Starfsemi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Utanríkisráðuneytið og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hafa í 75 ár starfað saman að kynningu á málefnum Sameinuðu þjóðanna hér á landi, en frá árinu 2006 hefur samstarfið verið formfest með sérstökum samningi þess efnis.

Grundvöllur samstarfsins er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna, með sérstakri áherslu á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt voru á Allsherjaþingi árið 2015.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var formlega stofnað 8. maí 1948, en svipuð félög hafa verið stofnuð í öllum aðildarríkjum Sameinuðu Þjóðanna um heim allan ásamt heimssamtökum félaga Sameinuðu þjóðanna, WFUNA.

Miðstöð Sameinuðu þjóðanna á Íslandi 2004-2023

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi rak, ásamt Landsnefnd UNICEF og Landsnefnd UN Women, Miðstöð Sameinuðu þjóðanna á Íslandi þar til í apríl 2023. Miðstöðin var vettvangur fyrir kynningarstarf og upplýsingagjöf um starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Enn er samvinna milli þessara samtaka þrátt fyrir að rekstri Miðstöðvarinnar hafi verið hætt.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna

UNICEF hefur í rúma sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Samtökin berjast fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinna bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð.

UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd.

UNICEF er á vettvangi í yfir 190 löndum og leggur áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.

Íslenska UNICEF landsnefndin stendur fyrir viðamikilli fjáröflun fyrir verkefni UNICEF á heimsvísu ásamt því að sinna markvissri réttindagæslu fyrir börn á Íslandi.

UN Women

UN Women er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur eingöngu í þágu kvenna og jafnréttis í þróunarlöndum og stríðsátakasvæðum. UN Women hét áður UNIFEM, en í janúar 2011 sameinaðist UNIFEM þremur systurstofnunum sínum innan SÞ og hlaut nafnið UN Women.  UN Women fer með umboð SÞ til að vinna að jafnrétti kynjanna og stuðla að því að stefnumótun í þróunarstarfi taki mið af jafnréttissjónarmiðum og réttindum kvenna í samræmi við alþjóðleg markmið.

Íslenska UN Women landsnefndin er sú nefnd sem skilar mestu fjármagni inn í starf UN Women á heimsvísu.

Íslenska UNESCO-nefndin

Nefndin annast upplýsingastarfsemi um málefni UNESCO á Íslandi, veitir ríkisstjórninni ráðgjöf varðandi málefni UNESCO og er tengiliður UNESCO við íslenskar mennta-, vísinda- og menningarstofnanir. Íslenska UNESCO-nefndin er samstarfsaðili félagsins í verkefni UNESCO-skólanna hér á landi, en félagið er ‘National Coordinator’ fyrir skóla á Íslandi.

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu (Háskólar Sameinuðu þjóðanna)

Hlutverk GRÓ er að efla getu einstaklinga, samtaka og stofnana í þróunarlöndum og löndum þar sem átök standa yfir eða eru nýlega afstaðin til að ná þeim niðurstöðum á sviði þróunarsamvinnu sem sett eru fram í heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun (heimsmarkmiðum SÞ). Starfið fer fram með þjálfunaráætlunum, sem miða að því að byggja upp getu, með áherslu á fjögur þemasvið: Jafnrétti, jarðhita, landgræðslu og sjávarútveg.

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og hefur gert frá árinu 2020. Þar á undan voru skólarnir reknir undir merkjum Háskóla Sameinuðu þjóðanna. GRÓ er lögaðili undir leiðsögn og yfirumsjón stjórnar, sem skipuð er af utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands, en miðstöðin heyrir undir ráðuneytið.

Jafnréttisskóli Gró

Sjávarútvegsskóli Gró

Jarðhitaskóli Gró

Landgræðsluskóli Gró

Global Compact á Íslandi 

Global Compact var stofnað árið 2000 og er alþjóðleg yfirlýsing sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta. Með þátttöku skuldbinda fyrirtæki eða stofnanir sig til þess að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna, er varða samfélagslega ábyrgð og styðja helstu markmið Sameinuðu þjóðanna.

Samfélagsleg ábyrgð er mikilvægur málaflokkur sem íslensk fyrirtæki þurfa að huga að. Sífellt er gerð aukin krafa um að fyrirtæki sýni fram á ábyrga starfshætti og stuðli að bættri velferð samfélags og umhverfis í daglegum rekstri. Í dag eru 28 íslensk fyrirtæki virkir þátttakendur í Global Compact (Samtök Sameinuðu þjóðanna um ábyrga viðskiptahætti).

Global Compact er verkfæri sem aðstoðar fyrirtæki við að ramma inn stefnu fyrirtækisins á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og tengja hana við grundvallargildi rekstrar fyrirtækisins.

UN Global Compact eru frjáls félagasamtök og ekki rekin í hagnaðarskyni. Hægt er að styrkja samtökin með því að gerast aðili að Global Compact og með frjálsum framlögum. Svæðisstjóri á Íslandi var ráðinn í upphafi árs 2023 en fram til þess höfði SA haldið utan um íslensk fyrirtæki í GC.