Flóttafólk frá Suður-Súdan kallar eftir friði

Fólk á flótta innan og frá Suður-Súdan vegna langvinnra átaka, og vegna vandamála tengdum loftslagskreppunni, kalla eftir friði.

Sawibu Rashidi og Jokino Othong Odok flúðu báðir heimili sín í Suður-Súdan í leit að öryggi. Það er áratugur frá því að átökin í heimalandi þeirra hófust, og að snúa aftur í örugga heimahaga er fjarstæður draumur, bæði fyrir Sawibu, sem flúði til nágranna Lýðveldisins Kongó, og fyrir Jokino sem leitaði skjóls á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan.

Jokino Othong Odok hefur búið á verndarsvæði í Malakal í áratug. Hann langar að snúa aftur heim til sín í Malakal bæ, en það er ekki öruggt. © UNHCR/Charlotte Hallqvist

 

Þeir eru ekki þeir einu sem eru í nákvæmlega þessari stöðu. Flóttamannakrísan í Suður-Súdan er ein sú mesta í Afríku, en 2,3 milljónir manna búa sem flóttafólk í nágrannalöndunum og 2,2 milljónir til viðbótar eru á flótta. Landið og íbúar þess þjást vegna borgarastyrjaldar og þrálátra þjóðernisátaka, en einnig vegna hrikalegra áhrifa loftslagsbreytinga, sem setja milljónir manna í neyð og gerir það óhugsandi fyrir fólk að snúa aftur heim.

Verndarsvæðið í Malakal er yfirfullt af fólki, og er fjöldinn orðinn þrefalt meiri en áætlað var að myndu búa í búðunum. © UNHCR/Charlotte Hallqvist

Í upplausnarástandinu sem myndaðist á flóttanum árið 2016 varð Sawibu viðskila við fjölskyldumeðlimi sína þegar hann flúði til Lýðveldisins Kongó. Sumir fjölskyldumeðlimir fundu öruggt skjól í Úganda, aðrir í Lýðveldinu Kongó. Sawibu býr nú á Biringi-svæðinu í Ituri-héraði í Kongó, ásamt eiginkonu og fimm börnum sínum. Þar starfar Sawibu sem Imam og leiðtogi samfélags flóttafólks. 

Hann bendir á að í suður-súdanska samfélaginu í Biringi sé góð samþætting fólks af ólíkum uppruna og trúarbrögðum – aðstæður sem hann vonast til að sjá á endanum í heimalandi sínu Suður-Súdan.

Sawibu Rashidi flúði frá Suður-Súdan árið 2016 og býr nú í Lýðveldinu Kongó í Ituri-héraði. Sawibu starfar þar sem Imam og leiðtogi samfélags flóttafólks.  © UNHCR/Joel Z Smith

 

“Ég er leiðtogi múslimsks samfélags frá Suður-Súdan, en hér í Lýðveldinu Kongó biðjum við öll á sama svæði, sem kongólskir múslimar. Á sama hátt biður kristið fólk úr mínu samfélagi með infæddu kristnu fólki, og við deilum sama markaði” segir Sawibu.

“Fólk þarf fyrst og fremst frið…”

“…Við erum öll á flótta undan átökum í Suður-Súdan, en nú hafa átökin í Ituri færst nær okkur” segir Sawibu. “Við heyrum af árásum og morðum, og það hræðir okkur mjög mikið, sérstaklega í ljósi bakgrunns okkar.”

Fjölskylduskýli á verndarsvæði í Malakal, þar sem Jokino Othong Odok hefur búið síðan árið 2013, í einungis nokkurra kílómetra fjarlægð frá heimili sínu. © UNHCR/Charlotte Hallqvist

 

Jokino og Sawibu eru með svipaðar framtíðarvonir. Þeir nefna báðir hve heitt þeir óska þess að geta nýtt hæfileika sína og getu til að byggja upp sín eigin samfélög og sitt eigið land. Sawibu segir að jafnvel fólk með góða menntun eigi erfitt með að finna vinnu. “Ef það væru ekki átök og það ríkti friður, myndum við geta snúið aftur heim og látið gott af okkur leiða til að stuðla að jákvæðri þróun samfélagsins [okkar].

