Menningarmálastofnun SÞ, UNESCO

Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO

Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization, UNESCO) er ein undirstofnana Sameinuðu þjóðanna og heyrir hún undir Efnahags- og félagsmálaráð SÞ (ECOSOC). Markmið UNESCO er að koma á friði í heiminum og tryggja öryggi íbúa heimsins með alþjóðlegu samstarfi á sviði mennta-, vísinda- og menningarmála. Stofnunin var sett á laggirnar árið 1945 í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og átti hún að koma á fót  „vitsmunalegri og siðferðilegri samstöðu mannkynsins” og koma með því í veg fyrir að önnur heimsstyrjöld brytist út.

Í dag eru 193 ríki aðilar að UNESCO, ásamt 11 öðrum ríkjum sem ekki hafa sjálfstæði. Ísland gerðist aðili að UNESCO þann 8. júní 1964. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í París í Frakklandi, en auk þess starfrækir UNESCO 53 svæðisskrifstofur og 199 landsnefndir um allan heim sem vinna að markmiðum stofnunarinnar. Núverandi aðalframkvæmdastjóri UNESCO er hin franska Audrey Azoulay, hún hóf störf þann 15. nóvember 2017 og situr til fjögurra ára. Við lok tímabilsins er heimilt að skipa aðalframkvæmdastjóra í fjögur ár til viðbótar og hefur Azoulay þegar verið tilnefnd til annars tímabils.

Starfsemi UNESCO

UNESCO vinnur að markmiðum sínum í gegnum fimm áherslusvið: menntun, raunvísindi, hug- og félagsvísindi, menningu, auk samskipta og fjölmiðlunar.

Menntun

Menntun umbreytir lífi og er kjarninn í markmiði UNESCO að koma á langvarandi friði, uppræta fátækt og knýja áfram sjálfbæra þróun. UNESCO telur að menntun séu mannréttindi og að allir jarðarbúar skuli hafa aðgang að góðri menntun. UNESCO er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna með umboð til að taka á öllum þáttum menntunar og hefur stofnuninni því verið falið að leiða alþjóðlega menntastefnu til ársins 2030 (Global Education 2030 Agenda) með tilliti til heimsmarkmiðs 4 – Menntun fyrir alla. Vegvísirinn að þessu er Framkvæmdaáætlun um menntun 2030.

UNESCO veitir forystu og leiðsögn á sviði menntunar á alþjóðlegum og svæðisbundnum vettvangi. Stofnunin styrkir menntakerfi um allan heim og bregst við alþjóðlegum áskorunum samtímans með fræðslu að leiðarljósi. Starfsemi UNESCO nær yfir þróun menntunar allt frá leikskóla til háskóla, og ýmislegt umfram það. Helstu þemu stofnunarinnar á sviði menntunar eru meðal annars aukið læsi, fræðsla um heimsborgaravitund og sjálfbæra þróun, mannréttindi og kynjajafnrétti, heilsu, HIV og alnæmi, sem og aukin tækifæri til tækni- og starfsþróunar.

Menning

Í samtengdum heimi nútímans er máttur menningar til að umbreyta samfélögum skýr. Fjölbreytt birtingarmynd menningar – frá dýrmætum sögulegum minjum og söfnum, til gamalgróinna hefða og listforma samtímans – auðgar daglegt líf okkar á ótal vegu. Menningarleg arfleifð er uppspretta sjálfsmyndar og samheldni fyrir samfélög sem raskast vegna ráðalausra breytinga og efnahagslegs óstöðugleika. Sköpun stuðlar að uppbyggingu opinna samfélaga án aðgreiningar. Menningarleg arfleifð og sköpun leggja grunninn að líflegum, hugmyndaríkum og blómlegum þekkingarsamfélögum.

UNESCO telur menningu vera mikilvægan þátt í sjálfbærri þróun, þar sem án hennar getur þróun ekki verið sjálfbær. Mikilvægt er að taka mannlega nálgun að þróun sem byggir á gagnkvæmri virðingu og opnum viðræðum milli menningarheima því það getur leitt til varanlegrar og sanngjarnrar niðurstöðu sem skilur engan eftir. Til að tryggja að tekið sé tillit til menningar í þróunaráætlunum og ferlum, hefur UNESCO tileinkað sér þríþætta nálgun. Stofnunin veitir forystu í hagsmunagæslu fyrir menningu og þróun á alþjóðlegum vettvangi, hún virkjar alþjóðasamfélagið til að setja skýra stefnu og lagaramma, auk þess sem hún vinnur á vettvangi við að styðja stjórnvöld og svæðisbundna hagsmunaaðila til að vernda arfleið, styrkja skapandi greinar og hvetja til menningarlegrar fjölhyggju.

