Friðarstarf Sameinuðu þjóðanna

Einn megintilgangur Sameinuðu þjóðanna er að standa vörð um heimsfriðinn. Stofnsáttmálinn gerir þá kröfu til hvers aðildarríkis að það leitist við að jafna deilur og ágreining eftir friðsamlegum leiðum og forðist hótanir og valdbeitingu í garð annarra ríkja.

Í áranna rás hafa Sameinuðu þjóðirnar gegnt lykilhlutverki við að afstýra hættuástandi í heiminum og leysa langvarandi átök og deilur. Þær hafa stýrt flóknum aðgerðum á borð við friðarumleitanir, friðargæslu og mannúðaraðstoð. Samtökin hafa unnið að því að koma í veg fyrir að átök brjótist út. Í kjölfar átaka hafa þau í æ ríkara mæli reynt að ráðast að rótum styrjalda og leggja grunn að varanlegum friði.

Afskipti Sameinuðu þjóðanna hafa skilað stórkostlegum árangri. Samtökin áttu þátt í að leysa Kúbudeiluna 1962 og deilur Araba og Ísraelsmanna 1973. Árið 1988 urðu friðarsamningar, sem komust á fyrir atbeina Sameinuðu þjóðanna, til þess að endi var bundinn á stríðið milli Írana og Íraka. Árið 1989 leiddu samningaviðræður á vegum Sameinuðu þjóðanna til þess að sovéskar hersveitir voru kvaddar heim frá Afganistan.

Á tíunda áratugnum áttu þær mikinn þátt í að gera Kúveit sjálfstætt að nýju og á sama tíma áttu þær mestan þátt í að binda enda á borgarastríð í Kambódíu, El Salvador, Gvatemala og Mósambík, sem og að koma lýðræðislega kjörinni stjórn til valda á ný á Haiti. Loks má nefna lykilhlutverk þeirra í að leysa eða draga stórlega úr átökum í fjölmörgum öðrum löndum.

Þegar hryðjuverkamenn gerðu árás á New York og Washington 11. september 2001 brást Öryggisráðið skjótt við og sendi frá sér víðtæka ályktun sem skyldar ríki heims til að tryggja að hver sá sem fjármagnar, skipuleggur, undirbýr, framkvæmir eða styður hryðjuverk, einn eða með öðrum, skuli sóttur til saka. Einnig ber ríkjum að sjá til þess að hryðjuverk séu í landslögum skilgreind sem alvarlegir glæpir.

Fyrsta friðargæsluverkefni Sameinuðu þjóðanna nær aftur til ársins 1948 en þá voru eftirlitssveitir sendar til þess að fylgjast með framfylgd vopnahléssamnings á milli Ísraela og Araba. Síðan þá hafa 70 friðargæsluverkefnum verið komið á laggirnar.Hundruðir þúsunda hermanna og tíu þúsundir lögreglumanna og borgarar frá fleiri en 120 ríkjum hafa starfað við friðargæsluverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna. Yfir 3.000 einstaklingar hafa látist við friðargæslustörf.

Í dag eru 15 friðargæsluverkefni í gangi og við þau starfa samtals um 110,000 manns.

Útgáfa Brahimi skýrslunnar árið 2000 markar upphaf endurbóta á friðargæsluverkefnum Sameinuðu þjóðanna. Síðan þá hefur verið lögð mikil vinna í að endurbæta friðargæsluna. Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur boðað breytingar á uppbyggingu friðar og öryggis í stjórnkerfi og stoðum Sameinuðu þjóðanna og í þróunarsamvinnu kerfi SÞ.

Sýn Guterres á friðarstarf er að stjórnmálin séu miðdepill starfseminnar. Markmiðið er að draga úr sundrung svo að SÞ veiti markvissa aðstoð sem einhugur ríkir um, gera friðar- og öryggisstrúktúrinn samheldnari, skilvirkari og áhrifaríkari með því að forgangsraða forvörnum, friðarverkefnum og framgangi Heimsmarkmiðanna.

Einnig er unnið að alsherjar endurskoðun á stærri friðargæsluverkefnum. Áhersla er lögð á að skoða þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá umboð fyrir friðargæslu verkefnum, með það fyrir augum að leitað sé til öryggisráðsins og óskað eftir breytingum þegar við á, til að hægt sé að ná betri árangri.

Endurskoðuninni er ætlað að greina hugmyndir um nýjar og öflugari aðferðir við friðargæslu og mun styrkja samvinnu um fyrirbyggjandi aðgerðir með því að grípa fyrr inn í aðstæður í stað þess að bregðast við eftir að átök hafa brotist út.

Nánar er hægt að lesa um friðargæslu Sameinuðu þjóðanna á vef friðargæslunnar.