Þróunarstarf

Eitt hið veigamesta af lögboðnum hlutverkum Sameinuðu þjóðanna er að stuðla að betri lífskjörum, nægri atvinnu og efnahags- og félagslegum framförum og þróun. Sjötíu af hundraði alls starfs Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra eru helguð þessum málaflokki, þar sem sú skoðun er höfð að leiðarljósi að forsenda fyrir varanlegum friði í heiminum sé útrýming fátæktar og aukin velferð fólks um heim allan.

Sameinuðu þjóðirnar eru betur í stakk búnar til að efla þróun en nokkur annar aðili í heiminum. Þær eru alls staðar nálægar og hið víðtæka umboð þeirra spannar félagslegar og fjárhagslegar þarfir jafnt sem þarfir á neyðarstundum. Sameinuðu þjóðirnar eru ekki fulltrúi neinna þjóðernis- eða viðskiptahagsmuna. Þegar stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar hafa öll ríki atkvæðisrétt, fátæk jafnt sem auðug.

Málin tekin á dagskrá

Sameinuðu þjóðirnar hafa gegnt lykilhlutverki í því að skapa alþjóðlega sátt um aðgerðir í þróunarmálum. Allt frá því á sjöunda áratug 20. aldar hefur allsherjarþingið hjálpað þjóðum heims að skilgreina áherslur og markmið með því að gefa út tíu ára áætlanir um stefnu í þróunarmálum á heimsvísu.

Í þessum áætlunum hefur athyglinni verið beint sérstaklega að brýnustu málum hvers tíma, en jafnframt ævinlega verið lögð áhersla á þörf fyrir framfarir á öllum sviðum félagslegrar og efnahagslegrar þróunar.

Sameinuðu þjóðirnar halda enn áfram að skilgreina ný markmið í þróunarmálum og má þar nefna mikilvæg svið á borð við sjálfbæra þróun, aukinn hlut kvenna, mannréttindi, umhverfisvernd og góða stjórnarhætti — sem og áætlanir um framkvæmd þessara markmiða. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem tóku við af þúsaldarmarkmiðunum og ná til ársins 2030 eru dæmi um slíkar áætlanir.

Þróunaraðstoð

Sameinuðu þjóðirnar og sérstofnanir þeirra reyna eftir ýmsum leiðum að þoka efnahagslegum og félagslegum málum áfram í átt að skilgreindum markmiðum.

Umboð sérstofnananna nær yfir nánast öll svið efnahags- og félagsmála þar sem mögulegt er að láta til sín taka. Stofnanirnar veita tæknilega aðstoð og liðsinna þjóðum heims á ýmsan annan hátt. Í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar aðstoða þær við stefnumótun, skilgreina kröfur og viðmiðunarreglur, veita stuðning og virkja fjármagn. Þannig hefur Alþjóðabankinn útvegað 345 miljarða bandaríkjadala í þróunarlán til 113 landa frá árinu 1960.

Náið samráð er milli Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra og er það tryggt með milligöngu aðalsamráðsnefndar allra framkvæmdastjóra á vegum samtakanna, en í henni eiga sæti aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, forstöðumenn sérstofnana, sjóða og áætlana, Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Með fulltingi aðalframkvæmdastjóra og Efnahags- og félagsmálaráðs er áætlunum og sjóðum Sameinuðu þjóðanna ætlað að framkvæma umboð samtakanna á sviði efnahags- og félagsmála. Árið 1997 setti aðalframkvæmdastjóri á laggirnar þróunarhóp , sem samanstendur af fulltrúum starfandi áætlana og sjóða.

Þróunaráætlun , öflugasti styrktarsjóður samtakanna í þágu sjálfbærrar þróunar manna um heim allan, leggur sitt af mörkum til þess að uppfylla Heimsmarkmiðin. Barnahjálpin, UNICEF,  er í forystu þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem vinna að því að auka lífslíkur og vernd barna og efla þróun í þeirra þágu til langs tíma. Áætlanir Barnahjálparinnar ná til um það bil 160 landa og landsvæða og í þeim er áhersla lögð á bólusetningar, frumheilsugæslu, næringu og grunnmenntun.

Margar aðrar áætlanir Sameinuðu þjóðanna starfa í þágu þróunar í samvinnu við opinber yfirvöld og frjáls félagasamtök:

Matvælaáætlunin, WFP er stærsta hjálparstofnun heims á sviði matvælaaðstoðar og sinnir jafnt neyðaraðstoð og þróunaraðstoð.

Mannfjöldasjóður , UNFPA er öflugasti sjóður heims sem helgaður er mannfjöldaaðstoð.

Hlutverk Umhverfisstofnunar SÞ, UNEP er að hvetja til réttrar umgengni við umhverfið um víða veröld.

Búsetusjóður , UN-Habitat aðstoðar fólk sem býr við heilsuspillandi aðstæður.

Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun, UNCTAD er ætlað að efla alþjóðaviðskipti til þess að auka hlut þróunarlanda í hinu hnattræna hagkerfi.

Í samvinnu við Alþjóðaviðskiptastofnunina, WTO, sem er sjálfstæð stofnun, aðstoðar ráðstefnan einnig þróunarlöndin við vöruútflutning og fer sú aðstoð fram fyrir milligöngu WTO.

Sameining og samstaða

Það færist í vöxt að Sameinuðu þjóðirnar og sérstofnanir þeirra sameini krafta sína til að taka á flóknum vandamálum sem krefjast sérfræðikunnáttu þvert á stofnanir, enda leggjast þær gegn því að þjóðir glími við slík vandamál á eigin spýtur.

Margvísleg dæmi eru um slík sameiginleg verkefni fjölmargra stofnanna og þjóðríkja.

Sem dæmi má nefna sameiginlega áætlun gegn alnæmi og eyðni, þar sem átta stofnanir og áætlanir eiga hlut að máli við að berjast gegn faraldrinum, sem sýkt hefur meira en 57 milljónir manna um allan heim. Annað dæmi er að árið 1996 var hleypt af stokkunum sérstöku Afríku-átaki þvert á stofnanir, en það var áætlun til 10 ára sem hljóðaði upp á 25 milljarða bandaríkjadala.

Þar sameinuðust nánast allar deildir Sameinuðu þjóðanna í einni sameiginlegri áætlun til þess að tryggja undirstöðumenntun, heilbrigðisþjónustu og matvælaöryggi í Afríku. Hnattræni umhverfisbótasjóðurinn er svo sjóður upp á 3,5 milljarða dala undir stjórn Þróunaráætlunar , Umhverfisstofnunar og Alþjóðabankans, og aðstoðar hann þróunarlönd að hrinda umhverfisáætlunum í framkvæmd.

Að lokum má nefna að Barnahjálpin, Þróunaráætlunin, Alþjóðabankinn og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sameinuðu krafta sína árið 1998 og hleyptu af stokkunum herferð gegn malaríu, en sá sjúkdómur leggur meira en eina milljón manna að velli ár hvert. Forstöðumenn fyrirtækja, líknarfélög, frjáls félagsamtök og stjórnvöld einstakra ríkja hafa tekið höndum saman við Barnahjálpina, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Alþjóðabankann í sameiginlegu átaki til að auka bólusetningar og þróa ný bóluefni.