Málþing UNESCO um menningar – og listmenntun

Málþing UNESCO um menningar – og listmenntun er haldin fimmtudaginn 23. janúar 2025 í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 13.00 -16.00

Aðalfyrirlesari er Ron Davies Alvarez, stjórnandi The Dream Orchestra sem byggir á El Sistema aðferðafræðinni.
Viðburðurinn er haldinn af íslensku UNESCO-nefndinni í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, menningar- og viðskiptaráðuneytið, Kennarasamband Íslands, listkennsludeild Listaháskóla Íslands og List fyrir alla.
Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri fræðslu og kynningar verður með erindi um gott starf UNESCO-skóla í menningar- og listmenntun fyrir frið og sjálfbærni.

Dagskrá

13.00 – Opnunarávarp
Logi Már Einarsson, menningar, nýsköpunar og háskólaráðherra
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra
13.10 – Af hverju listkennsla?
Maríanna Eva Dúfa Sævarsdóttir meistaranemi í listkennsludeild Listaháskóla Íslands
13.20 – Kynning á nýjum ramma UNESCO um menningar- og listmenntun
Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, menningar- og viðskiptaráðuneyti, aðalritari Íslensku UNESCO-nefndarinnar og Guðni Olgeirsson, mennta- og barnamálaráðuneyti, menntafulltrúi í íslensku UNESCO- nefndinni
13:35 – Global Framework to Strengthen Culture and Arts Education
ADG Ernesto Ottone, aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO á sviði menningarmála
13.45 – Music as a Tool for Social Transformation and Inclusive Education
Aðalfyrirlesari Ron Davis Alvarez, hljómsveitarstjóri og tónlistarkennari sem starfar í Svíþjóð og rekur The Dream Orchestra sem byggir á El Sistema aðferðafræðinni.
14.20 – Léttar veitingar í hléi
14.50 Erindi um listmenntun
Fulltrúi Kennarasambands Íslands
15.00 Listalestin
Kristín Valsdóttir, dósent listkennsludeild LHÍ, Vigdís Gunnarsdóttir, lektor listkennsludeild LHÍ og Elfa Lilja Gísladóttir, verkefnastjóri List fyrir alla
15.20 UNESCO-skólar: Menntun, sjálfbærni og friður Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna
15.30 Lokaorð
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti menntavísindasviðs
Háskóla Íslands
15.40 Taktur og tengsl í Conakry
Nemendur og kennarar í LHÍ segja frá nýafstaðinni heimsókn sinni til Guineu. Sandra Sano Erlingsdóttir og nemendur

Alþjóðamannréttindadagurinn 2024 – Mannréttindakennsla í FÁ – Viðtal

Samband menntunnar og mannréttinda er nánara en margan grunar. Flest eru meðvituð um réttinn til menntunnar, þ.e. að aðgangur að menntun sé mannréttindi, en færri vita að mannréttindi þeirra hafa töluverð áhrif á nám og námsaðsæður þeirra. Skólar spila þannig mikilvægt hlutverk í því að gera réttindi nemenda sinna að raunveruleika með því að skapa umhverfi og innleiða starfshætti sem gera öllum kleift að blómstra í námi, óháð bakgrunni. T.a.m. stendur í Mannréttindayfirlýsingu Sameinðuðu þjóðanna:

„Allir hafa rétt til menntunar… Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarhópa og að styrkja starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar.“

Innihald námsins er líka undir og kemur það ágætlega fram í 29. Grein Barnasáttmálans:

„…menntun barns skuli beinast að því að: Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess… Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða…

Þó eru ein réttindi sem oft gleymist að vinna að, en það eru réttindin til þess að læra um mannréttindi. Svokölluð mannréttindamenntun, en hugmyndin er í stuttu máli sú að án almennrar þekkingar á mannréttindum geti enginn staðið vörð um réttindi sín né annara. Þetta er kjarnað ágætlega í auðlesinni útgáfu af Barnasáttmálanum: Allir verða að þekkja réttindi barna. Stjórnvöld skulu fræða börn og fullorðna um Barnasáttmálann reglulega svo allir þekki réttindi barna. Mannréttindayfirlýsingin gerir sambærilegar kröfur. Mannréttindamenntun er því alger grundvöllur þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum, og að sáttmalarnir geti þjónað sínu hlutverki.

