Hátt í 30 kennarar tóku þátt í námskeiði sem haldið var á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þann 14. ágúst sl. sem bar heitið ‘Að vekja ungt fólk til hnattænnar borgaravitundar‘. Þetta er í fjórða sinn sem námskeið er haldið af hálfu félagsins, en því er ætlað fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi.
Metþátttaka var að vanda og komust færri að en vildu. Í ár var snið og áherslur námskeiðsins aðeins breytt og tekið var betur utan um mikilvægi þess að fjalla um störf og gildi Sameinuðu þjóðanna í námi og kennslu barna og ungmenna. Kennarar á námskeiðinu voru Eva Harðardóttir, lektor við deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og formaður félagsins, og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins.
,,Námskeiðið heppnaðist einstaklega vel. Kennarahópurinn sem sótti námskeiðið í ár samansafn af kraftmiklu, áhugasömu og skapandi fólki sem öll eru að vinna ötullega að verkefnum í anda sjálfbærni og heimsmarkmiða í skólum um allt land. ” segir Eva.
Þorvarður Atli Þórsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins og stjórnarmeðlimur félagsins tók einnig að sér að halda utan um örútgáfu af hermilíkani, sem byggist á hermilíkani Sameinuðu þjóðanna (e. Model United Nations). MUN er vettvangur þar sem nemendur koma saman og setja á svið starfsemi helstu stofnanna Sameinuðu þjóðanna á sem raunverulegastan hátt og takast á við aðkallandi vandamál í alþjóðasamfélaginu. Þátttakendum námskeiðsins var þannig deilt niður á sex lönd og voru kennararnir sendifulltrúar þeirra ríkja og þurftu að koma sér saman um ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu flóttafólks í heiminum í dag. Þessi æfing kom af stað frábærum umræðum um fjölbreyttar leiðir til að ræða og vinna með hnattrænar áskoranir og málefni sem snerta okkur öll á ólíkan hátt í heiminum í dag.
Námskeiðið og hermilíkanið gekk vonum framar en félagið stefnir að því á komandi misserum að endurvekja Iceland MUN sem legið hefur í dvala um nokkurt skeið. Er það hluti af stefnu sem stjórn setti sér í fyrra að auka umsvif verkefna með ungu fólks, og efla og auka áhuga þeirra á starfsemi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu.
Starfsfólk og stjórn félagsins þakkar kennurunum sérstaklega fyrir jákvæðni, hugrekki og gleði sem einkenndi vinnuna og námskeiðið í heild. Við hlökkum til að sjá meira af þeim og þeirri vinnu sem þau eru að sinna í skólum landsins.