Opið er fyrir umsóknir ungs fólks til þátttöku í alþjóðlegu verkefni tengt sjálfbærri þróun

 

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ungt fólk og heimsmarkmiðin í Heimsins stærstu kennslustund í Salaskóla 2023.

Taktu þátt með okkur og lærðu meira um sjálfbæra þróun og hagsmunagæslu í alþjóðlegu umhverfi – Sæktu um fyrir 7. febrúar!

Framvinda og árangur heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030 er metinn með valfrjálsri landrýniskýrslu aðildarríkja til Sameinuðu þjóðanna (e. Voluntary National Review or VNR). Virk þátttaka ungs fólks gegnir mikilvægu hlutverki við að tryggja græn umskipti fyrir öll sem skilja engan eftir.

Við leitum nú að þrem (3) áhugasömum ungmennum til að taka þátt í að fræðast um sjálfbæra þróun, mannréttindi og hagsmunagæslu með virku ungu fólki frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.

Um verkefnið

Árið 2024 vinnur Félag SÞ á Íslandi í samvinnu með Félagi SÞ í Finnlandi og Svíþjóð að innleiðingu á Norden 0-30 verkefni, þar sem saman koma ungmennafulltrúar og sendiherrar, fulltrúar í Ungmennaráði Sama og ungmenni frá Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð og Eistlandi.

Í verkefninu munu þátttakendur:

 1. Kynnast hvernig fylgst er með og greint frá innleiðingu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og mannréttindamiðaðrar nálgunar í valfrjálsri úttekt aðildarríkja (VNR) á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum.
 2. Skilja hvernig á að taka þátt í matsvinnu og hafa áhrif á hana í eigin landi.
 3. Afla sér ítarlegrar þekkingar á samspili heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og kynna sér hvernig norrænu ríkin bregðast við alþjóðlegum smitáhrifum og til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að bæta núverandi stöðu.

Auk þess munu þátttakendur fræðast um réttindi og áskoranir frumbyggja, sérstaklega áhrif grænna umskipta á land og náttúruauðlindir Sama. Þátttakendur munu einnig öðlast færni í að nota ný stafræn verkfæri til að greina framkvæmd heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og bera þau saman við tillögur frá stofnununum og út frá mannréttindasáttmálum. Verkefnið gerir unga einstaklinga í stakk búna til að framleiða eigið efni fyrir hagsmunagæslu  og styrkir tengslanet þeirra á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.

Hver geta sótt um?

Umsóknartímabilið er frá 22. janúar til 7. febrúar 2024. Til að sækja um skaltu fylla út umsóknareyðublaðið vandlega. Þátttakendur þurfa að vera á aldrinum 16 til 30 ára, með gott hald á talaðri og skrifaðri ensku og skuldbundinn til að sækja alla viðburði, þjálfun og hagsmunagæslu sem íslenski vinnuhópurinn skipuleggur. Verkefnið tekur til ferða- og dvalarkostnaðar en engar aðrar viðbótargreiðslur eiga við. Þrír þátttakendur verða valdir í verkefnið og verður vali miðlað persónulega til umsækjenda með tölvupósti.

Dagskráin

Verkefnið samanstendur af fjórum (4) þáttum, en framkvæmd þess er frá mars til september:

 1. Alþjóðleg ráðstefna í Helsinki, 11.-13. mars
 2. Þjálfun í mannréttindum og sjálfbærri þróun / Rafræn þáttaka, 25. apríl
 3. Vinnustofa  um málsvararhlutverk í tengslum við heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun / Rafræn þátttaka / byrjun júní (nákvæmar dagsetningar TBC)
 4. Alþjóðleg ráðstefna í Tallinn, seint í september (nákvæmar dagsetningar TBC)

Fyrir spurningar og frekari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við 
Völu Kareni Viðarsdóttur, framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna vala@un.is

Í samvinnu með:

UNA Finland

UNA Sweden

Sillamae Society for Child Welfare

 

 

 

Verkefnið hlýtur stuðnings úr verkefnasjóði Norrænu ráðherranefndarinnar Norden 0–30 (2024).