Fjölbraut við Ármúla hefur um árabil boðið nemendum sínum upp á sérstakan mannréttindaáfanga. Pétur Hjörvar, Verkefnastjóri hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hitti þær Dana Zaher El Deen, Weroniku Zarzycka og Bryndísi Valsdóttur til þess að kynna sér áfangan. Þær sitja í Kósýstofunni, afar afslappaðri kennslustofu á annari hæð skólans, sem við fáum lánaða næstu þrjú korterin. Þar hittast þær ásamt hópi nemenda þrisvar í viku, en Bryndís kennir áfangann og Dana og Weronika nema hann. Áfanginn er áhugaverður og rímar vel við áherslur UNESCO-skóla því nemendur læra ekki bara í kennslustofunni, heldur sinna þeir 20 tímum af sjálfboðavinnu fyrir góðgerðarfélög. Í UNESCO-skólunum fer margt einstakt fram og Félagi Sþ langar að miðla þessu góða starfi meðal áhugsamra. Bryndís tók vel í viðtalsbeiðnina og stakk upp á að Dana og Weronika yrðu með. Það reyndist mikill fengur, enda sjónarhóll þeirra allt annars en kennarans.

Weronika er á öðru ári í FÁ og valdi mannréttindaáfangann því henni fannst hann hljóma áhugaverður:

„Ég vissi ekki alvg hvað ég myndi læra í honum en mér fannst hann spennandi … Ég er sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp. Ég hjálpa til við skipulag, við að þrífa og fleira … Ég hef leitað til þeirra þegar ég vildi fá mér kisu og ég hef bara mikinn áhuga á dýrum.“

Dana er sömuleiðis á öðru ári í FÁ. Dana valdi mannréttindaáfangann því hún vildi læra um mannréttindi og hvernig samtök vinna að því að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt.

 

„Ég er sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum og er þar að vinna með ungu fólki. Ég vildi gera það því þegar ég kom til Íslands tók ég þátt í þessu sama starfi, ekki sem sjálfboðaliði eins og núna, heldur bara til þess að skemmta mér. Ég valdi þetta verkefni því ég hef áhuga á verkefnum sem færa ungu fólki skemmtun og jákvæðar upplifanir.“

Bryndís Valsdóttir er búin að kenna við FÁ í 22 ár. Geri aðrir betur. Hún hefur lengst af kennt siðfræði og heimspeki og er annt um um að nemendur sínir læri þau fög til gagns, enda hefur hún brennandi áhuga og trú nytsemi þekkingarinnar.

Svo erum við einhverntíman að spjalla (um kennsluna), ég og Margrét (Súsanna Margrét Gestsdóttir) samkennari minn, sögukennari og sko þetta tengist allt þessi réttindaumræða og siðferði.

 

Í heimspekinni hafa verið vangaveltur um það alla tíð hvaðan mannréttindi koma. Heimspekilegi vinkillinn er: Hvað eru mannréttindi? Er þetta náttúruréttur, svona eins og forn-grikkirnir hugsuðu, við erum öll bræður og systur og börn guðs og erum öll jöfn, eða er þetta samfélagssáttmáli og á hverju byggir svona samfélagssáttmáli? Það hljóta að vera umræður um verðmæti og gildi? Og allt er þetta kjarni í siðfræði. Hvernig við breytum byggir á hvað við teljum vera rétt og rangt sem verður síðan forsendan fyrir mannréttindum. Þau eru skrifuð til til þess að standa vörð um ákveðin gildi.“

Bryndís hefur notað fjölda verkfæra í kennslunni, m.a. hlutverkaleik Rauða Krossins: Á flótta, heimsóknir frá Amnesty og öðrum samtökum, heimildamyndir, spil og fleira  „Þetta er auðvitað málið. Að vera ekki alltaf inni í þessu boxi að troða einhverjum fróðleik, eða þannig, ekki að við notum þær aðferðir! En þannig lagað, hvort það séu ekki forsendur fyrir því að upplifa á eigin skinni. Bara að fara út í samfélagið! Af fjórum kennslustundum í viku, þá fellur ein niður. Nemendur klára þannig 20 klukkutíma af sjálfboðaliðavinnu“

Spurð hvort hún hafi lært eitthvað í áfanganum, svarar Weronika: „Ég held að þetta hafi hjálpað mér að vera bara með meiri svona … góðvild, og ég þarf ekki alltaf að gera eitthvað fyrir pening, þú veist ég er bara að gefa af því ég vil það“. Bryndís bætir við að þau séu að hefja nægjusaman nóvember og ætli að kafa á dýptina í neysluhyggju og þar verði Heimsmarkmið 12, ábyrg neysla, haft í fyrirrúmi.

