Siðareglur Félags Sameinuðu þjóðanna

Tilgangur siðareglna

 • Að styrkja ímynd Félags Sameinuðu þjóðanna (Félags SÞ), viðhalda og auka traust almennings á starfi þess við að stuðla að aukinni samvinnu þjóða heims.
 • Að efla gegnsæi, góða stjórnarhætti og faglegt starf í þágu almennings í landinu.
  Að veita stjórn og starfsmönnum viðmið um breytni og þá faglegu ábyrgð sem á þeim hvílir umfram lagalegar skyldur.
 • Siðareglur þessar birtast á heimasíðu Félags SÞ.
 • Starfsmönnum og sjálfboðaliðum Félags SÞ, þar með talið stjórnarmönnum, eru kynntar þessar reglur í upphafi starfs síns fyrir félagið. Þeir staðfesta með undirskrift sinni að þeir fallist á að starfa eftir reglunum.
Ábyrgð gagnvart almenningi, fjölmiðlum og samfélagi

 • Upplýsingar sem Félag SÞ veitir um starfsemi hinna Sameinuðu þjóða skulu vera áreiðanlegar og gefa rétta mynd og samhengi þess sem verið er að kynna. Tölfræði og hugtök skulu vel skilgreind og stuðla að skýrum og réttum fréttaflutningi til almennings.
 • Félag SÞ starfar af heilindum við að treysta alþjóðafrið og öryggi, með hagsmuni almennings, félagsmanna, sjálfboðaliða og velunnara sinna að leiðarljósi, án þrýstings frá eða skuldbindinga gagnvart stjórnvöldum, styrktaraðilum eða öðrum utanaðkomandi aðilum.
 • Félag SÞ hefur umhverfissjónarmið ávallt að leiðarljósi í rekstri sínum og sýnir með því gott fordæmi í umgengni við náttúru og samfélag.
Ábyrgð stjórnarmanna, starfsfólks og sjálfboðaliða

 • Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar halda tryggð við markmið og orðstír Félags SÞ.
 • Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Félags SÞ nýta ekki trúnaðarupplýsingar sjálfum sér til framdráttar.
 • Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Félags SÞ veita ekki fyrirgreiðslu vegna persónulegra tengsla eða vensla.
 • Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Félags SÞ virða störf annarra félaga og samtaka og kynna sig í krafti eigin starfs.
 • Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Félags SÞ sýna hver öðrum virðingu, samstarfsvilja og stuðning og leggja lið sitt við að framkvæma hugsjónir Sameinuðu þjóðanna.
Ábyrg fjármál

 • Meðferð fjármuna er samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og endurskoðun reikninga í höndum kjörinna skoðunarmanna og/eða löggiltra endurskoðenda.
 • Upplýsingar um fjárhag og rekstur eru gegnsæjar, settar fram á einfaldan og skýran máta.
 • Félag SÞ né tengdir aðilar afla ekki fjár með ósiðlegum hætti.
 • Starfsfólk gætir ráðdeildar í daglegum rekstri og við meðferð fjármuna félagsins.
 • Gjafir sem stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar þiggja vegna starfa á vegum Félags SÞ renna til félagsins.
Viðbrögð við brotum á siðareglur

 • Vakni grunur um eða verði ljóst að siðareglur þessar hafi verið brotnar má hver sem þess verður var, tilkynna það stjórn Félags SÞ. Skal stjórnin taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu með hliðsjón af lögum Félagsins.
 • Þess skal gætt að sá sem leggur fram upplýsingar um ætlað brot á siðareglunum, beri ekki skaða af.
Síðast uppfært í október 2021