Mikil heiður að vera viðstödd samþykkt Sáttmála framtíðarinnar segir Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda

Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir er ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda. Hún hlaut kjör sitt á 20. Sambandsþingi LUF sem fram fór í Hörpu þann 24. febrúar síðastliðinn. Stefanía lauk nýlega BA námi í mannréttindum við Malmö háskóla í Svíþjóð.

Stefanía fór út til New York nú í september sem hluti af íslenskri sendinefnd sem sótti allsherjarþingið á einni stærstu diplómatísku viku ársins þar sem leiðtogar heimsins koma saman. Þá voru fleiri stórir viðburðir sem Stefanía sótti þessa viku, meðal annars Leiðtogafund um framtíðina (e. Summit of the Future) þar sem Sáttmáli framtíðarinnar var samþykktur ásamt tveimur viðaukum. Hún lýsir því sem mikilli upplifun að hafa verið viðstödd á þessum sögulega viðburði þegar kosningin fór fram í allsherjarþinginu.

Mynd / SSJ Stefanía situr í sætum Íslands með sendinefndinni og starfsmönnum fastanefndar Íslands. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra situr í fremri röð ásamt nýjum fastafulltrúa Íslands hjá Sþ, Önnu Jóhannsdóttur.

Einn af þeim viðburðum sem stóð mest upp úr fyrir hana var þó hliðarviðburðurinn “Leaving no one behind: an inclusive future for all” sem fjallaði um réttindi hinsegin fólks á heimsvísu, þar sem Ísland var á meðal átta ríkja sem ávörpuðu viðburðinn, ásamt utanríkisráðherra Hollands og forsetafrú Bandaríkjanna. Stefanía sagði að sínu mati hafi sögur og ávörp tveggja heiðursgesta, Gloriu frá Úganda og Venus frá Filippseyjum vegið mest.

„Ég sat með grátkökkinn í hálsinum eftir að hafa hlustað á reynslusögur Gloriu og Venus“ segir hún.

Þau fluttu áhrifamiklar ræður um ólíka stöðu réttinda hinsegin fólks. Gloria, sem er ung samkynhneigð kona býr í landi þar sem samkynhneigð er ólögleg, og Venus, er transkona í landi þar sem nauðsynleg læknisaðstoð er langt frá því að vera sjálfsagður hlutur. Stefanía nefnir sérstaklega að það hafi verið virkilega mikilvægt að fá sannar sögur og vitnisburð tveggja hugrakkra kvenna sem málefnið snertir djúpt. Það hafi fátt verið verra en að sitja í sal fullum af fólki sem tengir ekki eða veit í raun ekki hversu brýnt málefnið er og þekkir ekki til raunverulegrar upplifunar fólks er málið snertir.

Stefanía segist hafa kynnst mörgum ungmennafulltrúum í New York og er mjög þakklát fyrir þau sambönd sem hún myndaði. Hún segir það hafa verið lærdómsríkt að heyra hversu mikill munurinn er á vinnu, uppsetningu og ábyrgð ungmenntafulltrúa á milli landa. Einn daginn, í sendiráði Litháens komu ungmennafulltrúar saman, skipulögðu verkefni og byrjuðu að undirbúa næsta viðburð með það að markmiði að bæta raunverulega þátttöku og auka áhrif ungs fólks. Aukin umsvif ungs fólks og raddir þeirra innan Sameinuðu þjóðanna hafa verið meira áberandi síðustu ár en á fundum sínum úti fengu hún og aðrir ungmennaulltrúar einnig tækifæri til þess að ræða við Abby Finkenauer sem sinnir starfi Special Envoy for Global Youth í Bandaríkjunum.

Mikilvægi raddar ungmenna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er gríðarleg að mati Stefaníu en hún nefnir að þrátt fyrir að þátttaka ungs fólks hafi verið rauður þráður í umfjöllun vikunnar á allsherjarþinginu hafi raunveruleg þátttaka þeirra ekki alltaf verið sýnileg. Hún vonast til að sjá enn meiri aðkomu ungmenna á næstu árum og nefnir í því samhengi að aukin samvinna með öðrum ungmennafulltrúum eigi að miða að því að tala fyrir auknum aðgangi þeirra í ákvarðanatöku og raunverulegri þátttöku á næstu viðburðum.

Mynd / SSJ Stefanía með öðrum ungmennafulltrúum í fastanefnd Litháen hjá Sþ.

Ísland geti gert betur til að tryggja aðkomu ungmenna

Stefanía segir að það sé margt sem Ísland geti gert til að tryggja raunverulega þátttöku ungs fólks. Hún telur að ekki sé nóg að bjóða ungu fólki sæti við borðið heldur verði einnig að tryggja að rödd þeirra fái athygli og hafi áhrif.

„Ungmenni á Íslandi hafa mikið fram að færa í nútíma málefnum og ég hvet stjórnvöld til að nýta sér þessa þekkingu í stefnumótun.“ segir hún.

Helsta hindrunin sé að í því starfi sem nú þegar sé verið að vinna að sé oftar en ekki litið framhjá eða flokkað undir þröngan málaflokk sem tilheyrir ungu fólki í staðinn fyrir að leyfa því að hafa áhrif á öðrum málaflokkum sem þau varða.

Hún bætir við að ungmenni á Íslandi búi yfir gífurlegri sérfræðiþekkingu á málefnum og áskorunum nútímans og óskar hún þess að ekki aðeins sé hlustað, heldur að stjórnvöld sæki enn frekar í þessa þekkingu og nýti sér hana. Með þeim hætti sé hægt að tryggja að Ísland verði meðal fremstu landa til að framfylgja Sáttmála framtíðarinnar sem núverandi forsetisráðherra, Bjarni Benediktsson skrifaði undir í september og sé eitt af þeim ríkjum sem bæði skara fram úr og eru til fyrirmyndar fyrir önnur ríki.

Framundan í hlutverki ungmennafulltrúa

Stefánía hefur fullt í fangi með að halda áfram þeirri vinnu sem hófst í New York, en hún segist vera spennt yfir hvað næsta ár bíður uppá. Þá hvetur hún áhugasamt ungt fólk að mæta á komandi Leiðtogaráðsfund LUF þann 16. nóvember sem fram fer í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll, en þar verða þrír nýir ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum kosnir; á sviði sjálfbærrar þróunar, sviði barna- og ungmenna og á sviði mennta, vísinda og menningar (e. UNESCO).

„Ég hvet þau sem hafa áhuga á hlutverki ungmennafulltrúa að skoða skilyrði til framboðs, vera í sambandi við sín ungmennafélög og endilega bjóða sig fram“ segir hún að lokum.