Jokino er á sama máli: “Við lifum á góðvild annarra… en fólk með metnað til að lifa betra lífi vill ekki lifa svona.“

Hinsta ósk Jokino og Sawibu er að það verði friður svo fólk geti snúið aftur heim. “Við þurfum á friði að halda í Suður-Súdan, svo hver og einn geti notið lífsins, svo við þurfum ekki að fyrirlíta okkar eigið land” segir Sawibu. “Við viljum mest af öllu geta þótt vænt um landið okkar”.

 

 

Heimild: UNHCR

Sögulegt samkomulag um alþjóðlega verndun lífríkis sjávar

António Guterres heillaði aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og sagði að um sannkölluð tímamót sé að ræða. Eftir nærri tvo áratugi af samningaviðræðum náðu aðildaríki SÞ að ljúka við sáttmála sem tryggir verndun hafsins og sjálfbæra nýtingu á auðlindum hafsins á svæðum utan landhelgi ríkja.

Guterres segir að Hafsáttmálinn muni skipta sköpum þegar kemur að því að taka á hinni þreföldu kreppu sem plánetan stendur frammi fyrir vegna; loftslagsbreytinga, tapi á líffræðilegum fjölbreytileika og mengunar.

©UN

Samkvæmt hafsáttmálanum verða 30% heimshafa vernduð, auk þesss sem sett verður meira fjármagn í verndun sjávar.

Sáttmálinn sem fulltrúar milliríkjaráðstefnunnar um líffræðilegan fjölbreytileika sjávar á svæðum handan landhelgi (Intergovernmental Conference on Marine Biodiversity of Areas Beyond National Jurisdiction), betur þekkt sem BBNJ, er hápunktur starfs Sameinuðu þjóðanna sem hófst árið 2004.

©UN

Þetta skref er sigur fyrir fjölþjóðahyggju og allar heimsins tilraunir til að vinna gegn skaðsamlegri þróun á heilbrigði hafsins, nú og fyrir komandi kynslóðir” sagði talsmaður Guterres í yfirlýsingu sem gefin var út seint á laugardaginn einungis nokkrum klukkustundum eftir að samningaviðræðum lauk í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, þar sem samningaviðræður um drög að sáttmálanum hafa staðið yfir undanfarnar tvær vikur.

 

 

 

Mennta- og barnamálaráðherra afhent verkefni úr Heimsins stærstu kennslustund

Tvö ungmenni frá Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, þau Íris Sævarsdóttir og Þröstur Flóki Klemensson, áttu fund með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í dag 3. mars og afhentu honum verkefni nemenda sem unnin voru í Heimsins stærstu kennslustund 6. des. 2022.

Fulltrúar ungmennaráðs heimsmarkmiðanna sem stjórnuðu kennslustundinni í desember ræða við ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins um niðurstöður hennar.
Kristrún, verkefnastjóri UNESCO-skóla, Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra ásamt Írisi og Þresti við afhendingu niðurstaðna úr heimsins stærstu kennslustund þann 3. mars.

Heimsins stærsta kennslustund (e. World Largest Lesson) er árlegt átak sem snýr að kennslu á heimsmarkmiðunum og er styrkt af UNESCO. Markmiðið er að efla vitund nemenda og hvetja þá til aðgerða er kemur að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á loftslagsmál og hvernig ungt fólk getur lagt sitt af mörkum til að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum. Áherslan í ár er á raddir barna og heimsmarkmið nr. 4 um menntun fyrir alla.

Heimsins stærsta kennslustund var haldin í Landakotsskóla. Það voru nemendur í 8. bekk sem unnu verkefni er snýr að röddum barna og heimsmarkmiði nr. 4 – Menntun fyrir alla. Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, tóku þátt í kennslustundinni og fluttu ávörp þar sem þau ræddu m.a. um mikilvægi menntunar og að hlustað sé á raddir barna. Agnes, Íris og Þröstur frá Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ stýrðu kennslustundinni.

