Samþætta á ungt fólk á öllum vettvangi ákvarðanatöku segir aðalframkvæmdastjóri SÞ í skilaboðum í tilefni alþjóðadags æskunnar

Eftirfarandi eru skilaboð aðalframkvæmdastjóra SÞ, Antonio Guterres í tilefni alþjóðadagsins:

Í dag, 12. ágúst er haldið upp á alþjóðadag æskunnar (e. International Youth Day). Þema þessa árs “Samstaða milli kynslóða: Að skapa heim fyrir alla aldurshópa” – minnir okkur á grundvallar sannleik; við þurfum fólk á öllum aldri, unga sem aldna, til þess að taka höndum saman um að byggja upp betri heim fyrir alla.

Of oft eru aldursfordómar, hlutdrægni og mismunun sem koma í veg fyrir þetta mikilvæga samstarf. Þegar ungt fólk er útilokað frá mikilvægum ákvörðunum sem teknar eru um líf þeirra, eða þegar eldra fólki er neitað um að leyfa rödd sinni að heyrast – þá töpum við öll.

Samstaða og samvinna eru því nauðsynlegri en nokkru sinni fyrr þar sem heimur okkar stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum sem ógna sameiginlegri framtíð okkar.  Frá COVID-19 til loftslagsbreytinga, til átaka, fátæktar, ójöfnuðar og mismununar, nú þurfum við allar hendur upp á dekk til að ná heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun og byggja upp betri og friðsamlegri framtíð sem við öll sækjumst eftir.

Við þurfum að styðja ungt fólk með auknum fjárfestingum í menntun og færni uppbyggingu – þar á meðal í gegnum leiðtogafund “Transforming Education”sem fer fram í næsta mánuði í New York.  Einnig þurfum við að styðja við jafnrétti kynjanna og aukin tækifæri ungs fólks til þátttöku í borgaralegu og pólitísku lífi.

Það er ekki nóg að hlusta á ungt fólk. Við þurfum að hafa það með í allri ákvarðanatöku, bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.  Þetta er kjarninn í tillögu okkar um að koma á fót nýrri æskulýðsskrifstofu hjá Sameinuðu þjóðunum.

Eins þurfum við að tryggja að eldri kynslóðir hafi aðgang að félagslegri vernd og tækifærum til að gefa af sér til samfélagsins og deila þeirri áratuga reynslu sem þær hafa aflað sér.

Á þessum mikilvæga degi skulum við taka höndum saman, kynslóða á milli til að brjóta niður hindranir og vinna sem heild að því að ná fram sanngjarnari, réttlátari og innihaldsríkari heimi fyrir alla.

 

 

Heimild:

Integrate Young People into All Decision-Making Platforms, Secretary-General Says in Message for International Day, Spotlighting Proposal for New Youth Office | UN Press

Alþjóðadagur hafsins

Í dag er Alþjóðadagur hafsins. Hafið verður okkur úti um mat, vinnu og orku og því þurfum við að leggja okkar af mörkum til að halda hafinu heilbrigðu og hreinu. Þema alþjóðlega hafdagsins í ár er:

“Endurheimt: sameiginlegar aðgerðir í þágu hafsins”. Hafið þarf á aðstoð okkar að halda til að skapa jafnvægi á ný og til að endurheimta heilbrigði og líffræðilegan fjölbreytileika þess.

 

Kóralmyndun á Maldíveyjum. Mynd frá Sameinuðu þjóðunum/Kike Calvo

 

Vissir þú að:

  • Hafið þekur yfir 70% af yfirborði jarðar.
  • Hafið framleiðir a.m.k. 50% af súrefni jarðar.
  • Um 50% kóralrifja jarðar hafa verið eyðilögð.
  • Hafið gleypir í sig um 25% af allri losun koltvísýrings.

 

Kórallsstykki tilbúið til að mynda ný rif við Coral Vita. Mynd frá WeWork

 

Þann 27.júní verður haldin Sjávarráðstefna í Lissabon, Portúgal þar sem farið verður yfir mögulegar aðgerðir og lausnir til að takast á við þau rótgrónu vandanmál og hættur sem steðja að hafinu. Ráðstefnan verður vettvangur kynninga á vísindalegum og nýstárlegum lausnum til að vernda hafið. Auk þess verður áhersla lögð á hvernig eigi að vernda og nýta hafið og auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt. Höfuðþema ráðstefnunnar er “Betrumbætur á hafaðgerðum sem byggjast á vísindum og nýsköpun til innleiðingar á heimsmarkmiði 14: Birgðatölur, samstarf og lausnir”.

 

 

Alþjóðadagur SÞ gegn kynbundnu ofbeldi

Þann 25. Nóvember var Alþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Sá dagur markar einnig upphaf 16 daga átaks sem ætlað er að vekja athygli á því kynbundna ofbeldi sem konur og stúlkur um allan heim verða fyrir daglega. Hið alþjóðlega átak er drifið áfram af Women’s Global Leadership Institute og fjölda samtaka sem berjast fyrir réttindum kvenna og stúlkna en yfirskrift átaksins er “Orange the world: End violence against women now!”.

Heimsfaraldur ofbeldis og COVID-19

Öðruvísi heimsfaraldur geisaði fyrir COVID-19: ofbeldi gegn konum, sem hafði áhrif á að minnsta kosti 1 af 3 kvenna og stúlkna. En frá fyrstu mánuðum COVID-lokana, sáu kvennasamtök gífurlega aukningu í fjölda tilkynninga um ofbeldi gegn konum.

