Sérstofnanir

Fimmtán sjálfstæðar stofnanir eru tengdar Sameinuðu þjóðunum með samstarfssamningum. Þessar stofnanir ráða sér sjálfar en þeim var komið á fót með samkomulagi stjórnvalda í mörgum ríkjum. Þær bera víðtæka alþjóðlega ábyrgð í efnahags–, félags–, menningar–, mennta– og heilbrigðismálum og á fleiri skyldum sviðum.

Sumar þessara stofnana eru eldri en Sameinuðu þjóðirnar sjálfar, þar á meðal Alþjóðavinnumálastofnunin og Alþjóðapóstsambandið.

Fjölmargar skrifstofur, áætlanir og sjóðir starfa á vegum samtakanna — þeirra á meðal Mannréttindastofnun SÞ, Þróunaráætlun SÞ og Barnahjálp SÞ sem vinna að því að bæta efnahagslegar og félagslegar aðstæður fólks víðsvegar um heim. Þessar stofnanir skila skýrslu til allsherjarþingsins eða efnahags– og félagsmálaráðsins.

Umfjöllun um sumar þeirra, má einnig finna hér til hliðar, þó svo að aðeins þessar 15 sem nefndar ‘specialized agencies’* (líkt og sjá má í bláa reitnum í mynd af SÞ kerfinu hér að neðan). Flestar þeirra stofnana, sjóðir og samtök SÞ  sem einnig má lesa um hér til hliðar falla undir allsherjarþingið.

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO

Mótar stefnu og gerir áætlanir um aðgerðir til að bæta vinnuaðstæður fólks og fjölga atvinnutækifærum og setur reglur um vinnumarkaðinn sem stuðst er við um heim allan.

Matvæla- og landbúnaðarstofnunin, FAO

Stærstu hlutverk stofnunarinnar eru að auka framleiðni í landbúnaði, tryggja öryggi matvæla og sjá til þess að allir hafi aðgang að nægri fæðu til þess að lifa heilbrigðu lífi.

Menningarmálastofnun SÞ, UNESCO

Stuðlar að menntun fyrir alla, menningarlegri þróun, verndun náttúru- og menningarminja heimsins, alþjóðlegu samstarfi í vísindum, tjáningarfrelsi og samskiptum

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO

Heldur utan um allar áætlanir sem hafa það að markmiði að leysa heilsufarsvandamál í heiminum og samræmir störf alls þess fólks sem að þeim málum kemur á æðsta stigi heilbrigðisþjónustu.

Meðal þeirra mála sem stofnunin lætur til sína taka eru bólusetningar, menntun heilbrigðisstétta og öflun lífsnauðsynlegra lyfja.

Alþjóðabankinn (World Bank Group)

Veitir lán og tæknilega aðstoð til þróunarríkja með það að markmiði að draga úr fátækt og efla sjálfbæran hagvöxt.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, IMF

Greiðir fyrir alþjóðlegu samstarfi í peningamálum, stuðlar að efnahagslegum stöðugleika og skapar fastan vettvang til samræðna, ráðlegginga og liðveislu í fjárhagslegum efnum.

Alþjóðaflugmálastofnunin, ICAO

Setur alþjóðlega staðla um öryggi og greiðar samgöngur í lofti og heldur utan um alþjóðlegt samstarf á öllum sviðum borgaralegs flugs.

Alþjóðapóstsambandið, UPU

Staðfestir alþjóðlegar reglugerðir um póstþjónustu, veitir tæknilega aðstoð og stuðlar að samstarfi um hvaðeina er lýtur að póstþjónustu.

Alþjóðafjarskiptasambandið, ITU

Hefur umsjón með alþjóðasamstarfi um umbætur í öllum tegundum fjarskipta, samræmir tíðninotkun í útvarps- og sjónvarpssendingum, styður aðgerðir til að auka öryggi og stundar rannsóknir.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin, WMO

Styður alþjóðlegar rannsóknir á lofthjúpi jarðar og loftslagsbreytingum og greiðir fyrir því að þjóðir heims geti skipst á veðurfræðilegum gögnum.

Alþjóðasiglingamálastofnunin, IMO

Vinnur að því að bæta verklagsreglur í alþjóðlegum siglingum, auka öryggi til sjós með strangari reglum og draga úr mengun af völdum skipa.

Alþjóðahugverkastofnunin, WIPO

Styður alþjóðlega hugverkavernd og heldur utan um samstarf varðandi höfundarétt, vörumerki, iðnhönnun og einkaleyfi.

Alþjóðaþróunarsjóður landbúnaðarins, IFAD

Virkjar fjármagn til þess að auka matvælaframleiðslu og næringargildi matvæla meðal fátæks fólks í þróunarríkjum.

Iðnþróunarstofnun SÞ, UNIDO

Ýtir undir framfarir í iðnaði í þróunarríkjum með því að veita tæknilega aðstoð, ráðgjafarþjónustu og þjálfun.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA

Óháð milliríkjastofnun sem starfar undir vernd Sameinuðu þjóðanna. Markmið hennar er að stuðla að öruggri og friðsamlegri nýtingu kjarnorku.

Alþjóðlega fólksflutningastofnunin, IOM

Starfar með það að leiðarljósi að auka skilning á málefnum er snúa að fólksflutningum. Stofnunin veitir aðstoð vegna þeirra auknu áskoranna sem fylgja fólksfluningum, styðja fólksflutninga í þágu efnahagslegrar þróunar, verja mannlega reisn og velferð farandfólks.

Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP

Þróunaráætlun SÞ aðstoðar ríki við stuðlun sjálfbærrar þróunar. UNDP er nú með fjölda verkefna í gangi í þróunarlöndunum með aðstoð yfir 100 svæðisstofa.