Frá Heimsins stærstu kennslustund þann 6. desember sl. Eliza Reid forsetafrú ásamt nemendum í Landakotsskóla, Kristrúnu verkefnastjóra UNESCO skóla og fulltrúum Ungmennaráðs heimsmarkmiðanna, þeim Írisi, Agnesi og Þresti.

UNESCO-skólaverkefnið er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, en eitt forgangsmála verkefnisstjórnar sem vinnur að innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi er að efla menntun og fræðslu þegar kemur að sjálfbærni, friði og mannréttindum.

UNESCO-skólar eru um 12 þúsund talsins um heim allan í yfir 180 löndum. Áhersluatriði þeirra eru friður og mannréttindi, heimsmarkmið SÞ, alþjóðasamstarf og starfsemi SÞ. UNESCO-skólar á Íslandi eru nú 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í innleiðingarferli.

Utanríkisráðherra lagði áherslu á varðstöðu um lýðræði, frelsi og mannréttindi er hún ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf á mánudaginn

Við upphaf 52. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna s.l. mánudag, ávarpaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mannréttindaráðið. Auk þess tók ráðherra þátt í mannúðarráðstefnu um Jemen og flutti ræðu fyrir hönd Norðurlanda á viðburði til stuðnings Úkraínu.

Í stefnuræðu Íslands um alþjóðleg mannréttindamál fordæmdi hún harðlega innrás Rússlands í Úkraínu og minnti á skelfilegar afleiðingar stríðsins sem hefðu víðtæk áhrif á mannréttindi víða.

„Með innrásinni er vegið að kjarna stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðakerfinu sem grundvallast á virðingu fyrir alþjóðalögum. Markmið hennar er að grafa undan grundvallarmannréttindum sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa skuldbundið sig til að verja“.

Þórdís Kolbrún tók einnig þátt í mannúðarráðstefnu um Jemen, en mikil þörf er á mannúðaraðstoð í Jemen vegan viðvarandi stríðs í landinu. Á ráðstefnunni tilkynnti Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra ný áheit að upphæð 350 milljónir króna fyrir tímabilið 2023-2025 og ítrekaði eldri áheit að upphæð 95 milljónir króna fyrir árið í ár

Utanríkisráðherra skoraði jafnframt á talíbana í Afganistan að virða mannréttindi og láta af kúgun í garð kvenna. Þá lýsti hún yfir áframhaldandi stuðningi við íbúa Íran sem enn sæta kúgunar af hálfu stjórnvalda. Í ávarpi sínu sagði utanríkisráðherra:  „Við megum aldrei gleyma því að grundvallarréttindi einstaklinga, þar á meðal samkomufrelsi, tjáningarfrelsi, hugsanafrelsi og skoðanafrelsi eru nauðsynlegur drifkraftur nýbreytni og sköpunar, sem eru aftur á móti undirstöðuþættir efnahagslegra og félagslegra framfara“.

Þá flutti Utanríkisráðherra ávarp fyrir hönd Norðurlandanna á sérstökum viðburði Úkraínu í tilefni þess að ár er liðið frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu. Í ávarpinu ítrekaði Þórdís Kolbrún stuðning Íslands og Norðurlandanna við úkraínsku þjóðina og sagði það sameiginlegt verkefni heimsbyggðarinnar að standa vörð um lýðræði, réttarríkið og mannréttindi.

Unnur Lárusdóttir nýr ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda

 

Unnur Lárusdóttir fulltrúi SÍNE (Sambands íslenskra námsmanna erlendis) var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda, á Sambandsþingi LUF (Landssambands ungmennafélaga) sem haldið var s.l. laugardag á Háskólatorgi. Sex voru í framboði, en næstflest atkvæði hlaut Sólveig Ástudóttir Daðadóttir, fulltrúi Q-félags hinsegin stúdenta, og mun hún því starfa sem varafulltrúi. 

Unnur Lárusdóttir, Geir Finnsson og Sólveig Ástudóttir Daðadóttir

 

Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda mun sitja í alþjóðaráði LUF sem er samráðsvettvangur aðildarfélaga er varðar alþjóðlegt starf. Ungmennafulltrúinn skipar einnig sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ, en sendinefndin starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta.