Nú, í nýrri skýrslu UN Women þar sem gögnum var safnað frá 13 löndum hefur alvarleiki vandans verið staðfestur. Helstu niðurstöður sýna að:

  1. Tölur eru mismunandi milli landa og svæða en í heildina hefur heimsfaraldurinn aukið reynslu kvenna á ofbeldi og minnkað öryggis tilfinningu þeirra.
  2. Ofbeldi gagnvart konur hefur gríðarlega mikil áhrif á geðheilsu þeirra.
  3. Félagslegir þættir gegna stóru hlutverki í reynslu kvenna af ofbeldi.
  4. Aldur er engin hindrun þegar kemur að ofbeldi gegn konum.
  5. Sérstaklega í aðstæðum heimilisofbeldis, leita konur síður utanaðkomandi aðstoðar.

 

Handbók fyrir fjölmiðlafólk

Í tilefni alþjóðadagsins árið 2019 gaf fastanefnd Kanada í UNESCO ásamt stuðningi frá kanadísku framkvæmdastjórninni fyrir UNESCO út útgáfu handbókarinnar “Reporting on Violence against Women and Girls: a Handbook for Journalists”.

Handbókin er hugsuð út frá ramma UNESCO sem meðal annars hefur það hlutverk að efla fjölmiðlaþróun, fjölmiðlakennslu og jafnrétti í fjölmiðlum. Handbókin er úrræði fyrir fjölmiðlafólk um allan heim sem ætluð er til þess að örva hugleiðingar um núverandi skýrslugerðir, veita upplýsingar og efla og bæta siðferðislega umfjöllun um kynbundið ofbeldi.

Blaðamennska sem þjónar almannahagsmunum er nauðsynleg í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum. Þó svo að umfjöllun hafi batnað undanfarin ár sýnir þó núverandi fréttaflutningur um kynbundið ofbeldi að enn sé langt í að hann nái að vera lýsandi í umfangi og dýpt á því sem má lýsa sem alþjóðlegum en þöglum faraldri. Of oft er ofbeldi gegn konum og stúlkum, ef yfirhöfuð er greint frá því, sett til hliðar eða talað um sem fjölskyldumál eða persónuleg mál sem ekki eigi heima í fjölmiðlum, sem grefur þá um leið undan alvarleika þess og sýnir ekki ástandið eins og það er, sem er svo sannarlega áhættumál fyrir almannahagsmuni og þarf að tala um opinberlega.

Handbókin gefur fjölmiðlafólki bæði tillögur og dæmi um góða starfshætti þegar kemur að því að fjalla um þetta mikilvæga málefni en einnig er henni ætlað að hjálpa og takast betur á við þann vanda sem blaðamenn og fjölmiðlafólk stendur frammi fyrir þegar þau greina frá kynbundnum málum.

Nú sem fyrr er málefnið enn brýnna og mikilvægi þess að fjalla um kynbundið ofbeldi gríðarlegt.

Fjölbreyttar raddir – sögur kvenna í blaðamennsku

Þetta árið, styður UNESCO útgáfu ritgerðarsafns eftir Irene Khan sem fjallar um sögur ellefu kvenblaðamanna frá tíu löndum. Sögurnar eru ætlaðar til að vekja athygli á því kynbundna ofbeldi sem kvenblaðamenn verða fyrir og varpa ljósi á nauðsyn þess að blaðamennska endurspegli fjölbreyttar raddir og hversu miklu meira milliverk þurfi að vinna til þess að takast að fullu á við áframhaldandi mismunun kvenkyns blaðamanna, sérstaklega þeirra sem eru í jaðarsettum hópum.

 

16 dagar gegn kynbundnu ofbeldi á samfélagsmiðlum

Hægt er að fylgjast með átakinu  á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #16days, twittersíðu átaksins og á heimasíðu CWGL. 

Alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis

Frelsi fjölmiðla um allan heim fer þverrandi. Á sama tíma hefur þörfin fyrir óháða, kjarkmikla og djarfa fjölmiðla sjaldan verið meiri. Blaðamennska og fjölmiðlafrelsi eru hornsteinn heilbrigðs lýðræðis. Á Alþjóðlegum degi fjölmiðlarfrelsis, 3.maí, fögnum við hugrökkum blaðamönnum sem vinna í þágu almannahagsmuna.

3.maí halda Sameinuðu þjóðirnar og Mennta-,vísinda og menningarmálastofnun SÞ (UNESCO) Alþjóðlegan dag fjölmiðlafrelsis (World Press Freedom Day). Að þessu sinni er þema dagsins ”Upplýsingar sem almannagæði.” Þetta er brýnt málefni fyrir öll ríki hvar sem þau eru í heiminum. Þetta þema er viðurkenning á samskiptakerfi sem er sífelldum breytingum undirorpið. Það hefur áhrif á heilsu okkar, mannréttindi, lýðræði og sjálfbæra þróun.

Hættulegt starf  

Þegar Blaðamenn án landamæra gáfu út síðasta lista sinn yfir fjölmiðlarfrelsi kom á daginn að fjölmiðlafrelsi er skert í 73% þeirra 180 ríkja og landsvæða sem úttektin náði til. Þar sem frelsi hefur verið skert hefur aðgangur almennings og blaðamanna að upplýsingum minnkað. Rannsóknarblaðamennsku kunna að vera mikil takmörk sett.

Ekki nóg með það heldur kunna blaðamenn að hafa týnt lífi vegna starfa sinna. Þetta er alvarleg ógnun við frelsi fjölmiðla í heiminum. Frá 1993, þegar Alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis var haldinn í fyrsta sinn, hafa 1450 blaðamenn verið drepnir að sögn UNESCO. Alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis er áminning til ríkisstjórna um að virða skuldbindingar sínar um frelsi fjölmiðla. 

Á síðastu árum hafa morðin á Jamal Khashoggi frá Sádi Arabíu og sænsku blaðakonunni Kim Wall vakið sérstaka athygli.  Jamal Khashoggi hvarf eftir að hann heimsótti sendiráð lands síns í Tyrklandi 2018. Kim Wall hvarf 2017 þega hún var að vinna að frétt um heimasmíðaðan kafbát í Danmörku. Bæði týndu þau lífi sínu við störf sín.

Það sem af er þessu ári, 2021, hefur UNESCO heimildir um 15 blaðamenn sem hafa misst líf sitt við vegna starfs síns.

Ísland fellur niður um sæti í vísitölu um fjölmiðlafrelsi

Árið 2021 féll Ísland niður um eitt sæti á lista Blaðamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi og vermir nú í sextánda sætið. Í umsögn samtakanna  um Ísland segir að samskipti fjölmiðla og stjórnmálafólks hafi farið versnandi síðustu ár. Þá hafi hrunið 2008 haft mikil áhrif á fjárhagsstöðu fjölmiðla hér á landi sem séu verr í stakk búnir til þess að takast á við þrýsting frá hagsmunaaðilum. Loks er minnst á Samherjaskjölin og viðbrögð Samherja við þeirri umfjöllun. Blaðamenn án landamæra segja Samherja hafa sett á fót ófrægingarherferð gegn fjölmiðlafólki sem fjallaði um málið. Fjölmiðlafrelsi er mest í Noregi, fimmta árið í röð. Næst á eftir koma Finnland, Svíþjóð og Danmörk.

Upplýsingar eru almannagæði

Alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsisÞema alþjóðadags fjölmiðlafrelsis snýst að þessu sinni um almannagæði. Með því er minnt á að standa þurfi vörð um mikilvægi þess að litið sé á upplýsingar sem almannagæði. Kanna ber með hvaða hætti er hægt að greiða fyrir framleiðslu, dreifingu og mótttöku efnis til þess að efla blaðamennsku.  

Fjölmiðlar og þróun fjölmiðla geta aukið tjáningarfrelsi. Slíkt er framlag til friðar, sjálfbærni, upprætingu fátæktar og mannréttinda.

Heismarkmiðin ná til fjölmiðlarfrelsis en fjallað er um það málefni í markmkiði númer 16 sem snýst um frið, réttlæti og öflugar stofnanir.   

Alþjóðlegur dagur fjöliðlafrelsisDagana 29.apríl til 3.maí halda UNESCO og ríkisstjórn Namibíu heimsráðstefnu í Windhoek. Á ráðstefnunni eru ræddar hugmyndir um hvernig er hægt að glíma við þær áskoranir sem felast í umhverfi fjölmiðla á netinu, sem og um hvernig hægt er að auka gegnsæi net-fyrirtækja, efla öryggi blaðamanna og bæta vinnuskilyrði þeirra.  

Að styðja og verja

3.maí er líka dagur umhugsunar hjá fjölmiðlafólki um fjölmiðlafrelsi og siðareglur stéttarinnar. Staðbundin blöð eru hreinlega í útrýmingarhætti og COVID-19 faraldurinn hefur bæst ofan á erfiða stöðu. Grípa þarf til aðgerða til að tryggja efnahagslega framtíð fréttamiðla.

Alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis er dagur stuðnings við fjömiðla sem eiga undir högg að sækja vegna árása á fjölmiðlafrelsi.

Alþjóða heilbrigðisdagurinn

COVID-19 Hjúkrunarfólk
Mynd: Landsspítali/Þorkell Þorkelsson

 

Að njóta heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi. Í dag, þann 7. apríl, fögnum við Alþjóða heilbrigðisdeginum. Í tilefni dagsins hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) veraldarleiðtoga til þess að tryggja þessi réttindi. Öllum ber að njóta aðgangs að grundvallar og gæða heilbrigðisþjónustu hverjir sem þeir eru og hvar sem þeir búa. Enginn ætti að þurfa að sligast undan kostnaði.

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á hversu brýnt er að öllum heimsbúum standi til boða læknismeðferð og nauðsynleg bóluefni sem gagnast samfélaginu í heild sinni.

Tryggja ber hverri einustu manneskju aðgang að góðri heilsugæslu án þess að verða fátækt að bráð.

Margir verða að borga offjár fyrir heilsuna

Langur vegur er frá því að heilbrigðisþjónusta standi öllum veraldarbúum til boða. Ein ástæða þess að margir mega þola örbirgð er sú að þeir verða að borga offjár fyrir heilsugæslu. Ekki nægir hins vegar að útvega heilbrigðisþjónustu til að ráða bót á allra brýnustu kvillum og slysum. Einnig ber að sinna forvörnum. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur veraldarleiðtoga til að standa við þau fyrirheit sem gefin voru þegar heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun voru samþykkt árið 2015. Grípa þarf til raunhæfra aðgerða og gangast undir skuldbindingar til þess að efla heilbrigði fólks hvarvetna.  

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hvetur til þess í ávarpi á Alþjóða heilbrigðisdaginn að tryggja öllum aðgang að heilbrigðisþjónustu.

“Nú þegar sér fyrir endann á COVID-19 faraldrinum ber að hrinda í framkvæmd stefnumörkun og tryggja fjármagn til þess að allir njóti sömu heilbrigðis-úrræða… Við skulum skuldbinda okkur á Alþjóða heilbrigðisdeginum að vinna saman að heilbrigðari og sanngjarnari heimi.”

Alþjóða ferskvatnsdagurinn

Ferskvatn er lífsnauðsynlegt fyrir líf okkar, heilsu og velferð. Það er nauðsynlegt vegna hreinlætis, til matargerðar- og framleiðslu. Engu að síður hafa 2.2 milljarðar manna ekki aðgang að öruggu ferskvatni. Í dag, 22. mars, fögnum við alþjóða ferskvatnsdeginum, en megináhersla hans er að stuðla að heimsmarkmiði 6: hreint vatn og hreinlætisaðstaða fyrir alla fyrir árið 2030.

Brýnt er að almenningur og stjórnendur vinni saman að því að vernda það ferskvatn sem til er í heiminum, nýti það á ábyrgan hátt og endurvinni með skilvirkum hætti. Aðgangur allra að ferskvatni er frumskilyrði þess að hægt sé að stöðva útbreiðslu heimsfaraldra, líkt og COVID-19. Jafnframt hefur aðgangur að vatni og hreinlætisaðstöðu verið viðurkenndur sem mannréttindi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Alþjóða ferskvatnsdagurinn

Þá er kastljósinu beint að vatni sem grundvelli góðs lífs og velmegunar. Ferskvatns er þörf hvarvetna, þar á meðal í landbúnaði, umhverfi, heilbrigði og viðskiptum. Ferskvatnsdagurinn á rætur að rekja til Leiðtogafundar Jarðar í Rio de Janeiro og er markmið hans að efla ábyrga nýtingu vatns.

Vernda ber vatnsból til að tryggja framgang heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og tryggja öllum jarðarbúum aðgang að hreinu og öruggu vatni. Ósjálfbær vatnsnotkun og loftslagsbreytingar eru skyld fyrirbæri og takast verður á við þau samtímis.

Nýta ber tæknilegar nýjungar og aðferðir til þess að nýta vatnsbirgðir á ábyrgan hátt, bæði með því að auka skilvirkni og endurnýta. Heimsmarkmið númer 6 leggur áherslu á vandamál við núverandi vatnsnotkun, sem og að tryggja öllum jarðarbúum aðgang að ferskvatni sem skiptir sköpum í okkar daglega lífi.

Vatnsskortur

Skortur á aðgangi að vatni skapar hættu, ekki síst í þróunarríkjum. Dag hvern deyja um það bil eitt þúsund börn vegna þess að þau fengu ekki nægt öruggt drykkjarvatn. Heilbrigði og velferð samfélaga er stefnt í hættu vegna skorts á ferskvatni. Milljónir verða að gera sér að góðu að ganga örna sinna á víðavangi.

Vatn er þýðingarmikið í því að uppræta heimsfaraldurinn sem kenndur er við COVID-19. Handþvottur er eitt þeirra ráða sem til eru, til að forðast smit. Torvelt er að uppræta faraldurinn fyrr en allir jarðarbúar hafa aðgang að hreinu vatni.

Í tilefni alþjóða ferskvatnsdagsins verður ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna kynnt þar sem tekin eru saman helstu ráð handa almenningi og þeim sem taka stefnumarkandi ákvarðanir um hverju þarf að breyta um notkun og stýringu vatnsnotkunar.

Alþjóða ferskvatnsdagurinn á samfélagsmiðlum

Hægt er að fylgjast með því hvernig haldið er upp á alþjóða ferskvatnsdaginn á twittersíðu UN Water.

Hvatt er til þess að helstu skilaboðum sé komið á framfæri undir myllumerkjunum #SafeHands og #WORLDWATERDAY.

Alþjóða ferskvatnsdagurinn tengist öðrum alþjóðlegum dögum, þar á meðal alþjóðlega klósettdeginum  en þá er beint sjónum að sómasamlegri hreinlætisaðstöðu fyrir fólk um allan heim. Þá er ástæða til að nefna alþjóðlegan baráttudag gegn eyðimerkurmyndun.

Alþjóða hamingjudagurinn

Í dag, 20. mars, fögnum við alþjóða hamingjudeginum. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert síðan 2013 til að minni á mikilvægi hamingjunnar í lífi hvers einasta einstaklings um heiminn allan. 

Það var Bútan sem bar fram ályktunina um að Sameinuðu þjóðirnar skyldu halda alþjóðlegan hamingjudag. Þetta smáríki í Himalajafjöllunum hefur barist fyrir því að hamingja þjóða sé meira virði en auður eins og hann hefur verið mældur í þjóðarframleiðslu frá því snemma á áttunda áratugnum. Í Bútan hefur verg hamingja leyst verga þjóðarframleiðslu af hólmi sem mælikvarði um framfarir.

Hamingjan er nátengd heimsmarkmiðunum, sem leitast við að binda enda á fátækt, draga úr ójöfnuði og vernda plánetuna okkar – þrír lykilþættir vellíðunar og hamingju. Í ár setjum við hamingjuna í samhengi við heimsmarkmið 3 – Heilsa og vellíðan, og heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna.

Málþing um hamingju, svefn og velsæld

Félag Sameinuðu þjóðanna, ásamt Embættis landlæknis, Forsætisráðuneytinu og Endurmenntun Háskóla Íslands stóðu að rafrænu málþingi í tilefni af alþjóðadögum um svefn (19. mars) og hamingju (20. mars). Málþingið var haldið þann 19. mars undir yfirskriftinni Hamingja, svefn og velsæld og var það tekið upp. Hægt er að horfa á málþingið hér.

Á málþinginu var hamingjan sett í samhengi við heimsmarkmið 3 – Heilsa og vellíðan, sem og fjallað var um mikilvægi svefns til að stuðla að heilsu, hamingju og vellíðan. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, opnaði málþingið þar sem hún ræddi mikilvægi þess að hugað sé að því hvernig hægt sé að auka lífsgæði og hamingju fólks. Ekki sé hægt að fylgjast aðeins með efnahagsvísum, það sé alveg jafn mikilvægt að passa upp á velsældarvísana.

Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, lagði áherslu á að velsæld væri gerð að markmiði í stefnumótun og lagt væri upp með vellíðan fyrir alla, ekki aðeins suma. Jafnframt ítrekaði hún tengsl svefns við hamingju og velsæld, sem aukast með auknum svefni þar til ráðlögðum svefni væri náð.

Hamingjan í heimi án jafnréttis

Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, var með erindi á málþinginu og lagði áherslu á tengsl hamingjunnar við heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna. Hér má lesa útdrátt úr erindi hennar í tilefni dagsins.

Ég er þeirrar skoðunar að sjálfbær þróun sé leiðin að hamingjunni. Farsæl samfélög þar sem að íbúar búa við velsæld og öryggi, mannréttindi eru virt og dregið hefur úr mengun geta bara orðið til með sjálfbærri þróun. En hvað er sjálfbær þróun? Sjálfbær þróun er þróun sem mætir nútíma þörfum án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á því að mæta þörfum sínum. Slík þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld til langs tíma fyrir alla jarðarbúa

Já hamingjan er ekki mæld með hagvísum. Verg þjóðarframleiðsla segir ekkert um hamingju þjóðar. Það er ekki hægt að kaupa hamingjuna – eða jú, ríki geta fjárfest í hamingju íbúa sinna með því að fjármagna verkefni sem ýta undir og stuðla að sjálfbærri þróun.

Grunn þörfum okkar þarf að vera mætt og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru einmitt til þess fallin að mæta grunnþörfum allra jarðarbúa, auka jöfnuð, útrýma fátækt og hungri, efla mannréttindi, tryggja aðgengi að góðri menntun og atvinnutækifærum, efla heilsu fólks – bæði líkamlega og andlega – og vernda náttúruna, draga úr sóun og losun koldíoxíðs.

Mig langar að taka heimsmarkmið 5 fyrir sérstaklega og tengja það við hamingju, svefn og vellíðan. Nú stendur yfir 65. Fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem staða kvenna er rædd. Mikil áhersla er á versnandi stöðu kvenna í heiminum í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 og er það áhyggjuefni að staða kvenna fer versnandi en ekki batnandi. Það er nefnilega ekki hægt að ná heimsmarkmiðunum nema með því að uppfylla heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna.

COVID-19 er að steypa æ fleirum í sárafátækt og eru áhrifin einna mest á konur. Það er áætlað að á þessu ári búi um 435 milljón kvenna og stúlkna við sárafátækt og 47 milljónir af þeim séu í þeirri aðstöðu vegna COVID-19.  

Konur eru 27% líklegri en karlmenn til þess að búa við alvarlegt mataróöryggi. Það er áætlað að þetta bil breikki vegna COVID-19.

Konur í heilbrigðisþjónustu eru í framlínunni í baráttunni við COVID-19 og eru því í aukinni hættu á að smitast. Í þeim ríkjum þar sem gögn eru aðgengileg um COVID-19 smit á meðal heilbrigðisstarfsfólks eru 72% smitaðra konur.

Skólalokanir eru líklegar til þess að auka kynjabilið þegar kemur að menntun. 11 milljónir stúlkna á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi eiga á hættu að snúa ekki aftur til náms.

Það er áætlað að 243 milljónir kvenna og stúlkna hafi orðið fyrir kynferðislegu og/eða líkamlegu ofbeldi að hálfu maka á síðasta ári.

Að minnsta kosti 200 milljónir kvenna hafa orðið fyrir limlestingu kynfæra samkvæmt gögnum frá 31 ríki þar sem að þessi hefð viðgengst.

1 af hverjum 5  konum á aldrinum 20-24 ára voru giftar í barnæsku. Tíðni Barnahjónabanda og limlesting kynfæra kvenna var á niðurleið fyrir heimsfaraldurinn en efnahagslegar afleiðingar og truflanir á skólastarfi geta snúið þeirri þróun við.

Konur eyða 3x fleiri klukkustundum en karlmenn á dag við ólaunuð störf og heimilisstörf. COVID-19 eykur álagið á konur enn frekar.

1 af hverjum 4 þingsætum í heiminum eru í höndum kvenna.

Samkvæmt gögnum frá 57 ríkjum þá segja 3 af hverjum 4 konum þær taka ákvarðanir um eigin heilsu og hvort þær stundi kynlíf eða ekki.

72% fólks sem gegnir heimilisstörfum / heimilishjálp, meiri hluti þeirra konur, hafa misst vinnuna eða vinnustundum þeirra hefur fækkað vegna COVID-19.

Konur og stúlkur bera megin þungan af auknum hamförum af völdum loftslagsbreytinga en eru sjaldnast í aðstöðu til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – COP 25 – aðeins 21% sendinefnda voru leiddar af konum.

Í þeim ríkjum þar sem konur leiða ríkisstjórn eru staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 allt að 6 sinnum færri. Sömuleiðis þá hefur aðkoma kvenna í friðarviðræðum verið grundvöllur langvarandi samninga. Þrátt fyrir það, á árunum 1992-2009 voru konur aðeins 6% sáttasemjara og undirskriftaraðila og 13% samningarmanna í friðarferlum.

Ég spyr: hvernig eiga konur og stúlkur að sofa vært á nóttunni?

Hvernig geta konur og stúlkur fundið hamingjuna þegar að þær búa í stöðugum ótta um líkamlegt öryggi sitt?

Hvernig geta konur sofið rótt vitandi það að karlmaður í sama starfi fær hærri laun en hún?

Hvernig geta konur og stúlkur sofið rótt vitandi það að ef þeim er nauðgað er líklegt að gerandinn fái væga refsingu ef einhverja? Já eða refsing felld niður á æðra dómsstigi!

Hvernig geta konur og stúlkur sofið rótt vitandi það að þær þurfa að leggja harðar að sér en karlmaður til þess að þær séu teknar alvarlega? Hvers vegna skiptir útlit kvensérfræðinga svona miklu máli?

Hvernig geta konur fundið hamingjuna þegar að karlmenn taka credit fyrir hugmyndir þeirra og skoðanir?

Ég veit að við viljum öll búa í samfélagi og heimi þar sem að öllum líður vel, allir hafa jöfn tækifæri og búa við öryggi og velsæld. Til þess að við náum því þá verðum við að gera enn betur í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.

Kreppan hefur konuandlit

Ræða António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna.

 

António Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna birti mánudaginn 8. mars jafnframt grein í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna í fjölmörgum dagblöðum heims, þar á meðal í Morgunblaðinu.

Greinin fer hér á eftir í heild.

Kreppan hefur konuandlit

-eftir António Guterres aðalritara Sameinuðu þjóðanna

Haldið er upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna í miðjum heimsfaraldri. Segja má að COVID-19 kreppan hafi konuandlit.

Faraldurinn hefur aukið á þrálátan og djúpstæðan ójöfnuð sem konur og stúlkur glíma við. Hann hefur þurrkað út árangur sem náðst hefur á mörgum árum í átt til jafnréttis kynjanna.

Konur eru líklegri til að vinna í þeim greinum sem harðast hafa orðið úti í faraldrinum. Konur eru fjölmennastar í framlínustörfum. Margar þeirra tilheyra hópum sem eru jaðarsettir sökum kynþáttar eða uppruna og eru neðstir í efnahagslegri goggunarröð.

Ógreidd umönnun aukist

Alþjóðlegur dagur kvenna

Konur eru 24% líklegri til að missa vinnuna og verða fyrir tekjuhruni. Kynbundinn launamunur sem var verulegur fyrir, hefur enn aukist, þar á meðal í heilbrigðisgeiranum.

Ógreidd umönnun hefur aukist verulega vegna fyrirskipana um að halda sig heima og lokun skóla og barnagæslu. Milljónir stúlkna munu kannski aldrei snúa aftur í skóla. Mæður, sérstaklega einstæðar, hafa mátt þola skelfilegt andstreymi og kvíða.

Faraldurinn hefur verið olía á eld samhliða faraldurs kynbundins ofbeldis. Mikill vöxtur hefur hlaupið í heimilisofbeldi, mansal, kynferðislega minsotkun og barnahjónabönd.

Konur vinna – karlar ákveða

Jafnvel þótt konur séu meirihluti heilbrigðisstarfsmanna bendir nýleg rannsókn til að aðeins 3.5% COVID-19 átakshópa séu jafnt skipaðir konum og körlum. Í heimsfréttum af faraldrinum er aðeins fimmti hver sérfræðingur sem vitnað er til kvenkyns.

Öll slík útilokun felur í sér neyðarástand. Þörf er á alheims-átaki til að koma konum í forystu og tryggja jafna þátttöku. Og það er ljóst að slíkt átak kæmi öllum til góða.

Þar sem konur eru í forystu

Guterres Konur
María Fernanda Espinosa Garcés forseti 73. allsherjarþings SÞ, Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Paula-Mae Weekes, forseti Trínídad og Tobago á fundi um konur í forystu á vegum SÞ.

Viðnámið við COVID-19 hefur sýnt fram á afl og skilvirkni kvenna þar sem þær eru í forystu. Síðastliðið ár hefur tíðni smita verið minni í ríkjum sem stýrt er af konum og þau eru oft betur í stakk búin til að takast á við endurreisnarstarf.

Kvennasamtök hafa víða hlaupið í skarðið þar sem skortur hefur verið á þýðingarmikilli þjónustu og upplýsingum.

Hvarvetna þar sem konur hafa stýrt ríkisstjórnum hefur verið fjárfest meira í félagslegri vernd og baráttu gegn fátækt. Þar sem konur sitja á þingi, hafa ríki samþykkt ákveðnari aðgerðir í loftslagmálum. Þar sem konur eiga sæti við samningaborðið í friðarviðræðum er friður varanlegri.

Engu að síður eru konur aðeins fjórðungur þingmanna á löggjafarþingum í heiminum, þriðjungur sveitarstjórnarmanna og fimmtungur ráðherra. Miðað við núverandi þróun næst jöfnuður á þjóðþingum fyrir 2063. Taka mun heila öld að jafna stöðuna í forystu ríkisstjórna.

Jafnrétti í forystu Sameinuðu þjóðanna

Alþjóðlegur dagur kvenna
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Takast verður á við þetta ójafnvægi til að bæta framtíðina. Konur hafa jafnan rétt til að tala af ábyrgð um þær ákvarðanir sem snerta líf þeirra. Ég er stoltur af því að segja frá því að jafn margar konur og karlar eru í forystusveit Sameinuðu þjóðanna.

Endurreisnin að loknum faraldrinum gefur okkur tækifæri til að marka nýja og jafnari braut. Stuðnings- og hvata-áætlunum ber að beinast sérstaklega að konum og stúlkum, þar á meðal með því að auka fjárfestingu í innviðum umönnunar. Formlega hagkerfið virkar eingöngu vegna þess að það er niðurgreitt í krafti ógreiddrar vinnu kvenna við umönnun.

Eftir því sem við réttum úr kútnum eftir kreppuna, ber okkur að feta okkur áfram í átt til grænnri og óbrotgjarnari framtíð fyrir alla. Ég hvet alla leitðoga til að huga að sex grundvallaratriðum:

Sex forgangsatriði

Alþjóðlegur dagur kvenna
António Guterres

Í fyrsta lagi að tryggja jöfnuð kynjanna hvort heldur sem er í stjórnum fyrirtækja eða á þjóðþingum, í æðri menntun eða opinberri stjórnsýslu með sérstökum aðgerðum og kvótum.

Í öðru lagi að fjárfesta umtalsvert í umönnun og félagslegri vernd. Endurskoða ber útreikning þjóðarframleiðslu með það í huga að heimilisstörf verði sýnileg og tekin með í reikninginn.

Í þriðja lagi að fjarlægja hindranir fyrir fullri þátttöku kvenna í efnahagslífinu. Ryðja þarf hindrunum úr vegi fyrir aðgangi að vinnumarkaði, tryggja fullan eignarrétt og greiða fyrir sérstökum lánum og fjárfestingum.

Í fjórða lagi ber að fella úr gildi löggjöf sem felur í sér mismunun. Þetta á við um atvinnuréttindi, réttindi til landareignar, persónulega stöðu og vernd gegn ofbeldi.

Í fimmta lagi ber hverju ríki að hrinda í framkvæmd neyðaráætlun til að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum með fjármögnun, stefnumörkun og pólitískum vilja til að benda enda á þennan ófögnuð.

Í sjötta lagi þarf að breyta hugarfari, vekja almenning til vitundar og skora á hólm kerfisbundna fordóma.

Veröldin hefur tækifæri til að snúa baki við kynslóðagamalli, djúpstæðri og kerfisbundinni mismunun. Það er kominn tími til að byggja upp framtíð á grunni jafnréttis.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Í dag, 8. mars, höldum við upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna. Dagurinn er tækifæri til að líta í bakspegilinn og fagna þeim framförum sem hafa orðið, til að kalla eftir breytingum og fagna hugrekki og festu kvenna, sem gengt hafa ómetanlegu hlutverki í sögu landa sinna og samfélaga.

Heimurinn hefur náð fordæmalausum framförum en þó hefur ekkert land náð jafnrétti kynjanna. Fyrir 50 árum lentum við á tunglinu; á seinustu 10 árum höfum við uppgötvað nýja forfeður manna og myndað svarthol í fyrsta skipti. Í millitíðinni hafa lagalegar takmarkanir komið í veg fyrir að 2,7 milljarðar kvenna hafi aðgang að sama starfsvali og karlar. Innan við 25 prósent þingmanna voru konur, frá og með 2019. Enn verður þriðja hver kona fyrir kynbundnu ofbeldi. Þessu þarf að breyta. Tryggja verður jafnrétti kynjanna og efla þarf völd allra kvenna og stúlkna fyrir 2030, líkt og heimsmarkmið 5 segir til um.

illustration of women and a man making their voices heard

Í ár beinist þema alþjóðlegs baráttudags kvenna sjónum sínum að konum í forystu í heimi COVID-19. Faraldurinn hefur valdið djúpri efnahagskreppu og miklum félagslegum áhrifum. Undanfarið ár hefur sýnt okkur og sannað mikilvægi þess að veita konum vald til jafns við karlmenn og umboð til fullrar þátttöku í stjórnmálum og við ákvarðanatökur. Það hefur sýnt sig að þar sem konur eru æðstu valdhafar eru öflugar viðbragðsáætlanir við heimsfaraldrinum.

Í úttekt UN Women sem gerð var í 87 löndum varðandi forystu og þátttöku kvenna við ákvarðanatökur í viðbrögðum við COVID-19 kom í ljós að í aðeins 3,5% ríkjanna mældist kynjajöfnuður við ákvarðanatökur. Skýtur það skökku við þar sem faraldurinn hefur haft gríðarlega ólíkar afleiðingar eftir kyni. Ný greining félagsins Femínísk fjármál á efnahagsaðgerðum íslenskra stjórnvalda í COVID-19 gefur til kynna að konur, þar af mikill fjöldi erlendra kvenna, sem störfuðu í ferðaþjónustu og tengdum þjónustugreinum séu meðal þeirra sem hafa orðið fyrir hvað verst úti fjárhagslega og að úrræði stórnvalda hafi ekki náð til þessara hópa til jafns við aðra. Rannsóknir sýna einnig að faraldurinn muni þrýsta 47 milljónum kvenna og stúlkna til viðbótar í sárafátækt svo í heildina munu 435 milljónir kvenna og stúlkna lifa í sárafátækt 2021, þ.e. 13% kvenþjóðar heimsins.

Er 13% réttlæti nóg?

Í aðdraganda alþjóðlegs baráttudags kvenna myndar kvennahreyfingin á Íslandi breiða samstöðu og hafnar meðferð réttarkerfisins á konum sem eru beittar ofbeldi og krefst úrbóta. UN Women á Íslandi er hluti af kvennahreyfingunni og sýnir Stígamót samstöðu sem hefur sent níu tilkynnt kynferðisbrotamál til Mannréttindadómstóls Evrópu sem ekki hlutu hljómgrunn hér á landi til að undirstrika þann kerfisbundna vanda sem blasir við innan réttarkerfisins. Kröfur kvennahreyfingarnar verða settar fram á blaðamannafundi sem hefst kl. 10.15 8.mars. Þetta myndband sýnir á myndrænan hátt að sakfelling næst aðeins í 13% kynferðisbrotamála sem tilkynnt er um hér á landi.

Opnunarbjöllu Kauphallar hringt fyrir jafnrétti

Dagskrá hefst kl.9.15 mánudaginn 8. mars í Hörpu. Kauphöllin í samstarfi við UN Women á Íslandi, Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Samtök atvinnulífsins (tengiliður UN Global Compact), tekur nú í fjórða sinn þátt í sameiginlegum viðburði UN Women um að hringja bjöllu fyrir jafnrétti í yfir 90 löndum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er heiðursgestur og hringir bjöllunni í árSjá streymi hér

Krafist er að konum sé trúað og tekið sé mið af röddum kvenna á öllum sviðum samfélagsins.

United Nations Observance of International Women’s Day 2021

Alþjóðastofnun UN Women fagnar deginum m.a. með athöfn sem streymt verður á netinu. Meðal gesta eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og António Guterrers aðalritari Sameinuðu þjóðanna sem verða bæði með erindi. Áhersla er lögð á þema alþjóðlegs baráttudags kvenna í ár, konum í forystu og jafnrétti í heimi COVID-19.

Hægt er að fylgjast með viðburðinum hér frá kl. 15:00-17:30 mánudaginn 8. mars.

Alþjóða móðurmálsdagurinn

21.febrúar fagnar UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, og við öll alþjóða móðurmálsdeginum. Dagurinn hefur verið haldinn árlega frá árinu 2000 til að stuðla að fjölbreytni í tungumálum, menningu og fjöltyngi. 

Aukin vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi tungumála þegar kemur að þróun sjálfbærra samfélaga. Mikilvægt að tryggja menningarlegan fjölbreytileika sem og að efla samstarf til að tryggja að allir hafi aðgang að góðri menntun.

Þema alþjóða móðurmálsdagsins 2021 er „að hlúa að fjöltyngi til að stuðla að auknum þátttökumöguleikum allra einstaklinga í bæði námi og samfélagi.” Áhersla á tungumál og fjöltyngi getur ýtt undir nám án aðgreiningar og stuðlað að framþróun í áherslu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, að skilja engan eftir. UNESCO telur að menntun, sem byggð er á móðurmáli, verði að hefjast strax í bernsku þar sem fyrstu námsárin byggja upp grunn fyrir áframhaldandi námi.

Audrey Azoulay, framkvæmdastjóri UNESCO, í tilefni alþjóða móðurmálsdagsins:

„Þema dagsins í ár „að hlúa að fjöltyngi til að stuðla að auknum þátttökumöguleikum allra einstaklinga í bæði námi og samfélagi”, hvetur okkur til að styðja við fjöltyngi og notkun móðurmáls, bæði í skóla og í daglegu lífi. Þetta er grundvallaratriði, því þegar 40% íbúa heims hafa ekki aðgang að menntun á því tungumáli sem þeir tala eða skilja best, þá hindrar það nám þeirra sem og aðgang að menningarlegri arfleið sinni og tjáningu. Í ár hugum við sérstaklega að fjöltyngdri menntun frá bernsku, svo öll börn geti notið góðs af móðurmáli sínu.”

Hægt er að fræðast meira um alþjóða móðurmálsdaginn á vef UNESCO.