Verður heimurinn betri? Kennslubók og kennsluefni

„Okkar kynslóð er sú fyrsta sem getur útrýmt fátækt og sú síðasta sem getur spornað gegn loftslagsbreytingum“

—Ban Ki-Moon, frv. aðalritari Sameinuðu þjóðanna

Bókin Verður heimurinn betri? hefur það að leiðarljósi að efla ungt fólk til umræðu um alþjóðasamvinnu og þróunarmál og hvetja þau til að taka virkan þátt í að móta framtíð heimsins. Í bókinni er heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun lýst, en þau marka leiðina að sjálfbærri framtíð bæði fyrir fólk og jörðina fram til ársins 2030.

Heimsmarkmiðin eru háleit og stefna að því að útrýma fátækt og hungri, auka jöfnuð og berjast gegn loftslagsbreytingum fyrir árið 2030. Þátttaka ungu kynslóðarinnar í framkvæmd heimsmarkmiðanna skiptir sköpum og fræðsla í skólum er þar fyrsta skrefið.

Í bókinni er spurngingum á borð við hvað er þróun og hvernig er hún mæld?, hverjar eru helstu áskoranirnar?, hver er staðan í dag?, af hverju höldum við að heimurinn sé verr staddur en hann er í raun og veru?, og síðast en ekki síðst „verður heimurinn betri?”. Fjallað er um þróun í veröldinni á auðskiljanlegan, upplýsandi og jákvæðan hátt, velt upp spurningum og umræðum og vísað í staðreyndir og nýja tölfræði.

Bókin er ætluð efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum. Hún er þýdd úr sænsku (Blir världen bättre á upprunamálinu) en hún var gefin út af Norðurlandaskrifstofu Þróunaráætlunar Sameinuðu Þjóðanna (UNDP). Fyrsta útgáfa kom út árið 2005 og er þetta sjöunda útgáfa bókarinnar, uppfærð og endurskoðuð. Mikil og góð reynsla er af bókinni í Svíþjóð þar sem hún er kennd í flestum skólum landsins.  Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi annast þýðingu og útgáfu bókarinnar hérlendis, fyrir tilstuðlan styrks frá Utanríkisráðuneytinu. Bókin hefur verið send í alla grunnskóla ( ætluð 8-10 bekk) og framhaldsskóla landsins. Þetta er önnur útgáfa af íslenskri þýðingu bókarinnar en áður kom hún út árið 2016 og hana má nálgast hér.

Hér að neðan má einnig nálgast kennslustundir sem settar eru saman upp úr efni bókarinnar.

Kennslustundirnar eru sniðnar að nemendum 8.-10. bekkja grunnskóla og nemendum framhaldsskóla. Þær taka um 30-60 mínútur í framkvæmd. Líkt og bókin þá eru þær settar saman af Norðurlandaskrifstofu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna og þýddar af Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Kennslustundirnar eru einfaldar í framkvæmd og þarfnast ekki sérstaks undirbúnings eða gagna annarra en bókarinnar Verður heimurinn betri? Þær miða að því  efla gagnrýna hugsun nemenda og hvetja þá áfram þegar kemur að því að byggja upp betri heim.

 

Kennslugögn