2: Ekkert hungur

Markmið 2 Ekkert hungur Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði

2.1     Eigi síðar en árið 2030 hafi hungri verið útrýmt og aðgengi allra tryggt, einkum fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu, þar á meðal ungbarna, að nægum, öruggum og næringarríkum mat allt árið um kring.

2.2     Eigi síðar en árið 2030 heyri vannæring í hvaða mynd sem er sögunni til, þar að auki verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stemma stigu við kyrkingi í vexti og tæringu barna undir fimm ára aldri, og hugað að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra.

2.3     Eigi síðar en árið 2030 verði framleiðni og tekjur þeirra sem framleiða í litlu magni tvöfölduð, einkum kvenna, frumbyggja, bændafjölskyldna, hirðingja og sjómanna, til að mynda með öruggu og jöfnu aðgengi að landi, öðrum frjósömum auðlindum og aðföngum, þekkingu, fjármálaþjónustu, mörkuðum og tækifærum til virðisauka og starfa utan býla.

2.4     Eigi síðar en árið 2030 verði sjálfbærni í matvælaframleiðslu tryggð og teknir upp starfshættir sem auka framleiðni og framleiðslu í landbúnaði, sem viðheldur vistkerfunum, dregur úr hættu af völdum loftslagsbreytinga, veðurofsa, þurrka, flóða og annarra hamfara og bætir land og jarðveg til lengri tíma litið.

2.5     Eigi síðar en árið 2020 verði staðinn vörður um erfðafræðilega fjölbreytni fræja, ræktaðra plantna, húsdýra og skyldra villtra tegunda, meðal annars með vel reknum fræ- og plöntustöðvum á alþjóðlegum vettvangi, á landsvísu eða svæðisbundið, auk þess sem tryggt verði aðgengi að jafnri og sanngjarnri skiptingu á þeim ávinningi sem hlýst af nýtingu erfðafræðilegra auðlinda og þekkingu sem hefur hlotist þar af, í samræmi við alþjóðlegar samþykktir.

2.A     Fjárfestingar verði auknar, meðal annars með aukinni alþjóðlegri samvinnu, í innviðum á svæðum utan þéttbýlis, landbúnaðarrannsóknum, tækniþróun og erfðagreiningu plantna og búpenings í því skyni að bæta landbúnaðarframleiðslu í þróunarlöndum, einkum þeim sem skemmst eru á veg komin.

2.B     Komið verði í veg fyrir hindranir á heimsmörkuðum með landbúnaðarafurðir, meðal annars með samhliða afnámi allra útflutningsstyrkja í landbúnaði og allra annarra ráðstafana tengdra útflutningi sem hafa sömu áhrif, að teknu tilliti til Doha-samningalotunnar.

2.C    Samþykktar verði ráðstafanir til þess að tryggja eðlilega starfsemi matvörumarkaða og afleiddra viðskipta og séð verði til þess að markaðsupplýsingar verði aðgengilegar og berist í tæka tíð, meðal annars um matvælabirgðir, í því skyni að sporna við miklum verðsveiflum.

 

Ítarefni um markmið 2

Töluverðum árangri hafði verið náð á heimsvísu í baráttunni gegn hungri á árunum 2010-2015, en síðan þá hefur staðan farið hratt versnandi og fjöldi vannærðra einstaklinga á heimsvísu aukist hratt. Ljóst er að loftslagsbreytingar og vaxandi átök á ýmsum svæðum hafa sett svip sinn á stöðuna, en síðastliðið ár hafa áhrif Covid-19 jafnframt sett strik í reikninginn.

Samkvæmt skýrslu Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem birt var í maí 2020, ganga ríflega 820 milljónir manna hungraðar til hvílu á hverju kvöldi og 135 milljónir í 55 löndum eru beinlínis við hungurmörk. Tölurnar eiga þó við árið 2019 og eru frá því áður en heimsfaraldur Covid-19 braust út. Talið er að vegna hans verði 265 milljónir manna í heiminum við hungurmörk á næstu misserum. Hungur í heiminum virðist aukast hratt því fyrir fjórum árum voru 80 milljónir við hungurmörk.

Vandamálið er þó ekki að ekki sé til nægur matur til að fæða alla jarðarbúa, þar sem að á ári hverju er framleiddur nægur matur í heiminum til að næra alla íbúa heims og helmingi fleiri. Vandamálið liggur heldur í misskiptingu, þar sem stór hluti jarðarbúa hefur ekki nægilegt aðgengi að mat á meðan matur fer til spillis annarsstaðar. Stuðla þarf að sjálfbærri framleiðslu fæðu til frambúðar og aðgengi allra jarðarbúa að næringarríkri fæðu.