UNESCO veitir einstakan vettvang fyrir alþjóðlegt samstarf til að koma á heildrænu menningarlegu stjórnkerfi sem byggir á mannréttindum og sameiginlegum gildum. Þetta er gert með alþjóðlegum sáttmálum sem leitast við að vernda menningar- og náttúruarfleifð heimsins, og til að styðja við sköpunargáfu, nýsköpun og menningarlega fjölbreytni. Heimsminjaskrá UNESCO er dæmi um slíka sáttmála, en í honum skuldbinda aðildarríki sig til að vernda menningar- og náttúruarfleifðar heimsins. Til þess er haldin sérstök heimsminjaskrá yfir staði á jörðinni sem teljast vera einstakir og alþjóðlega viðurkennd verndarsvæði. Í apríl 2021 voru svæðin 1.121, þar af þrjú á Íslandi: Þingvellir, Surtsey og Vatnajökulsþjóðgarður.

Raunvísindi

Að skapa þekkingu og skilning í gegnum vísindi gerir okkur kleift að finna lausnir á bráðum efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum áskorunum nútímans og til að áorka markmiðum um sjálfbæra þróun og grænni samfélög. Þar sem ekkert land getur náð markmiðum um sjálfbæra þróun eitt og sér, stuðlar alþjóðlegt vísindasamstarf ekki aðeins til vísindalegrar þekkingar, heldur stuðlar það einnig að langvarandi friði í heiminum.

UNESCO vinnur að því að aðstoða lönd við að fjárfesta í vísindum, tækni og nýsköpun (VTN), þróa innlenda stefnu um raunvísindi, endurbæta vísindakerfi sín og byggja upp getu til að fylgjast með og meta árangur í gegnum VTN vísa og tölfræði. Vísindi og tækni styrkja bæði samfélög og borgara og vill UNESCO efla vísindi, auka vísindalæsi og efla þátttöku hins almenna borgara í vísindum svo hann hafi nægilega þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir.

Hug- og félagsvísindi

Í sífellt fjölbreyttari samfélögum nútímans heldur UNESCO áfram að vinna að því grundvallarmarkmiði að styðja fólk við að skilja hvert annað og vinna saman að því að koma á varanlegum friði. UNESCO hjálpar einnig til við að gera fólki kleift að skapa og nota þekkingu fyrir réttlát samfélög án aðgreiningar.

UNESCO vinnur að því að aðstoða aðildarríki við að skilja og takast á við áskoranir sífellt fjölbreyttari samfélaga, sem og að gera sér grein fyrir kostum slíkra samfélaga. Einstaklingar verða fjölmenningarlega færir með þeim lærdómi og lífsreynslu sem þörf er á til að ná árangri í okkar flókna og margbreytilega nútímasamfélagi. Með þessu verða þeir jafnframt tilbúnir til að kunna að meta fjölbreytni, og til að takast á við átök með gildi fjölhyggju og gagnkvæms skilnings að leiðarljósi. UNESCO vill stuðla að slíkri þróun og með því að varanlegum friði.

Samskipti og fjölmiðlun

Á sviði samskipta- og upplýsingamála leitast UNESCO við að efla tjáningarfrelsi, þróun fjölmiðlunar og aðgang að upplýsingum og þekkingu í samræmi við umboð stofnunarinnar til að „stuðla að frjálsu hugmyndaflæði í bæði orði og mynd.”

Eitt mikilvægasta verkefni UNESCO á sviði samskipta og fjölmiðlunar er verndun óháðra fjölmiðla og fjölmiðlafrelsis, auk verndunar tjáningarfrelsis, enda er það nauðsynlegt skilyrði lýðræðis og sjálfbærrar þróunar. Stofnunin berst gegn hatursorðræðu á netinu, upplýsingafölsunar og dreifingu rangra og/eða villandi upplýsinga. Þetta gerir hún með vitundarvakningu, stöðugu eftirliti, athöfnum til að byggja upp getu, sem og tæknilegum stuðningi við aðildarríkin.

UNESCO hefur þróað námsefni til að þróa fjölmiðla- og upplýsingalæsi, stuðla að jafnrétti kynjanna í fjölmiðlum og efnisvali, og hvetur til viðeigandi fjölmiðlaumfjöllunar um kreppu og neyðarástand víðsvegar í heiminum. Með heildrænni nálgun stuðlar UNESCO að fjölbreytileika fjölmiðla og fjölhyggju með því að efla fjölbreytni efnis, áhorfenda, heimilda og kerfa.

