Í dag, 20. mars, fögnum við alþjóða hamingjudeginum. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert síðan 2013 til að minni á mikilvægi hamingjunnar í lífi hvers einasta einstaklings um heiminn allan.
Það var Bútan sem bar fram ályktunina um að Sameinuðu þjóðirnar skyldu halda alþjóðlegan hamingjudag. Þetta smáríki í Himalajafjöllunum hefur barist fyrir því að hamingja þjóða sé meira virði en auður eins og hann hefur verið mældur í þjóðarframleiðslu frá því snemma á áttunda áratugnum. Í Bútan hefur verg hamingja leyst verga þjóðarframleiðslu af hólmi sem mælikvarði um framfarir.
Hamingjan er nátengd heimsmarkmiðunum, sem leitast við að binda enda á fátækt, draga úr ójöfnuði og vernda plánetuna okkar – þrír lykilþættir vellíðunar og hamingju. Í ár setjum við hamingjuna í samhengi við heimsmarkmið 3 – Heilsa og vellíðan, og heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna.
Málþing um hamingju, svefn og velsæld
Félag Sameinuðu þjóðanna, ásamt Embættis landlæknis, Forsætisráðuneytinu og Endurmenntun Háskóla Íslands stóðu að rafrænu málþingi í tilefni af alþjóðadögum um svefn (19. mars) og hamingju (20. mars). Málþingið var haldið þann 19. mars undir yfirskriftinni Hamingja, svefn og velsæld og var það tekið upp. Hægt er að horfa á málþingið hér.
Á málþinginu var hamingjan sett í samhengi við heimsmarkmið 3 – Heilsa og vellíðan, sem og fjallað var um mikilvægi svefns til að stuðla að heilsu, hamingju og vellíðan.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, opnaði málþingið þar sem hún ræddi mikilvægi þess að hugað sé að því hvernig hægt sé að auka lífsgæði og hamingju fólks. Ekki sé hægt að fylgjast aðeins með efnahagsvísum, það sé alveg jafn mikilvægt að passa upp á velsældarvísana.
Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, lagði áherslu á að velsæld væri gerð að markmiði í stefnumótun og lagt væri upp með vellíðan fyrir alla, ekki aðeins suma. Jafnframt ítrekaði hún tengsl svefns við hamingju og velsæld, sem aukast með auknum svefni þar til ráðlögðum svefni væri náð.
Hamingjan í heimi án jafnréttis
Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, var með erindi á málþinginu og lagði áherslu á tengsl hamingjunnar við heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna. Hér má lesa útdrátt úr erindi hennar í tilefni dagsins.
Ég er þeirrar skoðunar að sjálfbær þróun sé leiðin að hamingjunni. Farsæl samfélög þar sem að íbúar búa við velsæld og öryggi, mannréttindi eru virt og dregið hefur úr mengun geta bara orðið til með sjálfbærri þróun. En hvað er sjálfbær þróun? Sjálfbær þróun er þróun sem mætir nútíma þörfum án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á því að mæta þörfum sínum. Slík þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld til langs tíma fyrir alla jarðarbúa
Já hamingjan er ekki mæld með hagvísum. Verg þjóðarframleiðsla segir ekkert um hamingju þjóðar. Það er ekki hægt að kaupa hamingjuna – eða jú, ríki geta fjárfest í hamingju íbúa sinna með því að fjármagna verkefni sem ýta undir og stuðla að sjálfbærri þróun.
Grunn þörfum okkar þarf að vera mætt og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru einmitt til þess fallin að mæta grunnþörfum allra jarðarbúa, auka jöfnuð, útrýma fátækt og hungri, efla mannréttindi, tryggja aðgengi að góðri menntun og atvinnutækifærum, efla heilsu fólks – bæði líkamlega og andlega – og vernda náttúruna, draga úr sóun og losun koldíoxíðs.
Mig langar að taka heimsmarkmið 5 fyrir sérstaklega og tengja það við hamingju, svefn og vellíðan. Nú stendur yfir 65. Fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem staða kvenna er rædd. Mikil áhersla er á versnandi stöðu kvenna í heiminum í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 og er það áhyggjuefni að staða kvenna fer versnandi en ekki batnandi. Það er nefnilega ekki hægt að ná heimsmarkmiðunum nema með því að uppfylla heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna.
