Árið 2024 var viðburðaríkt fyrir Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (FSÞ), þar sem félagið beindi kastljósinu að málefnum sem snerta alþjóðlegar áskoranir, svo sem loftslagsbreytingar, jafnrétti og frið. Árið einkenndist af öflugu starfi, fræðslufundum, samstarfsverkefnum og viðburðum sem allir stefndu að því að virkja íslenskt samfélag og tengja þátttöku landsmanna við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Samkeppni ungs fólks um heimsmarkmið og mannréttindi
Janúar mánuður byrjaði af krafti með verðlaunaafhenfingu í samkeppni ungs fólks í Mannréttindahúsinu, haldin í tilefni af 75 ára afmæli FSÞ. Samkeppnin lagði áherslu á mikilvægi heimsmarkmiðanna fyrir mannréttindi, og voru framúrskarandi tillögur leystar út með viðurkenningum og verðlaunum. Þau Þröstur Flóki Klemensson og Eybjört Ísól Torfadóttir unnu fyrstu verðlaun sem var flug og gistingu til New York með Icelandair, þar sem þau heimsóttu fastanefnd Íslands, höfuðstöðvar UNICEF og höfuðstöðvar SÞ undir handleiðslu framkvæmdastjóra félagsins.

Stuðningur við flóttafólk frá Gaza
Í febrúar sendi FSÞ út ákall ásamt öðrum samtökum sem hvatti íslensk stjórnvöld til að veita flóttafólki frá Gaza skjól, þar sem áhersla var lögð á þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, svo sem konur og börn. Um 100 einstaklingar úr Gaza fengu dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og var það stórt skref í að veita nauðsynlega hjálp. FSÞ vakti athygli á þeirri alvarlegu mannúðarkreppu sem ríkir á Gaza og mikilvægi þess að veita stuðning til alþjóðlegra mannúðarsamtaka, sérstaklega UNRWA, sem veitir lífsnauðsynlega aðstoð til flóttamanna á svæðinu. Ástandið á Gaza var og er alvarlegt, þar sem yfir 45.000 manns hafa verið drepin. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi heldur áfram að kalla eftir alþjóðlegri samstöðu um frið við botn Miðjarðarhafs.
Ungt fólk og græn umskipti
Í mars söfnuðust saman norræn ungmenni á opnunarráðstefnu ungmennaverkefnis í Helsinki, sem miðaði að því að efla hæfni ungs fólks í sjálfbærri þróun og grænum umskiptum. Hlutdeild þeirra markar mikilvægt skref í þróun ungs fólks á sviði sjálfbærni. FSÞ kallaði eftir umsóknum íslenskra ungmenna og voru að endingu fjögur ungmenni, þeirra á meðal var ungmennafulltrúi Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar.

Norrænt samstarf
Apríl mánuður færði saman norræn félög Sameinuðu þjóðanna á árlegum fundi þeirra í UN City í Kaupmannahöfn. Fundurinn lagði grunn að frekara samstarfi þar sem sjónarmið voru sett á verkefni á sviði kynningarstarfs og alþjóðlegrar samvinnu en einnig tenging norrænu félaganna, Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs.

Ungt fólk sem afl til breytinga
Í maí mánuði hélt FSÞ vinnustofu um heimsmarkmið SÞ og mannréttindi, fyrur áhugasöm ungmenni sem vilja hafa áhrif á framgang markmiðanna á Íslandi og víðar. Vinnustofan var ætluð bæði þeim sem starfa í hagsmunagæslu eða ungmennastarfi og þeim sem vildu öðlast betri skilning á tengslum mannréttinda og heimsmarkmiðanna. Vinnustofan veitti ungmennum verkfæri og þekkingu til að þrýsta á stjórnvöld um að bæta innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi, með sérstakri áherslu á mannréttindi. Vinnustofan var mikilvægur vettvangur fyrir ungt fólk til að taka virkan þátt í alþjóðlegum málefnum og skapa jákvæðar breytingar í íslensku samfélagi, en hún var hluti af norræna verkefninu NORDEN 0-30 sem Félag SÞ á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð tóku þátt í þetta árið.
Opið samtal um Sáttmála framtíðarinnar
Í júní boðaði FSÞ, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, forsætisráðuneytið, Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ, Landssamband ungmennafélaga til opins samtals um drög að Sáttmála framtíðarinnar. Viðburðurinn fór fram í Mannréttindahúsinu og var ætlaður til að virkja almenning og ungt fólk í umræðu um alþjóðlega samvinnu og sameiginlega áskoranir framtíðarinnar. Fundurinn var vel sóttur og skapaði grundvöll fyrir nýjar hugmyndir og samstarf í tengslum við Sáttmála framtíðarinnar sem samþykkja átti á Leiðtogafundi um framtíðina í september.

Námskeið fyrir kennara – Að vekja ungt fólk hnattrænnar vitundar
Í ágúst stóð FSÞ fyrir námskeiði fyrir kennara og stjórnendur á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi fjórða árið í röð. Markmið námskeiðsins að þessu sinni var að veita kennurum verkfæri til að efla hnattræna vitund ungs fólks með fræðslu um Sameinuðu þjóðirnir og starfsemi þeirra á sviði mannréttinda, friðar með áhersu á heimsmarkmið Sþ um sjálfbæra þróun. Þá tóku kennararnir einnig þátt í örhermilíkani SÞ þar sem þau settu sig í spor ólíkra aðildarríkja mannréttindaráðsins, fóru í samningaviðræður, héldu ræður og skrifuðu ályktun. Námskeiðið heppnaðist einkar vel, var vel sótt líkt og fyrri ár og komust færri að en vildu.