Nýtt fréttabréf UNESCO-skóla er komið út

Nýtt fréttabréf UNESCO-skóla er komið út. Þar má lesa um nýjustu skólana sem fengu skírteinin sín á árinu ásamt fréttum af starfinu, verkefnum. viðburðum o.fl.

Fréttabréfið má nálgast hér, á kennsluvef verkefnisins.

Heimsins stærsta kennslustund 2023

Heimsins stærsta kennslustund fór fram í Salaskóla í Kópavogi 5. desember síðastliðinn.  Nemendur í 9. og 10. bekk tóku þátt í verkefninu sem í ár snýr að aðgerðum varðandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Íris Sævarsdóttir og Þröstur Flóki Klemensson, frá Barna- og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, stýrðu kennslustundinni, ásamt Kristrúnu Maríu Heiðberg, verkefnastjóra UNESCO-skóla á Íslandi. Isbel Alejandra Díaz, ungmennafulltrúi á sviði mennta, vísinda og menningar (UNESCO), ræddi við nemendur þar sem hún sagði m.a. frá starfi sínu og mikilvægi þátttöku barna og ungmenna. Nemendur í 4. bekk Salaskóla mættu í lok kennslustundarinnar og sungu nokkur vel valin jólalög við mikla hrifningu gesta.

Heimsins stærsta kennslustund (World Largest Lesson) er árlegt átak styrkt af UNESCO sem snýr að kennslu á heimsmarkmiðunum. Markmiðið er að efla vitund nemenda og hvetja þá til aðgerða er kemur að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum.

Nemendur Salaskóla stóðu sig frábærlega, komu með margar góðar hugmyndir og tillögur.

Nemendur Salaskóla ásamt verkefnastjóra UNESCO-skóla, Isabel ungmennafulltrúa og Írisi og Þresti frá Barna- og ungmennaráði heimsmarkmiðanna

Félag Sameinuðu þjóðanna efnir til samkeppni fyrir ungt fólk

Félag Sameinuðu þjóðanna fagnar 75 ára afmæli á árinu og efnir af því tilefni til samkeppni á meðal ungs fólks í 8. – 10. bekk í grunnskólum og í framhaldsskólum um mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í tengslum við mannréttindi og frið í heiminum. Um ræðir endurvakningu á yfir 50 ára gamalli samkeppni sem síðast var haldin árið 1970!

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi ásamt Icelandair leitar eftir hugmyndum ungs fólks um það með hvaða hætti heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna stuðla að mannréttindum og friði í heiminum.

Tillögur á öllum tungumálum eru velkomnar. Hugmyndum má skila í mynd- og/eða ritmáli. Texti má vera vélritaður eða handskrifaður, lágmarks orðafjöldi er 200 orð. Verkið getur þannig t.d. verið skoðanagrein, pistill, örsaga, prósaljóð, myndaritgerð, myndskýrsla eða myndasaga.

Litið verður sérstaklega til þess að verkefnin endurspegli persónulega sýn þátttakenda.

Innsendingarform: PDF, JPEG eða PNG.

Öllum tillögum skal skila inn rafrænt á netfangið felag@un.is ásamt upplýsingum um nafn, skóla, aldur, netfang og símanúmer. Skilafrestur er til og með 31. desember 2023.

*Tilkynnt verður um sigurvegara um miðjan janúar 2024.

 

Fyrstu verðlaun

Tveir verðlaunahafar vinna flug og gistingu með Icelandair í New York ásamt forráðamanni, kynnast starfsemi fastanefndar Íslands og heimsækja höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

Fleiri verðlaun

Veglegar bókagjafir frá Angústúru, Bose flex hátalari frá Origo, leikhúsmiðar í Borgarleikhúsið, áskriftir hjá Storytel.

