Markmið 17 Samvinna um markmiðin Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða

Fjármál

17.1     Úrræði heimamanna verði styrkt, meðal annars með alþjóðlegum stuðningi við þróunarlönd, til að bæta skattkerfið og aðra tekjuöflun.

17.2     Hátekjuríkin standi að fullu við skuldbindingar sínar um opinbera þróunaraðstoð, meðal annars þá skuldbindingu margra þeirra að láta 0,7% af vergum þjóðartekjum renna til þróunarlanda og 0,15–0,20% af vergum þjóðartekjum renna til þeirra sem eru skemmst á veg komin. Þau ríki sem veita opinbera þróunaraðstoð verði hvött til þess að setja sér það markmið að láta a.m.k. 0,20% af vergum þjóðartekjum renna til þróunarlanda sem eru skemmst á veg komin.

17.3     Kallað verði eftir viðbótarfjármagni hvaðanæva að til handa þróunarlöndum.

17.4     Þróunarlönd fái aðstoð til að ná tökum á langtímaskuldum með samræmdri stefnumörkun sem miðar að því að bæta fjármagnsstöðu, lækka skuldir og endurfjármagna eftir því sem við á. Erlendar skuldir mjög skuldsettra og fátækra ríkja verði skoðaðar með það fyrir augum að draga úr skuldavanda.

17.5     Teknar verði upp aðgerðaáætlanir til að efla fjárfestingarsjóði í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin og þeim framfylgt.

Tækni

17.6     Eflt verði samstarf milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða ásamt þríhliða svæðisbundnu og alþjóðlegu samstarfi um vísindi, tækni og nýsköpun og aðgengi að þessum sviðum auðveldað. Enn fremur verði þekkingu miðlað í meira mæli á jafnræðisgrundvelli, meðal annars með því að samræma betur fyrirliggjandi kerfi, einkum á vegum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra skipulagseininga sem er ætlað að stuðla að tækniþróun.

17.7     Stuðlað verði að umhverfisvænni tækniþróun og flutningi, miðlun og dreifingu í þróunarlöndunum á hagstæðum kjörum, m.a. með ívilnunum og tilslökunum, eins og samkomulag næst um.

17.8     Eigi síðar en í lok árs 2017 verði starfrækt tæknimiðstöð til uppbyggingar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin og stuðningur til sjálfshjálpar efldur, einkum á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Uppbygging getu

17.9     Efldur verði alþjóðlegur stuðningur við þróunarlöndin til að ýta úr vör skilvirkri og hnitmiðaðri uppbyggingu með hliðsjón af landsáætlunum sem fela í sér sjálfbær þróunarmarkmið, þ.m.t. samstarf milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða og þríhliða samstarf.

Viðskipti

17.10   Stuðlað verði að alþjóðlegu og opnu viðskiptakerfi innan Alþjóðaviðskipta­stofnunar­innar, sem byggist á réttlátu og marghliða regluverki með jafnræði að leiðarljósi, þar sem meðal annars verði stefnt að því að ljúka Doha-viðræðunum.

17.11   Útflutningur þróunarlanda verði aukinn verulega, einkum með það fyrir augum að tvöfalda hlutdeild þeirra verst settu í útflutningi á heimsvísu, eigi síðar en árið 2020.

17.12   Koma í framkvæmd, þegar færi gefst, tollfrjálsu og kvótalausu markaðsaðgengi til lengri tíma fyrir þróunarlönd sem eru skemmst á veg komin í samræmi við ákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, meðal annars með því að tryggja gagnsæi, lítið flækjustig og ívilnandi upprunareglur um innflutning frá þessum löndum.

Kerfistengd málefni

Stefnumál og samhengi í stofnanalegu tilliti.

17.13   Auka efnahagslegan stöðugleika um allan heim, meðal annars með samræmdri stefnumörkun.

17.14   Bæta samræmda stefnu varðandi sjálfbæra þróun.

17.15   Virt verði svigrúm og vald hvers lands til að koma á og framfylgja stefnumálum um útrýmingu fátæktar og sjálfbæra þróun.

Samstarf margra hagsmunaaðila.

17.16   Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun verði aukið með stuðningi fjölda hagsmunaaðila, sem miðla af þekkingu sinni og sérfræðikunnáttu, veita tæknilegar úrlausnir og fjármagn, í því skyni að ná fram þróunarmarkmiðunum um sjálfbærni í öllum löndum, einkum þróunarlöndunum.

17.17   Hvetja til skilvirkra samstarfsverkefna hjá hinu opinbera, milli opinbera geirans og einkaaðila og á meðal borgaranna og styðja við slík verkefni. Við framkvæmd þeirra verði byggt á reynslu af samstarfsverkefnum almennt og útsjónarsemi höfð í fyrirrúmi.

Gögn, eftirlit og ábyrgð.

