10 ár af stríði í Sýrlandi

Voices from Syria

Borgarastríðið í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í tíu ár. Milljónir barna hafa aldrei þekkt frið og stöðugleika. COVID-19 hefur svo bæst ofan á stríðsástandið.

Áratugur af árásum þar sem innviðir hafa verið eyðilagðir, efnahagurinn hrunið, hungur er viðvarandi og heilbrigðiskerfið er í lamasessi.

  • 387 þúsund manns hafa látist í stríðinu í Sýrlandi samkvæmt tölum frá sýrlensku mannréttindavaktinni.
  • 13,4 milljónir íbúa Sýrlands þurfa á neyðaraðstoð að halda en alls eru 20 milljónir búsettar í Sýrlandi í dag.
  • 100 þúsund hafa látist af völdum pyntinga í fangelsum stjórnvalda og svipaður fjöldi situr enn í fangelsi.
  • 200 þúsund manns er saknað.
  • Efnavopnum hefur verið beitt í 38 skipti og af þeim hefur stjórnarherinn beitt þeim í 32 skipti. 1.400 létust í einni slíkri árás árið 2013.

 

Tíföldun fólks á flótta

Ástandið er slæmt um allt Sýrland. Á síðasta ári hefur verð á matarkörfunni hækkað um meira en 230% og fjölskyldur eiga erfitt með að ná endum saman. 12,4 milljónir Sýrlendinga eiga erfitt með að verða sér úti um mat á hverjum degi og eru yfir 60% barna við hungurmörk. Tvær milljónir glíma við alvarlega hungursneyð.

Innan Sýrlands þarfnast 5 milljónir barna mannúðaraðstoðar. Um 2,6 milljónir barna eru á vergangi og hafa neyðst til að flýja heimili sín og búsetuúrræði margoft og annar eins fjöldi hefur flúið yfir landamærin til nágrannaríkja og búa nú í flóttamannabúðum. Þetta er tíföldun fólks á flótta frá Sýrlandi síðan 2012 sem setur aukið álag á nágrannasamfélögin sem eiga í erfiðleikum fyrir, líkt og t.d. Líbanon.

Einn af hverjum þremur skólum í Sýrlandi er í dag ónothæfur. Yfir 700 skólar hafa verið sprengdir upp, en það er meira en allir leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar á Íslandi samanlagt. Auk þess eru skólabyggingar notaðar í hernaðarlegum tilgangi eða til að hýsa fjölskyldur á flótta. Rúmlega 3 milljónir barna frá Sýrlandi eru ekki í skóla lengur, þar af um 40% stúlkna.

Heilbrigðiskerfið liggur í lamasessi og eru aðeins 58% sjúkrahúsa í Sýrlandi starfandi að fullu í dag. 70% heilbrigðisstarfsmanna hafa flúið átökin. COVID-19 faraldurinn hefur bætt gráu ofan á svart, en lítið hefur verið um sýnatöku og því erfitt að sjá heildaráhrif faraldursins. 70% af rafmagnskerfi landsins liggur jafnframt niðri vegna stríðsins.

Einna verst er staðan í norðurhluta landsins. Í norðvesturhlutanum eru milljónir barna á vergangi og hafa margar fjölskyldur flúið mörgum sinnum á síðustu árum. Veturinn hefur verið erfiður sem gerir lífið nánast óbærilegt í köldum tjöldum og skýlum.  Í norðausturhlutanum eru Al-Hol búðirnar þar sem búa nú um 27 þúsund börn af a.m.k 60 þjóðernum við skelfilegar aðstæður.

 

UNICEF á Íslandi í neyðarsöfnun

„Á hverjum einasta degi síðastliðin tíu ár hafa gróf brot verið framin á réttindum barna. Þau hafa verið drepin, særð alvarlega, notuð í vopnuðum átökum og skólarnir þeirra sprengdir í loft upp. Ótal börn hafa drukknað á flótta frá hörmungunum. Börn bera aldrei ábyrgð í stíði en það eru þau sem bera mestan skaða af átökunum,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi.

„Fyrst og fremst þarf að tryggja það að börn séu örugg, fái vernd gegn ofbeldi og þá þjónustu sem þau eiga rétt á og þurfa til að lifa af og eiga möguleika á að byggja upp samfélagið sitt eftir að stríðinu lýkur,“ segir Steinunn.

UNICEF á Íslandi stendur fyrir neyðarsöfnun til að hjálpa börnum í Sýrlandi sem búa við ólýsanlega neyð. Þú getur hjálpað með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 krónur) eða með því að styðja hér.

UNICEF og samstarfsaðilar veita börnum og fjölskyldum þeirra í Sýrlandi og í nágrannaríkjum Sýrlands sálræna aðstoð og fjárhagslegan stuðning, útvega hreint vatn, bólusetja börn, styðja formlega og óformlega menntun barna og ungmenna og meðhöndla börn við vannæringu svo nokkuð sé nefnt. Auk þess vinnur UNICEF að því að bæta aðgengi að grunnþjónustu fyrir fötluð börn og útvega hjálpartæki.  

Það er enginn sigurvegari í þessu stríði. Það er löngu kominn tími til að stríðandi aðilar leggi niður vopn og setjist að samningaborðinu. Friður er eina leiðin út úr þessari martröð. UNICEF ákallar alla stríðandi aðila, áhrifavalda þeirra og alþjóðasamfélagið allt að tryggja tafarlausa pólitíska lausn á stríðinu í Sýrlandi. Auk þess krefst UNICEF eftirfarandi; 

  • Styðja þarf börn sem hafa verið tekin inn í vopnaða hópa að aðlagast samfélögum sínum á ný og flytja börn erlendra ríkisborgara á öruggan hátt til sinna heimalanda;  
  • Binda þarf enda á árásir á börn og óbreytta borgara, skóla, spítala, heilsugæslur og vatnsveitur; 
  • Endurnýja þarf ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um aðstoð yfir landamæri til að hjálparstofnanir geti áfram flutt lífsnauðsynleg hjálpargögn yfir til Sýrlands; 
  • Halda þarf áfram að styðja hjálparsamtök með fjárframlögum til þess að hægt sé að veita þeim milljónum barna sem þurfa lífsnauðsynlega neyðaraðstoð.