Nýlega hefur Brasilíska ríkisstjórnin útnefnt tvö ný vernduð hafsvæði í kringum landið. Um er að ræða mikilvægt framtak og jákvætt skref í baráttunni fyrir verndun hafsins og lífríkis þess. Frá þessu er sagt á vef Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna eða UN Environment Programme. Nýja löggjöfin mun auka hlutfall verndaðra hafsvæða í kringum Brasilíu úr 1,5% í 24,5% og er landið þannig komið með ákveðið forskot en samningur Sameinuðu þjóðanna varðandi lífræðilega fjölbreytni ráðleggur aðildarríkjum að vernda 10% prósent af þeim haf- og strandsvæðum sem þeim tilheyra fyrir árið 2020. Er vonað að þetta jákvæða fumkvæði ríkisstjórnar Brasilíu og forskot á önnur þjóðríki verði fordæmi og veiti þeim innblástur til að gera slíkt hið sama. Erik Solheim, framkvæmdastjóri stofnunarinnar og aðstoðar aðalritari Sameinuðu þjóðanna tilkynnti þetta á áttundu vatnsráðstefnunni en hún var haldin á Alheimsdegi vatnsins, þann 23. mars síðastliðinn í Brasilíuborg.
Þessum umræddu svæðum mun vera stjórnað af hvort tveggja ráðuneyti umhverfismála og ráðuneyti varnarmála þar í landi en það þykir nýstárleg leið til að verndunar svæða og eitthvað sem önnur þjóðríki gætu því einnig skoðað sem valkost. Sjóherinn hefur, að auki, spilað sögulegt hlutverk í verndun eyja á svæðinu og mun halda sinni viðveru.
Denise Hamú, fulltrúi stofnunarinnar í Brasilíu, sagði ennfremur „höfin veita okkur næringu, koma reglu á loftslagið og framleiða mest af því súrefni sem við öndum að okkur. Samt sem áður séu þau í síaukinni hættu. Það að vernda þessi svæði veiti ávinning af vistfræðilegum, félagslegum og efnahagslegum toga og er eitt það besta sem við getum gert til að viðhalds hafs“. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðana hefur gefið það út að ef við grípum ekki til aðgerða hið fyrsta verði í hafinu meira plast en fiskur árið 2050 með tilheyrandi afleiðingum fyrir hafið, lífverur þess sem og líf á jörðinni. Jafnvægi undir vatni er ekki síður mikilvægt en uppi á yfirborðinu. Ójafnvægið sem ríkir undir sjávarmáli kemur okkur þó oftast síður fyrir sjónir.
Kóralrif hafsins verða á hverju ári fyrir meiri áhrifum plastnotkunar mannfólksins en þó þau hylji einungis 0,1 prósent af flatarmáli sjávar eru þau heimkynni 25 prósent alls lífs í höfunum. Kóralrifin eru náttúrulegir varnarveggir gegn hækkun sjávarmáls og 275 milljónir manna reiða sig á þau til lífsviðurværis. Á síðustu 30 árum höfum við séð 50% kóralrifa jarðarinnar hverfa vegna hækkkunar hitastigs í sjónum, sem orsakast aðallega af athöfnum mannfóksins. Rannsóknir hafa sýnt fram á, í auknum mæli, að kóralrifjunum steðjar mikil hætta af plasti en átta milljón tonn af plasti enda á hverju ári í sjónum og plast hefur þann eiginleika að eyðast ekki sjálfkrafa.
Ruslið sem safnast fyrir í höfum jarðarinnar hefur áhrif á vistkerfi, kjörlendi og líffræðilega fjölbreytni sjávar og kemur í mismunandi stærðum og gerðum. Plast er með skæðari úrgangi sem skilar sér út í sjóinn, vegna magns og eiginleika plastsins sem gerir því kleift að safnast hratt upp. Áhrif þessa bitna helst á lífríki sjávar og jarðar, vistkerfum og lífvæni en einnig til að mynda á þeim atvinnugreinum sem stundaðar eru á, í og við sjóinn líkt og fiskveiðum, ferðaþjónustu og vöruflutningum sem oft eiga einnig þar sök að máli. Herferðinni #CleanSeas var ýtt úr vör að Umhverfisstofnuninni til að minnka mengun sjávar og hvetja þjóðríki, hópa fólks og einstaklinga til þess að grípa til aðgerða en í desember 2017 höfðu einungis 40 lönd gengið til liðs við herferðina.
„Veittu því athygli sem er jákvætt” sagði Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í einlægu ávarpi á málþingi um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Heilsueflandi samfélagi þar sem hún deildi sinni sýn á hamingjunni.