Unnur Lárusdóttir stundaði nám við Háskólann í Amsterdam þar sem hún lagði áherslu á jafnréttismál og mannréttindi og útskrifaðist með gráðu í þverfaglegri stjórnmálafræði. Unnur hefur reynslu af réttindabaráttu ungmenna og hefur hún m.a. setið í stjórn hjá UN Women á Íslandi og sótt ráðstefnur á vegum European Youth Parliament. Unnur hefur einnig starfað við rannsóknir á mannréttindum og réttindum barna hjá UNICEF og félagsmálaráðuneytinu þar sem hún kannaði innleiðingu á barnvænu hagsmunamati. 

Unnur Lárusdóttir nýkjörin ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda

 

Skipun ungmennafulltrúa og þátttaka þeirra er samstarf Landssambands ungmennafélaga, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Utanríkisráðuneytisins. Unnur mun sækja 78. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í september fyrir hönd ungs fólks á Íslandi.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi óskar Unni innilega til hamingju. Við hlökkum til að sjá þig í þessu virkilega spennandi hlutverki.

 

Heimild: LUF

“Loftslagsbreytingar og átök valda gríðarlegri mannúðarþörf”

Kjartan Atli Óskarsson starfar sem aðstoðar verndarfulltrúi (e. Associate Protection Officer) hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR) í Juba, í Suður Súdan. Kjartan er uppalinn á Akureyri og hefur menntað sig í bæði stjórnmálafræði og sagnfræði. Kjartan Atli sótti um ungliðastöðu JPO (Junior Professional Officer Programme) í gegnum Utanríkisráðuneytið. Staðan er styrkt af ráðuneytinu en um ræðir sérfræðistörf sem ungum Íslendingum bjóðast á vegum Sameinuðu þjóðanna víða um veröld, svokallaðar. Um þessar mundir eru sex Íslendingar í slíkum störfum í Líbanon, Suður Súdan, Kenía, Simbabve, Malaví og Sierra Leone.

Kjartan hefur starfað hjá UNHCR í eitt ár eða frá því í febrúar 2022, og í tilefni af því var tekið við hann viðtal um hans upplifun af starfinu.  

 

Kjartan Atli Óskarsson JPO í Juba, Suður Súdan

 

Hvers vegna valdir þú að vinna fyrir UNHCR? 

„Það sem mér fannst áhugavert við að vinna fyrir UNHCR var að stofnunin vinnur með málaflokk sem fer aðeins vaxandi. Ef litið er til fjölgunar flóttafólks og fólks sem er á flótta innan eigin lands á heimvísu, er ljóst að þarfir þessa fólks munu aðeins halda áfram að aukast. Staðan í málefnum flóttafólks er krefjandi og tel ég mig geta lagt mitt af mörkum í því mikilvæga starfi sem unnið er á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

 

Það sem mér þótti enn fremur áhugavert var að fá frekari innsýn í hvernig viðbrögð við mannlegri neyð virka – sér í lagi þegar að kemur að fólki sem er á flótta innan eigin lands (e. internally displaced persons) eða IDPs eins og þetta er kallað í daglegu tali. IDPs er fjarlægt hugtak fyrir einstakling frá Íslandi og því er það mikil áskorun að vinna í kringum þann málaflokk.  

 

Mér fannst því spennandi að fá tækifæri til að vinna í mannúðarmálum, sérstaklega á stað eins og Suður-Súdan. Ástandið í Suður-Súdan er töluvert frábrugðið því sem maður er vanur frá Íslandi – sem dæmi má nefna að það ríkir útgöngubann á starfsfólk Sameinuðu þjóðanna á kvöldin – og það má því með sanni segja að með því að koma hingað hafi ég stígið stórt skref út fyrir þægindaramann. 

 

Áður en ég hóf störf hjá UNHCR starfaði ég í áritunardeild og borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytis Íslands. Einn angi þess starf fólst í því að aðstoða íslenska ríkisborgara sem voru í neyð erlendis. Sú reynsla hefur eflaust kveikt þennan neista hjá mér að fara að starfa hjá UNHCR og hjálpa þeim sem eru í neyð.“ 

 

Kjartan Atli Óskarsson ásamt fólki sem er á flótta innanlands, í Malakal Suður Súdan. ©Mila Julius Henry Lokuta

 

Hvernig myndir þú lýsa starfi þínu? 

