Stóráföll og hamfarir geta dunið yfir mannkynið hvar sem er og hvenær sem er. Orsökin getur verið flóð, þurrkar, jarðskjálftar eða átök manna á milli. Slíkum áföllum fylgir mannfall og þjáning, fólk flosnar upp og undirstöður samfélaga gliðna.
Neyðaraðstoð
Sameinuðu þjóðirnar og sérstofnanir þeirra bregðast við stóráföllum með því að útvega mat, húsaskjól og lyf og annast skipulag á flutningi hjálpargagna til þeirra sem eiga um sárt að binda — sem oftast eru börn, konur og gamalmenni.
Til að fjármagna þessa aðstoð og koma henni til þeirra sem á þurfa að halda hafa Sameinuðu þjóðirnar aflað milljarða bandaríkjadala með frjálsum framlögum um heim allan. Árið 2016 söfnuðust 27,3 miljarðar bandaríkjadala í mannúðaraðstoð og fóru 12,4 miljarðar af þeirri upphæð til neyðarákallana samræmd af Sameinuðu þjóðunum.
Til þess að Sameinuðu þjóðirnar geti veitt mannúðaraðstoð verða þær að brjóta niður ýmsar hindranir hvað varðar neyðarflutninga og öryggi á viðkomandi svæði. Oft getur verið miklum vandkvæðum bundið að komast til þeirra svæða sem um er að ræða.
Á undanförnum árum hefur þverrandi virðing fyrir mannréttindum iðulega gert illt verra þar sem hættuástand ríkir. Starfsmönnum í mannúðaraðstoð hefur verið meinaður aðgangur að fólki í neyð og stríðandi aðilar hafa vísvitandi gert almenna borgara og hjálparstarfsmenn að skotmarki.
Árið 2016 voru 158 árásir gerðar á mannúðaraðgerðir þar sem 101 hjálparstarfsmaður lést, 98 slösuðust og 89 var rænt. Í viðleitni sinni til að hindra mannréttindabrot á hættutímum hefur mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna haft sífellt meiri afskipti af málum þegar samtökin bregðast við neyðarástandi.
Sameinuðu þjóðirnar samræma viðbrögð sín við mannlegri neyð fyrir atbeina samráðsnefndar allra helstu stofnana sem sinna mannúðaraðstoð. Formaður þeirrar nefndar er forsvarsmaður samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), en í henni sitja einnig fulltrúi Barnahjálparinnar (UNICEF), Þróunaráætlunarinnar (UNDP), Matvælaáætlunarinnar (WFP) og Flóttamannastofnunarinnar (UNHCR).
Aðrar sérstofnanir eiga líka fulltrúa, sem og frjáls félagasamtök og milliríkjasamtök sem starfa að mannúðarmálum, til dæmis Alþjóðanefnd Rauða krossins.
Viðbrögð við mannlegri neyð
Það er á ábyrgð yfirstjórnanda OCHA að móta stefnu í aðgerðum í þágu bágstaddra og auka veg mannúðarmála yfirleitt – með því til dæmis að vekja fólk til vitundar um afleiðingar mikillar útbreiðslu smávopna eða neikvæð áhrif viðskiptaþvingana.
Fólk sem hefur flúið land sökum stríðsástands, ofsókna eða mannréttindabrota — flóttamenn og fólk sem hefur flosnað upp – nýtur aðstoðar Flóttamannastofnunar SÞ. Í upphafi ársins 2016 þörfnuðust um 164 miljónir manna í meira en 47 löndum aðstoðar. Samkvæmt Flóttamannastofnuninni eru 65,6 miljónir manna á vergangi og af þeim eru 22,5 miljónir flóttamenn. Ríflega helmingur flóttamanna í heiminum, eða 55%, koma frá þremur löndum: Sýrlandi (5,5 miljónir), Afganistan (2,5 miljónir) og Suður Súdan (1,4 miljónir).
Þriðjungur allrar neyðaraðstoðar með matvæli í heiminum kemur frá Matvælaáætlun SÞ, stærstu stofnun heims á sviði matvælaaðstoðar. Árið 2016 fengu 82,2 miljónir manna mataraðstoð frá Matvælaáætluninni en talið er að 795 miljónir manna hafi þjáðst úr hungri það ár.
Talið er að styrjaldir og erjur hafi valdið því að 28 miljónir barna eru á vergangi í heiminum í dag og eru 12 miljónir þeirra flóttamenn. Barnahjálp Sþ reynir að koma til móts við þarfir þessara barna með því að útvega þeim mat, drykkjarhæft vatn, lyf og húsaskjól. Barnahjálpin hefur einnig innleitt hugmyndina um barnvæmn svæði og komið á kyrrðardögum og friðarhliðum svo að vernda megi börn á átakasvæðum og veita þeim nauðsynlega aðhlynningu.
Forvarnir gegn og viðbúnaður við stóráföllum eru einnig hluti af mannúðarstarfi Sameinuðu þjóðanna. Þegar hamfarir verða kemur það í hlut Þróunaráætlunarinnar að halda utan um hjálparstarf á staðnum, um leið og hún stendur fyrir uppbyggingarstarfi og langtímaþróun. Sem dæmi má nefna að í kjölfar gífurlegs jarðskjálfta í Indlandi árið 2001 brást stofnunin skjótt við til hjálpar fólki á svæðinu en vann á sama tíma að langtímaaðgerðum til að draga úr tjóni af völdum náttúruhamfara.
Í löndum sem stríða við mikla neyð eða eru að ná sér eftir átök felur mannúðaraðstoð ekki einungis í sér þróunarhjálp og stuðning við pólitíska og efnahagslega uppbyggingu, heldur er í auknum mæli litið á hana sem þátt í langtímastarfi í átt til varanlegs friðar.
Palestínskir flóttamenn
Hjálparstarf í þágu flóttamanna frá Palestínu hefur verið í gangi allt frá árinu 1949 á vegum sérstakrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna, Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar (UNRWA).
Stofnunin sér nú um að veita nauðsynlega þjónustu í heilbrigðis- og menntamálum og einnig neyðar- og félagsþjónustu. Hún sér ennfremur um framkvæmd áætlunar um tekjusköpun fyrir meira en fjórar milljónir palestínskra flóttamanna á svæðinu.