Allt klárt fyrir vetrarlotu mannréttindaráðsins eftir samráð við frjáls félagasamtök
Ísland mun í annað sinn sitja sem kjörinn aðili í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þegar vetrarlotan hefst þann 24. febrúar 2025. Af því tilefni var haldinn samráðsfundur með frjálsum félagasamtökum á Íslandi til að ræða helstu áskoranir og tækifæri sem fram undan eru í ráðinu, en markmið samráðsins er að gefa borgarasamfélaginu aukin tækfæri til þess að hafa áhrif á starf Íslands í ráðinu. Samráðið er hluti af fundaröð og munu fulltrúar utanríkisráðuneytisins deila áherslum Íslands og helstu atriðum fyrir og eftir hvern fund ráðsins – en ráðið fundar þrisvar á ári. Vettvangurinn er auk þess tækifæri til þess að beina ljósinu að mannréttindamálum innanlands – og tóku fundargestir Elísabetu Gísladóttur, formanni stýrihóps stjórnarráðsins um mannréttindi, fagnandi.
Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á að styðja við alþjóðlega mannréttindavinnu og tryggja að mannréttindi séu í fyrirrúmi í stefnu landsins á alþjóðavettvangi. Á fundinum kynnti Einar Gunnarsson, fastafulltrúi Íslands í Genf gagnvart Sameinuðu þjóðunum, áherslur Íslands sem aðildarríkis, en þær fela meðal annars í sér:
- Eflingu mannréttinda á heimsvísu: Ísland leggur áherslu á samtal við öll ríki, ekki eingöngu þau sem deila sömu skoðunum og gildismati
- Réttindi barna, kvenna og hinsegin fólks: Lögð verður sérstök áhersla á vréttindabaráttu hinsegin fólks, réttindi kvenna og réttindi barna.
- Tengsl umhverfisverndar og mannréttinda: Ísland hefur verið leiðandi í umræðu um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda í tengslum við mannréttindi.
- Aðgerðir gegn mannréttindabrotum í sérstökum ríkjum: Ísland leiðir tvö umboð vegna málefna Írans og mun taka virkan þátt í umræðu um mannréttindabrot í Palestínu.
Á fundinum var lögð áhersla á mikilvægi samstarfs við frjáls félagasamtök, bæði innanlands og utan. Ísland hefur ábyrgðarhlutverk sem eitt af 47 ríkjum með sæti í ráðinu.
Eftir kynningu á vetrarlotunni svaraði Einar spurningum viðstaddra ásamt Helenu Ingu von Ernst, Erlu Ylfu Óskarsdóttur og Davíð Loga Sigurðssyni fulltrúum Utanríkisráðuneytinu, og Elísabetu Gísladóttur, formanni stýrihóps stjórnarráðsins um mannréttindi.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi mun fylgjast áfram með framgangi Íslands í mannréttindaráðinu og veita reglulegar uppfærslur um þróun mála.