Starfssvið mitt frá því að ég byrjaði hér hefur verið mjög fjölbreytt og hef ég fengið að skyggnast inn í mörg hlutverk hér hjá UNHCR. Í dag starfa ég sem teymisstjóri í teymi sem einbeitir sér að fólki sem er á flótta innan eigin lands. Meira en 2.2 milljónir manna eru á vergangi innan Suður-Súdan. Sá flótti stafar bæði af átökum og loftslagsbreytingum, sér í lagi flóðum. Suður-Súdan er í framlínu loftslagsvárinnar og glíma daglega við afleiðingar loftslagsbreytinga. Staðan í Suður-Súdan er þar af leiðandi erfið í ljósi þess að landið hefur valdið litlum skerf loftslagsbreytinga en ber hvað mestan kostnað þegar að kemur að afleiðingum þeirra. 

 

Teymið sem ég starfa hjá veitir svæðisskrifstofum UNHCR í Suður-Súdan stuðning í verkefnum sem snúa að fólki sem er á flótta innanlands. Það felur í sér reglubundnar heimsóknir í IDPs búðir og samstarf með framkvæmdaaðilum okkar við að bera kennsl á fólk sem er í sérstaklega viðkvæmum aðstæðum og tryggja að þau hafi aðgang að réttindum sínum. Þetta geta til dæmis verið fatlaðir einstaklingar, einstæðir foreldrar, aðallega konur og heimilishald þar sem börn þurfa að annast aldraða. 

 

Mannúðarþörfin í Suður-Súdan er gríðarleg, nauðungarflutningar eiga sér stað nánast daglega. Þegar að nauðungarflutningar eiga sér stað þarf UNHCR að bregðast hratt og örugglega við, í samstarfi við aðra samstarfsaðila sem starfa í mannúðarmálum. Í því felst að til að mynda að finna það fólk sem er á flótta, meta þarfir þess og veita því viðeigandi aðstoð. Þessi aðstoð getur verið í formi þess að útvega nauðsynjar, veita peningaaðstoð eða að leiðbeina þeim í átt að nauðsynlegri grunnþjónustu. 

 

Að vinna með fólki sem er á flótta innan eigin lands getur reynst töluverð áskorun í samanburði við að vinna með flóttafólki, þar sem umboð, lög og reglugerðir eru umtalsvert óskýrari. Fólk sem er á flótta innan eigin lands er eðli málsins samkvæmt innan landamæra síns eigin ríkis og lítur því að þeim stjórnvöldum sem eru þar við völd, sem þýðir að ríkið sjálft er ábyrgt fyrir velferð þeirra. Fólk á flótta innan eigin lands flytjast oft til svæða þar sem erfitt reynist fyrir okkur að veita mannúðaraðstoð og af því leiðir er þetta fólk á meðal viðkvæmustu hópa í heiminum.“ 

 

Verið að gefa föt í Juba. ©Kume Michael Koang

 

Hvaða upplifanir hafa reynst eftirminnilegastar í störfum þínum fyrir UNHCR? 

„Eftirminnilegustu augnablikin eru þegar að þú getur veitt aðstoð til þeirra sem eru í gríðar mikilli neyð. Í Upper Nile, í norðurhluta Suður-Súdan, brutust út átök í ágúst 2022 sem hafa leitt til þess að tugþúsundir manna hafa verið á flótta. Sem hluti af teyminu mínu hef ég þrisvar sinnum ferðast til Malakal til að styðja við svæðisskrifstofu okkar þar sem leiðir viðbragðsáætlun UNHCR á þessu svæði. Í fyrsta skipti þegar að ég fór þar var það tiltölulega stuttu eftir að átökin höfðu blossað upp og var í raun ótrúlegt að sjá hversu fljótt og fagmannlega UNHCR brást við erfiðu ástandinu. 