„Ég sé fyrir mér þessa tengingu við UNESCO-skólann – ég er ekki bara að kenna mannréttindi, og umhverfismálin eru mér ofarlega í huga, þannig allt þetta tengist. Ég er alltaf að reyna að þjálfa nemendur í að sjá að allt þetta tengist, hegðun okkar á vesturlöndum, hugsanlega bitnar á umhverfi og mannréttindum fólks annarsstaðar í heiminum. Þessar tengingar, bæði við UNESCO og Heimsmarkmiðin er mjög auðvelt að sjá.“ Segir Bryndís.

Nemendur fylgja þeim ramma í sjálfboðaliðastörfum sínum að þau þurfa að vinna með góðgerðarsamtökum eða að málefni sem tengist á einn eða annan hátt mannréttindum og Bryndís leiðbeinir þeim og miðlar til þeirra tækifærum. Nemendur taka að sér fjölbreytt verkefni en algengt er að nemendur sæki í fatabúðir Rauða Krossins og manni þar vaktir. „Aðstoð við heimanám, það eru t.d. tveir sem eru sjálfboðaliðar hérna í skólanum. Við erum með stærstu deild fjölfatlaðra á landinu …“ Aldurstakmörk og skuldbinding til lengri tíma eru þrándur í götu nemenda Bryndísar en algengt er að sjálfboðaliðar þurfi að skuldbinda sig í hálft ár og verða orðnir 23 ára. Það kemur þó ekki að sök og hafa nemendur alltaf fundið eitthvað við hæfi, sumir jafnvel skuldbundið sig í hálft ár, og unnið langt yfir þær tuttugu klukkustundir sem námskeiðið krefst.

Í lok viðtals eru Dana og Wiktoria spurðar hvort eitthvað hafi komið þeim á óvart þegar þau voru að læra um réttindi sín og mannréttindi almennt og þá kom ýmislegt í ljós.

„Ég vissi ekki að mannréttindi og umhverfsmál væru svona tengd. Ég vissi að það sem við kaupum og svona hefur áhrif á umhverfið, en ég vissi ekki að mannréttindi spili inn í það“

segir Wiktoria. Þetta er eitt af mörgum skiptum í viðtalinu sem hún lýsir því hvernig nemendurnir glíma við og læra um helstu áskorannir nútímans. Þetta eru ekki einföld mál og ekki annað hægt en að hrósa Wiktoriu og Dönu fyrir því hversu vel þær tjá sig og tengja þessar stóru hugmyndir við eigið líf.

Í lokin ítrekar Bryndís hversu mikilvægt er að allir skilji hvernig mannréttindi virka. Réttindi verða alltaf að vera gagnvart einhverjum. Ef einhver á réttindi, þá ber einhver skyldu. Þetta er ekki sjálfgefin þekking, hvað þá fyrir börn og ungmenni og því mikilvægt að regluleg og markviss mannréttindafræðsla standi öllum til boða. Raunar er það svo að mannréttindafræðsla býr til verkfæri sem gerir fólki kleift að standa vörð um eigin réttindi, velferð og vellíðan, fjölskydu sína, samfélagið og þau gildi sem leiða til friðar og betra samfélags.

 

25. Nóvember Alþjóðlegur dagur gegn kynbundnu ofbeldi – Samstarf UNESCO-skóla

Þann 25. Nóvember næstkomandi er Alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Kynbundið ofbeldi grasserar þegar enginn talar um það og þótt mörg hafi unnið gott starf, er töluvert langt á land.

Fjölmargir UNESCO-skólar halda uppi metnaðarfullu kynjafræðinámi fyrir nemendur sína og er mikilvægur liður í náminu að læra um kynbundið ofbeldi. Í raun svo mikilvægur að fjöldi nemenda hefur mikið um það að segja!

