Öryggisráð SÞ (UN Security Council)

Öryggisráð SÞ ber höfuðábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis. Sá áhrifamáttur og valdatæki sem öryggisráð SÞ hefur, þar á meðal til að grípa til hernaðaraðgerða, eru skilgreind í stofnsáttmála Hinna sameinuðu þjóða (). Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa með aðild sinni samþykkt að vera bundin af ákvörðunum öryggisráðs SÞ og vera reiðubúin að hrinda þeim í framkvæmd.

Hér situr fundur í öryggisráð SÞ og fjallar um málefni hins stríðshrjáða lands Íraks.

Hlutverk öryggisráðs SÞ eru eftirfarandi:

  • að viðhalda heimsfriði og alþjóðaöryggi í samræmi við grundvallarreglur, markmið og stofnsáttmála Hinna sameinuðu þjóða,
  • að gera tillögur um fyrirkomulag hernaðarmála og vopnabirgða,
  • að ákveða hvort friði sé ógnað eða ógn stafi af hernaðarárás og gera tillögur um möguleg viðbrögð,
  • að fela aðildarríkjum að beita efnahagsþvingunum eða öðrum aðgerðum öðrum en beinum hernaði til að koma í veg fyrir eða stöðva stríð og átök,
  • að grípa til hernaðaraðgerða gegn árásaraðila.

Fimm ríki hafa fast sæti í öryggisráði SÞ og hafa þar neitunarvald: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland. Allsherjarþing SÞ kýs í ráðið til viðbótar tíu aðildarríki til setu til tveggja ára í senn. Í núverandi öryggisráði SÞ hafa auk fyrrnefndra fastafulltrúa eftirtalin ríki setu í ráðinu og atkvæðisrétt þar: Eistland, Indland, Írland, Kenýa, Mexíkó, Níger, Noregur, Sankti Vinsent og Grenadíneyjar, Túnisía og Víetnam. 

Auk aðalframkvæmdastjóra SÞ getur hvaða ríki og land sem er, hvort sem það er aðili að Sameinuðu þjóðunum eða ekki, vísað til öryggisráðs SÞ deilumáli eða málum sem teljast ógnun við heimsfriðinn.

Núverandi aðalframkvæmdastjóri SÞ António Guterres ávarpar fund í öryggisráði SÞ um friðarumleitanir víðs vegar um heim og þar sem vopnuð átök geisa.

Þau ríki sem eiga setu í öryggisráði SÞ skiptast á um að skipa forsæti ráðsins í einn mánuð í senn. Annar háttur er hafður á atkvæðagreiðslu í ráðinu en í allsherjarþingi SÞ. Ályktanir í ráðinu þurfa stuðning að minnsta kosti níu fulltrúa í ráðinu með þeim fyrirvara að neitunarvaldi sé ekki beitt. Fimm fastaríki að ráðinu geta beitt neitunarvaldi eins og áður greinir frá.

Öryggisráð SÞ leikur lykilhlutverk í því að viðhalda alþjóðlegum friði og öryggi. Samkvæmt sáttmála eru öll aðildarríkin skuldbundin til að fara eftir ákvörðunum öryggisráðs SÞ. Ráðið hefur forgöngu um að ákvarða um hættu á vopnuðum átökum eða ógn af stríði. Það hvetur deiluaðila til að komast að niðurstöðu með friðsamlegum hætti og mælir með aðferðum til að draga úr vopnaskaki eða kemur á sáttum með því að stilla til friðar. Í sumum tilvikum getur ráðið beitt þvingunum eða heimilað beitingu vopna til að viðhalda eða koma á frið og öryggi.  

Malala Yousafzai er á skjá að ávarpa einhverju sinni fund í öryggisráðs SÞ vegna málefna Afganistans. Malala er handhafi friðarverðlauna Nóbels.

Hlutverk Öryggisráðs SÞ er í sem stystu máli að varðveita frið og öryggi og getur það komið saman að eigin frumkvæði. Fulltrúi hvers ríkis sem setu á í ráðinu verður að hafa fasta viðveru í aðalstöðvum í New York. Það er gert beinlínis í því skyni að ráðið geti komið saman fyrirvaralaust og þegar tilefni þykir vera til þess.

