Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var stofnað þann 8. maí 1948 á Hótel Borg í Reykjavík. Fyrsti forseti félagsins var Ásgeir Ásgeirsson sem þá var þingmaður Alþýðuflokksins. Ásgeir þekkja eflaust flestir en hann var annar forseti lýðveldisins og gengdi embættinu frá 1952-1968. Saga félagsins er því orðin löng og fjölbreytileg, en skipulagðri skráningu hennar er ekki lokið.


Heimssamtökin World Federation of United Nations Associations voru stofnuð í apríl 1946 af 22 félögum Sameinuðu þjóðanna. Í dag telja Félög Sameinuðu þjóðanna á annað hundrað en aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru 193.
Við stofnun Miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna, í mars 2004, var starfsmaður ráðinn og hafði m.a. það hlutverk í 10% stöðu fyrir Félag Sameinuðu þjóðanna að gefa út fréttabréf félagsins, uppfæra vefsetur þess, viðhalda félagatali o.s.frv. Þröstur Freyr Gylfason var ráðinn til félagsins í 20% starf í febrúar 2005 og var aukið við stöðuna árið 2006 og henni breytt í 40% hlutastarf framkvæmdastjóra. Þetta var gerbreyting frá fyrri tíð en um áratugaskeið hafði Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi verið rekið af stjórnarmönnum í sjálfboðavinnu. Guðrún Helga Jóhannsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra árið 2008 og var henni kleift að auka stöðugildið í 50% til ársins 2011. Berglind Sigmarsdóttir tók við stöðunni af Guðrúnu Helgu árið 2011 og gengdi starfi framkvæmdastjóra til ársins 2016. Í tíð Berglindar jókst starfsemi félagsins til muna og við bættist UNESCO skólaverkefnið sem unnið er í samstarfi við íslensku UNESCO-nefndina og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Vera Knútsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri árið 2016 og gegndi hún því starfi til 2021 þegar Vala Karen Viðarsdóttir tók við, en hún er núverandi framkvæmdastjóri Félagsins.
Áður en Félag Sameinuðu þjóðanna fékk aðstöðu í sameiginlegri Miðstöð SÞ á Laugavegi 176 hafði það um árabil haft starfsaðstöðu í Austurstræti. Þegar sú aðstaða var ekki lengur fyrir hendi fékk félagið í nokkur ár afnot af herbergi hjá utanríkisráðuneytinu ásamt fundaraðstöðu. Var það afar mikilvægur stuðningur utanríkisráðuneytisins við Félag Sameinuðu þjóðanna því allstórt hlutfall af fjármagni félagsins hafði um árabil farið í húsnæðisrekstur í stað verkefna.
Sú breyting, að komast í sameiginlega Miðstöð SÞ, var því mikil og opnaði fyrir nýja möguleika í starfsemi félagsins. Miðstöðin var opnuð 12. mars 2004 og var fyrst til húsa í Skaftahlíð 24. Á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október, árið 2005 var ný Miðstöð Sameinuðu þjóðanna formlega opnuð á Laugavegi 42, 2. hæð.
Þennan dag var 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna fagnað, og af því tilefni og formlegrar opnunar nýrrar Miðstöðvar SÞ efndu Félag Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við UNRIC (Upplýsingaskrifstofa S.Þ. fyrir V-Evrópu) til veglegs málþings um Sameinuðu þjóðirnar sextugar, undir yfirskriftinni: „Eftir leiðtogafundinn, hvað nú?“.
Í lok apríl 2012 fluttu félögin þrjú miðstöðina að Laugaveg 176 og voru til ársins 2020 í því húsnæði. Rekstur Miðstöðvarinnar hafi þá aukist um helming sem kallaði á flutning í stærra húsnæði. Flutningur á Laugaveg 77 var á vormánuðum 2020. Sameiginlega ráku Miðstöð Sameinuðu þjóðanna þrjú félög, þ.e. Unicef, UN Women og Félag Sameinuðu þjóðanna.
Í apríl 2023 flutti Félag SÞ í húsnæði Öryrkjabandalagsins að Sigtúni 42 en þar eru UN Women einnig til húsa.
Frú Eliza Reid, forsetafrú, er verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Ársskýrslur félagsins eru varðveittar á rafrænu varðveislu safni Landsbókasafns Íslands og þær má nálgast hér.