17.18   Eigi síðar en árið 2020 verði efldur stuðningur við þróunarlöndin, meðal annars við þau lönd sem eru skemmst á veg komin og þróunarlönd sem eru smáeyríki, til að auka svo um munar aðgengi að nýjustu vönduðu og áreiðanlegu upplýsingum, sundurliðuðum eftir tekjum, kyni, aldri, kynþætti, þjóðerni, innflytjendastöðu, fötlun, landfræðilegri stöðu og öðrum breytum sem eiga við í hverju landi.

17.19   Eigi síðar en árið 2030 verði unnið út frá fyrirliggjandi verkefnum og mælikvarði þróaður í þágu sjálfbærrar þróunar, þ.e. til viðbótar við mælikvarða um verga landsframleiðslu, og stutt verði við uppbyggingu á sviði tölfræði í þróunarlöndunum.

 

Ítarefni um markmið 17

17: Alþjóðleg samvinna

Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða

Aðstoðarframkvæmdastjóri SÞ Amina Mohammed (til hægri) með Alison Smale, varaframkvæmdastjóru SÞ sem er ábyrg fyrir kynningarmálum heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun stilla saman strengi í tilefni af árlegri viku almennra umræða í allsherjarþingi SÞ.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar er enn frekari prófsteinn á fjölþjóðlega samvinnu og hnattrænt samstarf sem þegar fyrir útbreiðslu COVID19 stóð veikum fótum. Þrátt fyrir að opinber þróunaraðstoð (ODA) hafi aukist og streymi heimsendinga farandfólks minnkað minna en búist var við árið 2020, hefur bein erlend fjárfesting dregist saman um fjörutíu prósent.

Áhrif heimsfaraldursins veldur skuldasöfnun í mörgum ríkjum, og takmarkar einnig rými ríkja í ríkisfjármálum og stefnumótun á sviði þeirra grunninnviða sem þarf á að halda í endurreisnarstarfið (þar með talið aðgengi að bóluefni), aðgerðir í loftlagsmálum og á sviði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Allt þetta skapar þá hættu að endurreisnarstarfið muni vara lengur en ella. Samtengd hagkerfi heimsins krefjast alþjóðlegra viðbragða til að tryggja að öll ríki heimsins, sérstaklega þróunarlönd, geti tekist á við síversnandi og samhliða umhverfis- og heilbrigðiskrísu og kreppu í efnahagslífinu og náð fram betri endurreisn. Það að styrkja fjölþjóðlega samvinnu og hnattrænt samstarf er orðið mikilvægara en nokkru sinni áður.

Þróunaraðstoð jókst til mikilla muna á tímum yfirstandandi kórónuveiru, en gjafar hafa enn ekki staðið við gefin loforð

Þrjár ungar stúlkur í Bam Sarai þrpinu í Bamya-héraði lesa undir próf vegna frumkvæðis UNICEF og þáverandi ríkisstjórnar Afganistan.

Heildarvirði þróunaraðstoðar af hálfu aðildarríkja Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar náði 161 milljarði bandaríkjadala árið 2020, sem var aukning um sjö prósent að raunvirði frá árinu 2019. Þessi aukning stafaði af nauðsyn þess að endurreisa hagvöxt um allan heim einmitt í ljósi kórónuveirunnar og aukningar á tvíhliða lánveitingum ríkja sem fékkst frá lánveitandi aðildarríkjum.

Heildarvirði opinberrar þróunaraðstoðar var 0,32 prósent af samanlögðum vergum þjóðartekjum ríkja (e. GNI – Gross National Income) árið 2020, sem var undir markmiðinu um 0,7 prósent. Flest aðildarríkin gátu staðið við fyrirhugaðar skuldbindingar í opinberri þróunaraðstoð, og sum þeirra gátu bætt í við það sem fyrir var. En meira þarf til til að bregðast við vandamálum tengdum kórónuveirunni.

Heildarvirði tvíhliða fjárstreymis ríkja til lágtekjulanda voru 25 milljarðar bandaríkjadala, samdráttur um 3,5 prósent að raunvirði samanborið við árið 2019. Heildarvirði tvíhliða opinberrar þróunaraðstoðar jókst um 6,9 prósent til lægri millitekjulanda og um 36, 1 prósent til hærri millitekjulanda, sem náði annars vegar 33 milljörðum bandaríkjadala og hins vegar 18 milljörðum bandaríkjadala.