Í samræmi við stofnsáttmála Hinna sameinuðu þjóða hefur öryggisráð SÞ fjórþætt hlutverk:

  • að viðhalda alþjóðlegum frið og öryggi;
  • að þróa vinsamleg samskipti á milli ríkja;
  • að vinna sameiginlega að því að að leysa alþjóðlegar deilur og að treysta í sessi mannréttindi;
  • og að vera hreyfiafl fyrir meiri samhljómi á milli þjóða.

Í starfi sínu við að varðveita frið og öryggi velur öryggisráð SÞ meðulega að leggja til friðsamlega lausn deilumála. Eftir að slík áskorun er lögð fyrir bregst ráðið við á eftirfarandi hátt:

  • setur fram leiðbeiningar um samkomulag á milli deiluaðila;
  • tekur sér á herðar að rannsaka og miðla málum, eftir því sem tilefni gefst til;
  • gerir út sendinefnd;
  • skipar sérlega sendierindreka; eða
  • fer fram á það við aðalframkvæmdastjóra SÞ að hann (eða hún?) beiti sér fyrir því að koma á friðsamlegri lausn deilumála. 
Ellen Johnson Sirleaf fyrrverandi forseti Líberíu ávarpar fund í öryggisráði SÞ vegna friðarumleitana víðs vegar um heim.

Þegar deilur leiða til vopnaðra átaka er það fyrst og fremst hlutverk öryggisráðs SÞ að hindra frekari hernaðarátök svo fljótt sem auðið er. Í slíkum tilvikum getur ráðið gripið til eftirfarandi ráðstafana:

  • ályktað um vopnahlé sem getur hindrað stigmögnun stríðsátaka;
  • sent eftirlitsmenn eða friðargæsluliða til að aðstoða við að draga úr spennu, skilja að stríðandi fylkingar og koma á sáttum með því að stilla til friðar. Þær sættir deiluaðila í átökum koma svo til með að leggja grundvöll að friðsamlegri lausn deilumála. 

Þar fyrir utan getur öryggisráð SÞ beitt þvingunaraðgerðum sem meðal annars eru:

  • efnahagslegar refsiaðgerðir, vopnasölubann, fjársektir og hindranir og ferðabann;
  • slit á diplómatískum (formlegum) samskiptum; 
  • hafnbann;
  • eða jafnvel sameiginleg hernaðaríhlutun. 

Lykilatriði er að aðgerðir beinist að stríðsaðilum sem bera þá ábyrgð sem er fordæmd af alþjóðasamfélaginu. Um leið er í hvívetna dregið úr áhrifum aðgerða öryggisráðs SÞ á almenna borgara, samfélag og á efnahag.      

Heildartexti alþjóðaréttar að Sáttmála Hinna sameinuðu þjóða (SÞ) má finna á vef Stjórnarráðs Íslands. Eftirfarandi kafli er tekin þaðan og fjallar textinn  sérstaklega um öryggisráð SÞ:

ÖRYGGISRÁÐ SÞ

Skipan

23. gr.

1) Öryggisráðið skipa fimmtán meðlimir hinna sameinuðu þjóða. Lýðveldið Kína, Frakkland, Sovétríkin, Sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands og Bandaríki Ameríku eiga fast sæti í öryggisráðinu. Allsherjarþingið kýs í öryggisráðið tíu aðra meðlimi hinna sameinuðu þjóða og eiga þeir þar eigi fast sæti, og skal í fyrsta lagi tekið tillit til þess, hversu meðlimir hinna sameinuðu þjóða hafa stuðlað að varðveislu heimsfriðar og öryggis og unnið að markmiði bandalagsins að öðru leyti, og enn fremur til jafnrar dreifingar eftir hnattstöðu.
2) Meðlimir öryggisráðsins, sem ekki eiga þar fast sæti, eru kosnir til tveggja ára. Við fyrstu kosningar þessara meðlima eftir að þeim hefur verið fjölgað úr ellefu í fimmtán, skulu þó tveir þeirra fjögurra meðlima, sem um er fjölgað, kosnir til eins árs. Fráfarandi meðlim má eigi endurkjósa til næsta kjörtímabils.
3) Hver meðlimur öryggisráðsins hefur einn fulltrúa.

Störf og völd

24. gr.