Málþingið var haldið 20. mars sl. í tilefni alþjóðlega hamingjudagins og kynnti Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félag Sameinuðu þjóðanna, störf félagins en það leggur áherslu á margvísleg verkefni til aukinnar almannavitundar, fræðslu- og samfélagsumræðu um Sameinuðu þjóðirnar og þróunarmál.
„Ábyrgðin er ekki einungis á höndum stjórnvalda heldur berum við líka ábyrgð sem einstaklingar á Heimsmarkmiðunum og í dag eru þið að taka þetta skref í þágu Heimsmarkmiðanna” sagði Vera áður en hún taldi upp ýmis atriði sem ber að hafa í huga þegar kemur að sjálfbærni til að mynda að draga úr matarsóun, flokkun plasts, val á vistvænum ferðamáta, mikilvægi þess að nýta kosningaréttinn og taka þannig þátt í stefnumótun samfélagins. „Ég trúi því að með því að uppfylla heimsmarkmiðin þá verða lífsgæði okkar allra mun betri en þau eru í dag, kjarni þeirra er nefnilega að búa til samfélag þar sem allir fá að njóta sín og nýta hæfileika sína, samfélag sem ber virðingu fyrir náttúrunni svo við fáum að njóta fegurðarinnar og þeirra afurða sem hún hefur að gefa. Ég tel að í raun eru Heimsmarkmiðin uppskriftin að hamingjunni” bætti Vera við.
Megin áhersla málþingins var hvernig ríkið og sveitarfélög geta unnið markvisst að Heimsmarkmiðunum en Ásta Bjarnadóttir, frá verkefnisstjórn Stjórnarráðsins um Heimsmarkmiðin, kynnti vinnu stjórnvalda og hvernig þau tengja sína starfsemi við Heimsmarkmiðin. Helsta hlutverk verkefnastjórnarinnar er að greina, innleiða og kynna markmiðin. Þau hafa nú þegar tekið stöðu á öllum undirmarkmiðunum og mun stöðuskýrsla sem inniheldur niðurstöður þeirrar vinnu verða birt fljótlega ásamt tillögum að forgangsmarkmiðum. Stór hluti af vinnunni er alþjóðasamstarf en Ísland mun kynna sína vinnu að Heimsmarkmiðunum á næsta ári á árlegi ráðstefnu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
„Alþjóðlegar stefnumótanir ásamt Heimsmarkmiðunum geta verið frábær, en þegar uppi er staðið skiptir það mestu máli hvað er að gerast í daglega lífi fólks“ sagði Dr. Kai Ruggeri, lektor við Columbia University Mailman School of Public Health og yfirmaður stefnumótandi rannsókna við University of Cambridge. Í rannsóknum sínum hefur hann fjallað um hversu mikilvæg vellíðan er í stefnumótun ásamt áhrifum markmiðasetningu á komandi áhrif og framfarir. Dr. Ruggeri hefur mikið skoðað hvaða mælikvarða er hægt að nota við mælingu á vellíðan einstaklinga. Áður fyrr var talið að verg þjóðarframleiðsla og vellíðan haldist í hendur en önnur var raunin. Hann lagði áherslu á að skoða hvað aukin vellíðan gefur okkur í stað þess að einblína einungis á hvaða þættir hafa áhrif á vellíðan. Líður okkur betur ef við stöndum okkur betur í vinnu eða námi eða gerir aukin vellíðan það að verkum að við stöndum okkur vel?
Embætti landlæknis ber ábyrgð á heilsueflingu og forvarnastarfi þar sem unnið er heildstætt með helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Birgir Jakobsson, landlæknir, fjallaði um Heilsueflandi samfélag (HSAM) og lærdóm þess verkefnis sem landlæknir. Birgir vitnaði í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina þegar hann minnti á að heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku. Embætti landlæknis leggur ýmislegt til við vinnu Heilsueflandi samfélaga til dæmis ráðgjöf, stuðning, fræðslusefni ásamt því að standa fyrir vinnustofum og námskeiðum. Þá gefur embættið gefur út lýðheilsuvísi eftir heilbrigiðsumdæmum til þess að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðu svæðis, finna styrkleika og veikleika hvers svæðis og skilja þannig betur þarfir íbúa. Birgir sagði mikilvægt að átta sig á að ávinningur Heilsueflandi samfélags væri bæði fyrir almenning og þá sem stýra sveitarfélögunum. Í dag er um 75% landsmanna hluti af HSAM og er hlutverk embættisins að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.
Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis og kennslustjóri diplómanáms í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun HÍ, kynnti niðurstöður rannsókna Embættis landlæknis um hamingju og vellíðan í íslenskum sveitarfélögum. Dóra gerði grein fyrir því hvernig þau gátu greint niðurstöður á sveitarfélög og munu heilsueflandi sveitarfélög geta fengið upplýsingar m.a. um stöðu hamingju og vellíðan í þeirra samfélagi á heilsueflandi.is. Þegar skoðuð voru tengsl milli hamingju unglinga og hagvaxtar kom í ljós að þegar hagvöxtur minnkaði þá fór hamingja unglinga upp. Þetta munstur má finna á öllum Norðurlöndum nema í Finnlandi en ekki er einfalt svar við þeim niðurstöðum. Þá leiddu niðurstöður rannsóknarinnar í ljós að tekjur skýra minna en 1% af hamingju íslendinga.
„Þetta er lykilatriði, við verðum að hætta að horfa á geðheilsu sem heilbrigðisvandamál og horfa í stað þess á þetta sem samfélagsáskorun” sagði Dr. Fredrik Lindencrona sem kemur frá Sambandi sænskra sveitarfélaga þar sem hann er yfirmaður stefnumótandi umbóta og alþjóðlegs samstarfs í geðheilbrigðismálum. Dr. Fredrik greindi frá leiðum sem sænsk sveitarfélög hafa farið til þess að ná Heimsmarkmiði 3.4 og lagði áherslu á samvinnu allra, frá stjórnendum til stjórnmálamanna. „Auðvelt er að sjá hver kostnaðurinn er en erfiðara er að sjá hverjar tekjurnar verða“ sagði Dr. Fredrik og lýsti því hvernig Svíar hafa búið til kerfi til að meta fjárfestingar í félagslegum þáttum eins og geðheilsu.
Reykjavíkurborg var fyrsta sveitarfélagið til að taka þátt með Embætti Landlækni í Heilsueflandi samfélagi. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði frá þeim fjölmörgu verkefnum sem borgin hefur hrint í framkvæmt og eru til að mynda allir leik- og grunnskólar í Reykjavík hluti af Heilsueflandi samfélagi. Þá hefur Reykjavíkurborg einnig lagt áherslu á Heilsueflinu eldri borgara með því að bjóða eldri borgurum frítt í sund, aðgengi að hreyfingu og 17 félagsheimilum. Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri íþróttadeildar hjá Akureyrarbæ, lýsti því vel hvernig Akureyrarbær mátaði Heimsmarkmiðin við það sem hefur verið gert, er verið að gera og það sem þau vilja gera. Hulda Sólveig Jóhannsdóttir kynnti fyrir hönd stýrihóps Hafnafjarðar þau 3 Heimsmarkmið sem bærinn vinnur að. Hún tók þó fram að þetta sé langhlaup, en ekki spretthlaup því góðir hlutir gerast hægt.
Björg Magnúsdóttir stýrir umræðum í lok málþings
Í lok málþingsins stýrði Björg Magnúsdóttir, dagskrárgerðarkona hjá RÚV, pallborðsumræðum þar sem ræðumenn málþingsins sátu í pallborði. Ýmist var rætt um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag og voru allir panelgestir sammála um að ekki sé hægt að einblína á eitt Heimsmarkmið fremur en annað þar sem mikilvægt er að líta á þau sem eina heild. Þá sköpuðust einlægar umræður á meðal panelgesta þar sem þau deildu hvað þau gera sem einstaklingar til þess að vera hamingjusöm.
Fundarstjóri var Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hægt er að horfa á upptöku af málþinginu hér.
Í janúar var haldin fyrsta ráðstefna sinnar tegundar á Íslandi; umhverfisráðstefna Gallup sem fyrirtækið hélt ásamt fjölda samstarfsaðila. Til hennar var blásið með það fyrir stafni að kynna niðurstöður nýrrar könnunar Gallup á viðhorfi landsmanna til umhverfis- og loftlagsmála. Vilji var fyrir því að ráðast í framkvæmd könnunarinnar þar sem vaxandi samfélagsleg umræða varðandi umhverfismál gaf til kynna að áhugi almennings hefði færst í aukana en yfir það vantaði þó tölulegar upplýsingar. Úr niðurstöðunum má ýmislegt lesa og draga fram en meðal annars mældust töluvert fleiri áhugasamir um málaflokkinn árið 2017 en árið 2000. 60% svarenda sögðust hafa áhyggjur af stöðu mála og einungis 6% sögðust ekki gera neitt til að sporna við áhrifum á umhverfið. Íslensk stjórnvöld hlutu fremur slæma einkunn eða 2.9 af 6 mögulegum varðandi viðleitni þeirra til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Meirihluta aðspurðra þótti enn of lítið aðhafst.