Fjárstreymi beinnar erlendrar fjárfestingar dróst verulega saman árið 2020, sérstaklega til fátækari heimshluta

Móðir og barn í Kingston á Jamaíku.  [ódagsett]
Árið 2020 dróst bein erlend fjárfesting (FDI – Foreign direct investment) saman um fjörutíu prósent og fór niður fyrir 1 trilljón bandaríkjadala (úr 1,5 trilljónum árið 2019) í fyrsta skipti síðan árið 2005. Samkomutakmarkanir og –bönn seinkuðu þeim fjárfestingaverkefnum sem voru í gangi. Horfur á djúpri efnahagslægð leiddu til þess að fjölþjóðafyrirtæki endurmátu áætlanir sínar um nýframkvæmdir og nýfjárfestingu. Stefnumótun ýmissa ríkisstjórna fólu í sér bann við nýfjárfestingum.

Alþjóðleg einkafjárfesting sem gekk til þróunarlanda og umskiptahagkerfa í geirum sem féllu undir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun dróst saman um þriðjung árið 2020. Ef frá er talin endurnýjanleg orka (þar sem aukning í nýjum verkefnum hélt áfram en var skorin niður í þriðjung af því sem þau voru fyrir kórónuveiruna), dróst fjárfesting til allra einstakra heimsmarkmiða SÞ verulega saman. Sá samdráttur átti sér einkum stað í fátækari heimshlutum.

Ef horft er til framtíðar er forspáin vegna beinnar erlendrar fjárfestingar slæm fyrir árið 2021. Tengdar áhættur er nýjasta bylgja kórónuveirunnar, hægur gangur í bólusetningum og óvissa í stefnumótun í heiminum á sviði fjárfestinga.

Streymi heimsendinga var gott árið 2020, þrátt fyrir kórónuveiruna

Til að sporna gegn bráðavanda í heilbrigðismálum vinna pakistanskir og kínverskir herlæknar og sjúkarastarfsmenn á vegum SÞ að lækningum í sveitahéruðum í Kopo í Líberíu.

Þvert á forspár sýndu opinberar tölur að streymi heimsendinga til lág- og millitekjulanda náði 540 milljörðum bandaríkjadala árið 2020, sem var einungis 1,6 prósent lægra en árið 2019. Það sem jók umsvifin var fjárhagsleg inngjöf ríkissjóða sem leiddi til meiri hagvaxtar í gistiríkjum og -samfélögum, breytingar frá reiðufé yfir í stafrænar heimsendingar og úr óformlegum í formlegar leiðir, auk sveiflukenndra breytinga á olíuverði og á gengi gjaldmiðla.

Fjárstreymi heimsendinga til lág- og millitekjulanda var meiri en bein erlend fjárfesting annað árið í röð. Heimsendingar eru orðnar mikilvæg tegund neyslumynsturs í heimahögum þeirra sem fá slíkar sendingar. Það gerir það að verkum að þær eru sífellt mikilvægari (einkarekinn) þáttur í félagslegri vernd um heim allan.

Upphæð fjárstreymis heimsendinga jókst um 6,5 prósent til Suður-Ameríku og ríkja Karíbahafsins, um 5,2 prósent til Suðu-Asíu, og um 2,3 prósent til Mið-Austurlanda og norðurhluta Afríku. Fjárstreymi heimsendinga til Afríku sunnan Sahara dróst saman um 12,5 prósent, um 9,7 prósent til Evrópu og Mið-Asíu og um 7,9 prósent til austurhluta Asíu og til ríkja í Kyrrahafi.

Takmarkið um að tvöfalda heimshlutfall útflutnings af hálfu minnst þróuðu landanna (e. LDC) fyrir árið 2020 náðist ekki

Starfsmaður UNICEF bólusetur gegn mislingum í flóttamannabúðum.

Á árabilinu 2017 til 2019 hélst vegið meðaltal tolla á heimsvísu stöðugt í um það bil tveimur prósentum. Einnig hefur útflutningur þróunarlanda og minnst þróaðra landa fengið forgang af hálfu þróaðra ríkja. Eftir að hafa farið niður í um 1,1 prósent árið 2011 sem var lægra en nokkru sinni fyrr, hefur meðaltollur verið óbreyttur af hálfu þróaðra ríkja á innflutning frá þróunarlöndum og minnst þróuðum löndum vegna vöntunar á nýjum skuldbindingum. Á sviði landbúnaðar, sem er sérstaklega mikilvægur fyrir þróunarlönd, voru hæstu tollar settir af hálfu þróaðra ríkja árið 2019 (7,9 prósent).

Hlutfall útflutnings minnst þróaðra ríkja (LDC) á sviði alþjóðlegra vöruviðskipta árið 2019 var eitt prósent. Undanfarinn áratug hefur það hlutfall staðið í stað, þrátt fyrir verulegar endurbætur á árunum 2000 til 2010, sem stafaði einkum af uppsveiflu í hrávöru. Markmiðið um að tvöfalda heimshlutfall útflutnings minnst þróaðra ríkja (LDC – Least Developed Countries) fyrir árið 2020 frá því sem það var árið 2011 (aukning um tvö prósent) hefur að öllum líkindum ekki náðst.

