Samband menntunnar og mannréttinda er nánara en margan grunar. Flest eru meðvituð um réttinn til menntunnar, þ.e. að aðgangur að menntun sé mannréttindi, en færri vita að mannréttindi þeirra hafa töluverð áhrif á nám og námsaðsæður þeirra. Skólar spila þannig mikilvægt hlutverk í því að gera réttindi nemenda sinna að raunveruleika með því að skapa umhverfi og innleiða starfshætti sem gera öllum kleift að blómstra í námi, óháð bakgrunni. T.a.m. stendur í Mannréttindayfirlýsingu Sameinðuðu þjóðanna:
„Allir hafa rétt til menntunar… Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarhópa og að styrkja starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar.“
Innihald námsins er líka undir og kemur það ágætlega fram í 29. Grein Barnasáttmálans:
„…menntun barns skuli beinast að því að: Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess… Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða…
Þó eru ein réttindi sem oft gleymist að vinna að, en það eru réttindin til þess að læra um mannréttindi. Svokölluð mannréttindamenntun, en hugmyndin er í stuttu máli sú að án almennrar þekkingar á mannréttindum geti enginn staðið vörð um réttindi sín né annara. Þetta er kjarnað ágætlega í auðlesinni útgáfu af Barnasáttmálanum: Allir verða að þekkja réttindi barna. Stjórnvöld skulu fræða börn og fullorðna um Barnasáttmálann reglulega svo allir þekki réttindi barna. Mannréttindayfirlýsingin gerir sambærilegar kröfur. Mannréttindamenntun er því alger grundvöllur þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum, og að sáttmalarnir geti þjónað sínu hlutverki.
Fjölbraut við Ármúla hefur um árabil boðið nemendum sínum upp á sérstakan mannréttindaáfanga. Pétur Hjörvar, Verkefnastjóri hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hitti þær Dana Zaher El Deen, Weroniku Zarzycka og Bryndísi Valsdóttur til þess að kynna sér áfangan. Þær sitja í Kósýstofunni, afar afslappaðri kennslustofu á annari hæð skólans, sem við fáum lánaða næstu þrjú korterin. Þar hittast þær ásamt hópi nemenda þrisvar í viku, en Bryndís kennir áfangann og Dana og Weronika nema hann. Áfanginn er áhugaverður og rímar vel við áherslur UNESCO-skóla því nemendur læra ekki bara í kennslustofunni, heldur sinna þeir 20 tímum af sjálfboðavinnu fyrir góðgerðarfélög. Í UNESCO-skólunum fer margt einstakt fram og Félagi Sþ langar að miðla þessu góða starfi meðal áhugsamra. Bryndís tók vel í viðtalsbeiðnina og stakk upp á að Dana og Weronika yrðu með. Það reyndist mikill fengur, enda sjónarhóll þeirra allt annars en kennarans.
Weronika er á öðru ári í FÁ og valdi mannréttindaáfangann því henni fannst hann hljóma áhugaverður:
„Ég vissi ekki alvg hvað ég myndi læra í honum en mér fannst hann spennandi … Ég er sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp. Ég hjálpa til við skipulag, við að þrífa og fleira … Ég hef leitað til þeirra þegar ég vildi fá mér kisu og ég hef bara mikinn áhuga á dýrum.“
Dana er sömuleiðis á öðru ári í FÁ. Dana valdi mannréttindaáfangann því hún vildi læra um mannréttindi og hvernig samtök vinna að því að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt.

„Ég er sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum og er þar að vinna með ungu fólki. Ég vildi gera það því þegar ég kom til Íslands tók ég þátt í þessu sama starfi, ekki sem sjálfboðaliði eins og núna, heldur bara til þess að skemmta mér. Ég valdi þetta verkefni því ég hef áhuga á verkefnum sem færa ungu fólki skemmtun og jákvæðar upplifanir.“
Bryndís Valsdóttir er búin að kenna við FÁ í 22 ár. Geri aðrir betur. Hún hefur lengst af kennt siðfræði og heimspeki og er annt um um að nemendur sínir læri þau fög til gagns, enda hefur hún brennandi áhuga og trú nytsemi þekkingarinnar.
„Svo erum við einhverntíman að spjalla (um kennsluna), ég og Margrét (Súsanna Margrét Gestsdóttir) samkennari minn, sögukennari og sko þetta tengist allt þessi réttindaumræða og siðferði.
