‘Ógleymanleg upplifun að vera stödd í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna’, segir Sara Júlía Baldvinsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar

Sara Júlía Baldvinsdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar á Farsældarþingi ungs fólks, sem var hluti af 2. leiðtogaráðsfundi LUF 2023 þann 24. nóvember síðastliðinn. Sara Júlía, sem starfar á sviði sjálfbærni hjá KPMG, fer nú fyrir ungmennum Íslands í þessu mikilvæga hlutverki.

Sara tók nýlega þátt í ráðherrafundi um sjálfbæra þróun, sem fram fór í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Fundurinn, sem er haldinn árlega, er hluti af starfi efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). Að þessu sinni var þema fundarins „Að styrkja Áætlun 2030 (heimsmarkmiðin) og útrýma fátækt á tímum fjölþátta ógna: skilvirk framvinda sjálfbærra, þrautseigra og nýstárlegra lausna.“ Sérstök áhersla var lögð á heimsmarkmið 1, 2, 13, 16 og 17 á fundinum sem fram fór dagana 8-17. júlí.

„Það var ógleymanleg upplifun að vera stödd í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna,“

segir Sara Júlía um ferðina. „Svæðið er miklu stærra en ég bjóst við og þarna var fjölmargt fólk frá öllum heimshornum. Þetta var mín fyrsta heimsókn til Sameinuðu þjóðanna, og það stóð klárlega upp úr að fá að upplifa svæðið í heild sinni.“

Sara Júlía tók þátt í mörgum viðburðum og vinnustofum á fundinum, og segir hún að samtölin sem hún átti hafi verið stórgott veganesti í reynslubankann. Hún lýsir því einnig hvernig ungmenni sem sóttu fundinn urðu vel samrýnd og gátu nýtt sér hvert annað til stuðnings og lærdóms.

Mynd / SJB Sara í panel ásamt öðrum norrænum ungmennafulltrúum sem skrifuðu kafla í VSR (Voluntary Subnational Review) skýrslu norrænna sveitarfélaga gagnvart heimsmarkmiðum SÞ.

„Á HLPF er mikil dagskrá í öllum herbergjum, svo við leituðum oft á sömu viðburði. Það gaf okkur tækifæri til að vera saman og kynnast öðrum ungmennum. Það er líka hefð fyrir því að ungmenni dvelji á sama hóteli, sem gerir það auðveldara að spjalla saman á morgnana og kvöldin.“

Sara Júlía segir frá því hvernig António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur kallað eftir aukinni aðkomu ungs fólks á viðburðum sem þessum. Hún vonar að enn fleiri ungmenni fái tækifæri til að taka þátt á Leiðtogafundi um framtíðina, sem haldinn verður í september. „Á þeim fundi munu lokaviðræður um Sáttmála framtíðarinnar eiga sér stað og hann undirritaður af öllum aðildarríkjum SÞ. Í sáttmálanum er sérstök áhersla lögð á ungmenni og komandi kynslóðir. Það gefur því augaleið að þátttaka ungs fólks á þessum viðburðum er mjög mikilvæg.“

Mynd / SJB Sara ásamt ungmennafulltrúum í Fastanefnd Finnlands sem stóð fyrir viðburðinum ‘Visions for Sustainable and Youth-Led Peace Ahead of the Peacebuilding Architecture Review 2025’.

Að lokum talar Sara Júlía um mikilvægi samstarfsverkefnis LUF og Félags SÞ um ungmennafulltrúana og leggur áherslu á áframhaldandi fjármögnun verkefnisins en einnig að tryggja verði fulla innleiðingu og þátttöku junior-senior kerfis sendinefndarinnar, en með því kerfi eru ávallt tveir fulltrúar sem sinni hverju sviði hverju sinni. Slíkt tryggi að þekking og reynsla sem safnast glatist ekki á milli fulltrúa. Þá sé enn ýmislegt ábótavant þegar kemur að ungu fólki á Íslandi. Þar á meðal er heildstæð stefna í málefnum ungmenna en LUF hefur talað fyrir því í lengri tíma.

„Framundan er ýmislegt spennandi,“ bætir Sara við. „Ég er að fara til Stokkhólms með Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í september að taka þátt í lokaráðstefnu Norden 0-30 verkefnis í tengslum við sjálfbæra þróun og hagsmunagæslu ungs fólks og svo fer ég aftur í október með Nordic Youth Expert Group. Þar ætlum við að funda og taka þátt á Sustainable Living Summit sem haldið er af Nordregio. Þá verður líka Leiðtogaráðsfundur LUF í nóvember, þar sem kosið verður um junior ungmennafulltrúa á sviði sjálfbærrar þróunar.“

Sara Júlía hvetur að lokum alla sem hafa áhuga á málefninu að kynna sér ungmennafulltrúahlutverkið og íhuga framboð í nóvember.

Mynd / SJB Sara á einum af mörgum göngum höfuðstöðva SÞ í New York þar sem finna má fána aðildarríkjanna.

 

*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.