COVID-19 er að steypa æ fleirum í sárafátækt og eru áhrifin einna mest á konur. Það er áætlað að á þessu ári búi um 435 milljón kvenna og stúlkna við sárafátækt og 47 milljónir af þeim séu í þeirri aðstöðu vegna COVID-19.
Konur eru 27% líklegri en karlmenn til þess að búa við alvarlegt mataróöryggi. Það er áætlað að þetta bil breikki vegna COVID-19.
Konur í heilbrigðisþjónustu eru í framlínunni í baráttunni við COVID-19 og eru því í aukinni hættu á að smitast. Í þeim ríkjum þar sem gögn eru aðgengileg um COVID-19 smit á meðal heilbrigðisstarfsfólks eru 72% smitaðra konur.
Skólalokanir eru líklegar til þess að auka kynjabilið þegar kemur að menntun. 11 milljónir stúlkna á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi eiga á hættu að snúa ekki aftur til náms.
Það er áætlað að 243 milljónir kvenna og stúlkna hafi orðið fyrir kynferðislegu og/eða líkamlegu ofbeldi að hálfu maka á síðasta ári.
Að minnsta kosti 200 milljónir kvenna hafa orðið fyrir limlestingu kynfæra samkvæmt gögnum frá 31 ríki þar sem að þessi hefð viðgengst.
1 af hverjum 5 konum á aldrinum 20-24 ára voru giftar í barnæsku. Tíðni Barnahjónabanda og limlesting kynfæra kvenna var á niðurleið fyrir heimsfaraldurinn en efnahagslegar afleiðingar og truflanir á skólastarfi geta snúið þeirri þróun við.
Konur eyða 3x fleiri klukkustundum en karlmenn á dag við ólaunuð störf og heimilisstörf. COVID-19 eykur álagið á konur enn frekar.
1 af hverjum 4 þingsætum í heiminum eru í höndum kvenna.
Samkvæmt gögnum frá 57 ríkjum þá segja 3 af hverjum 4 konum þær taka ákvarðanir um eigin heilsu og hvort þær stundi kynlíf eða ekki.
72% fólks sem gegnir heimilisstörfum / heimilishjálp, meiri hluti þeirra konur, hafa misst vinnuna eða vinnustundum þeirra hefur fækkað vegna COVID-19.
Konur og stúlkur bera megin þungan af auknum hamförum af völdum loftslagsbreytinga en eru sjaldnast í aðstöðu til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – COP 25 – aðeins 21% sendinefnda voru leiddar af konum.
Í þeim ríkjum þar sem konur leiða ríkisstjórn eru staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 allt að 6 sinnum færri. Sömuleiðis þá hefur aðkoma kvenna í friðarviðræðum verið grundvöllur langvarandi samninga. Þrátt fyrir það, á árunum 1992-2009 voru konur aðeins 6% sáttasemjara og undirskriftaraðila og 13% samningarmanna í friðarferlum.
Ég spyr: hvernig eiga konur og stúlkur að sofa vært á nóttunni?
Hvernig geta konur og stúlkur fundið hamingjuna þegar að þær búa í stöðugum ótta um líkamlegt öryggi sitt?
Hvernig geta konur sofið rótt vitandi það að karlmaður í sama starfi fær hærri laun en hún?
Hvernig geta konur og stúlkur sofið rótt vitandi það að ef þeim er nauðgað er líklegt að gerandinn fái væga refsingu ef einhverja? Já eða refsing felld niður á æðra dómsstigi!
Hvernig geta konur og stúlkur sofið rótt vitandi það að þær þurfa að leggja harðar að sér en karlmaður til þess að þær séu teknar alvarlega? Hvers vegna skiptir útlit kvensérfræðinga svona miklu máli?
Hvernig geta konur fundið hamingjuna þegar að karlmenn taka credit fyrir hugmyndir þeirra og skoðanir?
Ég veit að við viljum öll búa í samfélagi og heimi þar sem að öllum líður vel, allir hafa jöfn tækifæri og búa við öryggi og velsæld. Til þess að við náum því þá verðum við að gera enn betur í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.