Félag Sameinuðu þjóðanna og Félag kynjafræðikennara tóku saman höndum í tilefni dagsins. Við hvetjum (og styðjum) skóla til þess að skoða hvað þau geta gert til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í skólunum sínum, og víðar í samfélaginu. Með þessu samstarfi leggjum við Heimsmarkmiði 5 lið og könnum um leið hvernig UNESCO-skólar geta unnið saman að Alþjóðadögum.

–> https://stoppofbeldi.namsefni.is/framhaldsskoli/vefefni/ <– 

Skólum er bent á að nýta sér það góða efni sem má finna á Stoppofbeldi. Efnið er praktískt og styður við heildrænt sem og stakar kennslustundir um kynbundið ofeldi. Það er tilvalið fyrir daginn! Og reyndar alla aðra daga! Auk þes settum við saman nokkur ‘stafræn veggspjöld’ Veggspjöldin geta farið á samfélagsmiðla, upplýsingaskjái, innri vefi og fleiri staði. Barnaheill heldur líka uppi gagnvirkum vef fyrir unglinga og væri ráð að senda hlekk á vefinn beint á nemendur á unglingastigi grunnskóla og framhaldsskólanemendur.

—> https://barnaheill.is/kynheilbrigdi/ <—

En hvað er það sem Framhaldsskólanemendur höfðu að segja um kynjafræði og kynbundið ofbeldi? Margt og mikið, en við tókum saman fimm tilvitnanir nemenda sem undirstrika mikilvægi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum sem afl gegn kynbundnu ofbeldi, og settum upp sem veggspjöld. Það má varpa þem á upplýsingaskjái, setja á samfélagfsmiðla, deila með nemendum og aðstandendum eða vinna með þau á annan hátt.

Náðu í veggspjöldin hér –>  https://we.tl/t-lh3oFKtfcG

Veggspjöldin eru hugsuð sem hugvekja og þægileg leið til þess að minna á eða hefja samtalið um ofbeldisforvarnir, en við hvetjum kennara og nemendur til þess að fræðast, og hugsa hvað þau geta gert til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í skólunum sínum, og víðar.

 

 

Nýr UNESCO-skólavefur nú aðgengilegur

Menningarmálastofnun Sameinðu þjóðanna, UNESCO, setti á dögunum nýjan umsóknar og yfirlitsvef fyrir ASPnet (UNESCO Associated Schools Network) skólana í loftið.

Sjá vef —> https://community.unesco.org/aspnet-platform

Vefurinn er mikið fagnaðarefni fyrir ASPnet skólana. Með því að að gera umsjónaraðilum og skólafólki kleift að tengjast þvert yfir höfin á auðveldan hátt, gerum við ráð fyrir að verkefnið styrkist. Hægt er að sjá alla þátttökuskóla ASP-netsins og sía eftir staðsetningu, skólastigi og þemum sem þau vinna með. Verkefnastjóri Félags Sþ vinnur nú hörðum höndum að því að yfirfara og uppfæra upplýsingar um íslensku skólana, og kynna vefinn fyrir áhugasömum.

Ef þinn skóli hefur áhuga á því að verða UNESCO-skóli, endilega hafðu samband við Pétur Hjörvar (petur@un.is), verkefnastjóra hjá Félagi Sþ fyrir frekari upplýsingar. Umsóknarferlið er aðgengilegt á vefnum!

16 skólar á Reykjanesi skrifuðu undir viljayfirlýsingu um inngöngu í UNESCO-skóla verkefnið á Íslandi

Skólar á Reykjanesi sýna mikinn vilja til að bætast í hóp UNESCO skóla á Íslandi   

Þann 4. september 2024 var haldinn kynningarfundur í Hljómahöll um innleiðingu UNESCO-skóla í alla skóla á Reykjanesi. Fulltrúum frá öllum skólum á svæðinu var boðið á fundinn ásamt aðilum tengdum Suðurnesjvettvangi.