Fánadagur heimsmarkmiðanna og Sáttmáli framtíðarinnar samþykktur
Í september samþykktu leiðtogar heimsins Sáttmála framtíðarinnar á leiðtogafundi um framtíðina í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Sáttmálinn nær yfir breitt svið, þar á meðal frið og öryggi, sjálfbæra þróun, loftslagsbreytingar og mannréttindi.
Þann 25. september var fánadagur heimsmarkmiða haldinn í annað sinn á Íslandi, í samstarfi við UN Global Compact á Íslandi. Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og hvetja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til að sýna skuldbindingu sína við þau. Tóku fjöldi fyrirtækja og samtaka þátt ásamt 16 UNESCO-skólum
og 19 öðrum skólum sem flestir eru í umsóknarferli.

Ísland kosið í mannréttindaráð Sþ og ungmennafulltrúar Íslands hjá Sþ
Í október hlaut Ísland kjör til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025-2027. Þetta er í annað sinn sem Ísland tekur sæti í ráðinu en í fyrsta skiptið sem landið tekur sæti eftir kosningabaráttu og mun sitja heilt tímabil. Á komandi kjörtímabili Íslands í ráðinu mun FSÞ í samráði við utanríkisráðuneytið boða til samtals við borgarasamtök á meðan setu Íslands stendur. Þá mun félagið einnig miðla málum úr ráðinu ásamt fræðslu og kynningu í samráði við tengda hagaðila.
Ungmennafulltrúar Íslands tóku virkan þátt í alþjóðlegum viðburðum á árinu og FSÞ tók viðtöl við þau sem birtust á vefsíðu félagsins og á samfélagsmiðlum þar sem reynslu og upplifun þeirra var miðluð áfram líkt og fyrri ár. Unnur Þórdís Kristinnsdóttir, þáverandi ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ á sviði loftslagsmála hafi sótt Loftslagsráðstefnfu SÞ (COP28) þar sem hún ásamt ungmennafulltrúum annarra ríkja á sviði loftslagsmála mynduðu sameiginlega stefnu til þess að senda sterkari og skýrari skilaboð á loftslagsráðstefnunni.
Birta B. Kjerúlf, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ á sviði kynjajafnréttis var hluti af íslenskri sendinefnd sem sótti 68. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (CSW) í New York í mars þar sem hún sótti opinbera viðburði, hliðarviðburði og að tala máli íslenskra ungmenna í tengslum við málaflokkinn.
Emma Ósk Ragnarsdóttir, ungmennafulltrúi á sviði barna- og ungmenna sótti ungmennaþing ECOSOC í apríl í höfuðstöðvum Sþ í New York og sótti hliðarviðburð sem miðaði að því auka inngildingu og þátttöku ungs fólks í tengslum við mannréttindafræðslu í átt að friðsælari samfélögum.
Sara Júlía Baldvinsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ sótti HLPF í New York í júlí þar sem tók þátt í mörgum viðburðum og vinnustofum á meðan fundinum stóð og sat í panel ásamt öðrum norrænum ungmennafulltrúum sem skrifuðu kafla í VSR (Voluntary Subnational Review) skýrslu norrænna sveitarfélaga gagnvart heimsmarkmiðum Sþ.
Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, ungmennafulltrúi á sviði mannréttinda, var viðstödd samþykkt Sáttmála framtíðarinnar í New York í september og tók þátt í umræðum um réttindi hinsegin fólks á heimsvísu.
UNESCO skólaverkefnið stækkar og eflist á Íslandi
Þann 4. september 2024 var haldinn kynningarfundur í Hljómahöll um innleiðingu UNESCO-skóla í alla skóla á Reykjanesi. Fulltrúum frá öllum skólum á svæðinu var boðið á fundinn ásamt aðilum tengdum Suðurnesjavettvangi. Á fundinum skrifuðu 15 skólar undir viljayfirlýsinguna en síðan þá hafa fjórir bæst við. Fleiri skólar á svæðinu eru einnig áhugasamir og munu fleiri bætast við á næstu misserum.
Á heildina litið var árið 2024 árangursríkt fyrir félagið, með fjölbreyttum verkefnum og viðburðum sem stuðluðu að aukinni vitund og þátttöku í alþjóðlegum málefnum.

Horft til 2025: Jöklarnir og framtíðin
Árið 2025 er ár jökla á hverfandi hveli hjá Sameinuðu þjóðunum og mun FSÞ beina kastljósinu að jöklum og þeim gríðarlegu breytingum sem þeir standa frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga. Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um afleiðingar bráðnunar jökla og stuðla að auknum aðgerðum í loftslagsmálum. Þá verður 21. mars frá og með 2025 helgaður jöklum ár hvert og stefnir FSÞ á virkt samráð með Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt Jöklarannsóknarfélagi Íslands í formi námskeiða fyrir kennara og viðburða í tengslum við alþjóðaárið.
Með áherslu á alþjóðlegt samstarf, virka þátttöku íslensks samfélags og fræðslu um mikilvægi heimsmarkmiðanna er ljóst að árið 2025 verður ár þar sem Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi heldur áfram að vera leiðandi afl í baráttunni fyrir sjálfbærni og réttlæti.
Markmið ársins 2025 er ekki aðeins að vekja athygli á, heldur enn frekar að halda áfram að efla einstaklinga, samtök, fyrirtæki og stjórnvöld til að taka raunhæf skref í frekari innleiðingu og eflingu heimsmarkmiðanna, til að tryggja sjálfbærari framtíð fyrir samfélag, efnahag og umhverfi.