1.1 Eigi síðar en árið 2030 hafi sárri fátækt verið útrýmt alls staðar. Miðað verði við að enginn hafi minna á milli handanna en sem nemur 1,25 bandaríkjadölum á dag til að framfleyta sér.
1.2 Eigi síðar en árið 2030 búi a.m.k. helmingi færri karlar, konur og börn, óháð aldri, við fátækt eins og hún er skilgreind í hverju landi.
1.3 Innleidd verði viðeigandi félagsleg kerfi í hverju landi öllum til handa, þ.m.t. lágmarksframfærsluviðmið, sem styðji frá og með árinu 2030 allverulega við fátæka og fólk í viðkvæmri stöðu.
1.4 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir, karlar sem konur, og þá einkum fátækt fólk og fólk í viðkvæmri stöðu, eigi jafnan rétt til efnahagslegra bjargráða og hafi sama aðgengi að grunnþjónustu, eignarhaldi á og yfirráðum yfir landi og öðrum eignum, erfðum, náttúruauðlindum, viðeigandi tækninýjungum og fjármálaþjónustu, þ.m.t. fjármögnun smærri fjárfestinga.
1.5 Eigi síðar en árið 2030 verði staða fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu styrkt með fyrirbyggjandi aðgerðum til að bregðast við alvarlegum atburðum af völdum loftslagsbreytinga, efnahagslegum eða félagslegum áföllum, umhverfisskaða eða hamförum.
1.A Tryggð verði margvísleg úrræði fyrir þróunarlönd, einkum þau verst settu, þar á meðal með aukinni þróunarsamvinnu, til að þeim standi til boða fullnægjandi og áreiðanleg aðstoð og hrint verði í framkvæmd áætlunum sem miða að því að útrýma fátækt í allri sinni mynd.
1.B Mótuð verði traust umgjörð um stefnumál, alþjóðleg, svæðisbundin og á landsvísu, sem byggist á þróunaráætlunum sem taka einkum mið af stöðu fátækra og kynjamismunun, í því skyni að tryggja að aukið fjármagn fari í aðgerðir sem miða að því að útrýma fátækt.
Ítarefni um markmið 1
Staðan á Íslandi
Helstu áskorarnirnar á Íslandi eru:
- Styrkja stöðu fólks sem stendur höllum fæti, með sérstakri áherslu á börn
- Útrýma launamun, meðal annars á grundvelli þjóðernisuppruna
Mikill árangur hefur náðst á heimsvísu í baráttunni gegn fátækt síðustu ár en kórónuveirunnar hefur sett svip sinn á stöðu fátækra um heim allan. Fátækt er ekki aðeins efnahagslegt fyrirbæri heldur margþætt vandamál. Hvort tveggja felur það í sér lágar tekjur og skort á grundvallarforsendum til að lifa í sæmd.
Kórónuveiran hefur þrýst fólki niður í örbirgð sérstaklega í þróunarríkjum – hungur, húsnæðisleysi, skort á tryggri lífsafkomu, lélegt eða ekkert aðgengi að menntun, skort á heilbrigðisþjónustu og annarri grunnþjónustu auk félagslegrar útskúfunar.
Ísland er velferðarríki á vestrænan mælikvarða og lífskjör íslenskra ríkisborgara því almennt talin góð samanborið við aðrar þjóðir heimsins. Nýjustu mælingar sýna að á Íslandi ríkir mestur tekjujöfnuður og minnst fátækt meðal Evrópuþjóða en þrátt fyrir þær jákvæðu niðurstöður býr ákveðinn hópur fólks enn við efnislegan skort og fátækt.
Eitt af megin markmiðum heimsmarkmiðanna er að skilja engan eftir og því er mikilvægt að hafa það að leiðarljósi við innleiðingu fyrsta markmiðsins um að útrýma fátækt á Íslandi. Það getur verið vandkvæðum bundið að skilgreina fátækt, sér í lagi er kemur að alþjóðasamanburði.
Það er stefna íslenskra stjórnvalda að styrkja sérstaklega stöðu fólks sem stendur höllum fæti og gera tillögur til úrbóta á kjörum tekjulægstu hópanna í samfélaginu og útrýma fátækt í öllum myndum.