„Sjálfbærni er sameiginlegt viðfangsefni allra sem íbúar á þessari jörð og mun verða um fyrirsjáanlega framtíð. Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna setja skýran ramma utan um þau mikilvægu verkefni og áskoranir sem við stöndum frami fyrir til þess að komandi kynslóðir njóti velsældar og sjálfbærni sé tryggð. Jafnrétti, réttlæti, friður og virðing fyrir umhverfinu er á ábyrgð okkar alla og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að ná árangri á þessum sviðum.“

Þannig hefst viljayfirlýsing um að hefja UNESCO-skóla umsóknarferlið á næstu tveimur árum, sem 16 skólar af Reykjanesi hafa nú þegar skrifað undir.

Hugmyndin að þessu metnaðarfulla verkefni kemur frá Suðurnesjavettvangi sem er samstarfsvettvangur um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Suðurnesjum. Að Suðurnesjavettvangi standa Samband sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Kadeco og Isavia ásamt öllum sveitarfélögunum fjórum á Suðurnesjum. Þá er Reykjanes jarðvangur einnig samstarfsaðili verkefnisins og leggur til verkefnastjóra sem mun styðja skólana á svæðinu með hlutlausum vettvangi fyrir samvinnu og tengslamyndun þvert á skóla, skólastig og sveitarfélög.

Til þess að varða leiðina að sjálfbæru samfélagi er skólasamfélagið á Reykjanesi nú að taka stórt skref með því að sýna samstöðu og vilja til samstarfs um innleiðingu heimsmarkmiðanna. Sú sameiginlega vegferð hófst á fundinum þar sem margir skólar skrifuðu undir yfirlýsingu þess efnis að gerast UNESCO-skóli innan tveggja ára og allir aðilar tengdir Suðurnesjavettvangi skrifuðu undir yfirlýsingu um að styðja þessa innleiðingu eftir bestu getu.

UNESCO-skólar starfa bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi með þrjú skýr forgangsverkefni eða megin þemu, þau eru: menntun í þágu sjálfbærrar þróunar með því að fræða um heimsmarkmiðin, menntun sem eflir hnattræna borgaravitund og menningu friðar, og svo að efla þvermenningarlega þekkingu og mikilvægi arfleiðar. UNESCO-skólar vinna þannig sérstaklega með heimsmarkmið 4.7 að leiðarljósi með því að efla skóla til að knýja fram nýsköpun fyrir hnattræna borgaravitund, þvermenningarlegan skilning og sjálfbærni, efla alþjóðlega samvinnu og samstarf, auka þekkingarmiðlun og samstarf milli landa og skóla og byggja upp getu til að auka fjölbreytni í kennsluaðferðum, td. með þátttökunámi, sem hluti af heildrænni nálgun í skólum.

Þverfagleg verkefni UNESCO-skóla nýtast í ýmsum kennslustundum og passa vel inni í grunnþætti aðalnámsskrár leik- grunn- og framhaldsskóla. Flestir skólar vinna í dag fjölmörg verkefni tengd heimsmarkmiðunum á hverju starfsári, svo það að gerast UNESCO-skóli er að miklu leyti staðfesting á því góða starfi og yfirlýsing um að vilja bæta í sambærileg verkefni á komandi árum.

Mynd / Daníel Einarsson – Reykjanes Geopark

Sigrún Svafa Ólafsdóttir er verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi og GeoCamp Iceland segir að fundurinn í Hljómahöll hafi farið fram úr björtustu vonum.