Dómnefnd skipa:

 • Eliza Reid, forsetafrú, verndari Félags Sþ og formaður dómnefndar
 • Eva Harðardóttir, formaður Félags Sþ
 • Rán Flygenring, mynd- og rithöfundur
 • Ómar Azfar Valgerðarson Chattha, fulltrúi barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sþ
 • Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er 19. UNESCO-skólinn á Íslandi!

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er nýjasti UNESCO-skólinn á Íslandi

Alls eru UNESCO-skólar hér á landi því orðnir 19 talsins. Einn leikskóli, sjö grunnskólar og 11 framhaldsskólar.
Sérstök þemavika um heimsmarkmiðin var haldin í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í byrjun sept. Þemavikan hófst á því að Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla, kom í heimsókn og hélt fyrirlestur um heimsmarkmiðin fyrir nemendur og starfsfólk skólans.
UNESCO-skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12 þúsund talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim.
UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi, auk þess að styðja við grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá.
Mikill kraftur hefur verið í starfi UNESCO-skóla undanfarin ár og aukinn áhugi skóla hér á landi að taka þátt.

Á myndinni má sjá Hrafnhildi Hallvarðsdóttur, skólastjóra FSN, ásamt hópi nemenda skólans með UNESCO-skírteinið.

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á: https://un.is/unesco-skolar/

Velkominn í hópinn Fjölbrautaskóli Snæfellinga!

Opið fyrir umsóknir í barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra fer með skipun ráðsins en óskað er eftir börnum sem eru tilbúin að sitja í ráðinu í tvö ár, frá og með janúar 2024.
Í ungmennaráðinu sitja tólf börn og skulu þau vera 13-18 ára á meðan á skipunartímabilinu stendur. Öll börnin í ráðinu skulu því vera fædd á árunum 2008-2011.
Frábært tækifæri fyrir öll sem vilja koma sjónarmiðum barna á framfæri og vinna með málefni tengd heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun!

Hægt er að sækja um  hér, til og með 13. nóvember.

Frekari upplýsingar:

 

Skýrsla Mannfjöldasjóðs SÞ kynnt í Kvennaskólanum í Reykjavík

Mánudaginn 9. október var skýrsla Mannfjöldasjóðs SÞ kynnt í Kvennaskólanum í Reykjavík. Skýrslan kom út fyrr á árinu og ber heitið ‘8 billion lives, inifinite possibilities’, en er þetta í fyrsta skiptið sem skýrslan er formlega kynnt á Íslandi. Félag Sameinuðu þjóðanna sá um undirbúning kynningarinnar í samstarfi við Mannfjöldasjóð á Norðurlöndunum með stuðningi utanríkisráðuneytisins.

Kynningin var í formi samtals en Elín Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu og Klaus Simoni Pedersen frá aðalskrifstofu Mannfjöldasjóðs í New York sátu fyrir svörum í tengslum við skýrsluna, stöðu mannfjöldaþróunar í heiminum og framlag Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Fundinum var stýrt af framkvæmdastjóra Félagsins, Völu Karen Viðarsdóttir.

Þá lögðu ungir sérfræðingar hjá Mannfjöldasjóði í Malaví og Síerra Leone málinu lið, en þær Vera Jónsdóttir og Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir tóku þátt með að senda nemendum Kvennaskólans skilaboð í formi myndbandsupptöku. Þar fjölluðu þær um verkefnin sem þær vinna við í tengslum við fræðslu um kyn- og frjósemisheilsu og réttindi og helstu áskoranir sem ungt fólk í Malaví og Síerra Leone stendur frammi fyrir.

Að lokum fengu nemendur tækifæri til þess að spyrja viðmælendur spjörunum úr. Viðburðurinn heppnaðist einkar vel en þess má geta að Kvennaskólinn í Reykjavík er einn af fyrstu UNESCO-skólunum á landinu en hann hefur verið með í verkefninu frá upphafi, eða allt frá árinu 2015.

