Alþjóða heilbrigðisdagurinn

COVID-19 Hjúkrunarfólk
Mynd: Landsspítali/Þorkell Þorkelsson

 

Að njóta heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi. Í dag, þann 7. apríl, fögnum við Alþjóða heilbrigðisdeginum. Í tilefni dagsins hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) veraldarleiðtoga til þess að tryggja þessi réttindi. Öllum ber að njóta aðgangs að grundvallar og gæða heilbrigðisþjónustu hverjir sem þeir eru og hvar sem þeir búa. Enginn ætti að þurfa að sligast undan kostnaði.

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á hversu brýnt er að öllum heimsbúum standi til boða læknismeðferð og nauðsynleg bóluefni sem gagnast samfélaginu í heild sinni.

Tryggja ber hverri einustu manneskju aðgang að góðri heilsugæslu án þess að verða fátækt að bráð.

Margir verða að borga offjár fyrir heilsuna

Langur vegur er frá því að heilbrigðisþjónusta standi öllum veraldarbúum til boða. Ein ástæða þess að margir mega þola örbirgð er sú að þeir verða að borga offjár fyrir heilsugæslu. Ekki nægir hins vegar að útvega heilbrigðisþjónustu til að ráða bót á allra brýnustu kvillum og slysum. Einnig ber að sinna forvörnum. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur veraldarleiðtoga til að standa við þau fyrirheit sem gefin voru þegar heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun voru samþykkt árið 2015. Grípa þarf til raunhæfra aðgerða og gangast undir skuldbindingar til þess að efla heilbrigði fólks hvarvetna.  

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hvetur til þess í ávarpi á Alþjóða heilbrigðisdaginn að tryggja öllum aðgang að heilbrigðisþjónustu.

“Nú þegar sér fyrir endann á COVID-19 faraldrinum ber að hrinda í framkvæmd stefnumörkun og tryggja fjármagn til þess að allir njóti sömu heilbrigðis-úrræða… Við skulum skuldbinda okkur á Alþjóða heilbrigðisdeginum að vinna saman að heilbrigðari og sanngjarnari heimi.”

Fyrstu bólusetningar COVAX samstarfsins: tímamót í baráttunni gegn COVID-19

Tímamót urðu í baráttunni gegn kórónaveirunni í gærdag þegar bólusetningar hófust í Gana og á Fílabeinsströndinni. Voru þetta fyrstu bólusetningarnar sem framkvæmdar hafa verið á vegum COVAX samstarfsins. Fílabeinsströndin fékk síðastliðinn föstudaginn 504.000 skammta af COVID-19 bóluefni og 505.000 sprautur í fyrstu úthlutun á vegum COVAX-samstarfsins og hafði Gana fyrr í vikunni fengið 600.000 skammta af bóluefni. Skammtarnir eru meðal annars notaðir til að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk, félagsráðgjafa, kennara og áhættuhópa.

COVAX er alþjóðleg áætlun um bóluefni sem miðar að því að tryggja skilvirkar bólusetningar á jafnréttisgrundvelli um allan heim. Samstarfið hefur því það markmið að tryggja að öll lönd fái bóluefni óháð efnahag, en meirihluti bóluefna sem hingað til hefur verið dreift hefur farið til ríkari landa sem hamstrað hafa bóluefni umfram þörf.

COVAX er samstarfsverkefni Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og alþjóðasamtakana GAVI og CEPI. Auk þeirra gegnir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) lykilhlutverki í innkaupum og dreifingu bóluefnisins og nýta þar sérþekkingu sína sem sú stofnun sem hefur verið leiðandi í bólusetningum á alþjóðavísu seinustu áratugina. 192 ríki heims koma að samstarfinu, Ísland þar á meðal.

COVAX-samstarfið vinnur bæði með stjórnvöldum og framleiðendum til að tryggja sanngjarnan aðgang að bóluefnum meðal ríkja heimsins, en markmið samstarfsins er er að útvega tvo milljarða skammta af bóluefni fyrir árslok 2021. Það myndi nægja til að bólusetja alla þá sem eru í sérstökum áhættuhópum í heiminum.

Rannsóknir benda til að aðferð COVAX muni leiða til færri dauðsfalla í heiminum en sú samkeppni sem felur í sér að einokun auðugra ríkja á bóluefni. Í rannsókninni er kannaðar afleiðingar þess ef 80% bóluefnis væri dreift í samræmi við íbúafjölda ríkja. Slíkt myndi fækka dauðsföllum um 61% af völdum veirunnar. Við núverandi aðstæður þar sem auðugustu ríki jarðar kaupa upp allar birgðir fækkar dauðsföllum aðeins um 33%.

COVAX samstarfið er því eitt stærsta og mikilvægasta bólusetningarverkefni sögunnar. Eftir margra mánaða undirbúning er margt búið að gerast síðustu daga og bóluefni, sprautur og annar búnaður farinn að berast. Afhending bóluefnanna á Fílabeinsströndinni og í Gana markar upphafið af fyrstu alþjóðlegu úthlutun bóluefna gegn kórónaveirunni. Fleiri lönd munu bætast í hópinn á næstu dögum og vikum.