„Það er alveg frábært að sjá hve margir ætla að vera með og voru tilbúin að skrifa undir viljayfirlýsingu strax. Ég fékk þetta skemmtilega verkefni upp í hendurnar sem mitt fyrsta verk sem verkefnastjóri fræðslumála hjá jarðvanginum. UNESCO-skóla verkefnið er frábært verkfæri til að mynda góð tengsl við alla skólana, á öllum skólastigum í öllum sveitarfélögunum á Reykjanesinu. Ég hef verið að vinna mikið með kennurum úr öllum skólum á svæðinu í ýmsum Evrópuverkefnum sem GeoCamp Iceland hefur haldið utan um, í samstarfi við til dæmis Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Reykjanes Jarðvang. Í þeirri vinnu hefur komið mjög skýrt í ljós að þörf fyrir aukna samvinnu milli skóla er mikil og hvað öflugt tengslanet kennara getur skilað miklu inn í skólastarfið. Ég er mjög spennt fyrir næstu skrefum, skólar hér á svæðinu eru allir að gera svo frábæra og spennandi hluti. Það að taka þátt í UNESCO-skóla uppbyggingunni verður vonandi eingöngu til þess að gera alla flottu vinnuna þeirra enn sýnilegri í samfélaginu. Margir skólar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að fara af stað með þetta verkefni á næstu 2 árum og ég veit að hinir skólarnir eru að ígrunda þetta, það er alltaf hægt að bætast við og enginn er að missa af tækifærinu. Það stendur misvel á hjá skólum og mikilvægt að starfsfólk skólanna taki sameiginlega ákvörðun með hjartanu að fara af stað í þetta verkefni. Okkar von er sú að allir skólar á svæðinu sláist í hópinn á næstu 2 árum. Umfang verkefnisins er mikið, á Íslandi eru í dag samtals 21 UNESCO skólar en ef allir skólar á Reykjanesi taka þátt, bætast 28 skólar við þá tölu. Til að þetta gangi vel er mikilvægt að samfélagið allt standi með okkur í þessu og því dýrmætt að nú þegar hafa margir stórir aðilar á svæðinu lýst því yfir að þau eru tilbúin til að styðja við þetta verkefni eftir bestu getu. Við í undirbúningsteyminu gætum bara ekki verið ánægðari með viðbrögðin við þessari metnaðarfullu hugmynd!“

Eva Harðardóttir, formaður Félags Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi var þátttakandi á fundinum. Hún var himinlifandi yfir viðbrögðunum og talaði um að þessi samvinna um heimsmarkmiðin væri einstök.

„Þetta verkefni er til fyrirmyndar fyrir annað svæðisbundið samstarf og samfélög á landinu sem vilja vinna að sjálfbærri þróun með því að efla staðbundna þekkingu og hnattræna vitund barna og ungmenna, en efling hnattrænnar borgaravitundar er einmitt eitt af meginmarkmiðum UNESCO-skólanetsins“.

Mynd / Daníel Einarsson – Reykjanes Geopark
Mynd / Daníel Einarsson – Reykjanes Geopark
Mynd / Daníel Einarsson – Reykjanes Geopark

Eftirfarandi 16 skólar hafa nú þegar skrifað undir viljayfirlýsingu um að hefja þá vegferð að gerast UNESCO skóli á næstu tveim árum:

  • Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ
  • Leikskólinn Völlur í Reykjanesbæ
  • Heilsuleikskólinn Skógarás í Reykjanesbæ
  • Leikskólinn Akur í Reykjanesbæ
  • Leikskólinn Gimli í Reykjanesbæ
  • Njarðvíkurskóli Reykjanesbæ
  • Holtaskóli í Reykjanesbæ
  • Heiðarskóli Reykjanesbæ
  • Stapaskóli í Reykjanesbæ
  • Háaleitisskóli í Reykjanesbæ
  • Myllubakkaskóli í Reykjanesbæ
  • Sandgerðisskóli í Suðurnesjabæ
  • Gerðaskóli í Suðurnesjabæ
  • Grænaborg í Suðurnesjabæ
  • Fjölbrautaskóli Suðurnesja
  • Fisktækniskóli Íslands í Grindavík / Suðurnesjabæ

Eftirfarandi  aðilar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að styðja UNESCO skóla verkefnið:

  • Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
  • Sveitarfélagið Vogar
  • Reykjanesbær
  • Grindavíkurbær
  • Suðurnesjabær
  • Reykjanes jarðvangur / Reykjanes UNESCO Global Geopark
  • GeoCamp Iceland
  • Isavia
  • Kadeco

 

Þessi fréttatilkynning er að mestu unnin úr frétt sem birt hefur verið á vefsíðu Reykjanesbæjar.

Rafræn vinnustofa fyrir ungt fólk á aldrinum 16-30 ára – Opið fyrir skráningar!

Rafræn vinnustofa fyrir ungt fólk verður haldin mánudaginn 2. september kl. 17:00-18:00.
Á vinnustofunni mun ungt fólk ræða hugmyndir og ráðleggingar hvernig hægt sé að beita hagsmunagæslu til þess að stuðla að heildrænni umbreytingu í þágu sjálfbærrar þróunar. Stuðst verður við gögn sem ungt fólk og borgarasamfélagið á Íslandi lagði fram í landrýniskýrslu Íslands til Sameinuðu þjóðanna árið 2023.