 

Að heimsækja mismunandi staði í Suður-Súdan er áhrifamikið og sjá allt það frábæra starf sem svæðisskrifstofur okkar eru að vinna er magnað. Þau starfa náið með fólki sem hefur upplifað erfiða hluti og þó það sé alltaf jafn erfitt að sjá alla eyðilegginguna og mannlegar afleiðingar átaka, þá er það sama tíma traustvekjandi að sjá skjót og hispurslaus viðbrögð samstarfsfélaga minna hjá UNHCR.“ 

 


CCCM þjálfun í Adidiyang, Upper Nile ©Igor Latluk

 

Hverjar eru áskoranir sem felast í því að starfa fyrir UNHCR og hvernig hefurðu upplifað þær? 

Það felast þónokkrar áskoranir í því að starfa á því hættu svæði sem Suður-Súdan því miður er í dag. Í byrjun september heimsótti ég átaka svæði í Upper Nile og heimsóttum við stað við Hvítu-Níl sem heitir Adidiang. Þar hafði UNHCR, í samvinnu við aðra samstarfsaðila og stofnanir, aðstoðað við að koma upp búðum fyrir nokkur þúsund manns sem voru á flótta og höfðu neyðst til að flýja heimili sín. Aðeins viku síðar fékk ég svo þær fréttir að ráðist hefði verið á Adidiang og fólkið hefði neyðst aftur til að flýja fyrir lífi sínu. Þessi atburður undirstrikaði fyrir mér hversu viðkvæmt ástandið í Suður Súdan er fyrir fólk á flótta. 

 

Í desember á síðasta ári heimsótti ég líka þorp sem heitir Diel í norðurhluta Jonglei fylkis. Þar sá ég með eigin augum eftirköst árásar á þorp. Það var sláandi að sjá brunnin hús útum alls staðar og aldrað fólk sem sat í húsarústunum. Að sjá afleiðingar ofbeldis er alltaf óþægileg reynsla. 

 

Áskoranirnar framundan í Suður-Súdan eru miklar. Átökin Upper Nile ríkinu eru mjög alvarleg og engin lausn í sjónmáli. Stríðandi fylkingar hafa sérstaklega ráðist gegn óbreyttum borgurum, sem hefur ásamt auknum flóðum leitt til aukinna nauðungarflutninga. Upper Nile er birtingarmynd þess hversu gríðarlega mannúðarþörf loftslagsbreytingar og átök hafa skapað.“ 

 

Í Malakal ©Mila Julius Henry Lokuta

 

Félag Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir opnum kynningarfundi með Utanríkisráðuneytinu á þremur ungliðastöðum sem nú stendur til boða að sækja um. Kynningarfundurinn verður haldinn þann 22. febrúar, kl 12:00-13:15, og verður fundurinn rafrænn. 

Sótt er um á vef Stjórnarráðsins og er umsóknarfrestur til og með 15. mars 2023.

Nánari upplýsingar um ungliðaverkefni Sameinuðu þjóðanna og stöðurnar þrjár má finna hér, en áhugasöm geta einnig haft samband við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fyrir frekari upplýsingar.

Hópur íslenskra sérfræðinga í aðgerðastjórnun í rústabjörgun á hamfærasvæðum lentur á Tyrklandi

Hópur íslenskra sérfræðinga í aðgerðastjórnun í rústabjörgun á hamfærasvæðum  flaug til Tyrklands í gærkvöldi og lenti þar um kl 4 í nótt að íslenskum tíma. Upphaflega átti flugvél Landhelgisgæslunnar að fljúga með hópinn í gærdag, en vegna veðurs þurfti að fresta fluginu til næsta dags. En þar sem hver mínúta skiptir máli í hamförum sem þessum, var samið við Icelandair um að flytja hópinn til Tyrklands eins fljótt og hægt er, í gærkvöldi.

 

Á Gaziantep-flugvelli. Mynd: Landsbjörg

 

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa sent út neyðarkall eftir aðstoð, og hafa viðbragðskerfi Sameinuðu þjóðanna og Atlandshafsbandalagsins gegnt mikilvægum þætti í að koma hjálparbeiðnum áleiðis. Íslensk stjórnvöld munu aðstoða við hjálpar- og björgunarstarfið í Tyrklandi, en einnig styðja fórnarlömb sem eiga um sárt að binda, í gegnum alþjóðleg hjálparsamtök.

