Nýr UNESCO-skólavefur nú aðgengilegur

Menningarmálastofnun Sameinðu þjóðanna, UNESCO, setti á dögunum nýjan umsóknar og yfirlitsvef fyrir ASPnet (UNESCO Associated Schools Network) skólana í loftið.

Sjá vef —> https://community.unesco.org/aspnet-platform

Vefurinn er mikið fagnaðarefni fyrir ASPnet skólana. Með því að að gera umsjónaraðilum og skólafólki kleift að tengjast þvert yfir höfin á auðveldan hátt, gerum við ráð fyrir að verkefnið styrkist. Hægt er að sjá alla þátttökuskóla ASP-netsins og sía eftir staðsetningu, skólastigi og þemum sem þau vinna með. Verkefnastjóri Félags Sþ vinnur nú hörðum höndum að því að yfirfara og uppfæra upplýsingar um íslensku skólana, og kynna vefinn fyrir áhugasömum.

Ef þinn skóli hefur áhuga á því að verða UNESCO-skóli, endilega hafðu samband við Pétur Hjörvar (petur@un.is), verkefnastjóra hjá Félagi Sþ fyrir frekari upplýsingar. Umsóknarferlið er aðgengilegt á vefnum!

Flóaskóli er 15. UNESCO-skólinn á Íslandi

Flóaskóli í Flóahreppi er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 15 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og átta framhaldsskólar.

Í skólastefnu Flóahrepps er lögð áhersla á að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, en eitt af meginþemum UNESCO-skóla er vinna með heimsmarkmiðin. Auk þess leggja UNESCO-skólar áherslu á alþjóðasamvinnu, starfsemi Sameinuðu þjóðanna og frið og mannréttindi. Skólar fá aðgang að vönduðu og fjölbreyttu námsefni sem fellur vel að grunnþáttum menntunar í aðalnámskrá, auk þess sem þeim gefst færi á að vinna með innlendum sem og erlendum skólum, og að taka þátt í ráðstefnum víða um heim.

Verkefnið er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu.

VELKOMINN Í HÓPINN FLÓASKÓLI!

Nemendur í 7. og 10. bekk Flóaskóla með UNESCO skírteinið.

 

Námskeið fyrir kennara um Heimsmarkmiðin

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi mun í haust standa fyrir námskeiði fyrir kennara um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. „Kennarar virðast upp til hópa allir af vilja gerðir til að innleiða heimsmarkmiðin inn í sína kennslu en hins vegar hafa margir haft á orði að þeim vanti tæki og tól til þess, þ.e. hvernig eigi að kenna heimsmarkmiðin,“ segir Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. „Námskeiðið verður grunnnámskeið um heimsmarkmiðin, markmið og tilgang þeirra og hvernig kennarar geta nýtt þau í kennslu,“ segir Kristrún. „Það er nefnilega ekki nóg að vera með heimsmarkmiðaveggspjaldið upp á vegg í öllum skólum heldur verður einnig að innleiða heimsmarkmiðin í kennsluna og allt skólasamfélagið.“

Kristrún segir marga kennara nú þegar vera að vinna eftir heimsmarkmiðunum þrátt fyrir að gera sér kannski ekki alltaf grein fyrir því. „Ein fjöruferð með nemendum þar sem nemendur fá fræðslu um lífríki sjávar uppfyllir t.d. heimsmarkmið nr. 14 um líf í vatni og heimsmarkmið 4, menntun fyrir alla.“

Að sögn Kristrúnar fékk Félagið styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla til að halda námskeiðið. „Við erum svo heppin að fá frábæran kennara til að kenna á námskeiðinu, Evu Harðardóttur, sem býr yfir mikilli reynslu. Eva er uppeldis- og menntunarfræðingur og stundar doktorsnám við Háskóla Íslands. Rannsóknaráhersla hennar í doktorsnámi snýr að ungu flóttafólki, alþjóðlegri borgaravitund og inngildandi menntun. Eva hefur starfað sem aðjúnkt við MVS. Hún hefur kennt fjölmörg námskeið m.a. um lýðræði, mannréttindi og borgaravitund ungs fólks. Eva hefur mikla þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hefur m.a. byggt námskeið sín á þeim grunni. Þá starfaði Eva sem menntunarsérfræðingur á vegum UNICEF í Malaví frá 2013-2016.“

Kristrún segir Félag SÞ binda miklar vonir við námskeiðið og voni að sem flestir kennarar nýti sér þetta tækifæri til að fræðast um heimsmarkmiðin. Námskeiðið, sem áætlað er að verði haldið fyrri part ágústmánaðar, stendur yfir í einn dag og verður verði stillt í hóf. Kennarar geta sótt um styrk fyrir námskeiðinu úr Endurmenntunarsjóði kennara. Námskeiðið verður auglýst nánar þegar nær dregur.