Vinnustofan er hluti af Norden 0-30 samstarfsverkefni Félaga Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð ásamt Sillamae samtökunum í Eistlandi með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni,

Vinnum saman!

Skráning á vinnustofuna fer fram hér . Eftir skráningu fá þátttakendur sendan Teams link.

 

Námskeið fyrir kennara haldið í fjórða sinn

Hátt í 30 kennarar tóku þátt í námskeiði sem haldið var á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þann 14. ágúst sl. sem bar heitið ‘Að vekja ungt fólk til hnattænnar borgaravitundar‘. Þetta er í fjórða sinn sem námskeið er haldið af hálfu félagsins, en því er ætlað fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi.

Metþátttaka var að vanda og komust færri að en vildu.  Í ár var snið og áherslur námskeiðsins aðeins breytt og tekið var betur utan um mikilvægi þess að fjalla um störf og gildi Sameinuðu þjóðanna í námi og kennslu barna og ungmenna. Kennarar á námskeiðinu voru Eva Harðardóttir, lektor við deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og formaður félagsins, og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins.

,,Námskeiðið heppnaðist einstaklega vel. Kennarahópurinn sem sótti námskeiðið í ár samansafn af kraftmiklu, áhugasömu og skapandi fólki sem öll eru að vinna ötullega að verkefnum í anda sjálfbærni og heimsmarkmiða í skólum um allt land. ” segir Eva.

Þorvarður Atli Þórsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins og stjórnarmeðlimur félagsins tók einnig að sér að halda utan um örútgáfu af hermilíkani, sem byggist á hermilíkani Sameinuðu þjóðanna (e. Model United Nations). MUN er vettvangur þar sem nemendur koma saman og setja á svið starfsemi helstu stofnanna Sameinuðu þjóðanna á sem raunverulegastan hátt og takast á við aðkallandi vandamál í alþjóðasamfélaginu. Þátttakendum námskeiðsins var þannig deilt niður á sex lönd og voru kennararnir sendifulltrúar þeirra ríkja og þurftu að koma sér saman um ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu flóttafólks í heiminum í dag. Þessi æfing kom af stað frábærum umræðum um fjölbreyttar leiðir til að ræða og vinna með hnattrænar áskoranir og málefni sem snerta okkur öll á ólíkan hátt í heiminum í dag.

Námskeiðið og hermilíkanið gekk vonum framar en félagið stefnir að því á komandi misserum að endurvekja Iceland MUN sem legið hefur í dvala um nokkurt skeið. Er það hluti af stefnu sem stjórn setti sér í fyrra að auka umsvif verkefna með ungu fólks, og efla og auka áhuga þeirra á starfsemi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu.

Starfsfólk og stjórn félagsins þakkar kennurunum sérstaklega fyrir jákvæðni, hugrekki og gleði sem einkenndi vinnuna og námskeiðið í heild. Við hlökkum til að sjá meira af þeim og þeirri vinnu sem þau eru að sinna í skólum landsins.

Mynd / FSÞ Hluti kennara sem sóttu námskeiðið.
Mynd / FSÞ – Þorvaður útskýrir hermilíkanið fyrir kennurunum. Þorvarður var í hlutverki forseta mannréttindaráðsins og stýrði umræðum ríkjanna.

Pétur Hjörvar Þorkelsson er nýr verkefnastjóri kynningar- og fræðslu

Pétur Hjörvar Þorkelsson hef­ur verið ráðinn verkefnastjóri kynningar- og fræðslu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Alls sóttu 123 um starfið sem auglýst var á Alfreð í byrjun maí.

Um ræðir nýja stöðu innan félagsins sem felur í sér að auka þekkingu og skilning almennings á málefnum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu með kynningu og miðlun efnis. Einnig tekur Pétur við ábyrgð og umsjón með íslenska UNESCO-skóla staðarnetinu af Kristrúnu Maríu Heiðberg, sem leitt hefur verkefnið síðustu ár. Pétur mun hefja störf þann 1. Október næstkomandi.

Pétur Hjörvar Þorkelsson.