1) Til þess að tryggja skjótar og haldgóðar aðgerðir af hálfu hinna sameinuðu þjóða, fela meðlimir þeirra öryggisráðinu aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis og eru ásáttir um, að öryggisráðið starfi fyrir þeirra hönd, þegar það framkvæmir skyldustörf sín í samræmi við þessa ábyrgð.
2) Öryggisráðið skal við framkvæmd skyldustarfa sinna starfa í samræmi við markmið og grundvallarreglur hinna sameinuðu þjóða. Hin ákveðnu völd, sem öryggisráðinu eru veitt til framkvæmdar þessum skyldustörfum, eru skilgreind í VI., VII., VIII. og XII. kafla.
3) Öryggisráðið skal leggja fyrir allsherjarþingið til athugunar ársskýrslu og, þegar nauðsynlegt þykir, sérstakar skýrslur.

25. gr.

Meðlimir hinna sameinuðu þjóða eru ásáttir um að fallast á og framkvæma ákvarðanir öryggisráðsins í samræmi við ákvæði þessa sáttmála.

26. gr.

Í þeim tilgangi að stuðla að því að koma á fót og varðveita heimsfrið og öryggi, þannig að sem minnst af mannafla og fjárhaglsegri orku heimsins fari í framleiðslu hergagna, skal öryggisráðið, með aðstoð herforingjanefndarinnar, sem getið er í 47. gr., bera ábyrgð á samningu áætlana um stofnun kerfis fyrir skipa herbúnaðar, og skulu þær lagðar fyrir meðlimi hinna sameinuðu þjóða.

Atkvæðagreiðsla

27. gr.

1) Hver meðlimur öryggisráðsins hefur eitt atkvæði.
2) Til ákvarðana öryggisráðsins í málum um fundarsköp þarf jákvæði níu meðlima ráðsins.
3) Til ákvarðana í öllum öðrum málum þarf jákvæði níu meðlima, að meðtöldum atkvæðum hinna föstu meðlima þó með því skilyrði, að í ákvörðunum mála, sem nefnd eru í VI. kafla og í 3. lið 52. gr., skuli deiluaðili sitja hjá við atkvæðagreiðslu.

Fundarsköp

28. gr.

1) Öryggisráðið skal þannig skipulagt, að það sé ætíð starfhæft. Hver meðlimur öryggisráðsins skal í þessu skyni ætíð hafa fulltrúa á aðsetursstað bandalagsins.
2) Öryggisráðið heldur við og við fundi, þar sem hverjum meðlim ráðsins er heimilt, ef hann óskar þess, að láta stjórnarmeðlim eða annan sérstaklega tilnefndan mann mæta sem fulltrúa sinn.
3) Öryggisráðinu er heimilt að halda fundi á þeim stöðum, öðrum en aðsetursstað bandalagsins, sem eftir dómi ráðsins munu á besta hátt auðvelda störf þess.

29. gr.

Öryggisráðinu er heimilt að setja á fót undirstofnanir sér til aðstoðar í starfi sínu, eftir því sem það álítur nauðsynlegt.

30. gr.

Öryggisráðið setur sér fundarsköp, þar með fyrirkomulag um val forseta þess.

31. gr.

Sérhverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða, sem ekki er meðlimur öryggisráðsins, er heimilt, án atkvæðagreiðslu, að taka þátt í umræðum um sérhvert mál, sem lagt er fyrir öryggisráðið, þegar hið síðarnefnda álítur, að slíkt snerti hagsmuni þess meðlims sérstaklega.

32. gr.

Sérhverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða, sem á ekki sæti í öryggisráðinu, eða sérhverju ríki, sem er ekki meðlimur í hinum sameinuðu þjóðum, skal boðið, ef það er aðili að deilumáli, sem er til athugunar hjá öryggisráði, að taka þátt í umræðum um það deilumál, án atkvæðisréttar. Öryggisráðið getur sett þau skilyrði, sem það telur réttmæt, fyrir þátttöku ríkis, sem ekki er meðlimur í hinum sameinuðu þjóðum.

VI. kafli

FRIÐSAMLEG LAUSN DEILUMÁLA

33. gr.

1) Aðilar að sérhverju deilumáli, sem með áframhaldi gæti stofnað í hættu heimsfriðme og öryggi, skulu fyrst leita lausnar á deilumálinu með samningaumleitunum, rannsókn, miðlun, sættargerð, gerðardómi, dómsúrskurði, afnotum svæðisstofnana eða samninga, eða með öðrum friðsamlegum aðferðum skv. eigin vali.
2) Ef öryggisráðinu þykir nauðsyn krefja, skal það kveðja deiluaðila til að leita lausnar á deilumáli sínu á slíka hátt.

