaðir við UNICEF og UN Women á Íslandi. Rammasamningar af þessu tagi skipta sköpum fyrir samtökin sem öll sinna veigamiklu kynningarstarfi á Íslandi um málefni SÞ, kynningu og fræðslu á heimsmarkmiðum SÞ og alþjóðalega þróunarsamvinnu.
„Það er afar ánægjulegt að sjá það traust sem stjórnvöld bera til félagsins, en þess má geta að á árinu fagnar það 75 ára afmæli sínu. Rammasamningurinn eykur því fyrirsjáanleika og tryggir grundvöll fyrir rekstur félagsins til áframhaldandi verkefna sem eru sífellt að færast í aukana,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Sjá frétt frá Utanríkisráðuneytinu um samninginn.
Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar mun sækja ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF) New York í júlí 2023 fyrir hönd ungmenna á Íslandi.
Um ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna (HLPF)
Fundurinn fer fram árlega, en á nokkurra ára fresti kynna aðildarríki Sameinuðu þjóðanna svokallaðar landrýnisskýrslur (e. Voluntary National Review), þar sem farið er yfir stöðuna á innleiðingu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun í hverju landi fyrir sig. Þessar skýrslur eru hluti af alþjóðlegri eftirfylgni með framgangi heimsmarkmiðanna og er mælst til þess að ríki skili að minnsta kosti þrisvar sinnum inn slíkum skýrslum á gildistíma heimsmarkmiðanna. Ísland skilaði seinast inn landrýnisskýrslu árið 2019 og mun gera það aftur nú í júní.
Landrýniskýrsla Íslands
Vinna við gerð skýrslunnar hefur staðið yfir hjá stjórnvöldum undanfarna mánuði þar sem ýmsir aðilar, atvinnulíf, borgarasamfélag og ungmenni munu meðal annars koma til með að segja frá sínum sjónarmiðum en það eykur gegnsæi og ákveðið aðhald við stjórnvöld til þess að gera vel þegar kemur að innleiðingu heimsmarkmiðanna.
Ein opna í skýrslunni verður tileinkuð börnum og ungmennum. Ungmennaráð heimsmarkmiðanna mun skrifa eina blaðsíðu í skýrslunni þar sem áherslur barna koma fram og svo á sömu opnu verður blaðsíða fyrir áherslur ungmenna á Íslandi.
Ungmennafulltrúa Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar var falið að taka saman þennan texta fyrir hönd ungs fólks á Íslandi ásamt því að hún mun ávarpa þingið þegar Ísland kynnir skýrsluna til að koma rödd og áherslum ungmenna enn frekar á framfæri.
Öllu ungu fólki á Íslandi boðið að taka þátt
Til þess að tryggja að þessi samantekt endurspegli raunverulega áherslur ungs fólks á Íslandi hefur Rebekka útbúið könnun þar sem öllum á aldrinum 15 – 35 ára gefst kostur á að koma sínum áherslum á framfæri. Svörin verða notuð í samantektina og nýtast þau þannig til þess að þrýsta á íslensk stjórnvöld til að gera betur í málefnum ungs fólks á Íslandi í tengslum við innleiðingu heimsmarkmiðanna.
Það tekur örfáar mínútur að svara könnuninni og verður hún opin til 21. apríl nk. LUF hvetur öll til þess að taka þátt og tryggja þannig sterka aðkomu ungs fólks að vinnu landrýnisskýrslunnar og innleiðingu stjórnvalda á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem rödd ungs fólks skiptir samfélagi okkar gríðarlega miklu máli.
ATH! Fréttin er að mestu fengin frá fréttatilkynningu Landsambands ungmennafélaga.
Heimild: Hvað finnst þér um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðum SÞ? – Landssamband ungmennafélaga (luf.is)