Global Compact var stofnað árið 2000 og er alþjóðleg yfirlýsing sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta. Með þátttöku skuldbinda fyrirtæki eða stofnanir sig til þess að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna, er varða samfélagslega ábyrgð og styðja helstu markmið Sameinuðu þjóðanna.
Þátttakendur í Global Compact skila inn skýrslu árlega (Communication on Progress) og gera grein fyrir hvernig innleiðing á grundvallarviðmiðum Global Compact er háttað. Þá tengja þau fyrirtæki sem taka þátt í Global Compact starfsemi sína við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og lista upp þau markmið sem þau leggja áherslu á í sinni starfsemi inn í opin gagngrunn Global Compact.
Hin tíu grundvallarviðmið
Með þátttöku í Global Compact geta fyrirtæki tekið þátt í því að þróa markaðshagkerfi sem stuðlar að velferð samfélags og umhverfis með því að samtvinna hin tíu grundvallarviðmið við heildarstefnu fyrirtækisins. Grunvallarviðmiðin eru á sviði mannréttinda, vinnumarkaðsmála umhverfismála og baráttu gegn hvers kyns spillingu.
Mannréttindi
1. Fyrirtæki styðja og virða vernd alþjóðlegra mannréttinda
2. Fyrirtæki fullvissa sig um að þau gerist ekki meðsek um mannréttindabrot.
Vinnumarkaður
3. Fyrirtæki styðja við félagafrelsi og viðurkenna í raun rétt til kjarasamninga.
4. Fyrirtæki tryggja afnám allrar nauðungar- og þrælkunarvinnu.
5. Virkt afnám allrar barnavinnu er tryggt.
6. Fyrirtæki styðja afnám misréttis til vinnu og starfsvals.
Umhverfi
7. Fyrirtæki styðja beitingu varúðarreglu í umhverfismálum.
8. Fyrirtæki hafi frumkvæði að því að hvetja til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfinu.
9. Fyrirtæki hvetji til þróunar og nýtingar á umhverfisvænni tækni.
Gegn spillingu
10. Fyrirtæki vinni gegn hvers kyns spillingu, þar með talið kúgun og mútum.
Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja
Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja er viðleitni fyrirtækja til að stuðla að aukinni velferð samfélags, starfsmanna, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila auk umhverfis í gegnum daglegan rekstur sinn og umfram lagalegar skyldur sínar.Bókin Social Responsibility of the Business man eftir Howard R. Bowen (1953) markaði upphaf hugtaksins samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja eins og við þekkjum það í dag.Frá 1953 hefur hugtakið um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja þróast og mikilvægi þess er þó mjög mismunandi eftir löndum og heimsálfum. Þrátt fyrir að hugtakið hafi fyrst verið sett fram og þróað í Bandaríkjunum eru það alþjóðleg fyrirtæki í Evrópu sem eru leiðandi í samfélagslegri ábyrgð.
Ástæðan er m.a. sú að í Evrópu falla mörg málefni samfélagslegrar ábyrgðar undir lög landa og regluverk Evrópusambandsins en eru valkvæð í öðrum löndum. Í Danmörku ber fyrirtækjum t.d. skylda að upplýsa í ársskýrslu um stefnu sína í samfélagslegri ábyrgð.
Á Íslandi er áhersla fyrirtækja að færast frá því að vera aðallega á góðgerðarmál yfir á það einblína á heildræna stefnu í samfélagslegri ábyrgð sem stuðlar að aukinni velferð samfélags og umhverfis. Umræðan um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja hefur þó aukist almennt frá efnahagshruni árið 2008 og hafa þrýstihópar fylgst betur með hegðun fyrirtækja í samfélaginu.
Fyrirtæki, stofnanir og sveitafélög víða um heim hafa innleitt stefnu í samfélagslegri ábyrgð í gegnum alþjóðleg viðmið á borð við Global Compact.
Hverjir geta tekið þátt?
Þátttakendur Global Compact eru fyrirtæki, stofnanir, borgir, sveitafélög, frjáls félagasamtök og háskólar en þátttakendur eru um 22.665 í 165 löndum. Það gerir Global Compact að einu víðtækasta framtaki heims á sviði samfélagslegrar ábyrgðar.Þátttaka er opin öllum en fyrirtæki með færri en tíu fasta starfsmenn eru þó ekki skráð í gagnagrunn Global Compact. Þessi fyrirtæki geta samt sem áður tekið þátt í tengslaneti og öðrum atburðum á vegum Global Compact.
Hvers vegna ættu íslensk fyrirtæki að taka þátt?
Samfélagsleg ábyrgð er mikilvægur málaflokkur sem íslensk fyrirtæki þurfa að huga að. Sífellt er gerð aukin krafa um að fyrirtæki sýni fram á ábyrga starfshætti og stuðli að bættri velferð samfélags og umhverfis í daglegum rekstri. Í dag eru 28 íslensk fyrirtæki virkir þátttakendur í Global Compact.
Global Compact er verkfæri sem aðstoðar fyrirtæki við að ramma inn stefnu fyrirtækisins á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og tengja hana við grundvallargildi rekstrar fyrirtækisins.
Svæðisstjóri Global Compact á Íslandi er Auður Hrefna Guðmundsdóttir. Íslenska vefsíðu GC má nálgast hér. Þá má einnig fylgja Facebook síðu Global Compact á Íslandi.
Netfang Global Compact á Íslandi: infoiceland@unglobalcompact.org
Norrænt tengslanet
Auk þess geta þátttakendur tekið þátt í Global Compact Nordic Network, norrænu tengslaneti þeirra sem hafa skrifað undir sáttmálann. Fundir eru haldnir tvisvar á ári um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja þar sem þátttakendur miðla af reynslu sinni og ræða um málefni á sviði samfélagslegrar ábyrgðar.Með þátttöku tengjast þátttakendur einnig Sameinuðu þjóðunum sem mörg fyrirtæki sjá sér hag í. Þátttakendur geta notað merki Global Compact í kynningarstarfi sínu á sviði samfélagslegrar ábyrgðar.Á vef Global Compact má einnig finna greinar og bæklinga um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvernig hægt er að innleiða hin tíu grundvallarviðmið Global Compact.