Íslenska ríkið hefur bundið sig ákveðnum skilmálum er kemur að umhverfismálum og því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Parísarsáttmálinn svokallaði er ein þessara skuldbindinga. Árið 2015 var haldin loftlagsráðstefnan COP21 (Conference of the Parties, nr. 21) í París þar sem fulltrúar þeirra ríkja sem skrifað höfðu undir rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (United Nations Framework Convention on Climate Change -UNFCCC) samkomulagið komu saman og komist var að því samkomulagi sem varð Parísarsáttmálinn þann 12. desember 2015 en hann tók gildi 4. nóvember 2016. Ísland var eitt þessara þjóðríkja og samþykkti Alþingi fullgildingu sáttmálans þann 19. desember 2016. Sáttmálinn samanstendur af metnaðarfullum markmiðum sem beinast að sameiginlegri vinnu að því að halda hitastigi jarðar niðri og takmarka útblástur skaðlegra lofttegunda. Hvert ríki sem fullgilt hefur sáttmálann þarf síðan að setja sér eigin markmið varðandi það hvernig það ætli að vinna að þessu sameiginlega verkefni, mæla eigin útblástur og framtakssemi og gefa út skýrslu þess efnis.
Sama ár og loftslagsráðstefnan var haldin í París voru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samþykkt. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og tóku gildi 1. janúar 2016. Markmiðunum er ætlað að ýta undir og stuðla að hnattrænni sjálfbærri þróun og á þeim að vera náð fyrir lok árs 2030. Þeim er ekki aðeins beint að stjórnvöldum heldur getur almenningur, fyrirtæki, félagasamtök og aðrir aðilar tekið þátt í að stuðla að sjálfbærri þróun. Sex þessara markmiða snúa beint að umhverfismálum og önnur óbeint. Þessi markmið eru númer 7, Sjálfbær orka, 11, Sjálfbærar borgir og samfélög, 12, Ábyrg neysla, 13, Verndun jarðarinnar, 14, Líf í vatni og númer 15, Líf á landi.
Hvert og eitt þessa markmiða hefur síðan undirmarkmið sem ætlað er að auðvelda vinnuna að aðalmarkmiðinu og gera hana markvissari. Sumum undirmarkmiðunum er ætlað að ná fyrir aðalmarkið árið 2030 líkt og undirmarkmið 15.2 sem kveður á um að fyrir árið 2020 eigi að hafa tekist að „efla sjálfbæra stjórnun í öllum gerðum skóga, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurræktun skóga“. Verandi vel stætt aðildaríki að Sameinuðu þjóðunum og undirritunaraðili að öllum helstu samningum og bókunum hefur Ísland skuldbindið sig að standa við þær kröfur og væntingar sem settar eru fram í heimsmarkmiðunum. Þar á meðal er krafan um að betur stæð ríki heims taki frumkvæði og veiti aðstoð þeim ríkjum sem verr eru stödd.
Frá því að Parísarsáttmálinn varð fullgildur á Íslandi og heimsmarkmiðin voru tekin í notkun hefur losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum ekki minnkað heldur reiknar Umhverfisstofnun þvert á móti með því að orðið hafi aukning samkvæmt óstaðfestum tölum fyrir 2016 og 2017. Losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið og almenn mengun sem kemur frá landinu hefur ekki einungis áhrif á náttúruna, líf á jörðu og í sjó við landið heldur veldur hún hnattrænum umhverfisáhrifum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lítur á loftmengun sem eitt helsta umhverfisvandamálið en hún samanstendur einna helst af svifryksmengun. Svifryk hefur slæm áhrif á heilsu fólks og telur stofnunin mengunina valda allt að sjö milljónum dauðsfalla á ári.
Meirihluti þátttakenda í viðhorfskönnun Gallup var þó bjartsýnn varðandi framtíðina en það þarf sérstaklega að spýta í lófana í ríkis- og fyrirtækjarekstri. Var aðspurður almenningur á því máli að fyrst ætti að greiða leiðina fyrir fyrirtækin og síðan heimilin í landinu. Hægt er að ganga að heimsmarkmiðunum sem tilbúnum leiðarvísi til að vinna eftir svo hægt sé að ná hvort tveggja heimsmarkmiðunum sem og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og breyta í átt til betri jarðar fyrir alla að búa. Vonast er til þess að viðhorfskönnunin verði framkvæmd árlega en þegar var til samanburðar norsk Gallup könnun og voru íslensku niðurstöðurnar á svipuðum nótum og þær norsku.