Alþjóða mannréttindadagurinn er í dag, 10. desember

Mannréttindadagurinn er haldinn árlega um allan heim þann 10. desember. Dagurinn minnist eins byltingarkenndasta loforðs heimsins sem endurspeglast í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna (UDHR). Þetta tímamótaskjal kveður á um þau ófrávíkjanlegu mannréttindi sem öll eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, eða stöðu að öðru leyti.

Yfirlýsingin var samþykkt af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í París þann 10. desember 1948 og setti fram, í fyrsta skipti, grundvallarmannréttindi sem á að vernda um allan heim. Sem „sameiginlegur árangursstaðall fyrir allar þjóðir og ríki“ er yfirlýsingin leiðarvísir fyrir alþjóðleg-, innlend- og staðbundin lög og stefnur ásamt því að vera grunnstoðin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Yfirlýsingin er til á 577 tungumálum, allt frá abkhasísku til zúlú, sem gerir hana að mest þýdda skjali í heimi.

 

Yfirskrift fyrir mannréttindadaginn árið 2024 er: Réttindi okkar, framtíð okkar, núna.

Mannréttindi geta styrkt einstaklinga og samfélög til að skapa betri framtíð. Með því að tileinka okkur og treysta á fullan mátt mannréttinda sem leiðina til þess heims sem við óskum okkur, getum við orðið friðsælli, jafnari og sjálfbærari.

Á þessum mannréttindadegi leggjum við áherslu á hvernig mannréttindi eru leið til lausna og gegna mikilvægu hlutverki sem forvarnar-, verndar- og umbreytandi afl til góðs. Líkt og António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt: „mannréttindi er undirstaða að því að gera samfélög meira friðsæl og réttlát“.

Þemað í ár er ákall um að viðurkenna mikilvægi og tengingu mannréttinda í daglegu lífi okkar. Við höfum tækifæri til að breyta viðhorfum með því að tala gegn hatursorðræðu, leiðrétta rangar upplýsingar og vinna gegn uppýsingaóreiðu. Nú er tíminn til að hvetja til aðgerða og setja aukinn kraft í alþjóðlega hreyfingu fyrir mannréttindi.

„Mannréttindi eru undir árás… Þema ársins minnir okkur á að mannréttindi snúast um að byggja framtíðina – núna. Við verðum að standa vörð um öll réttindi – alltaf!“

António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, 2024