34. gr.

Öryggisráðinu er heimilt að rannsaka sérhvert deilumál eða sérhvert vandamál, sem gæti leitt til milliríkja áreksturs eða valdið deilu, til þess að ganga úr skugga um, hvort áframhald deilunnar eða vandamálsins sé líklegt til þess að stofna heimsfriði og öryggi í hættu.

35. gr.

1) Hverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða er heimilt að vekja athygli öryggisráðsins eða allsherjarþingsins á hverju slíku deilumáli eða vandamáli, sem um getur í 34. grein.
2) Nú er ríki ekki meðlimur hinna sameinuðu þjóða, og er því þá heimilt að vekja athygli öryggisráðsins eða allsherjarþingsins á hverri þeirri deilu, sem það er aðili að, ef það fyrirfram skuldbindur sig til að fylgja reglum þeim um friðsamlega lausn deilumála, sem settar eru í þessum sáttmála.
3) Þingstörfum allsherjarþingsins við meðferð mála, sem athygli þess hefur verið vakin á, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skal hagað í samræmi við ákvæði 11. og 12. gr.

36. gr.

1) Heimilt er öryggisráði, á hvaða stigi máls sem er, að mæla með hæfilegum aðgerðum eða aðferðum til leiðréttingar á deilumáli eða vandamáli þess eðlis, sem um ræðir í 33. gr.
2) Öryggisráðinu ber að taka til greina allar þær aðferðir til lausnar deilumálsins, sem deiluaðilar hafa þegar tekið upp.
3) Er öryggisráðið gerir tillögur sínar samkvæmt grein þessari, skal það einnig taka til greina, að fylgja skal þeirri venju, að deiluaðilar leggi lagadeilur fyrir alþjóðadómstólinn, í samræmi við ákvæði samþykktar dómstólsins.

37. gr.

1) Ef aðilum að deilu þess eðlis, sem um ræðir í 33. grein, tekst ekki að leysa deiluna á einhvern þann hátt, sem um getur í þeirri grein, skulu þeir vísa deilumálinu til öryggisráðsins.
2) Nú álítur öryggisráðið, að framhald deilunnar muni að líkindum stofna heimsfriði og öryggi í hættu, og skal það þá ákveða, hvort það skuli hefja aðgerðir skv. 36. gr. eða gera þær tillögur um lausn málsins, sem það álítur heppilegar.

38. gr.

Ef báðir eða allir deiluaðilar óska þess, er öryggisráðinu heimilt að gera tillögur með friðsamlega lausn deilumálsins fyrir augum, án þess að það komi í bága við 33.-37. gr.

VII. kafli

AÐGERÐIR VEGNA ÓFRIÐARHÆTTU, FRIÐROFA OG ÁRÁSA

39. gr.

Öryggisráðið skal úrskurða, hvort fyrir hendi sé ófriðarhætta, friðrof eða árás, og skal gera tillögur um, eða ákveða, hvaða ráðstafanir skuli gerðar í samræmi við 41. og 42. grein, til þess að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi.

40. gr.

Til þess að koma í veg fyrir, að ástandið verði alvarlegra, er öryggisráðinu heimilt, áður en það gerir tillögur þær eða ráðstafanir, sem tilgreindar eru í 39. gr., að fara þess á leit við deiluaðila, að þeir hegði sér í samræmi við bráðabirgðaráðstafanir, sem ráðið telur nauðsynlegar eða æskilegar. Slíkar ráðstafanir skulu ekki skerða réttindi, kröfur eða aðstöðu hlutaðeigandi aðila. Öryggisráðið skal taka tillit til þess, ef misbrestur verður á að framfylgja slíkum bráðabirgðaráðstöfunum.

41. gr.

Öryggisráðinu er heimilt að ákveða, hvaða aðgerðir, aðrar en hernaðaraðgerðir, skuli viðhafðar til þess að framfylgja ákvörðunum þess, og getur það kvatt félaga hinna sameinuðu þjóða til þess að beita slíkum aðgerðum. Aðgerðir þessar mega vera fólgnar í því að slíta viðskiptasambandi að nokkru eða öllu leyti og rjúfa samgöngur með járnbrautum, á sjó, í lofti, einnig póst-, síma- og loftskeytasamband, og slíta stjórnmálasambandi.