Áhrif Covid-19

Heimsfaraldurinn Covid-19 hefur haft í för með sér stórfellt manntjón um allan heim. Faraldurinn hefur stöðvast nánast alla matvælaframleiðslu og komið í veg fyrir flutning matvæla. Hungur í heiminum er komið á mjög hættulegt stig og er talið líklegt að fjöldi þeirra sem deyi úr hungri vegna áhrifa Covid-19 verði fleiri en þeir sem látast af völdum sjúkdómsins. Ljóst er að ástandið er brýnt og grípa þarf til aðgerða.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út spálíkön um þróun hungurs í heiminum og sýna verstu spár að um 10% jarðarbúa muni ekki fá nægan mat á árinu. Auk þessa eru enn fleiri sem upplifa annarskonar fæðuóöryggi, t.a.m. að hafa ekki efni á næringarríkri fæðu, sem getur leitt til vannæringar og offitu. Áhrif vannæringar eru langvarandi, ónæmiskerfi veikist, hreyfigeta takmarkast og heilastarfsemi getur jafnvel verið skert. Jafnvel í bestu spám Sameinuðu þjóðanna sýna spálíkön að hungur verði meira næsta áratuginn, en spáð var fyrir heimsfaraldurinn. Gera þarf allt sem hægt er til að verja þá sem minnst mega sín og koma í veg fyrir að faraldurinn eyðileggi líf fólks í löndum þar sem ástandið er viðkvæmt.

David Beasley, framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), hefur biðlað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að grípa í taumana, að án aukinna framlaga sé rík ástæða til að óttast hungursneyð meðal fjölda þjóða sem hafi búið við óstöðugleika árum saman. Heimurinn sé á barmi hungurfaralds. Öll ríki heims verða að setja fæðuöryggi og mannúðaraðstoð í forgang í viðbrögðum sínum við Covid-19 faraldrinum.

Staðan á Íslandi

Þrátt fyrir að Ísland sé velferðarríki og lífskjör almennt talin góð í samanburði við aðrar þjóðir heims, þá er það þó ekki svo að á Íslandi búi ekki einstaklingar og fjölskyldur sem þurfa að líða hungur. Eitt af megin markmiðum heimsmarkmiðanna er að skilja engan eftir og er því brýnt að hafa það að leiðarljósi við innleiðingu annars markmiðsins um að útrýma hungri á Íslandi.

Áhrif Covid-19 leyndu sér heldur ekki á Íslandi og hafa aldrei fleiri þurft að sækja sér mataraðstoð og nú í vetur. Hjálpræðisherinn í Reykjavík greindi frá því að umsóknum um mataraðstoð fyrir jólin hafi aukist um 200% og komust færri að hjá Fjölskylduhjálp Íslands en þurftu. Vandamálið er fjölþætt og er það samtvinnað heimsmarkmiði 1, að útrýma þurfi fátækt. Brýnt er að bregðast við þessu vaxandi vandamáli með útvíkkun og betrumbætingu þeirra úrræða sem þessi viðkvæmi hópur þarf að sækja.

Helstu áskoranir á Íslandi eru:

  • Að tryggja framfærslu allra landsmanna
  • Að stuðla að sjálfbærri þróun í fiskveiðum og landbúnaði
  • Að beita sér fyrir lífrænni og heilnæmri framleiðslu

Á alþjóðlegum vettvangi

Meginmarkmið Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli kynjajafnréttis, mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Sérstaklega er hugað að réttindum barna og að þau fái tækifæri til að dafna og þroska hæfileika sína. Vannæring getur haft varanleg neikvæð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna. Aðgangur að næringarríkri fæðu er lykilatriði en aðrir þættir eins og aðgengi að hreinu vatni og bættri salernisaðstöðu, bólusetningar og aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu hafa einnig mikil áhrif. Ísland styður meðal annars Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Báðar stofnanir sinna mikilvægum næringarverkefnum í þróunarlöndum og á mannúðarsvæðum. Stuðningur Íslands er í formi rammasamninga og samninga um útsenda íslenska sérfræðinga auk þess sem Ísland svarar neyðarköllum eftir bestu getu með neyðarframlögum. Ísland hefur m.a. lagt mikla áherslu á stuðning við WFP og UNICEF í Sýrlandi og Jemen sem og beinan stuðning við samstarfsland Íslands, Malaví.

Hvað getum við gert?

Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og samtök geta lagt sitt að liði til að stuðla að því að útrýma hungri í heiminum á ýmsa máta.

  • Með “appinu” Share the Meal, á vegum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, getur þú greitt fyrir máltíð barns. Allaf þegar þú færð þér að borða, getur þú styrkt vannært barn um máltíð í gegnum appið. Þið getið notið máltíðarinnar saman í sitthvoru heimshorninu. Þú gefur einu barni mat í heilan dag á 105 kr ($0.80).
  • Hægt er að styrkja Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í gegnum heimasíðu þeirra, þau berjast gegn hungri um allan heim.
  • Hægt er að styrkja Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sem berjast fyrir réttindum og velferð barna um allan heim.
  • Hægt er að styrkja og/eða bjóða fram aðstoð sína til hjálpar þeirra sem veita mataraðstoð á Íslandi. Þar má t.a.m. geta Samhjálpar, Mæðrastyrksnefnda um land allt og Hjálpræðishersins.
  • Aukin vitundarvakning er mikilvæg til að stuðla að því markmiði að enginn þurfi að líða hungur í heiminum. Með því að fræðast og fræða aðra um vandamálið og leiðir til að sporna gegn því getur þú lagt þitt á vogarskálarnar.