Jöklar eru stórmerkilegir og hafa flest hér á landi séð í það minnsta einn. En hvað vitum við um jökla? Vísindafólk veit heilmikið um jökla en flest okkar vita lítið um virkni þeirra og mikilvægi þeirra í vatnshringrás jarðarinnar. Vissir þú til dæmis að jöklar myndast þar sem meiri snjór fellur yfir árið en bráðnar að jafnaði að sumri? Og að í dag er einn tíundi hluti Íslands hulinn jöklum? Samanlagt flatarmál jökla á Íslandi var árið 2023 um 10.200 km2 og hefur frá aldamótum 2000 minnkað um 900 km2. En það samsvarar því að allur Hofsjökull væri horfinn. Það er jafn stórt svæði eins og öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu!
Í tilefni af Alþjóðaári jökla á hverfanda hveli var efnt til samkeppni á meðal barna- og ungmenna á aldrinum 10-20 ára. Óskað var eftir verkum sem varpa ljósi á mikilvægi og eðli jökla, fegurð þeirra og hversu hverfulir þeir eru.
Að samkeppninni stóðu Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Jöklarannsóknafélag Íslands, Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun HÍ, Sjálfbærnistofnun HÍ, Náttúruverndarstofnun, Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafn Íslands.
Flest verkin eru hér til sýnis. Nokkur verk voru of stór til þess að geta verið birt hér, meðal annars vinningstillögur. Unnið er að því að fá þau birt á vefnum. Við hvetjum þó öll að heimsækja Náttúrusýningu barna í Perlunni á 2. hæð 8.-16. apríl sem Náttúruminjasafn stendur fyrir en þar verða öll vinningsverk sýnd, ásamt þeim sem sýnd eru hér að neðan. Linkur á viðburðinn: Náttúrusýningar barna | Facebook