UNFPA Nordic&Baltic Nemendur Kvennaskólans halda hér á stuttri útgáfu skýrslunnar

Hvatning til UNESCO-skóla á Íslandi að halda upp á alþjóðadag lista þann 15. apríl 2024

Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) auglýsir eftir þátttöku listgreinakennara í grunn- og framhaldsskólum vegna verkefnisins ‘alþjóðadagur lista 2024’ (e. World Art Day) sem er samstarf SÍM, Bandalags íslenskra myndlistarmanna (BÍL), International Association of Art (IAA/IAIP) og UNESCO-skóla á Íslandi.

Verkefnið hefst haustið 2023 og lýkur með kynningu nemenda á Alþjóðlegum degi myndlistar 15. apríl 2024. Alþjóðadagur lista, sem UNESCO og hið alþjóðlega samband myndlistarmanna (IAA/AIAP) standa fyrir ár hvert, er haldinn til þess að vekja athygli á skapandi greinum um allan heim. Dagurinn er fæðingardagur Leonardo da Vinci en hann er táknmynd heimsfriðar, tjáningarfrelsis, sköpunar og þeirra áhrifa sem myndlist hefur á önnur svið lífsins.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem fer fyrir UNESCO-skólum á Íslandi kallar því hér með eftir þátttöku UNESCO-skóla á alþjóðlegum degi lista. Við hvetjum skólana okkar til þess að taka þátt, hvort sem um ræðir á daginn sjálfan, eða í verkefninu sem lýkur á alþjóðadegi lista.

Hafi skólinn þinn áhuga á að fá frekari upplýsingar, má hafa samband við Kristrúnu Maríu Heiðberg sem er verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi: kristrun@un.is 

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi gefa út íslenskt námsefni um flóttafólk

Reykjavík 12. september 2023

Hvers vegna flýr flóttafólk heimaland sitt? Hvers vegna endar flóttafólk fjarri heimalandi sínu þegar það leitar öryggis? Og hvað er það mikilvægasta sem þú myndir taka með þér, ef þú neyddist til að flýja heimili þitt vegna stríðs, ofbeldis eða ofsókna?

Í dag þurfa komandi kynslóðir að skilja og umfaðma heiminn með öllum sínum margbreytileika og áskorunum. Til þess að koma málefnum flóttafólks inn í skólastofuna á yfirvegaðan hátt – án aðgreiningar, hafa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hleypt af stokkunum yfirgripsmiklu kennsluefni á íslensku um þvingaða fólksflutninga á heimsvísu.

Markmiðið er að veita skólum og kennurum á Íslandi verkfæri, leiðbeiningar og innblástur til að fræða börn og ungmenni á Íslandi um fólk sem neyðist til að flýja heimili sín. Námsefnið mun gefa þeim sterkan grunn til þess að skilja og takast á við mikilvægar spurningar sem sumar hverjar eru í brennidepli í pólitískri og opinberri umræðu og geta jafnvel átt það til að stuðla að sundrung og fordómum gagnvart innflytjendum og flóttafólki.

Efnið býður ekki aðeins upp á lykilstaðreyndir og útskýringar á þvinguðum fólksflutningum heldur varpar það einnig ljósi á persónulegar sögur fólks, örlög þeirra og afleiðingar flóttans. Slíkt stuðlar að skilningi á þeim vanda sem steðjar að þeim hópi fólks sem neyðist til að flýja heimili sín. Þessi hópur fer því miður ört vaxandi ár frá ári en í dag eru um 110 milljónir manna á flótta um heim allan.

