Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi vinnur að því að efla þekkingu, skilning og umræðu um gildi og starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Félagið leggur áherslu á að skapa vettvang fyrir menntun, þátttöku og samvinnu um alþjóðleg málefni – með sérstakri áherslu á ungt fólk, fræðslustofnanir og almenning.
Meginhlutverk FSÞ er að:
-
Vinna að markmiðum og gildum Sameinuðu þjóðanna á landsvísu.
-
Efla lýðræðislega og virka þátttöku barna og ungmenna í samfélagsmálum.
-
Stuðla að fræðslu og umræðu um Sþ, mannréttindi, sjálfbærni, jafnrétti og frið.
-
Tengja saman íslenskt samfélag við alþjóðlegar áherslur, með sérstakri áherslu á heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.
Nokkur af meginverkefnum FSÞ fela í sér:
Samstarf við UNESCO-skóla á Íslandi: Þróun og framkvæmd menntunar til sjálfbærrar þróunar og hnattrænnar borgaravitundar, m.a. með námskeiðum, efnisgerð, viðburðum og tengingu við alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna.
Ungmennafulltrúar Íslands hjá SÞ (UNYD): FSÞ er í samstarfi við Landssamband ungmennafélaga (LUF) í tengslum við ungmenni sem eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sendinefndin, er þannig fulltrúar í umboði ungs íslensks fólks í alþjóðlegri umræðu hjá Sameinuðu þjóðunum.
Þróun fræðsluefnis fyrir kennara og nemendur á öllum skólastigum um heimsmarkmiðin, mannréttindi, friðarmenningu og hnattræna borgaravitund. Dæmi um það er útgáfa bókar Þróunaráætlunar Sþ (e. UNDP), ‘Verður heimurinn betri?’.
Ungliðar hjá SÞ (JPO’s): sjá um að auglýsa eftir nýjum stöðum ungliða í samvinnu við utanríkisráðuneytið hjá ólíkum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og fjalla um þau ólíku störf sem þau sinna um víða veröld.
Almenn kynning og miðlun á fjölbreyttri starfsemi Sameinuðu þjóðanna, stofnunum og þróun í alþjóðamálum, bæði á vettvangi fjölmiðla, fyrir almenningi, í skólum og gegnum samfélagsmiðla.
Viðburðir og ráðstefnur í tengslum við alþjóðadaga SÞ (s.s. alþjóðlegan friðardag, mannréttindadag, alþjóða hamingjudaginn o.s.frv.).
Samstarf við íslensk stjórnvöld, borgaralegt samfélag og alþjóðleg samtök, m.a. í tengslum við setu Íslands í mannréttindaráði SÞ, framlag Íslands til þróunarsamvinnu, stöðumat íslensks borgarasamfélags í landrýniskýrslu Íslands til SÞ.
Með þessu starfi leitast FSÞ við að byggja upp tengsl milli heimsborgaravitundar og virkni í nærumhverfinu – og skapa þannig sterkari brýr milli skólasamfélags, almennings, stjórnvalda og alþjóðlegrar þátttöku Íslands.