Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

Aðalframkvæmdastjórinn er æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna og er skipaður af allsherjarþinginu samkvæmt tillögu öryggisráðsins til fimm ára í senn. Hann hefur yfirumsjón með starfsemi samtakanna.

Hann getur lagt fyrir öryggisráðið hvers kyns vandamál sem hann telur að ógna kunni heimsfriðnum og lagt fram tillögur um málefni sem tekin skulu upp í allsherjarþinginu eða í öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Starfslið skrifstofunnar vinnur að framkvæmd ákvarðana Sameinuðu þjóðanna.

Portúgalinn, Antonio Guterres er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og hóf hann fyrsta kjörtímabil sitt í janúar 2017 og annað kjörtímabil sitt í janúar 2022. Áður en hann tók við stöðu aðalframkvæmdastjóra SÞ var hann flóttamannafulltrúi hjá Flóttamannastofnun SÞ.

Fyrrverandi framkvæmdastjórar eru eftirfarandi:

  • 1946–1952: Trygve Lie, Noregi
  • 1953–1961: Dag Hammarskjöld, Svíþjóð
  • 1961–1971: U Thant, Myanmar
  • 1972–1981: Kurt Waldheim, Austurríki:
  • 1982–1991: Javier Perez de Cuellar, Perú
  • 1992–1996: Boutros Boutros-Ghali, Egyptalandi
  • 1997–2006: Kofi A. Annan, Ghana
  • 2007–2016: Ban Ki-moon, Suður–Kóreu