42. gr.

Nú álítur öryggisráðið, að ráðstafanir þær, sem um getur í 41. gr., mundu verða ónógar eða hafi reynst ófullnægjandi, og getur ráðið þá gripið til hernaðaraðgerða með lofther, flota eða landher, eftir því sem nauðsyn krefur, til að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi. Slíkar aðgerðir mega vera fólgnar í ögrun, hafnbanni og öðrum aðgerðum lofthers, flota eða landhers meðlima hinna sameinuðu þjóða.

43. gr.

1) Í því skyni að stuðla að varðveislu heimsfriðar og öryggis, takast allir meðlimir hinna sameinuðu þjóða á hendur að láta öryggisráðinu í té, þegar það krefst þess, samkvæmt sérstökum samningi eða samningum, herlið, aðstoð og fríðindi, þar með talinn réttur til yfirferðar, eins og nauðsynlegt er til varðveislu heimsfriði og öryggi.
2) Slíkur samningur eða samningar skulu ákveða tölu og tegundir liðsveita, viðbúnað þeirra og almennt aðsetur, og eðli fríðinda þeirra og aðstoðar, sem láta skal í té.
3) Gera skal samninginn eða samningana eins fljótt og hægt er, og skal öryggisráðið hafa frumkvæðið. Þeir skulu gerðir milli öryggisráðsins og einstakra meðlima eða milli öryggisráðsins og meðlimahópa og skulu síðan staðfestir af samningsríkjum samkv. stjórnskipunarvenjum í hverju landi.

44. gr.

Nú hefur öryggisráðið ákveðið að beita valdi, og skal það þá, áður en það krefst þess, að meðlimur, sem ekki á sæti í ráðinu, leggi fram herlið í samræmi við þær skuldbindingar, sem hann hefur tekist á hendur skv. 43. gr., bjóða þeim meðlim, ef hann óskar þess, að eiga þátt í ákvörðunum öryggisráðsins um beitingu þess herliðs, sem hann leggur fram.

45. gr.

Til þess að gera hinum sameinuðu þjóðum kleift að hefja aðkallandi hernaðaraðgerðir, skulu meðlimir ætíð hafa reiðubúnar eigin lofthersveitir til sameiginlegra alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Öryggisráðið skal, með aðstoð herforingjanefndarinnar, ákvarða, innan takmarka þeirra sérstöku samninga, sem um getur í 43. gr., styrk og viðbúnað þessara sveita og áætlanir um sameiginlegar aðgerðir þeirra.

46. gr.

Öryggisráðið skal, með aðstoð herforingjanefndarinnar, gera áætlanir um notkun herafla.

47. gr.

1) Setja skal á stofn herforingjanefnd til þess að veita öryggisráðinu aðstoð og ráðleggingar um öll þau mál, sem varða hernaðarþarfir öryggisráðsins til varðveislu heimsfriðar og öryggis, notkun og stjórn herja þeirra, sem það fær til umráða, ákvæði um skipa herbúnaðar og hugsanlega afvopnun.
2) Herforingjanefndina skipa foringjar herforingjaráða hinna föstu meðlima öryggisráðsins, eða fulltrúar þeirra. Hverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða, sem ekki á fast sæti í herforingjanefndinni, skal af nefndinni boðið að vinna með henni, þegar samstarf þess meðlims er nauðsynlegt til að tryggja góðan árangur af skyldustörfum nefndarinnar.
3) Herforingjanefndin skal bera ábyrgð gagnvart öryggisráðinu á hernaðarlegri stjórn þeirra herja, sem fengnir eru öryggisráðinu til umráða. Síðan skulu teknar ákvarðanir um forustu slíkra hersveita.
4) Samkv. heimild frá öryggisráðinu og í samráði við hlutaðeigandi svæðisstofnanir getur herforingjanefndin sett á stofn undirnefndir fyrir einstök svæði.

48. gr.

1) Eftir því sem öryggisráðið ákveður, skulu allir meðlimir hinna sameinuðu þjóða, eða aðeins sumir þeirra, taka þátt í aðgerðum þeim, sem nauðsynlegar eru til að framfylgja ákvörðunum ráðsins til varðveislu heimsfriðar og öryggis.
2) Slíkum ákvörðunum skal framfylgt af meðlimum hinna sameinuðu þjóða beint, svo og með aðgerðum þeirra í hlutaðeigandi alþjóðstofnunum, þar sem þeir eru meðlimir.