„Málefni flóttafólks eru til stöðugrar umræðu, í fréttum, á samfélagsmiðlum og við matarborðið. Því miður eru þessi mál umlukin mörgum ranghugmyndum og misskilningi. Börnin okkar erfa flókinn heim og því skuldum við þeim að tryggja að þau hafi réttar staðreyndir, tölur og þekkingu til að hjálpa þeim að skilja ástand og stöðu flóttamála í heiminum. Við erum afar ánægð með að geta komið þessu efni á framfæri nú í íslensku samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi“ segir Annika Sandlund, fulltrúi Flóttamannastofnunar SÞ á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.

„Við höfum heyrt frá kennurum á Íslandi að það sé veruleg vöntun á námsefni sem þessu og við erum mjög ánægð með að geta hjálpað. Vaxandi fjöldi fólks á flótta á heimsvísu er eitthvað sem við sjáum bersýnilega í íslensku samfélagi, svo að slíkt efni hefði ekki getað komið á mikilvægari tíma. Það hefur verið frábært að starfa með Flóttamannastofnun SÞ í þessu ferli og við erum ánægð að geta gefið það loksins út núna þegar skólar hefjast að nýju“, segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Íslenska efnið er aðgengilegt á netinu og er ókeypis. Það tekur mið af mismunandi aldurshópum og býður upp á teiknimyndir, stutt myndbönd og tillögur að umræðu í kennslustofunni, hópavinnu og verkefni, en felur einnig í sér markvissa handbók fyrir kennara ásamt kennsluáætlunum. Námsefnið hefur verið þróað af Flóttamannastofnun SÞ og hefur þegar verið þýtt á nokkur önnur tungumál. Íslenska útgáfan hefur verið þýdd og sniðin af Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Efnið má nálgast hér: Fræðsla um flóttafólk – UNHCR Ísland og á https://un.is/kennsluefni/kennsluefni-um-flottafolk-flottamannastofnun-sth/

Frekari upplýsingar:

Frá Flóttamannastofnun SÞ: Anders Aalbu, talsmaður fyrir Ísland, Danmörku, Eistland, Lettland og Noreg, aalbu@unhcr.org, sími: +46 707 57 6285

Frá Félagi SÞ á Íslandi: Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri, vala@un.is, sími: +354 552 6700

Námskeið um heimsmarkmiðin fyrir kennara haldið í þriðja sinn

Hátt í 30 kennarar tóku þátt í námskeiði um heimsmarkmiðin sem haldið var á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna í Salaskóla þann 10. ágúst sl.

Mikill áhugi var á námskeiðinu og færri sem komust að en vildu. Þetta er í þriðja sinn sem námskeiðið er haldið en kennarar á námskeiðinu voru Eva Harðardóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður félagsins, og Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi.

,,Þetta var frábær og metnaðarfullur hópur kennara sem gerir sér grein fyrir mikilvægi heimsmarkmiðanna. Það er gott að sjá hversu vel skólarnir eru að taka við sér varðandi heimsmarkmiðin,” segir Kristrún.

Á námskeiðinu, sem ætlað er fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, var farið í merkingu og markmið heimsmarkmiðanna og hvernig þau eru hugsuð út frá kennslu. Þá fengu þátttakendur í hendurnar tæki og tól til að nýta með markvissum hætti í kennslu.

Mikil ánægja var með námskeiðið, en nokkrar þeirra athugasemda sem félagið fékk sendar má lesa hér að neðan.

Þátttakendur á námskeiðinu komu allstaðar frá af landinu en mikil ánægja var meðal kennara með námskeiðið að sögn Kristrúnar, verkefnastjóra UNESCO-skóla.

,,Mér fannst námskeiðið mjög vel uppsett og vel skipulagt. Það var upplýsandi og mun hvetja mig áfram til góðra verka. Takk!”

,,Mér fannst námskeiðið mjög áhugavert, skemmtilegt og fræðandi. Ég hef lengi verið á leiðinni að kynna mér betur heimsmarkiðin og þetta námskeið var einmitt það sem mig vantaði.”

,,Takk kærlega fyrir áhugvert og vel skipulagt námskeið sem kveikti margar hugmyndir.”