Í heimspekinni hafa verið vangaveltur um það alla tíð hvaðan mannréttindi koma. Heimspekilegi vinkillinn er: Hvað eru mannréttindi? Er þetta náttúruréttur, svona eins og forn-grikkirnir hugsuðu, við erum öll bræður og systur og börn guðs og erum öll jöfn, eða er þetta samfélagssáttmáli og á hverju byggir svona samfélagssáttmáli? Það hljóta að vera umræður um verðmæti og gildi? Og allt er þetta kjarni í siðfræði. Hvernig við breytum byggir á hvað við teljum vera rétt og rangt sem verður síðan forsendan fyrir mannréttindum. Þau eru skrifuð til til þess að standa vörð um ákveðin gildi.“
Bryndís hefur notað fjölda verkfæra í kennslunni, m.a. hlutverkaleik Rauða Krossins: Á flótta, heimsóknir frá Amnesty og öðrum samtökum, heimildamyndir, spil og fleira „Þetta er auðvitað málið. Að vera ekki alltaf inni í þessu boxi að troða einhverjum fróðleik, eða þannig, ekki að við notum þær aðferðir! En þannig lagað, hvort það séu ekki forsendur fyrir því að upplifa á eigin skinni. Bara að fara út í samfélagið! Af fjórum kennslustundum í viku, þá fellur ein niður. Nemendur klára þannig 20 klukkutíma af sjálfboðaliðavinnu“
Spurð hvort hún hafi lært eitthvað í áfanganum, svarar Weronika: „Ég held að þetta hafi hjálpað mér að vera bara með meiri svona … góðvild, og ég þarf ekki alltaf að gera eitthvað fyrir pening, þú veist ég er bara að gefa af því ég vil það“. Bryndís bætir við að þau séu að hefja nægjusaman nóvember og ætli að kafa á dýptina í neysluhyggju og þar verði Heimsmarkmið 12, ábyrg neysla, haft í fyrirrúmi.
„Ég sé fyrir mér þessa tengingu við UNESCO-skólann – ég er ekki bara að kenna mannréttindi, og umhverfismálin eru mér ofarlega í huga, þannig allt þetta tengist. Ég er alltaf að reyna að þjálfa nemendur í að sjá að allt þetta tengist, hegðun okkar á vesturlöndum, hugsanlega bitnar á umhverfi og mannréttindum fólks annarsstaðar í heiminum. Þessar tengingar, bæði við UNESCO og Heimsmarkmiðin er mjög auðvelt að sjá.“ Segir Bryndís.
Nemendur fylgja þeim ramma í sjálfboðaliðastörfum sínum að þau þurfa að vinna með góðgerðarsamtökum eða að málefni sem tengist á einn eða annan hátt mannréttindum og Bryndís leiðbeinir þeim og miðlar til þeirra tækifærum. Nemendur taka að sér fjölbreytt verkefni en algengt er að nemendur sæki í fatabúðir Rauða Krossins og manni þar vaktir. „Aðstoð við heimanám, það eru t.d. tveir sem eru sjálfboðaliðar hérna í skólanum. Við erum með stærstu deild fjölfatlaðra á landinu …“ Aldurstakmörk og skuldbinding til lengri tíma eru þrándur í götu nemenda Bryndísar en algengt er að sjálfboðaliðar þurfi að skuldbinda sig í hálft ár og verða orðnir 23 ára. Það kemur þó ekki að sök og hafa nemendur alltaf fundið eitthvað við hæfi, sumir jafnvel skuldbundið sig í hálft ár, og unnið langt yfir þær tuttugu klukkustundir sem námskeiðið krefst.
Í lok viðtals eru Dana og Wiktoria spurðar hvort eitthvað hafi komið þeim á óvart þegar þau voru að læra um réttindi sín og mannréttindi almennt og þá kom ýmislegt í ljós.
„Ég vissi ekki að mannréttindi og umhverfsmál væru svona tengd. Ég vissi að það sem við kaupum og svona hefur áhrif á umhverfið, en ég vissi ekki að mannréttindi spili inn í það“
segir Wiktoria. Þetta er eitt af mörgum skiptum í viðtalinu sem hún lýsir því hvernig nemendurnir glíma við og læra um helstu áskorannir nútímans. Þetta eru ekki einföld mál og ekki annað hægt en að hrósa Wiktoriu og Dönu fyrir því hversu vel þær tjá sig og tengja þessar stóru hugmyndir við eigið líf.
Í lokin ítrekar Bryndís hversu mikilvægt er að allir skilji hvernig mannréttindi virka. Réttindi verða alltaf að vera gagnvart einhverjum. Ef einhver á réttindi, þá ber einhver skyldu. Þetta er ekki sjálfgefin þekking, hvað þá fyrir börn og ungmenni og því mikilvægt að regluleg og markviss mannréttindafræðsla standi öllum til boða. Raunar er það svo að mannréttindafræðsla býr til verkfæri sem gerir fólki kleift að standa vörð um eigin réttindi, velferð og vellíðan, fjölskydu sína, samfélagið og þau gildi sem leiða til friðar og betra samfélags.