 

Mynd: AFP/Adem Altan

Hópurinn sem fór til Tyrklands er sérfræðingasveit sem starfar innan vébanda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Í hópnum eru aðgerðastjórnendur, verkfræðingar og stuðningsteymi. Ísland er þátttakandi samstarfsvettvangs á vegum Sameinuðu þjóðanna um rústabjörgun (INSARAG) og er sveitin á viðbragðslista hans. Íslenski hóp­ur­inn mun vinna að svæðis­stjórn á Gazi­an­tep-svæðinu með björg­un­ar­hópi frá Kat­ar.

 

Mynd: Landsbjörg

 

 

 

Heimildir: Stjórnarráð Íslands og MBL.

UNHCR lýsir yfir þakklæti vegna auka framlags Íslands til UNHCR árið 2022

Árið 2022 lagði Ísland fram tvöfalt hærra fjárframlag til UNHCR (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna) og er það stærsta fjárframlag sem Ísland hefur nokkru sinni lagt til UNHCR. Framlag Íslands var 4,2 milljónir bandaríkjadala sem eru um 600 milljónir íslenskra króna. Af framlaginu voru um 1,5 milljónir bandaríkjadala svokallað  óeyrnamerkt fjármagn, og er það þreföldun á slíku framlagi frá fyrra ári. 

„Þökk sé þessum fjármunum getum við aðstoðað flóttafólk, ekki aðeins við að finna öryggi, heldur einnig til að geta endurbyggt líf sitt með því að tryggja aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun og lífsviðurværi. Sem lítið land er alþjóðleg þátttaka Íslands í flóttamannavernd öðrum innblástur,“ sagði Henrik M. Nordentoft fulltrúi UNHCR fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin. „Við vonum að Ísland haldi áfram þessu mikilvæga verkefni og beiti sömu sterku skuldbindingu um vernd flóttafólks heima fyrir.“ 

Kateryna með tveggja ára son sinn. Hún flúði til Póllands með fjölskyldu sinni í mars 2022  © UNHCR/Anna Liminowicz
Kateryna með tveggja ára son sinn. Hún flúði til Póllands með fjölskyldu sinni í mars 2022 © UNHCR/Anna Liminowicz

Framlag Íslands er gífurlega mikilvægt fyrir starf UNHCR, sem vinnur að því að aðstoða og vernda flóttafólk sem neyðist til að yfirgefa heimili sín. Árið 2022 var sérstaklega slæmt, og þar spilaði stríðið í Úkraínu stóran þátt. Stríðið hrinti af stað stærstu og verstu flóttamannakreppu sem hefur átt sér stað síðan í Seinni heimstyrjöldinni. Tæplega 8 milljónir manna hafa flúið Úkraínu auk þess sem um 6 milljónir eru á flótta innanlands.  

Valentina, 83 ára, situr á rúmi sínu í flóttamannaskýli í Kraká, Póllandi. UNHCR/Anna Liminowicz
Valentina, 83 ára, situr á rúmi sínu í flóttamannaskýli í Kraká, Póllandi. UNHCR/Anna Liminowicz

„Með meira en 100 milljónir manna sem eru neyddar frá heimilum sínum um gjörvallan heim vegna stríðs, ofbeldis, ofsókna og mannréttindabrota, er mannúðar- og verndarþörf mikil. Við treystum á stuðning gjafalanda og á Ísland í því sambandi skilið viðurkenningu fyrir að bregðast skjótt við alþjóðlegum aðstæðum með því að auka fjárframlög sín . . . Stuðningur Íslands og annara mannúðargjafa mun halda áfram að bjarga mannslífum árið 2023“ sagði Henrik M. Nordentoft. 

 

Heimild: UNHCR Íslandi  

Isabel Alejandra Díaz nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar

Á fjórða fundi Leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 24. janúar var Isabel Alejandra Díaz kosin ungmennafulltrúi Íslands á vegum Sameinuðu Þjóðanna, á sviði mennta, vísinda og menningar. Næst flestu atkvæðin hlaut Benedikt Bjarnason, fulltrúi Ung norræn, og mun hann starfa sem varafulltrúi. Þetta er í fyrsta skipti kosið er á lýðræðislegan hátt í stöðu ungmennafulltrúa á sviði mennta, vísinda og menningar.

