Með setu sinni í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna leggur Ísland áherslu á framgang mannréttinda allra með uppbyggilegum samræðum og þátttöku á breiðum grunni.
Ísland leggur líka sérstaka áherslu á að efla mannréttindi kvenna og stúlkna, standa vörð um réttindi barna, berjast gegn mismunun gagnvart LGBTQI+ einstaklingum og vekja athygli á tengslum mannréttinda- og umhverfismála. Sjá meira á vefsvæði Stjórnarráðsins um setu Íslands í mannréttindaráðinu.
Hlutverk ráðsins er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, fjalla um mannréttindabrot, beina tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur í mannréttindamálum og fjalla um einstök þematísk réttindamál.
58. lota ráðsins var sett þann 24. febrúar og stendur yfir til 4. apríl. Eftir að lotunni lýkur má ætla að allt að 30 nýjar ályktanir verði samþykktar. Í ljósi ófriðar og óeiningar og áhyggjum af dvínandi samstarfi og minni samstöðu þjóða er mikilvægara en nokkru sinni áður að Ísland nýti þau verkfæri sem standa okkur til boða, og tali skýrt fyrir mannréttindum og styðji við starf Sameinuðu þjóðanna. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra tók til máls á fyrsta degi lotunnar:
„Alþjóðakerfið okkar og réttarríkið sem við höfum í auknum mæli byggt líf okkar á, á undir högg að sækja af öflum sem ætla að endurmóta heiminn okkar, sem vilja binda endi á marghliða samvinnu þjóða (e. multilateralism) með öllu… Það er aðeins ein leið til að mæta þessum áskorunum. Við verðum að gefa í og skuldbinda okkur á ný til þeirra meginreglna sem settar eru fram í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.“
Í síðustu viku fór fram 38. fundur 58. lotu mannréttindaráðsins. Yfirlýsing Íslands var harðorð í garð Ísraels, þar sem sprengjuárásir í kjölfar enda vopnahlés voru fordæmdar og Rússlands, þar sem kynbundið ofbeldi í hernaði, hvarf barna í Úkraínu og fl. var fordæmt. Auk þess tók Íslands afstöðu til mannréttindabrota í Kína, Belarús og Súdan.
Ísland leiddi auk þess ályktun fjórtán þjóða sem hvatti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna til að bregðast strax við viðvarandi mannréttindabrotum í Afganistan. Einar Gunnarson, fastafulltrúi Íslands í Genf tók til máls fyrir hönd þjóðanna.
„Konur standa nú frammi fyrir yfirþyrmandi takmörkunum á rétti sínum til vinnu, menntunar, tjáningar- og ferðafrelsis og heilbrigðisþjónustu þar sem talíbanar reyna að þurrka út þátttöku þeirra úr opinberu lífi. Þeim hefur verið bannað að syngja opinberlega og jafnvel bannað að rödd þeirra heyrist utan veggja heimilisins.“
Ljóst er að ástandið í Afganistan er svart og því aldrei verið mikilvægara fyrir þjóðir heims að koma sér saman um hvernig hægt er að þrýsta á talíbana að virða mannréttindi kvenna og allra sem þar búa.
„Afganistan stendur frammi fyrir slíkri kúgun á réttindum kvenna að slíkt finnst hvergi annars staðar í heiminum… Ástandið krefst brýnnar athygli okkar og aðgerða.“
Hægt er að sjá upptöku af yfirlýsingunum tveimur á vefsvæði Sameinuðu þjóðanna – á 01:37 og 01:47. Og ræðu utanríksráðherra hér, á 51. mínútu.