Nú þegar aðeins sex ár eru eftir af heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun (e. Sustainable Development Goals/SDGs) eru framfarir á heimsvísu ófullnægjandi, með aðeins 17 prósent þeirra markmiða sem nú eru á réttri leið, samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem gefin var út 28. júní.
Í skýrslunni um heimsmarkmiðin 2024 er lögð áhersla á að næstum helmingur af 17 markmiðunum sýnir lágmarks eða miðlungs framfarir, en yfir þriðjungur er staðnaður eða dregið hefur úr árangri. Heimsmarkmiðin voru samþykkt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna árið 2015 til að koma á friði og velmegun fyrir fólk og jörðina.
„Þessi skýrsla sem betur er þekkt sem hin árlega stöðuskýrsla heimsmarkmiðanna, sýnir að heimurinn er að fá falleinkunn,“ sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á blaðamannafundi þar sem niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á dögunum. „Niðurstaða skýrslunnar er einföld – mistök okkar að tryggja frið, takast á við loftslagsbreytingar og efla alþjóðlega fjármögnun er að grafa undan þróun. Við verðum að flýta aðgerðum til að ná heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun og við megum engan tíma missa,“ sagði hann.
Margþættar hindranir
Í skýrslunni var bent á langvarandi áhrif COVID-19 heimsfaraldursins, stigvaxandi átök, geópólitíska spennu og versnandi óreiðu í loftslagsmálum sem helstu hindranir í vegi framfara.
Í skýrslunni er enn fremur bent á að 23 milljónum til viðbótar var ýtt út í sárafátækt og yfir 100 milljónir til viðbótar þjáðust af hungri árið 2022 í samanburði við árið 2019, og fjöldi látinna óbreyttra borgara í vopnuðum átökum rauk upp úr öllu valdi á síðasta ári.
Árið 2023 var einnig það hlýjasta sem mælst hefur, þar sem hlýnun jarðar nálgast 1,5°C þröskuldinn.
Brýn forgangsröðun
Guterres lagði brýna áherslu á að efla alþjóðlega samvinnu og sagði „við megum ekki gefast upp á 2030 loforðum okkar um að binda enda á fátækt, vernda jörðina og skilja engan eftir.“
Þá var í skýrslunni einnig gert grein fyrir helstu áherslum til að bregðast við hallanum.
Þar var fyrst og fremst bent á þörfina fyrir fjármögnun til þróunar. Fjárfestingarbil heimsmarkmiðanna í þróunarríkjum eru um 4 billjónir dollara á ári. Það er mikilvægt að auka hraða fjármögnun og rými í ríkisfjármálum, sem og umbætur á alþjóðlega fjármálakerfinu til þess hægt sé að opna fjármögnunina.
Það er ekki síður mikilvægt að leysa deilur með samræðum og milliríkjaviðræðum. Með rúmlega 120 milljónir manna sem neyðst hafa til þess að flýja samkvæmt nýjustu tölum nú í maí 2024 og 72 prósenta aukningu á mannfalli óbreyttra borgara á milli 2022 og 2023, hefur þörfin fyrir friði aldrei verið brýnni en nokkru sinni fyrr.
Samhliða þessu öllu er bráðnauðsynlegt að auka innleiðingu. Stórauknar fjárfestingar og árangursríkt samstarf er nauðsynlegt til að knýja fram umbreytingar á lykilsviðum líkt og matvælaiðnaði, orkuiðnaði, félagslegri vernd og stafrænni tengingu.
Grípum augnablikið
Skýrslan kemur út árlega stuttu fyrir árlegan Ráðherrafund um heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun (e. HLPF, High Level Political Forum), en í ár fer hann fram í höfuðstöðvum SÞ í New York dagana 8. til 17. júlí.
Á vegum efnahags- og félagsmálaráðsins (e. ECOSOC) mun á fundinum vera farið yfir alþjóðlegar framfarir í átt að markmiði 1 um að útrýma fátækt, markmiði 2 um ekkert hungur, markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum, markmið 16 um frið og réttlæti og markmið 17 um leiðir til framkvæmda undir samvinnu um heimsmarkmiðin.
Að auki mun komandi Leiðtogafundur um framtíðina nú í september vera lykilatriði til að endurstilla viðleitni til að ná markmiðunum. Leiðtogafundurinn miðar að því að takast á við skuldakreppuna sem hefur áhrif á mörg þróunarríki og brýna þörf á að endurmóta alþjóðlega fjármálakerfið sem er að mörgu leyti óbreytt frá því um og eftir síðari heimstyrjöldina.
Fleiri lykilniðurstöður
- Í skýrslunni um heimsmarkmiðin er lögð áhersla á alvarlegar efnahagslegar áskoranir, þar sem vöxtur á vergri landsframleiðslu (VLF/GDP) í helmingi viðkvæmustu ríkja heims er hægari en í þróuðum hagkerfum.
- Næstum 60 prósent ríkja stóðu frammi fyrir óeðlilega háu matarverði árið 2022, sem enn frekar eykur hungur og fæðuóöryggi.
- Í skýrslunni var einnig lögð áhersla á kynjamisrétti, en þar er bent á að í 55 prósent af þeim 120 ríkjum sem könnunin náði til, skorti lög sem banna mismunun gegn konum.
- Það nefndi einnig menntun sem verulegt áhyggjuefni, þar sem aðeins 58 prósent nemenda á heimsvísu hafa náð lágmarkskunnáttu í lestri undir lok grunnskóla.
- Á sama tíma, þrátt fyrir að alþjóðlegt atvinnuleysi hafi náð sögulegu lágmarki árið 2023 (5%), eru enn viðvarandi hindranir til mannsæmandi vinnu í öllum samfélögum.
- Hins vegar er jákvæð þróun á nokkrum sviðum, meðal annars á sviði endurnýjanlegrar orku, en það hefur vaxið um 8,1 prósent árlega undanfarin fimm ár.
- Verulegar tækniframfarir hafa einnig orðið, þar sem aðgengi fyrir farsíma (3G eða hærra) náði til 95 prósent jarðarbúa, úr 78 prósentum árið 2015.
Frétt unnin af vefsíðu SÞ: World getting a ‘failing grade’ on Global Goals report card | UN News