Heimsmarkmiðin

Áætlun þessi er framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi. Ljóst er að útrýming fátæktar í öllum sínum myndum og umfangi, að með talinni sárafátækt, er stærsta verkefnið á heimsvísu og ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir sjálfbærri þróun.

Öll lönd og allir haghafar munu, í gegnum samstarfsverkefni, hrinda þessari áætlun í framkvæmd. Við ásetjum okkur að losa mannkynið undan ánauð fátæktar og að græða jörðina og auka öryggi hennar. Við einsetjum okkur að stíga afgerandi skref til breytinga sem nauðsynleg eru í því skyni að koma veröldinni á braut sjálfbærni og auka viðnámsþol hennar. Þau 17 markmið sjálfbærrar þróunar og 169 undirmarkmið, sem sett eru fram í skjali þessu, vitna um umfang þessarar nýju, altæku og metnaðarfullu áætlunar.

Með markmiðunum er leitast við að byggja á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og ljúka því sem ekki náðist með þeim. Með þessum markmiðum er leitast við að tryggja öllum mannréttindi og ná fram kynjajafnrétti og efla vald kvenna og stúlkna. Þau eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Þessi markmið og undirmarkmið þeirra munu örva aðgerðir næstu fimmtán ár á afgerandi sviðum fyrir mannkynið og jörðina:

Mannkynið

Við einsetjum okkur að útrýma fátækt og hungri og að sjá til þess að allt fólk geti nýtt tækifæri sín með reisn og búið í heilbrigðu umhverfi þar sem jafnræði ríkir.

Jörðin

Við einsetjum okkur að vernda jörðina fyrir hnignun, meðal annars með sjálfbærri neyslu og framleiðslu, með því að nýta náttúruauðlindir með sjálfbærum hætti og að grípa til brýnna aðgerða vegna loftslagsbreytinga til þess að jörðin geti þjónað þörfum núlifandi og komandi kynslóða.

Hagsæld

Við einsetjum okkur að sjá til þess að allt fólk geti notið hagsældar í lífinu og náð að njóta sín til fulls og að efnahagslegar, félagslegar og tæknilegar framfarir verði í sátt við náttúruna.

Friður

Við einsetjum okkur að hlúa að friðsælum og réttlátum samfélögum fyrir alla, þar sem ótti og ofbeldi eru fjarri. Sjálfbær þróun verður ekki án friðar og enginn friður án sjálfbærrar þróunar.

Samstarf

Við einsetjum okkur að virkja þær leiðir sem eru nauðsynlegar til þess að áætlun þessari verði hrundið í framkvæmd með því að blása nýju lífi í alþjóðlegtsamstarf um sjálfbæra þróun í anda aukinnar alþjóðlegrar samstöðu, í því samstarfi verði sjónum einkum beint að þörfum þeirra fátækustu og viðkvæmustu með þátttöku allra landa, allra haghafa og allra jarðarbúa.Innri tengsl og samþætt eðli markmiðanna um sjálfbæra þróun eru afar þýðingarmikil ef takast á að framkvæma hina nýju áætlun. Takist okkur að ná markmiðum okkar innan gildistíma áætlunarinnar verður líf allra bætt í grundvallaratriðum og veröld okkar hefur umbreyst til batnaðar.

Markmiðin á pdf skjali.