Spurningar og svör

Eru UNESCO skólar það sama og UNICEF og Réttindaskólar?

Nei, það er ekki það sama. UNICEF og UNESCO eru sitthvor stofnunin á vegum Sameinuðu þjóðanna. UNICEF er Barnahjálp SÞ en UNESCO er Menningarmálastofnun SÞ. UNICEF vinnur með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og með verkefnið Réttindaskólar. UNESCO vinnur aðallega með fjögur þemu, alþjóðasamvinna, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin og frið og mannréttindi.

Hvað er Heimsins stærsta kennslustund?

Heimsins stærsta kennslustund (World Largest Lesson) er árlegt átak sem snýr að kennslu á heimsmarkmiðunum og er styrkt af UNESCO og UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna). Markmiðið er að efla vitund nemenda og hvetja þá til aðgerða er kemur að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á loftslagsmál og hvernig ungt fólk getur lagt sitt af mörkum til að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum.

Er mikið mál að vera UNESCO-skóli, fylgir því mikil vinna?

Margir skólar eru nú þegar að vinna mikið með þessi fjögur þemu UNESCO-skóla, alþjóðasamvinna, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin og frið og mannréttindi,  eða jafnvel einhver af þeim.  Verkefnastjóri UNESCO-skóla aðstoðar skóla við innleiðingarferlið og er þeim innan handar í öllu ferlinu. Skólar hjálpast einnig að og deila hugmyndum og verkefnum þannig að það séu ekki allir að finna upp hjólið. Þeir skólar sem gerst hafa UNESCO-skólar sjá ekki eftir því. Salaskóli í Kópavogi var einn af fyrstu UNESCO-skólum á Íslandi. Hafsteinn Karlsson, fyrrverandi skólastjóri Salaskóla, sagði um UNESCO skólaverkefnið: ,,Skólinn nýtur góðs af verkefnabanka UNESCO-skólanna en þar er að finna fjölbreytt og vönduð verkefni með góðum kennsluleiðbeiningum. Þessi vinna er í sjálfu sér ekki mikil fyrirferðar, en hún vekur samfélag skólans til umhugsunar um þau stóru mál sem við jarðarbúar glímum við. Það er stór og mikill ávinningur og sem skiptir miklu máli.‘‘ 

Hvert er markmiðið með Heimsmarkmiðunum?

Markmiðið með heimsmarkmiðunum er að útrýma fátækt, hungri, draga úr ójöfnuði, vinna gegn hlýnun jarðar, vernda líf á landi og í vatni, að efla mannréttindi og ýta undir sjálfbæran lífsstíl.

Hvað er sjálfbærni?

Sjálfbærni felur í sér að gera hlutina án þess að skaða náttúruna eða annað fólk, að nýta auðlindir jarðar á ábyrgan hátt. Að það sé nóg eftir fyrir komandi kynslóðir.