Þrátt fyrir hina miklu þörf fyrir tengingar á tímum yfirstandandi kórónuveiru er um það bil helmingur jarðarbúa ekki nettengdur

Móðir á heilsugæslustöð sem starfrækt er að tilstuðlan Þróunaráætlunar SÞ.

Árið 2019 notuðu 86 prósent íbúa í Evrópu og Norður-Ameríku netið og flestir á þessum svæðum gátu unnið, verslað og lært í gegnum netið á meðan útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins stóð yfir. Í Mið- og Suður-Asíu og Afríku sunnan Sahara var einungis rúmlega fjórðungur íbúa tengdur netinu. Kostnaður við netaðgang og nettengd tæki og skortur á tengdri færni eru helstu hindranir að aðgangi fyrir stóran hluta heimsins.

Til að tryggja að enginn verði skilinn eftir þarf áframhaldandi sameiginlegt átak til að tengja þau 49 prósent jarðarbúa sem enn eru ótengd. Það þarf náið samstarf á meðal ríkisstjórna, stjórnmálamanna og netfyrirtækja til að koma öllum jarðarbúum í samband við netið. Fast breiðband (e. ,,Fixed broadband”) hefur gríðarleg áhrif á heimshagkerfið. Í minnst þróuðu ríkjum heimsins (e. skammstöfun: LDC) er föst nettenging nánast ekki fyrir hendi enda að meðaltali einungis 1,3 netáskriftir á hverja 100 íbúa.

Þrátt fyrir aukna eftirspurn eftir upplýsingum, er alþjóðlegur stuðningur við upplýsingaöflun og tölfræði óviðunandi

Fyrrverandi aðalframkvæmdastjóri SÞ í opinberri heimsókn í Kongó. Sögulegt ljósmynd af einum merkasta aðalframkvæmdastjóra SÞ sem mótaði að miklu leyti störf SÞ til framtíðar litið.

Frá samþykkt á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun hefur orðið aukning í fjárveitingum til upplýsingaöflunar og tölfræði og það fjögur ár í röð. Aukningin var úr 591 milljón bandaríkjadala árið 2015 upp í 693 milljónir bandaríkjadala árið 2018, með mikilli aukningu til SIDS (e. Small Island Developing States eða smáeyríki í hópi þróunarlanda), til landluktra þróunarlanda og til minnst þróaðra ríkja (e. LDC).

En á hinn bóginn stóð fjárstuðningur í stað fyrir árið 2019. Þrátt fyrir aukningu í eftirspurn eftir upplýsingum til að styðja við stefnumótun til að stemma stigu við afleiðingum kórónuveirunnar, hefur fjárstuðningur til þróunar gagna og tölfræði ekki aukist að sama skapi. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að 63 prósent lágtekjulanda og lægri millitekjulanda þurfa aukna fjármögnun í upplýsingaöflun og tölfræði til að glíma við áskoranir tengdar kórónuveirunni.

Árið 2020 tilkynntu 132 ríki og yfirráðasvæði að þau hafi sett á laggirnar áætlanir um þjóðhagstölur, þar af voru 84 sem höfðu náð að fjármagna þær að öllu leyti. Einungis fjögur af 46 minnst þróuðu ríkjum (LDCs) tilkynntu um það að hafa fjármagnað að öllu leyti áætlanir um þjóðhagstölur það ár. Ríki gætu þurft að takast á við enn meiri vanda í framkvæmd og fjármögnun slíkra áætlana vegna kostnaðarsamra og vinnuaflsfrekra aðgerða (svo sem manntala og þjóðhagslegra úttekta) sem var frestað til ársins 2021 vegna kórónuveirunnar.

Móðir og barn á Indira Gandhi sjúkrahúsinu í Kabúl í Afganistan.

Staðan á Íslandi

Helstu áskoranir

Framlög Íslands til þróunarsamvinnu nemi 0,7% af vergum þjóðartekjum í samræmi við viðmið Sameinuðu þjóðanna
• Auknar fjárfestingar einkaaðila sem stuðla að sjálfbærni

Sautjánda heimsmarkmið SÞ snýr að því að efla innlent og alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og er ákall til allra ríkja um að uppfylla skyldur sínar. Heimsmarkmið SÞ byggja meðal annars á því að fátækt sé ein stærsta áskorun mannkyns og að endir skuli bundinn á hana fyrir árið 2030.

Markmið Íslands með alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að leggja lóð á vogarskálar baráttu gegn fátækt í heiminum og uppfylla þannig pólitískar og siðferðislegar skyldur Íslendinga. Nauðsynlegt er að auka flæði fjármagns til þróunarlanda til þess að ná heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030. Aðrir þættir skipta einnig miklu máli, svo sem uppbygging getu og tækniþekkingar, viðskipti og kerfistengd málefni.