Allsherjarþingið

Fulltrúar allra aðildarríkja eiga sæti á allsherjarþinginu og geta rætt fyrir opnum tjöldum hvaða málefni sem er, nema öryggisráðið sé að fjalla um það á sama tíma.

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru nú 193 og hefur hvert ríki yfir að ráða einu atkvæði. Mikilvæg málefni þurfa samþykki tveggja þriðju hluta atkvæða. Hvert allsherjarþing stendur yfir í eitt ár og kemur nýtt þing saman um miðjan september ár hvert þegar þjóðarleiðtogar mæta á sérstaka ‘leiðtogaviku’ (e. High-Level Week) á UNGA (e. United Nations General Assembly). Samkvæmt hefð er Brasilía fyrsta ríkið til þess að halda sína ræðu, og Bandaríkin önnur í röðinni.

Menginþunginn í störfum allsherjarþingsins er frá setningu og fram undir jól. Þingið kýs sér forseta á hverju ári, það samþykkir ný aðildarríki að fenginni tillögu öryggisráðsins og ákveður hversu mikið hverju ríki ber að greiða af rekstrarkostnaði Sameinuðu þjóðanna og hvernig fénu skuli varið.

Það kýs einnig aðalframkvæmdastjóra til fimm ára að fenginni tillögu öryggisráðsins og velur fulltrúa í aðrar stofnanir.

Störf allsherjarþingsins fara að mestu fram í sex undirnefndum þess og eiga öll aðildarríki fulltrúa í þeim:

Á meðan allsherjarþingið er að störfum halda ýmsir ríkjahópar samráðsfundi eftir því sem þörf gerist. Ísland tekur aðallega þátt í fundum Norðurlandahópsins, Vesturlandahópsins (WEOG) og samráði JUSCANZ-hópsins. Í síðastnefnda hópnum eru einkum WEOG-ríki, sem standa utan ESB, en einnig nokkur önnur. Þau eru Andorra, Ástralía, Bandaríkin, Ísland, Japan, Kanada, Noregur, Nýja-Sjáland, Mexíkó, Rússland, San Marínó, Suður-Kórea, Sviss og Tyrkland.

Árangur starfsins í ofangreindum nefndum allsherjarþingsins birtist fyrst og fremst í ályktunum (e. resolutions), en í þeim felst að jafnaði sameiginleg ákvörðun ríkja heims um samræmt viðhorf til alþjóðlegra viðfangsefna. Að baki þeim liggja umræður og samningaferli þar sem leitast er við að samræma ólík viðhorf og ná sameiginlegri niðurstöðu.

Ályktanirnar geta orðið grundvöllur nýs ferlis sem leiðir til skuldbindandi alþjóðasamninga og með þeim hætti orðið að þjóðarétti. Ályktanir eru oft ítrekaðar í allsherjarþinginu ár eftir ár, ýmist lítt eða ekkert breyttar.