Heimsmarkmiðin

UNESCO skipar mikilvægan sess í heiminum í dag þegar við erum sífellt að leita nýrra leiða og tækifæra til þess að koma á langvarandi friði og stuðla að sjálfbærri þróun. Fólk verður að treysta á kraft upplýsingaöflunar til að stuðla að nýsköpun, víkka sjóndeildarhringinn og sjá til þess að við séum ekki skerða tækifæri komandi kynslóða. Stofnun eins og UNESCO er mikilvægur hluti Sameinuðu þjóðanna enda eru friður og sjálfbær þróun lykilatriði sem verða að vera til staðar til þess að líf geti þrifist á jörðinni næstu þúsundir ára.

UNESCO er því lykilstofnun þegar kemur að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og stuðla markmið stofnunarinnar og verkefni hennar beint að framgöngu nær allra heimsmarkmiðanna.

Ísland í UNESCO

Hlutverk íslensku UNESCO-nefndarinnar er að vera ríkisstjórninni og sendinefnd Íslands á aðalráðstefnu UNESCO til ráðuneytis í málum er varða UNESCO og tengiliður á milli UNESCO og íslenskra mennta-, vísinda- og annarra menningarstofnana. Nefndin annast upplýsingastarfsemi um málefni UNESCO á Íslandi og hefur samvinnu við aðrar íslenskar nefndir sem starfa að málefnum Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra. Sjá vef UNESCO-nefndarinnar hér.

UNESCO er ein áherslustofnana Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og eru ýmis verkefni starfrækt undir merkjum stofnunarinnar hér á landi. Hér má t.a.m. nefna Vigdísarstofnun, alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar, og GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfrækir Jafnréttisskólann, Jarðhitaskólann, Landgræðsluskólann og Sjávarútvegsskólann. Hlutverk GRÓ er að styðja við getu þróunarríkja á þessum fjórum sviðum sem starfsemin tekur til og auka þar með möguleika þeirra á að ná alþjóðlegum markmiðum sínum í samræmi við heimsmarkmiðin.

Ísland situr í framkvæmdastjórn UNESCO frá 2021-2025. Ísland hefur áður átt fulltrúa í framkvæmdastjórn UNESCO, en fyrst árin 1983-87 og aftur árin 2001-2005. Frá árinu 1998 hefur Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, jafnframt verið velgjörðarsendiherra tungumála hjá stofnuninni og var um tveggja ára skeið formaður alþjóðaráðs um siðferði í vísindum og tækni (COMEST). Helstu áherslur í framboði Íslands á sviði UNESCO eru menntun, jafnrétti, málefni barna og ungmenna, menningarmál og að skilja engan eftir.

Vigdísarstofnun, sér um að halda utan um Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála 2022-2032.

UNESCO-skólar

UNESCO hefur starfrækt samstarfsnet skóla á alþjóðavísu frá árinu 1953 undir nafninu UNESCO Associated Schools Project Network (ASPnet), eða UNESCO-skólar. Skólarnir eru nú um 12.000 talsins og starfa í 181 landi á bæði grunn– og framhaldsskólastigi. Markmið UNESCO-skólanna er að auka og hvetja til menntunar um mál sem tengjast markmiðum UNESCO; að stuðla að friði og öryggi með því að efla samvinnu þjóða í mennta-, vísinda- og menningarmálum og efla þannig almenna tiltrú og virðingu fyrir réttlæti, lögum og mannréttindum, án tillits til trúarbragða, kynþáttar, kynferðis eða tungumála.

UNESCO-skólar framkvæma sérstök verkefni sem tengjast markmiðum UNESCO og eru stundum jafnvel í samvinnu við UNESCO-skóla í öðrum löndum. UNESCO–verkefni auka fjölbreytni í kennsluaðferðum og þekkingu nemenda á málefnum Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðunum. Verkefnin eru þverfagleg og geta því nýst í ýmsum kennslutímum. Þau passa vel inn í grunnþætti aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla og hafa því mikið hagnýtt gildi.

Félag Sameinuðu þjóðanna fer fyrir skólanetinu á Íslandi  í samstarfi við íslensku UNESCO–nefndina og er verkefnið styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Frekari upplýsingar um UNESCO-skólana, verkefnin og hvernig hægt er að taka þátt má finna á Skólavefnum.

 

Heimildir og gagnlegar upplýsingar: