Félag SÞ stýrir vinnu samráðsvettvangs félagasamtaka í landrýniskýrslu Íslands um heimsmarkmið SÞ

Þann 11. janúar síðastliðinn fór fram kynningarfundur um samráðsvettvang félagasamtaka um stöðu innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Árið 2019 skiluðu íslensk stjórnvöld síðast VNR landrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) til Sameinuðu þjóðanna varðandi innleiðingu markmiðanna á Íslandi, en þetta árið munu frjáls félagasamtök fá að taka þátt við gerð skýrslunnar. Þannig munu íslensk félagasamtök veita íslenskum stjórnvöldum aðhald, með aðkomu sinni, áliti og ráðleggingum með svokallaðri úttekt borgarasamfélagsins (e. Civil Society Assessment).

Í skýrslunni munu íslensk stjórnvöld gera grein fyrir aðgerðum Íslands í þágu markmiðanna og stöðu innleiðingar þeirra hér á landi. Á svipaðan hátt munu frjáls félagasamstök  vinna saman að sameiginlegu mati á stöðu og innleiðingu markmiðanna í íslensku samfélagi. Aðkoma borgarasamfélagsins að skýrslunni til Sameinuðu þjóðanna kallast Civil Society Assessment og mun Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stýra þeirri vinnu sem felst í því að skapa samráðsvettvang þar sem ólík frjáls félagasamtök (og hagaðilar) munu skrifa texta um stöðu Íslands gagnvart hverju heimsmarkmiði fyrir skýrsluna. Skýrsla Íslands mun verða kynnt á ráðherrafundi (e. High Level Political Forum) í New York í júlí á þessu ári.

Tæplega 50 félagasamtök mættu á kynningarfundinn í Safnahúsinu þann 11. janúar, en alls munu hátt í 70-80 félagasamtök koma að verkefninu sem nú þegar er hafið en fyrstu vinnuhóparnir hittust í vikunni á rafrænum fundi.

Vala Karen, framkvæmdastjóri FSÞ og Eva Harðar stjórnarmeðlimur kynntu samráðsvettvanginn og vinnuna fram undan fyrir samtökunum ásamt Ástu, sérfræðingi frá skrifstofu stefnumála innan Forsætisráðuneytisins sem er það ráðuneyti sem er í forgrunni fyrir heimsmarkmið SÞ.

High Level Political Forum hófst í dag í New York

Fundur HLPF (e. High – Level Political Forum) hófst í morgun í New York. Fundurinn er undir merkjum Efnahags- og Félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna dagana 5-7. Júlí, 11-15. Júlí og mun svo ljúka formlega mánudaginn 18. Júlí. 

HLPF er miðlægur vettvangur Sameinuðu þjóðanna fyrir eftirfylgni og endurskoðun á 2030 stefnuyfirlýsingunni um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun á heimsvísu, en þau gilda til ársins 2030.

Allsherjarþingið ákvað í ályktun sinni 67/290 að vettvangurinn hittist árlega á vegum Efnahags- og Félagsmálaráðsins í átta daga, þar af þriggja daga ráðherra lotu og á fjögurra ára fresti á vettvangi þjóðhöfðingja og ríkisstjórna skv. á vegum Allsherjarþings í tvo daga. 

Yfirskrift fundarins að þessu sinni er “Building back better from the coronavirus disease (COVID-19) while advancing the full implementation of the 2030 Agenda for Sustainable Development” og snýr að þeim áhrifum sem Covid – 19 hefur haft á heimsbyggðina og hvernig hægt sé að samþætta og tvinna uppbyggingarstarfið við heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun. 

Þannig mun HLPF endurskoða ítarleg markmið um sjálfbæra þróun númer 4 um gæði menntunar, 5. markmið um jafnrétti kynjanna, 14. markmið um líf neðansjávar, 15. markmið um líf á landi og 17.markmið um samstarf um markmiðin. Endurskoðun markmiðanna  mun svo taka tillit til mismunandi áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins á heimsmarkmiðin.

Í ár munu 44 ríki gefa út svokallaða VNR skýrslu (e. Voluntary National Review) en hún gefur innsýn í stöðu ríkjanna er varðar heimsmarkmiðin. Á næsta ári mun Ísland gefa næst út slíka skýrslu, en hún var síðast gefin út árið 2019. Það verður áhugavert að sjá árangurinn milli ára þegar þar að kemur fyrir Ísland.

Fyrir áhugasama má hér lesa síðustu VNR skýrslu Íslands frá árinu 2019

Vika tískubyltingarinnar – sjálfbærni og tískuiðnaðurinn

Þessa viku, vikuna 19.-25. apríl fer fram Vika tískubyltingar (e. Fashion Revolution Week) sem hefur það að markmiði að bæta tískuheiminn og gera hann sjálfbærari. Tískubyltingarvikan er haldinn ár hvert í kringum daginn sem að Rana Plaza verksmiðjan hrundi og olli dauða 1.138 manns þann 24. apríl 2013.

Í ár er áhersla vikunnar á mannréttindi og réttindi náttúrunnar. Markmiðið er að sýna fram á tengsl mannréttinda og réttinda náttúrunnar. Tískuiðnaðurinn hefur í gegnum tíðina brotið á mannréttindum fólks sem starfar í aðfangakeðjunni. Það hafa flestir heyrt um slæma vinnuaðstöðu þeirra sem sauma flíkurnar og bágborin kjör þeirra. Sem betur fer er aukin vitundarvakning og ákall neytenda farin að hafa áhrif á aðbúnað verkafólks í textíl- og fataiðnaðinum. Tískuiðnaðurinn hefur einnig mikil áhrif á umhverfið og náttúruna.

 • Framleiðsla á fatnaði og skóm á 10% hlut í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Það er meira samanlagður hlutur flug- og skipaumferðar.
 • Árlega henda Evrópubúar um 11 kílóum af fatnaði á mann í ruslið í stað þess að gefa.
 • Þvottur gerviefna sendir 0,5 milljón tonn af örplasti í sjóinn. Það er 35% af því örplasti sem losnað hefur út í umhverfið.
 • Árið 2015 notaði textíl- og fataiðnaðurinn 79 milljarða rúmmetra af vatni.
 • 700 lítrar af vatni eru notaðir við framleiðslu á einum stuttermabol. Það er jafnt á við það magn af vatni sem að einstaklingur drekkur á tveimur og hálfu ári.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið þátt í verkefnum sem ýta undir aukna sjálfbærni í tískuiðnaðinum með því að fá fyrirtæki í tískuiðnaðinum til þess að innleiða heimsmarkmiðin í starfsemi sína. Einnig með því að auka vitund fólks á áhrif tískuiðnaðarins á sjálfbæra þróun.

Þau heimsmarkmið sem tengjast einna helst inn í tískuiðnaðinn eru:

 • Heimsmarkmið 4: menntun fyrir alla
 • Heimsmarkmið 8: góð atvinna og hagvöxtur
 • Heimsmarkmið 9: nýsköpun og uppbygging
 • Heimsmarkmið 12: sjálfbær neysla og framleiðsla
 • Heimsmarkmið 13: aðgerðir í loftslagsmálum
 • Heimsmarkmið 14: líf í vatni
 • Heimsmarkmið 15: líf á landi
 • Heimsmarkmið 16: friður og réttlæti
 • Heimsmarkmið 17: samvinna um markmiðin

Fyrir okkur sem eru neytendur er mikilvægt að vera meðvituð um hvaðan fötin okkar koma, hver framleiðir? Úr hvernig efnum eru fötin (lífræn, gerviefni, endurunnin)? Þarf ég að kaupa ný? Vantar mig þetta? Er hægt að gera við flíkina?

Aðstandendur Tískubyltingarvikunnar taka saman gagnlegar upplýsingar fyrir alla hagsmunaaðila, frá neytendum til framleiðanda. Þá gefa þau út skýrslu með niðurstöðum úttektar á helstu tískufyrirtækjunum og söluaðilum þar sem mat er lagt á gagnsæi aðfangakeðjunnar. Hægt er að nálgast nýjustu skýrsluna hér. Á heimasíðunni þeirra er einnig að finna námsefni fyrir kennara.

Við þurfum einnig að tryggja að fötin okkar endi ekki í ruslinu, heldur að þau séu gefin áfram eða endurunninn. Rauði Krossinn á Íslandi tekur við öllum fötum og sendir annað hvort í endurvinnslu, gefur til þeirra sem á þurfa að halda eða selja á fatamarkaðinum sínum.

 

9. þáttur af Hvað getum við gert? sem sýndur var 12. apríl á RÚV fjallar um áhrif hraðtísku og offramleiðslu fatnaðar á umhverfið. Hægt verður að horfa á þáttinn og þáttaröðina í heild á www.hvadgetumvidgert.is

Allt okkar framlag, hversu smátt sem það er, í þágu sjálfbærni skiptir máli. Við erum öll heimsmarkmiðaverðir!

 

 

 

Heimildir og ítarefni:

https://www.europarl.europa.eu/news/en/headlines/society/20201208STO93327/the-impact-of-textile-production-and-waste-on-the-environment-infographic

Heimasíða Fashion Revolution Week: https://www.fashionrevolution.org/

https://sustainabledevelopment.un.org/partnership/?p=28041

Frítt námskeið í gegnum netið um framtíð tískuheimsins og heimsmarkmiðin: https://www.futurelearn.com/courses/fashion-s-future-and-the-un-sustainable-development-goals-

www.hvadgetumvidgert.is