Friðarleikarnir

Friðarleikarnir eru hlutverkaspil fyrir börn á aldrinum 9-13 ára og snýst leikurinn um það að nota heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til að leysa raunveruleg vandamál sem steðja að heiminum í dag. Leikmönnum er skipt í hópa og allir fá hlutverk. Börnin þurfa að leysa vandamál sem steðjar að sínu landi og þurfa einnig að vinna með öðrum ríkjum til að leysa þau á sjálfbæran hátt. Markmiðið með leiknum er að börn kynnist heimsmarkmiðunum, tileinki sér frumkvæði og noti sköpunargáfuna við úrlausn vandamálanna.

Friðarleikarnir fara þannig fram að leikmönnum er skipt niður í hópa sem hver tekur að sér umsjón á landi. Hver leikmaður fær einnig hlutverk sem hann gegnir innan síns lands svo sem forsætisráðherra, fjármálaráðherra, sendiherra og hvert land býr yfir mismunandi auðlindum og fólksfjölda. Spilið gengur síðan út á það að leysa raunveruleg vandamál sem steðja að heiminum í dag. Til þess að leysa þessi vandamál þurfa leikmenn annað hvort að nýta þær auðlindir sem landið þeirra býr yfir eða fjárfesta í viðeigandi auðlind. Leikmenn þurfa síðan að færa rök fyrir úrlausn sinni hjá Sameinuðu þjóðunum sem gegna því hlutverki í spilinu að sjá til þess að hvert vandamál sé leyst á sjálfbæran hátt og með Heimskmarkmiðin 17 til hliðsjónar. Spilið er þó ekki unnið fyrr en öll löndin leysa í sameiningu vandamálið sem hrjáir plánetuna; hnattræn hlýnun.

Friðarleikarnir eru byggðir á hugmynd kennarans og tónilstarmannsins John Hunter, The World Peace Game, þar sem nemendum er falin umsjón með veröld þar sem fjöldi vandamála sem eiga sér stoð í raunveruleikanum geisa yfir og fá þau það verkefni að leysa þau og skila af sér betri veröld en þeirri sem þau tóku við. Höfundar Friðarleikanna eru Auður Inga Rúnarsdóttir og Karen Lena Óskarsdóttir.

Friðarleikarnir verða gefnir öllum grunnskólum landsins haustið 2018. Óski skólar eftir fleiri eintökum má hafa samband á felag@un.is