 

Isabel býr yfir nokkurri reynslu á sviðinu, en hún hefur setiðí háskólaráði HÍ, Röskvu, auk þess að hafa verið kjörin forseti Stúdentaráðs HÍ. Hún hefur starfað sem verkefnastjóri Tungumálatöfra og setið í ýnmsum hópum á sviði mennta-, menningar- og félagsmála, t.d. samráðsvettvangi um jafnrétti kynjanna á vegum Jafnréttisráðs og samhæfingarhópi stjórnvalda um atvinnu- og menntaúrræði.

Í framboðsræðu sinni sagði Isabel:  „Ég er sannfærð um að hlutverk rannsókna, lista og nýsköpunarstarfs sé að skila þekkingu inn í samfélagið í takt við það sem það þarfnast hverju sinni, og að það sé órjúfanlegur þáttur þeirrar sjálfbærrar þróunar sem við viljum sjá í umhverfinu okkar. Það tengist óhjákvæmilega heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og nauðsyn þess að innleiðing þeirra sé skýr og markviss. Þessi tiltekna staða ungmennafulltrúa getur sannarlega verið liður í því að m.a. miðla starfsemi UNESCO til ungs fólks, skapa heildstæðari sýn á aðkomu þeirra og í senn verið rödd þess gagnvart stjórnvöldum þegar kemur að mennta, vísinda og menningarmálum.“

 

 

Isabel mun sitja á aðalráðstefnu UNESCO, í íslensku UNESCO nefndinni, sækja norræna samráðsfundi og ungmennaþing UNESCO í fyrir hönd íslenskra ungmenna.

Skipun og þátttaka ungmennafulltrúans er samstarf LUF, Félags Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

 

Heimild: Landssamband ungmennafélaga

Nánar um fréttina hér.

Skemmtilegt verkefni um lýðræði og heimsmarkmiðin

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (FIV) hélt upp á viðburðaríkan dag 23. janúar s.l. um lýðræði og tengdi það við heimsmarkmiðin. Nemendur veltu fyrir sér hugtakinu lýðræði og hvernig það birtist í ýmsum myndum s.s. í friði og réttlæti, frelsi, menntun, sögunni og Íslandi. Einnig var farið yfir ýmsar tímalínur tengdar efninu.

 

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum varð UNESCO-skóli í lok síðasta árs og byrjar aldeilis vel með þessu metnaðarfulla og flotta verkefni.

Hefðbundinn skóladagur var brotinn upp og því engar formlegar kennslustundir í gangi þennan dag. Allir kennarar/starfsfólk og nemendur skólans tóku sig til og unnu að verkefnum dagsins um lýðræði. Nemendum var skipt í stöðvar, alls sex talsins, og hver stöð var með ákveðið málefni t.d. var ein stöðin teikni/meme/kahoot stöð á meðan önnur hét Unesco stöð. Hinar stöðvarnar voru: Hvað er lýðræði, Saga lýðræðis á Íslandi, Mannréttindi (og mismunandiupplifun á frelsi), Saga lýðræðiskosninga í Evrópu (tímalínur).

Skólinn  bauð svo nemendum og starfsfólki upp á pizzur í hádeginu og fengu nemendur að keppa sín á milli í kahoot ásamt því að hengja upp plakötin sín og myndir um afrakstur dagsins til sýnis.  

Dagurinn endaði svo á heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta ásamt Írisi Róbertsdóttur bæjarstýru Vestmannaeyja. Dagurinn þótti takast fram úr vonum og gaman að fá sjálfan forsetann í heimsókn og ræða um lýðræði. Þennan dag voru einmitt 50 ár síðan gosið í Heimaey var og var því tilvalið að hafa daginn öðruvísi og viðburðaríkan.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson ræðir hér við nemendur í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

 

Til hamingju FIV með þetta flotta verkefni!