Hér má finna umfjöllun á fundi í Háskóla Íslands frá 19. nóvember 2019 um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun númer eitt: Engin fátækt
Fátækt sýnileg, áþreifanleg og fer vaxandi
Stærsti hópurinn sem leitar aðstoðar hjálparsamtaka á Íslandi er fólk sem framfleytir sér með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og fólk á atvinnuleysis- eða örorkubótum. Æ fleira fólk af erlendum uppruna hefur ekki aðrar bjargir en að framfleyta sér og sínum með fjárhagsaðstoð félagsþjónustunnar.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina. Þar kemur einnig fram að ellilífeyrisþegnar og láglaunafólk leiti einnig til hjálparsamtaka en þó í minna mæli. Þó hefði komið fram í samtölum að fátækt væri sýnileg og áþreifanleg staðreynd sem færi vaxandi.
Í skýrslunni segir að almennt þurfi að útvíkka og bæta þau úrræði sem nýtast fátæku fólki, einkum með sérstökum úrræðum á tímum heimsfaraldursins. Þar segir einnig að endurmeta þurfi og útfæra úrræði fyrir fólk sem bíður örorkumats og styðja betur við fólk af erlendum uppruna. Loks var bent á mikilvægi þess að bjóða upp á varanleg úrræði fyrir fólk með fjölþættan vanda, á borð við geðröskun og fíkniefnavanda.
Höfundar skýrslunnar eru þær: Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Guðný Gústafsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir
Ísland á alþjóðlegum vettvangi
Meginmarkmið alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands eru að styðja viðleitni alþjóðasamfélagsins til að útrýma fátækt og hungri og stuðla að sjálfbærri þróun. Unnið er að þeim markmiðum meðal annars með fjárframlögum til tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu, með sérstakri áherslu á samvinnu við fátæk og óstöðug ríki og að bæta stöðu þeirra sem búa við lökust lífskjör.
Tvíhliða samstarfslönd Íslands eru Malaví og Úganda og njóta þau mests stuðnings frá Íslandi auk Mósambík, Palestínu og Afganistan, sem einnig fá umtalsverðan íslenskan stuðning í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök. Í öllum þeim ríkjum beinist þungi stuðningsins frá Íslandi að þeim hópum sem búa við sárafátækt og kerfisbundinn ójöfnuð, einkum í dreifbýli.
Hætta á mikilli fjölgun fátækra 2020-2021
Milljónir manna í heiminum búa við sárustu fátækt. Árið 2018 þurftu 8% jarðarbúa að gera sér að góðu að lifa á andvirði 1.90 Bandaríkjadals á dag. Fátækt er ekki aðeins efnahagslegt fyrirbæri heldur margþætt vandamál. Hvort tveggja felur það í sér lágar tekjur og skort á grundvallarforsendum til að lifa í sæmd.
Sameinuðu þjóðirnar telja að líta bera á fátækt sem marghliða vanda. Félagslegu réttlæti verði ekki fullnægt án þess að ráðast gegn umhverfislegu óréttlæti svo sem loftslagsbreytingar.
Fólk sem býr við fátækt upplifir margs konar innbyrðis tengdan skort sem hindrar það í því að njóta réttinda sinna og festir það í fátækragildrunni. Nefna má skort á næringarríkri fæðu, takmarkaðan aðgang að heilsugæslu, hættulegar vinnuaðstæður, ójafnan aðgang að réttarkerfi, póiltískt valdaleysi og menntunarskort.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar þrýsti fólki niður í örbirgð
COVID-19 faraldurinn hefur haft í för með sér stórfellt manntjón um allan heim. Hann hefur haft í för með sér fordæmislausa áskorun á lýðheilsu, fæðukerfi og atvinnulíf. Efnahagslegur og félagslegur skaði er óheyrilegur: tugir milljona eiga á hættu að verða örbirgð að bráð. Talið er að flokkur fátækra í heiminum hafi talsvert aukist en það er fyrsta fjölgun fátækra í áratugi.
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna leggur áherslu á þörfina á öflugum aðgerðum til að berjast gegn fátækt á þessum tímum. Faraldurinn krefst öflugra sameiginlegra aðgerða og aðal framkvæmdastjórinn hvetur ríkisstjórnir heims til að hraða efnahagslegri umbreytingu með fjárfestingum í sjálfbærri endurreisn.
Ríki þurfa á nýrri kynslóð áætlana um félagslega vernd, sem nær til fólks í óformlega hagkerfinu. Eina örugga leið okkar út úr faraldrinum er að taka höndum saman um sameiginlegan málstað.