Starfað fyrir UNICEF frá 2018

Pétur mun í nýju hlutverki samþætta kynningu- og fræðslu Félags Sameinuðu þjóðanna með sérstaka áherslu í skóla og ungmennaverkefnum, en umsvif slíkra verkefna hefur stóraukist innan starfsemi félagsins síðustu misseri. Pétur hefur komið að fræðslu og skóla- og ungmennastarfi í yfir áratug og kemur því með mikla þekkingu til félagsins. Hann er menntaður mannfræðingur frá Há­skóla Íslands og með M.Ed. gráðu í Menntunarfræðum og margbreytileika, með veigamikla þekkingu á Sameinuðu þjóðunum og fræðslu- þróunar- og skólastarfi. Hann hefur meðal annars starfað sem götukynnir hjá Landsnefnd UN Women, unnið á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum og verið aðstoðarrannsakandi- og kennari við Háskóla Íslands.

Síðustu sex árin hefur hann starfað fyrir UNICEF, fyrst hjá íslensku landsnefndinni í fjögur ár sem sérfræðingur í réttindum og þátttöku barna þar sem hann leiddi starf réttindaskóla og þróun og rekstur ungmennaráðs UNICEF. Frá því í september 2022 hefur Pétur starfað á landsskrifstofu UNICEF í Naíróbí, Kenía, þar sem hann hefur unnið á sviði félags- og hegðunarbreytinga (e. Social and Behavioral Change) í tengslum við loftslagsmál og vatns- og hreinlætismál. Helstu verkefni sem hann vann á þeim sviðum sneru að þátttöku ungmenna í aðlögun að áhrifum hamfarahlýnunar, hagnýtum rannsóknum á mannlegri hegðun og hönnun verkefnis í kóleruforvörnum.

Fánadagur heimsmarkmiðanna 25. september

Fánadagur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er haldinn í annað sinn á Íslandi þann 25. september nk. UN Global Compact og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa að deginum hér á landi.

Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að fyrirtæki, stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök, skólar og sveitarfélög um allan heim, sýni skuldbindingu sína við heimsmarkmiðin og aðgerðirnar sem þau krefjast.

Hverjir geta tekið þátt?

Fyrirtæki, stofnanir, skólar, samtök og sveitarfélög sem eru aðilar að UN Global Compact og/eða hafa hafið innleiðingu á heimsmarkmiðum í rekstur sinn geta tekið þátt í framtakinu. Vinsamlega skráðu þátttöku hér.

Panta fána
Til að lágmarka kolefnisfótspor eru fánarnir prentaðir á Íslandi. Fáninn kostar 22.500 kr. stk. og er sendingarkostnaður innifalinn í verðinu.
Stærð fána er 150x100cm og passar á 6m fánastöng með krækju að ofan og neðan. Texti er á íslensku.

ATH. Skólar fá afslátt á fánunum, endilega hafið samband við felag@un.is til þess að panta fána.
Mynd/ ISAVIA – Frá fyrsta fánadeginum, 2023.

Deildu þátttökunni
Þann 25. september n.k. eru þátttakendur hvattir til að deila þátttöku sinni í fánadegi heimsmarkmiðanna á eigin miðlum. Leiðbeiningar (e. toolkit) með tillögum að texta, #merkingum, myndefni o.fl. verða sendar þegar þátttaka hefur verið staðfest.

Námskeið fyrir kennara: Að vekja ungt fólk til hnattrænnar vitundar

Að vekja ungt fólk til hnattrænnar vitundar: heimsmarkmiðin og Sameinuðu þjóðirnar er námskeið fyrir kennara á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem fer fram miðvikudaginn 14. ágúst, á milli klukkan 13 og 16, í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ í Stakkahlíð.

Á námskeiðinu, sem ætlað er fyrir kennara og stjórnendur á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, verður unnið með námsefni og fjölbreyttar kennsluaðferðir sem miða að því að styðja við þekkingu nemenda á starfsemi SÞ á sviði mannréttinda, friðar og sjálfbærrar þróunar.

Kennarar á námskeiðinu eru Eva Harðardóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (FSÞ) og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri FSÞ á Íslandi.

Námskeiðsgjald er kr. 7.500. Skráning sendist á vala@un.is. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og heimsmarkmiðanælu.