Lög Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

1. grein

Markmið Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er:

    • Að vinna almenning í landinu til fylgis og stuðnings við samtök Sameinuðu þjóðanna.
    • Að samræma starf þeirra félagssamtaka sem leggja vilja lið sitt til þess að framkvæma hugsjónir Sameinuðu þjóðanna.
    • Að stuðla að aukinni samvinnu allra þjóða heims.
    • Að vinna að því að treysta alþjóðafrið og öryggi.
    • Að vinna að því í samvinnu við blöð, útvarp, sjónvarp og skóla að kynna Íslendingum hugsjónir og starfsemi hinna Sameinuðu þjóða.

2. grein

Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi geta verið einstaklingar, félög, fyrirtæki og stofnanir, svo sem bókasöfn og skólar.

Heimilt er að kjósa heiðursfélaga úr hópi félagsmanna.

3. grein

Stjórn félagsins ákveður félagsgjöld og getur leitað eftir stuðningi aðila sem styðja vilja stefnumið félagsins.

4. grein

Aðalfundur Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi skal haldinn fyrir 1. júní ár hvert. Aðalfund skal boða skriflega með 14 daga fyrirvara. Rétt á fundarsetu hafa þeir meðlimir sem gerst hafa félagar eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund.

Á aðalfundi skal gefin skýrsla um starfsemi félagsins og fjárhag á liðnu starfsári. Starfsár og reikningsár félagsins er almanaksárið og skulu reikningar félagsins yfirfarnir af löggiltum endurskoðanda.

Aðeins á aðalfundi má bera upp tillögur um breytingar á lögum félagsins enda hafi slíkar tillögur verið kynntar framkvæmdastjórn með viku fyrirvara. Til samþykktar þeirra þarf stuðning 2/3 – tveggja þriðju hluta – fundarmanna.

Stjórn félagsins skal skipa eigi færri en sjö menn og eigi fleiri en 12 menn. Aðalfundur félagsins ákveður fjölda stjórnarmanna hverju sinni sem skulu kosnir til tveggja ára í senn. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnin skal kosin á aðalfundi annað hvert ár og skal hittast eigi sjaldnar en átta sinnum á ári.

Framkvæmdastjórn skulu skipa formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri, og sinnir þeim störfum sem stjórnin felur henni og samkvæmt lögum þessum.

Á aðalfundi skulu og kosnir tveir endurskoðendur til tveggja ára.

Endurkosning manna í stjórn er heimil.

Falli atkvæði að jöfnu á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns.

Stjórnin boðar til fundar í félaginu þegar henni þurfa þykir eða þegar fimmtíu félagar hið minnsta æskja þess.

Stjórninni er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur félagsins.

5. grein

Lögheimili félagsins og varnarþing þess er í Reykjavík. Heimilt er að stofna einstakar deildir félagsins hvar sem er á landinu.

Breytingasaga
  • Samþykkt á aðalfundi Félags Sameinuðu þjóðanna 5. mars 1976.
  • Breyting á 2. grein laganna er varðar aðild, og 4. grein laganna er varðar fjölda manna í varastjórn samþykkt á framhaldsaðalfundi 21. maí 2007.
  • Breyting á 4. grein laganna er varðar staðsetningu, dagsetningu og boðun aðalfundar, endurskoðun reikninga, fjölda manna í stjórn jafnframt því sem ákvæði um varastjórn var fellt á brott, sérkjör varaformanns einnig, kjörtímabil stjórnarmanna, framkvæmdastjórn, og framkvæmdastjóra; og 5. og 6. greinar sameinaðar undir 5. grein auk orðalagsbreytingar, samþykkt á aðalfundi 27. mars 2008. Sömuleiðis var þá ákvæði til bráðabirgða, um brottfall meðstjórnenda, frá árinu 1977 fellt á brott.
  • Breyting var gerð á 4. grein laganna á aðalfundi 30. janúar 2013, þess efnis að stjórn og endurskoðendur skulu kosnir til tveggja ára í senn.
  • Breyting var gerð á 4.grein laganna á aðalfundi 28. maí 2019, þess efnis að aðalfundur fari fram fyrir 1.júní annaðhvert ár, var áður 1.maí. Einnig var gerð sú breyting á sömu grein að í stað þess að stjórn skuli skipa níu menn þá skuli stjórn skipa eigi færri en 7 menn og eigi fleiri en 12 menn, aðalfundur ákveði fjölda stjórnarmanna hvert sinn.  Nýr málsliður bætist þá við í 4.grein sem kveður á um að falli atkvæði að jöfnu á stjórnarfundi þá ráði atkvæði formanns.
  • Breyting var gerð á 1.gr. laganna þar sem orðalagi var breytt úr “Takmark” í “Markmið”. Breyting var gerð á 2.gr. laganna með því að taka út ákvæði um að mögulegt sé að gerast ævifélagi í félaginu og í stað þess sett inn ákvæði um að heimilt sé að kjósa heiðursfélaga úr hópi félagsmanna. Einnig voru lagðar til nokkrar breytingar á 4.gr. laganna. Fyrsta var breytingin var um að aðalfund skuli halda árlega í stað annars hvers árs. Önnur breyting var að stjórnarmeðlimir hittist reglulegar en áður, eða að minnsta kosti átta sinnum á ári, að undanskildu sumri og jólum. Þriðja breyting var að orðið “framkvæmdarstjóri” yrði sett inn undir lok greinarinnar í þeim tilgangi að tryggja að ekki einungis stjórnarformaður og varaformaður skipi framkvæmdarstjórn. Breytingar þessar voru samþykktar á aðalfundi 31. maí 2023.