Efnahags- og félagsmálaráðið (ECOSOC) hefur mjög umfangsmikið verksvið og fæst við efnahagsmál, viðskipti, iðnvæðingu og efnahagsþróun, félagsmál, mannfjöldamál, barnaverndarmál, húsnæðismál, kvenréttindi, kynþáttamismunun, eiturlyfjamál, glæpavarnir, félagslega velferð, æskulýðsmál, umhverfismál og matvælamál.
Einnig samþykkir ráðið tillögur um hvernig bæta megi menntun og heilsugæslu, svo og mannréttindi og frelsi hvar sem er í heiminum. Alls eiga 54 aðildarríki aðild að efnahags- og félagsmálaráðinu og eru þau kjörin af allsherjarþinginu til þriggja ára í senn. Ráðið heldur venjulega einn fund á ári og ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála.
Fjöldi nefnda tekur þátt í störfum ráðsins og að auki styðst það við sérstofnanir og áætlanir samtakanna. Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru sautján og er hver um sig sjálfstæð, með eigin fjárhag og höfuðstöðvar.
Nefndirnar kanna vandamál, undirbúa tillögur og aðstoða þróunarlönd á sérsviðum sínum. Allsherjarþingið hefur einnig komið á fót ýmsum öðrum sérhæfðum stofnunum sem vinna í nánum tengslum við efnahags- og félagsmálaráðið og í flestum tilvikum gefa þær skýrslu til allsherjarþingsins og ráðsins.
Ísland sat í efnahags- og félagsmálaráðinu tímabilið 2005-2007 og fastafulltrúi Íslands var kjörinn einn af fjórum varaforsetum þess fyrir árið 2006. Þar áður átti Ísland sæti í ráðinu árin 1997-1999. Ísland hefur á vettvangi ráðsins lagt áherslu á umhverfismál og bent á að brýnt sé að bæta aðgang fólks að raforku.
Ísland hefur einnig bent á að við umhverfisstjórnun grunnvatns verði að taka mið af umhverfismálum hafsins og ítrekað mikilvægi þess að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna framkvæmi áætlun um umhverfisvernd hafsins vegna mengunar frá landi.
Enn fremur hefur Ísland lagt áherslu á að konur eigi hvarvetna rétt á menntun sem og að mikilvægt sé að grípa til brýnna aðgerða til að vernda konur á átakasvæðum.