Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 24. október árið 1945 af 51 ríki sem öll vildu viðhalda friði með því að efla alþjóðlegt samstarf og öryggi í heiminum. Aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hefur fjölgað mikið síðan þá og eru þau nú 193 talsins. Til marks um breytingarnar sem samfara eru fjölguninni er að í um tvo áratugi var Ísland fámennasta ríki Sameinuðu þjóðanna. Nú eru yfir 20 ríki innan samtakanna fámennari.
Ísland fylgir þeirri stefnu að öll ríki sem eru fullvalda að þjóðarétti eigi rétt á þátttöku í Sameinuðu þjóðunum. Þegar ríki gerast aðilar að Sameinuðu þjóðunum taka þau á sig vissar skuldbindingar samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegum sáttmála þar sem settar eru fram grundvallarreglur í alþjóðlegum samskiptum.
Tilgangur Sameinuðu þjóðanna er fjórþættur samkvæmt stofnsáttmálanum:
- að viðhalda friði og öryggi í heiminum
- að stuðla að vinsamlegum samskiptum milli þjóða
- að taka þátt í lausn alþjóðlegra vandamála; auka virðingu fyrir mannréttindum
- og að vera samráðsvettvangur þjóða.
Sameinuðu þjóðirnar eru ekki yfirþjóðlegt vald og þær setja ekki lög. Þess í stað leggja þær lið við lausn alþjóðaátaka og við mótun stefnu í málum sem koma okkur öllum við. Öll aðildarríkin — hvort heldur þau eru stór eða smá, auðug eða snauð, án tillits til pólitískra skoðana eða þjóðfélagsgerðar — eiga sér rödd sem fær að heyrast þar sem þessi mál eru rædd og ákvarðanir teknar.
Þeir sem vilja fræðast meira um Sameinuðu þjóðirnar geta leitað upplýsinga hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Um starfsemi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi má lesa hér.
Einnig má senda fyrirspurnir á ensku til Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í New York.
Einnig er hægt að skoða vef Sameinuðu þjóðanna, en þar eru tenglar yfir á ýmsar skrifstofur, áætlanir og sérstofnanir. Á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur Evrópu má nálgast upplýsingar á íslensku og senda inn fyrirspurnir og/eða beiðnir um efni frá Sameinuðu þjóðunum.
Ítarlegri fróðleik um Sameinuðu þjóðirnar má síðan finna í ýmsu útgefnu efni, svo sem Basic Facts about the United Nations, Image and Reality og The Blue Helmets, en þessi rit fást í vefverslun Sameinuðu þjóðanna.
Stofnanaheiti Sameinuðu þjóðanna