Alþjóðaár jökla á hverfanda hveli og samkeppni ungs fólks

Alþjóðaár jökla á hverfanda hveli sett á laggirnar – Athygli vakin á víðtækum áhrifum rýrnunar jökla

Ísland tekur þátt í viðburðum sem skipulagðir eru í tilefni af Alþjóðaári jökla, sem hefst formlega 21. janúar 2025. Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir átakinu og er það leitt af UNESCO, Menningarmálastofnun SÞ og WMO, Alþjóðaveðurmálastofnuninni. Í desember árið 2022 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þá ályktun að 2025 yrði Alþjóðaár jökla á hverfanda hveli og að Alþjóðadagur jökla yrði 21. mars ár hvert. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga á jökla heimsins og þeim afleiðingar sem rýrnun þeirra hefur á vistkerfi, samfélög og efnahag. Skipulagning viðburða á Íslandi er í höndum fulltrúa frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Jöklarannsóknafélagi Íslands, Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Náttúruverndarstofnun, Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafni Íslands.

Sérstakur viðburður verður haldinn í Veröld – húsi Vigdísar og Loftskeytastöðinni, 21. mars 2025, á fyrsta Alþjóðadegi jökla.

Samkeppni á meðal barna- og ungmenna á aldrinum 1020 ára – Vinnur þú jöklaferð?

Í tilefni af degi jökla er efnt er til samkeppni á meðal barna- og ungmenna á aldrinum 1020 ára. Óskað er eftir verkum sem varpa ljósi á mikilvægi og eðli jökla, fegurð þeirra og hversu hverfulir þeir eru. Tillögur á öllum tungumálum eru velkomnar. Hugmyndum má skila í mynd- og/eða ritmáli. Verkið getur t.d. verið skoðanagrein, pistill, örsaga, prósaljóð, myndaritgerð, myndskýrsla, myndasaga eða vídeóverk. Litið verður sérstaklega til þess að verkefnin endurspegli persónulega sýn þátttakenda. Öllum tillögum skal skila inn rafrænt (PDF, JPEG, PNG, myndband)  á netfangið felag@un.is ásamt upplýsingum um nafn, skóla, aldur, netfang og símanúmer. Skilafrestur er til og með 2. mars 2025. Sjá nánari upplýsingar á vef samkeppninnar – www.un.is/joklar

„Jöklar eru lykilþáttur í vatnshringrás jarðar og rýrnun þeirra ein helsta vísbending okkar um hraðar loftslagsbreytingar.

Alþjóðaár jökla á hverfanda hveli er einstakt tækifæri til að vekja vitund, efla fræðslu og hvetja til aðgerða til að vinna gegn rýrnun þessara dýrmætu náttúruauðlinda.“

 Eva Harðardóttir, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Frá og með janúar munu fjölbreytt verkefni og viðburðir eiga sér stað hér heima og erlendis til þess að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Að þessu sinni mun dagur vatns (22. mars) einnig verða tileinkaður jöklum.

Á viðburði í Veröld Vigdísar á Alþjóðadegi jökla gefst gestum tækifæri á að fræðast um jöklabreytingar á Íslandi og í heiminum, framtíðarhorfur íslenskra jökla og samgleðjast ungu kynslóðinni sem mun spreyta sig í samkeppni. Þennan dag verður einnig opnuð sýning á neðri hæð Loftskeytastöðvarinnar, tileinkuð hörfandi jöklum. Sunnudaginn 6. apríl verður sérstakur jöklaviðburður á vegum Náttúruminjasafns Íslands í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands og Náttúruverndarstofnun á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands á 2. hæð Perlunnar (https://www.facebook.com/events/1109680204028305).

Markmið Alþjóðaárs og Alþjóðadags jökla eru meðal annars:

  • Að efla vitund um áhrif loftslagsbreytinga á jökla og vistkerfi
  • Að stuðla að aukinni fræðslu um mikilvægi jökla fyrir samfélög og efnahag
  • Að hvetja til sameiginlegra aðgerða til að sporna við frekari rýrnun jökla

Fjölmiðlar og almenningur eru hvattir til þess að kynna sér víðtæk efnahagsleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif sem yfirvofandi rýrnun á freðhvolfi jarðar hefur.

Frekari upplýsingar um Alþjóðaár jökla á hverfanda hveli og Alþjóðadag jökla er að finna á vef átaksins og vefsvæði alþjóðaársins hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.