49. gr.

Meðlimir hinna sameinuðu þjóða skulu taka höndum saman og veita hver öðrum gagnkvæma hjálp í framkvæmd þeirra aðgerða, sem öryggisráðið hefur ákveðið.

50. gr.

Nú hefur öryggisráðið hindrunar- eða þvingunarráðstafanir gegn einhverju ríki, og skal þá hvaða annað ríki sem er, hvort sem það er meðlimur hinna sameinuðu þjóða eða ekki, sem telur sig hafa mætt sérstökum fjárhagslegum vandamálum vegna framkvæmda þessara ráðstafana, hafa rétt til að leita ráða öryggisráðsins um lausn á vandamálum þessum.

51. gr.

Engin ákvæði þessa sáttmála skulu takmarka hinn órjúfanlega rétt ríkis til sjálfsvarnar, eitt sér eða með öðrum ríkjum, ef ráðist er með hervaldi á meðlim hinna sameinuðu þjóða, þangað til öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til varðveislu heimsfriðar og öryggis. Ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til varðveislu heimsfriðar og öryggis. Ráðstafanir, gerðar af meðlimum við framkvæmd þessa sjálfsvarnarréttar, skulu undireins tilkynntar öryggisráðinu, og skulu þær á engan hátt skerða vald og ábyrgð öryggisráðsins samkv. þessum sáttmála til að hefja, hvenær sem er, þær aðgerðir, sem það álítur nauðsynlegar til að varðveita eða koma á aftur heimsfriðmiog öryggi.

SVÆÐISSAMNINGAR

52. gr.

1) Í þessum sáttmála eru engin þau ákvæði, sem útiloka, að gera megi svæðissamninga eða stofna svæðisstofnanir til meðferðar á málum til varðveislu heimsfriði og öryggi, sem hæfileg þykja til svæðisframkvæmda, svo fremi sem slíkir samningar eða stofnanir og störf þeirra að öðru leyti séu í fullu samræmi við markmið og reglur hinna sameinuðu þjóða.
2) Þeir meðlimir hina sameinuðu þjóða, sem gera slíka samninga eða setja á fót stofnanir, skulu gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að friðsamleg lausn deilumála á staðnum fáist fyrir atbeina þessara svæðissamninga eða stofnana, áður en sú leið er farin að vísa þeim til aðgerða öryggisráðsins.
3) Öryggisráðið skal vinna að því, að friðsamleg lausn deilumála á staðnum fáist, fyrir atbeina svæðissamninga eða stofnana, annaðhvort að frumkvæði þeirra ríkja, sem hlut eiga að máli, eða samkvæmt tilvísun öryggisráðsins.
4) Þessi grein takmarkar á engan hátt 34. og 35. gr.

53. gr.

1) Þar sem það á við, skal öryggisráðið hagnýta sér slíka svæðissamninga eða svæðisstofnanir til þvingunarráðstafana, að svo miklu leyti sem vald þess nær til, en engar þvingunaraðgerðir má framkvæma í skjóli slíkra svæðissamninga eða fyrir atbeina slíkra svæðisstofnana með heimild öryggisráðsins, að undanteknum ráðstöfunum gegn óvinaríki, sbr. skýringu í 2. lið þessarar gr., eins og ráð er fyrir gert samkv. 107. gr. eða í svæðissamningum, sem beinast gegn endurnýjaðri árásarstefnu af hendi slíks ríkis, þar til bandalaginu kann, samkv. beiðni þeirra ríkisstjórna, er hlut eiga að máli, að vera fengið það hlutverk að koma í veg fyrir frekari árásaraðgerðir af hendi slíks ríkis.
2) Orðið óvinaríki í 1. lið þessarar gr. á við sérhvert það ríki, sem í síðari heimsstyrjöldinni hefur verið óvinur einhvers þess ríkis, sem er aðili að undirskrift þessa sáttmála.

54. gr.

Ætíð skal gera öryggisráðinu fulla grein fyrir framkvæmdum til varðveislu heimsfriðar og öryggis, sem gerðar eru eða áformaðar samkvæmt svæðissamningum eða af svæðisstofnunum.